Fréttablaðið - 05.11.2005, Side 28

Fréttablaðið - 05.11.2005, Side 28
 5. nóvember 2005 LAUGARDAGUR28 INGÓLFUR MARGEIRSSON Á KÚBU Líf hans breyttist eftir heilablóðfallið í ágúst 2001 og í kjölfarið lifir hann einn dag í einu. Heimsókn til Kúbu á síðasta ári var liður í að gera það strax sem hann hefur tök á og efni á að gera. Þegar dauðinn kann að bíða á næsta horni er best að drífa í að lifa lífinu. Myndin er tekin í einni af litlu hlið- argötunum í Havana. Afmörkuð stund er opinská bók, eins og það er kallað. Ingólfur Margeirsson talar á einlægan hátt um ástina, kristna trú, vonleysi, baráttuna við þung- lyndi og jafnvel vætt rúm. En ekki bara það. Hann gerir líka stólpagrín að sjálfum sér og segir skondnar sögur af samferðafólki. „Ég einsetti mér að leggja spilin á borðið og vera heiðarlegur fyrst ég væri að þessu á annað borð,“ segir Ingólfur sjálfur. „Þegar maður stendur augliti til auglitis við dauðann og rétt sleppur með brenndar fjaðrir sækja að manni allskonar hugsanir. Maður spyr sjálfan sig: hvers vegna lifði ég? Af hverju dó ég ekki? Og þegar maður horfir upp á herbergis- félaga sína deyja spyr maður: af hverju dó hann en ekki ég?“ Með slíka þankaganga í far- teskinu lagði hann upp í vegferð sem lauk með síðustu orðum bók- arinnar: „Stundin var afmörkuð; tími til að lifa og njóta.“ Erfitt að skrifa um sjálfan sig „Upphaflega byrjaði ég á að skrifa þetta sem skáldsögu og var kom- inn nokkuð áleiðis þegar ég hugs- aði: hvað er ég að fela? Ég henti því sem ég hafði skrifað og byrj- aði upp á nýtt í fyrstu persónu.“ Ingólfur hefur skrifað vel á annan tug bóka og flestar fjalla þær um fólk. Það hljóta að hafa verið viðbrigði fyrir hann að skrifa um sjálfan sig. „Um leið og það reyndist erfiðara en að skrifa um aðra var það skemmtilegra og innilegra. Ég var jú að fást við það sem stendur mér næst og er mér kærast. Svo var að velja um hvort segja ætti frá hinu eða þessu. Valið reyndist hins vegar auðvelt eftir að ég hafði ákveðið að vera heiðarlegur gagnvart lesendum og ég lét flest flakka.“ Inn í söguna fléttast frásagnir af ævi Ingólfs Margeirssonar og er hún því ævisaga upp að vissu marki. „Þetta eru fyrst og fremst hugleiðingar, reynsla og frásögn manns sem hefur lent í hremm- ingum út af alvarlegum veikind- um en vissulega fléttast ævi mín inn í söguna. Það stóð ekki til að skrifa ævisögu núna en þetta gerðist sjálfkrafa.“ Var ekki tilbúinn til að deyja Þeir sem farið hafa fram á bjarg- brún lífsins eru einir til frásagn- ar um hvernig þar er umhorfs. Aðeins þeir þekkja tilfinninguna sem því fylgir. „Það er óhuggulegt að finna dauðann skríða upp bakið á manni,“ segir Ingólfur sem á sjúkdómsgöngu sinni hélt oftsinn- is að endalokin væru framundan. „En ég var ekki – og er ekki – tilbú- inn til að deyja. Ég á eftir að gera svo margt.“ Þetta „margt“ öðlast nýja merkingu þegar baráttan við að halda líftórunni stendur sem hæst. „Þó að ég eigi eftir að skrifa eina bók í viðbót skiptir ekki máli, frami og peningar breyta engu, ég get farið fyrir því. Ég vildi hins vegar ekki skilja við fjölskylduna mína og vini. Ég vildi vera með þessu fólki áfram, fylgjast með börnunum mínum og barnabörn- um. Þessi löngun veitti mér óend- anlega lífsfrekju og á henni sigldi ég í gegnum áfallið.“ Ingólfi verður hugsað til þeirra daga er hann lá á gamla Borgar- spítalanum og horfði út um glugg- ann. „Ég horfði á ljósið og sagði; ég ætla inn í ljósið en ekki myrkrið.“ Trúin hellist yfir Heiti bókarinnar, „Afmörkuð stund“ sækir Ingólfur í þriðja vers Predikara Gamla testament- isins. Í orðunum felst að allt hafi sinn tíma. „Við lifum í raun í tíma- bilum þar sem allt á sér tilteknar stundir. Þegar ég fer í gegnum líf mitt horfi ég á það sem afmark- aðar stundir. Annars ráðlegg ég öllum að lesa Predikarann,“ segir Ingólfur sem í raun öðlaðist eiginlega trú þegar hann gekk í gegnum hremmingar sínar. „Ég þóttist alltaf vera trúleysingi og efasemdamaður en þegar maður kemst í þá aðstöðu að sleppa undan dauðanum fer maður óneitanlega að hugsa um allt milli himins og jarðar og meðal þess sem bankar upp á eru trúmál. Maður spyr þá spurninga eins og hvort Guð sé til, spurninga sem maður hefur leikið sér með heimspekilega en aldrei spurt sjálfan sig að í einlægni.“ Ekki var við neitt ráðið og Ingólfur reyndi ekki að streitast á móti. „Ég varð fyrir því að trúin kom, hún hreinlega helltist yfir mig.“ Illa búið að sjúklingum Í bókinni segir Ingólfur ekki aðeins frá líðan sinni og tilfinn- ingum, hann ræðir líka um upp- lifun sína af heilbrigðiskerfinu. Níu mánaða spítalalega veitti honum ágæta innsýn í kerfið og hann gefur því falleinkunn. „Mér blöskrar hvernig búið er að sjúk- lingum,“ segir hann og er mikið niðri fyrir. „Það sem bjargar heil- brigðiskerfinu, og gerir það að því sem það þó er, er starfsfólk- ið. Það vinnur frábær störf við afleitar aðstæður.“ Hann nefnir sem dæmi að á 30 manna gangin- um sem hann lá á á Grensásdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss var eitt rúm sem hægt var að stilla með fjarstýringu. Önnur voru með gamla laginu, handstill- anleg. „Og fyrir vikið voru sjúk- lingar hringjandi allan liðlangan sólarhringinn til að fá sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga á hlaupum til að stilla fyrir sig rúmin. Ætli sé mikill sparnaður í því?“ spyr hann og svarar sjálfum sér með því að hrista hausinn. Gamalt drasl í tækjasalnum Ingólfur heldur áfram að hall- mæla heilbrigðiskerfinu og segir skort á öllu á Grensás, of marg- ir séu saman á stofum, fólk liggi á göngunum og húsgögnin séu óþægileg. „Aðbúnaðurinn er jafn mikið hneyksli og það sem blasti við okkur frá Sólvangi í Hafnar- firði í Sjónvarpinu um daginn.“ Og hann heldur áfram. „Tækja- salurinn er fullur af gömlu drasli í stað þess að þar séu ný tæki fyrir fólk sem er að koma til lífs á ný og æfa sig upp.“ Líkast til bera ítalskar inn- stungurnar á veggjunum ástand- inu glöggt merki. Á til dæmis einhver farsímahleðslutæki með ítalskri kló? Netaðgangur sjúklinga á Grensásdeild er afar takmarkað- ur og Ingólfur spyr hvers vegna ekki sé nettenging og sími við hvert rúm svo sjúklingar geti átt samskipti við ættingja, vini og umheiminn. Fólk einangrast við að leggjast inn á sjúkrahús og það ætti að vera sjúkrahúsyfirvöldum kappsmál að bæta þar úr. Kapphlaupið á undan dauðanum Eftir veikindin hugsaði Ingólfur líf sitt upp á nýtt og metur nú for- gang verkefna með öðrum hætti en áður. Fjölskylda og vinir voru sett á oddinn ásamt draumum sem asi hversdagsins kom í veg fyrir að rættust. Hann hóf fljótlega nám í vatnslitamálun og skellti sér í sagnfræðinám í Háskóla Íslands. Það sækist vel og stefnir Ingólfur á útskrift í febrúar. „Vanalega tekur þetta þrjú til fjögur ár en ég stend frammi fyrir því að ljúka þessu á tveimur árum,“ segir hann og skýrir eigin kappsemi. „Hafi maður horft framan í dauðann uppgötvar maður hvað allt getur gerst hratt; að dauðinn getur beðið á næsta horni. Þess vegna geri ég það hratt sem mig langar til að gera. Lætin í háskólanáminu eru einhvers konar kapphlaup á undan dauðanum.“ Af sama toga var ferðalag hans og fjölskyldu til Kúbu á síð- asta ári og fyrirhuguð ferðalög á næsta ári. „Ég ætlaði að skoða Suður-Ameríku þegar ég væri orðinn huggulegur eldri maður en ákvað að bíða ekki með það. Ég ætla að gera það strax sem ég hef tök á og efni á að gera. Áður hafði ég alltaf áhyggjur af for- tíðinni og gerði miklar áætlanir fyrir framtíðina. Nú reyni ég að gera það sem góðir alkóhólistar segja; að lifa einn dag í einu en lifa hann samt. Gera það sem mig langar til að gera hér og nú – eins og að skrifa Afmarkaða stund,“ segir Ingólfur að lokum.“ Sigldi gegnum áfallið á lífsfrekjunni Afmörkuð stund heitir ný bók Ingólfs Margeirssonar, blaðamanns og rithöfundar. Í henni rekur hann reynslu sína af heilablóðfalli sem hann fékk sumarið 2001, segir frá aðdraganda þess og árinu eftir áfallið. Í samtali við Björn Þór Sigbjörnsson ræðir Ingólfur um hug sinn, til- finningar og kapphlaupið frá dauðanum til lífsins. Á VERÖND HEMINGWAYS Ingólfur og eiginkona hans, Jóhanna Jónasdóttir heimilislæknir, skoðuðu hús stórskáldsins á Kúbu. ������������ ��������������

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.