Fréttablaðið - 03.12.2005, Blaðsíða 62

Fréttablaðið - 03.12.2005, Blaðsíða 62
 3. desember 2005 LAUGARDAGUR42 Ég og Hari ljósmyndari á Fréttablaðinu vorum nokkuð spenntir að hitta James Bond. Eftir örstutta bið kom hann gangandi niður stigann á hótelinu. Við hlið hans var að sjálfsögðu kona. Ég átti samt ekki von á því og hallaði mér að Stefáni Inga Stefánssyni, framkvæmdastjóra Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNICEF), og spurði hver konan væri. Svarið kom strax, „þetta er Lady Kristina, eiginkona hans“. Gott og vel, þá var ég með það á hreinu, taldi mig þó vera nokkuð vel búinn undir viðtalið. Lærði samt snemma á blaðamannsferlinum að það er oft gott að spyrja eins og barn - eins og maður viti ekki neitt. Ég tók í hendur hjónanna og ávarpaði þau bæði með nafni án þess að hika, „Nice to meet you, Sir Roger - welcome to Iceland, Lady Kristina.“ Sir Roger George Moore, eins og hann heitir fullu nafni, lék njósnara hennar hátignar í sjö myndum frá árinu 1973 til 1985 og þar áður lék hann Dýrlinginn í samnefndum sjónvarpsþáttum. Hann varð 78 ára fyrir tæpum tveimur mánuðum og ber sig ótrúlega vel og annað verður ekki heldur sagt um Lady Kristinu. Dorrit besti sendiherrann Eftir að Hari hafði lokið mynda- tökunni, dregið Moore út á gangstétt og síðan stillt honum upp við barinn [... og staðist freistinguna að biðja þjóninn að blanda einn vodka martini, hristan, ekki hrærðan, til að hafa á barborðinu] settumst við í betri stofuna. Ég, Sir Roger og Lady Kristina. Ég spurði fyrst hvort hann ferðaðist alltaf með eiginkonu sinni. Hann leit á hana og hún svaraði að bragði: „Já, alltaf.“ Hann bætti síðan við: „Já, ég treysti henni ekki einni - lít ekki af henni.“ Við hlógum öll þrjú og ég hugsaði með mér að líklega væri hið gagnstæða rétt og var þá með Bond-ímyndina á höfðinu. Næst var komið að spurningunni - hvernig skyldi Sir Roger Moore líka við land og þjóð? Formáli spurningarinnar var nokkuð langur því ósjálfrátt afsaka ég mig alltaf þegar ég spyr að þessu - kannski af því að ég minnist þess ekki að hafa verið spurður að þessu sjálfur á ferðalögum mínum erlendis. „Ég er ekki búinn að vera hérna nema í tæpan sólarhring,“ sagði Moore og mér leið vitaskuld kjánalega. „Við komum í myrkri og vöknuðum í myrkri.“ Ég reyndi að brosa - en hugsaði með mér að ég hefði nú getað sagt mér þetta því ég vissi sem var að hann var ekki búinn að vera hér nema örskotsstund. „Ég get samt sagt þér að við áttum mjög ánægjulegan hádegisverð með forsetanum og góðri vinkonu okkar, Dorrit Moussaieff. Hún hefur reyndar oft sagt okkur frá Íslandi og ég held að þið getið nú varla átt betri sendiherra en hana. Hún reyndi að sannfæra okkur um að aflýsa öllum fundum og gala-kvöldverðarboðum og ferðast aðeins um, fara í Bláa lónið og öðlast eilíft líf.“ Audrey Hepburn sannfærði Sir Roger Sir Roger og Lady Kristina komu til landsins á miðvikudaginn til að vera viðstödd undirritun stærsta styrktarsamnings sem gerður hefur verið í þágu góðgerðarmála á Íslandi. Fyrirtækin Baugur Group, FL Group og Fons gáfu 135 milljónir króna til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og munu nær 100 þúsund börn í Gíneu-Bissá njóta góðs af styrknum. Sir Roger er einn af fjölmörgum velgjörðarsendiherrum Barnahjálparinnar. Sem slíkur ferðast hann vítt og breytt um heiminn til að vekja athygli á bágri stöðu barna í þriðja heiminum og hvetja fyrirtæki og stjórnvöld hinna ríkari landa til opna augun og láta eitthvað af hendi rakna. En hvað varð til þess að hann gerðist velgjörðarsendiherra? „Það má nú eiginlega segja að Audrey Hepburn heitin, vinkona mín og nágranni í Sviss til margra ára, eigi heiðurinn að því. Hún hringdi í mig fyrir fimmtán árum og bað mig að afhenta með sér UNICEF-barnaverðlaun Danny Kaye í Amsterdam. Ég samþykkti það og spurði hvaða dag þetta væri. Hún sagði mér það en bætti síðan við að ég þyrfti að koma daginn áður. Ég spurði til hvers, við myndum hvort eð er lesa af skjám það sem við ættum að segja. Þá sagðist hún vilja fá mig á blaðamannafund. Ég sagðist ekki vita nóg um UNICEF til að geta verið til svara á blaðamannafundi. Hún sagði að það skipti engu máli því það eina sem blaðamennirnir vildu ræða væru kvikmyndir og hún hafði rétt fyrir sér þó hún hafi ekki leyft þeim að komast upp með það. Eftir þetta hef ég starfað fyrir UNICEF.“ Eftir þetta svar Sir Roger var ég svolítið utan við mig og hugsaði með mér það það væri eins gott að upptökutækið væri í lagi. „Það eina sem blaðamennirnir vildu ræða voru kvikmyndir og hún lét þá ekki komast upp með það,“ glumdi í höfðinu á mér. Ég leit sem snöggvast niður á krassblaðið mitt - á allar Bond-spurningarnar. Þær urðu að bíða. Sir Roger var vafalaust orðinn þreyttur á þögninni og hélt áfram. Hinn fágaði breski hreimur fangaði strax athygli mína. Enga pólitík, takk „Það ríkir ótrúleg örbirgð í heiminum og því miður eru allt of margir ómeðvitaðir um það. Fyrsta skipulagða ferðin mín á vegum UNICEF var til Mið- Ameríku. Á leiðinni heim kom ég við í Dallas í Bandaríkjunum og þar var haldinn blaðamannafundur. Eftir að ég hafði lýst ástandinu í þessum heimshluta spurði einn blaðamaðurinn mig hvort ég áttaði mig ekki á því að það ríkti líka fátækt meðal barna í Bandaríkjunum. Ég sagði honum pent að hann gæti kysst á mér afturendann því þó vissulega væru til fátæk börn í Bandaríkjunum þá væru þau margmilljónerar miðað við fátæku börnin í þriðja heiminum.“ Ég kunni vel að meta þetta hreinskilna svar Sir Rogers við spurningu bandaríska blaða- mannsins. Því næst spurði ég hann hvort hann hefði frétt af ofsahagnaði og útrás íslenskra fyrirtækja síðustu ár og nefndi sem dæmi að Baugur Group hefði fjárfest mikið í Englandi. Þá tók hann af mér orðið og sagði: „Já, og í Danmörku.“ Ég var svolítið hissa á því hvað hann var vel að sér og enn meira hissa þegar hann sagði þetta: „Sérðu þessa skyrtu, hún er keypt í Illum í Kaupmannahöfn. Þetta er eins konar hringrás. Ég styrki þá og þeir UNICEF.“ En setur svona velgengni ekki auknar siðferðislegar kvaðir á fyrir- tæki, eru þau ekki í raun skyldug til að gefa eitthvað til baka? „Jú, og ég held að við séum nú að verða vitni að ákveðinni vakningu meðal stórfyrirtækja í þessa veru.“ Fyrir ári ríflega ári síðan ræddi ég við Harry Belafonte, sem þá var staddur hérlendis sem velgjörðarsendiherra Barna- hjálparinnar. Sá merkilegi maður hefur sterkar skoðanir og býr yfir miklum sannfæringarkrafti. Stór hluti viðtals míns við hann fór í að ræða Íraksstríðið og bandaríska utanríkisstefnu og í stuttu máli þá er Belafonte draumur hvers blaðamanns. Hann liggur ekki á skoðunum sínum og talar ekki í kringum hlutina. Í raun dugar ein tilvitnun til að sýna þann anda sem ríkti í viðtalinu: „Það að George W. Bush skuli vera forseti Bandaríkjanna er ekkert annað en stórslys - öll hans ríkisstjórn er stórslys,“ sagði Belafonte fyrir ári síðan. Vildi heita Burt eða Fred Nú stóðst ég ekki mátið. Ég leit í augu Sir Rogers og byrjaði að þusa eitthvað um Íraksstríðið og þátttöku Breta í því. Sir Roger, sem er borinn og barnfæddur Lundúnabúi, hallaði sér aftur í stólnum og af því hann er einkar kurteis maður leyfði hann mér að klára. Síðan sagði hann: „Ég er ópólitískur. Ég vinn fyrir samtök sem eru ópólitísk af þeirri einföldu ástæðu að við þurfum að njóta góðvildar alls staðar.“ Þar með var það útrætt. Ég reyndi í það minnsta, hugsaði ég með mér og kunni ekki við að þrýsta eitthvað á manninn, enda fyrrum njósnari hennar hátignar. Þá sagði Sir Roger og í annað skiptið í samtalinu notaði hann tiltekið orðalag: „Þetta þýðir samt ekki að ég kyssi afturendann á hvaða stjórnmálamanni sem er en ég mun virða það að þeir séu við völd. Ég og Belafonte höfum þekkst í meira en fimmtíu ár og erum góðir vinir. Við eyddum eitt sinn saman jólunum í New York og fórum síðan til Aruba og eyddum áramótunum þar. Hann söng fyrir mig á ströndinni og það var yndislegt. Ég veit vel að hann er mjög pólitískur og margt sem hann segir er rétt, en ég vil ekki ræða pólitík.“ Fyrst hann vill ekki ræða pólitík hugsaði ég með mér að nú væri akkúrat rétti tíminn til að spyrja Sir Roger út í Bond og ferilinn. Hann hlyti að fagna breyttu umræðuefni. Ég byrjaði á spyrja hvort hann hafi alltaf ætlað að verða leikari? „Nei, sem strákur vildi ég verða lestarstjóri. Ég vildi ekki heita Roger heldur vildi ég almennilegt nafn eins og Burt eða Fred. Síðan þegar ég varð eldri fór ég að hlusta á föður minn, sem sagði að kannski ætti ég að leggja fyrir mig arkitektúr. Það varð ekkert úr því - ég teiknaði ekki hús heldur teiknimyndasögur. Einhvern veginn leiddist ég síðan út í leiklist.“ Sir Roger hafði varla sleppt orðinu þegar farsími hringdi á næsta borði. Hringitónninn var fuglasöngur og Sir Roger sagði: „Heyrðirðu þetta, ég gerði þetta án þess að hreyfa varirnar.“ Við hlógum öll þrjú. Fer ekki á Bond-myndir Aðspurður sagðist Sir Roger ekki endilega telja að James Bond- hlutverkið hefði skotið honum upp á stjörnuhimininn heldur héldist þetta allt í hendur; Dýrlingurinn, James Bond og fleiri hlutverk. „Það er gamalt máltæki sem segir að það taki 25 ár að verða stjarna yfir nótt,“ segir hann og brosir. En var ekkert erfitt að feta í fótspor Sean Connery? „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn hugsaði ég lítið út í það. Reyndar varð ég svolítið óstyrkur þegar ég var á leiðinni á forsýningu Live and Let Die en áttaði mig fljótlega á því að það þýddi ekkert. Þetta var eins og að fara með konu á fæðingardeildina. Maður hefur ekkert um það að segja hvort barnið komi heiminn og hvernig það verður - það bara kemur og verður eins og það verður.“ Mér lék forvitni á vita hvað Sir Roger hefði að segja um nýjustu James Bond-myndirnar. Svarið kom á óvart. „Ég hef bara séð eina mynd síðan ég hætti að leika árið 1985 þegar A View to a Kill kom út. Mér fannst hún óþarflega ofbeldisfull en síðan þegar ég fór að hugsa áttaði ég mig nú fljótlega á því að mínar myndir voru ekkert skárri.“ Mér varð svo mikið um þetta svar að ég gleymdi að spyrja hvers vegna hann hefði bara séð eina mynd eða hvaða mynd það hefði verið. Á næsta ári kemur út ný James Bond-mynd, Casino Royale. Með aðalhlutverkið fer Daniel Craig, sem lék meðal annars í Layer Cake og Road to Perdition. Hvað finnst Sir Roger um Craig? „Ég þekki hann ekki en ég sá hann í Road to Perdition. Mér finnst hann áhugaverður ungur leikari. Ég var vanur að vera tortrygginn út í unga leikara á uppleið því þeir gátu stolið frá mér hlutverkum. Ég er það ekki lengur.“ Ég þakkaði Sir Roger og Lady Kristinu fyrir samtalið. Sir Roger er enn sá leikari sem hefur leikið í flestum James Bond myndum - alls sjö. Sean Connery lék í sex, Pierce Brosnan fjórum, Timothy Dalton tveimur og George Lazenby einni. ■ Ópólitískur Bond í skyrtu frá Illum Fyrrum njósnari hennar hátignar hefur snúið við blaðinu og er orðinn velgjörðarsendiherra Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Sir Roger George Moore hefur undanfarna daga spásserað um götur Reykjavíkur ásamt eiginkonu sinni. Forsetafrúin íslenska reyndi að fá hjónin til að aflýsa skipulagðri dagskrá. Trausti Hafliðason hitti Sir Roger og ræddi við hann á hóteli í höfuðborginni. SIR ROGER GEORGE MOORE VIÐ BARINN Sir Roger og Lady Kristina, sem sést í bagrunni myndarinnar vera að spjalla við Stefán Inga, búa í Mónakó á sumrin en Sviss á veturna. ��������������������� ����������������
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76
Blaðsíða 77
Blaðsíða 78
Blaðsíða 79
Blaðsíða 80
Blaðsíða 81
Blaðsíða 82
Blaðsíða 83
Blaðsíða 84
Blaðsíða 85
Blaðsíða 86
Blaðsíða 87
Blaðsíða 88
Blaðsíða 89
Blaðsíða 90
Blaðsíða 91
Blaðsíða 92
Blaðsíða 93
Blaðsíða 94
Blaðsíða 95
Blaðsíða 96

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.