Fréttablaðið - 19.03.2006, Side 16
19. mars 2006 SUNNUDAGUR16
„Það er alveg rétt að þeir hafa lengi
viljað fara með þoturnar. Við höfum
ekkert neitað því að þær fari ef það
kemur í ljós með hvaða hætti verði
þá staðið að sýnilegum vörnum og
loftvörnum Íslands. En það hafa
aldrei fengist nein svör við því,“
sagði Halldór Ásgrímsson forsætis-
ráðherra eftir ríkisstjórnarfund
síðastliðinn föstudag og hafði þá
beðið Bandaríkjaforseta bréflega
um skýringar á því hvað átt væri
við með því að staðið yrði áfram við
varnarsamninginn.
Fjórum mánuðum áður, hinn 11.
nóvember síðastliðinn, sagði Hall-
dór í ræðu á miðstjórnarfundi
Framsóknarflokksins: „Við munum
aldrei neyða þá til að vera hér ef
þeir vilja ekki vera hér. Og við
munum heldur ekki biðja þá um að
vera hér ef þeir vilja ekki vera hér.
Og það þarf að tala skýrt í þessu
máli. Ef það er hins vegar stað-
reynd að þeir vilji ekki vera hér til
að sinna nauðsynlegum vörnum þá
verðum við Íslendingar að grípa til
annarra ráða og endurmeta stöð-
una. Við viljum vinsamleg sam-
skipti við Bandaríkin. Og þau sam-
skipti hafa reynst okkur vel. Við
viljum líka vinsamleg samskipti
við Evópu og Norðurlöndin. Og þau
samskipti hafa verið okkur mjög
mikilvæg. Við framsóknarmenn
höfum lagt áherslu á það að treysta
samskiptin við Bandaríkin en
treysta jafnframt samskiptin við
Evrópu. Og það liggur alveg ljóst
fyrir í mínum huga að ef samskiptin
við Bandaríkin veikjast með ein-
hverjum hætti þá verðum við að
treysta enn betur samstarf og sam-
skipti við Evrópuríkin.“
Enginn slóðaskapur
Þessi orð forsætisráðherra frá 11.
nóvember voru efnislega borin
undir hann eftir ríkisstjórnar-
fundinn síðastliðinn föstudag. Í
ljósi þess sem nú hefur gerst mætti
spyrja einnig hvort ríkisstjórnin
hafi ekki sýnt slóðaskap; flotið
sofandi að feigðarósi: „Ástæðan
fyrir því að ég sagði þetta (11. nóv-
ember) var að ég hafði grun um að
þetta myndi enda svona. Og ég taldi
það þá mikilvægt að leiða það til
lykta sem fyrst þannig að við
gætum þá farið að vinna út frá
ákveðinni staðreynd. En ég átti satt
best að segja von á því að það gerð-
ist í þessum samningaviðræðum og
með öðrum hætti en nú hefur gerst.
Ég var einfaldlega að segja að það
er mikilvægt fyrir okkur að vita
þetta. Nú vitum við þetta og þá
förum við að vinna út frá því. En að
kalla það slóðaskap er náttúrlega
algerlega fráleitt.“
Halldór var einnig spurður út í
efni bréfsins sem hann sendi
Bandaríkjaforseta degi eftir að til-
kynningin um brotthvarf hersins
frá Keflavíkurflugvelli barst. „Í
bréfinu er fyrst og fremst farið
yfir málið og spurt um hvað Banda-
ríkjamenn hafi í huga þannig að
það komi skýrt fram hvað þeir vilja
gera. Við höfum spurt þeirrar
spurningar í mörg ár. Það er alveg
rétt að þeir hafa lengi viljað fara
með þoturnar. Við höfum ekkert
neitað því að þær fari ef það kemur
í ljós með hvaða hætti verði þá
staðið að sýnilegum vörnum og loft-
vörnum Íslands. En það hafa aldrei
fengist nein svör við því. Ég tel
núna að Bandaríkjamenn verði að
koma með sínar hugmyndir um það
og það þýði ekki að spyrja aðeins
okkur um það í því sambandi. Það
var algerlega nauðsynlegt að
blanda Atlantshafsbandalaginu inn
í þetta og það var framkvæmda-
stjóranum bæði ljúft og skylt að
gera það. Því jafnvel þótt ég hefði
ekki beðið hann um það hefði það
verið hans skylda að gera það hvort
eð er vegna þess að samkvæmt
þessu verður Ísland eina ríkið innan
Atlantshafsbandalagsins sem
verður algerlega án loftvarna. Það
var ákveðið að loftvörnum yrði
komið á gagnvart Eystrasaltsríkj-
unum á sínum tíma, þannig að ég
tel að aðalatriðið hafi verið að
blanda Atlantshafsbandalaginu inn
í þetta. Síðan verður að reyna á það
næstu vikur og mánuði hvernig
þetta gerist í framtíðinni og skýra
þá mynd og þau orð sem hafa komið
fram hjá Bandaríkjamönnum.“
Brot á samningi?
Forysta Samfylkingarinnar telur
nauðsynlegt að láta reyna á það hjá
Atlantshafsbandalaginu hvort
Bandaríkjamenn hafi brotið varnar-
samninginn með einhliða og að
margra mati harkalegri og
ódiplómatískri ákvörðun sinni um
brotthvarf hersins. Ingibjörg Sólrún
Gísladóttir, formaður Samfylking-
arinnar, tjáði sig í þessa veru fyrir
helgina. Jón Baldvin Hannibalsson,
fyrrverandi utanríkisráðherra,
sagði efnislega í Laugardagsþætti
Ríkisútvarpsins í gær að hann sakn-
aði nú Davíðs Oddssonar og yfirlýs-
inga um að ef Bandaríkjamenn
hirtu ekki lengur um sýnilegar
varnir jafngilti það uppsögn samn-
ingsins. Jón Baldvin kvaðst þessu
sammála og því gætu Bandaríkja-
menn bara hypjað sig. Jón Baldvin
rifjaði reyndar upp að Björn Bjarna-
son dómsmálaráðherra hefði jánk-
að því fyrir margt löngu að ef sú
staða kæmi upp, sem nú er orðin að
veruleika, yrði þjóðin að snúa sér til
Evrópu.
Halldór er varfærinn í orðum
um hugsanlegt brot Bandaríkja-
manna á varnarsamningnum. „Ég
ætla ekki að fullyrða neitt um það
fyrr en ég sé hvaða hugmyndir þeir
hafa um mál í staðinn fyrir þá stöðu
sem við vorum í. Ég vil fyrst sjá
það áður en ég hef einhver slík orð
eins og að samnningurinn hafi verið
brotinn vegna
þess að þeir hafa
sagt það skýrt
og segja það
skýrt í sinni orð-
sendingu að þeir
ætli sér að
standa við sínar
skuldbindingar,
standa við varn-
arsamninginn.
Við viljum láta
reyna á varnar-
samninginn frá
1951. Hann er skýr og þar skuld-
binda Bandaríkjamenn sig til þess
að sjá um varnir Íslands. Og við
viljum að þeir standi við þær skuld-
bindingar og útskýri það hvernig
þeir ætli sér að gera það eftir að
þessi ákvörðun hefur verið tekin.
Það er þá ekki fyrr en í framhaldi
af því að við metum það. Ég vil ekk-
ert segja frekar til um það. Ég vil
bara að það sé ljóst að við verðum
að fá þessa mynd skýra áður en
nokkur frekari ákvörðun er tekin.
Tilgangur varnarsamningsins er að
sjá um varnir Íslands. Ef engar
varnir eru þá verður hann ansi til-
gangslaus, þannig að við viljum að
þetta komi skýrt fram nú næstu
vikur og mánuði.“
Varnarviðræður og Íraksmál
Halldór neitar því að stuðningur
Íslands við hernað Bandaríkja-
manna í Írak hafi átt að liðka fyrir
áframhaldandi veru herþotnanna á
Keflavíkurflugvelli.
„Þetta blandaðist aldrei saman.
Það hef ég aldrei nokkurn tíma
sagt. Ég sagði hins vegar á sínum
tíma að það er eðli samstarfs og
vináttu að standa saman. Og við
höfum í langflestum tilvikum stað-
ið með Bandaríkjunum og Bret-
landi í varnar- og öryggismálum,
ekki síst vegna þess að þeir hafa
verið okkar nánustu samstarfs-
menn og staðið mjög vel við bakið á
Íslendingum í þessum málum. En
að þetta tvennt hafi blandast saman
er ekki rétt. Hinu er ekkert að leyna
að það sem Bandaríkjamenn eru
núna að gera er mikil vonbrigði
fyrir okkur og við áttum ekki von á
því að þetta yrði gert með þessum
hætti.“
Skammur umþóttunartími
Halldór segir að málin verði að ger-
ast hratt miðað við tímasetningar
sem Bandaríkjamenn hafi sett ein-
hliða. Fjögur ráðuneyti hafi þegar
hafið undirbúningsvinnu varðandi
Keflavíkurflugvöll. „Þetta varðar
undirbúning þess að kaupa nýjar
þyrlur. Við þurfum að efla okkar
björgunarsveitir. Við þurfum að
taka við rekstrinum á Keflavíkur-
flugvelli þannig að það er margt
sem gera þarf á næstunni. Það
hefur ekkert verið ákveðið um það
hvort Landhelgisgæslan verði flutt
til Suðurnesja. Það liggur fyrir að
hún verður efld. Við höfum ákveðið
að kaupa nýtt skip. Við höfðum líka
ákveðið að kaupa nýja flugvél og
nú liggur fyrir að við verðum að
kaupa nýjar þyrlur. Við þurfum að
fjölga þyrlunum. Það hefur ekki
verið ákveðið hvaða tegund verður
notuð en þetta eru ákvarðanir sem
við verðum að taka skjótt á næst-
unni.“
Sértækar atvinnuaðgerðir?
Atvinnuvandinn verður ræddur
sérstaklega á fundum með heima-
mönnum á næstunni og segir Hall-
dór að ríkisstjórnin hlutist ekki til
um að gerðir verði starfslokasamn-
ingar heldur verði Bandaríkjamenn
að standa við sína starfssamninga.
„Við munum ekki hafa uppi neinar
slíkar kröfur gagnvart Bandaríkja-
mönnum. Þeir verða einfaldlega að
standa við samninga sem þeir eru
með gagnvart þessum starfsmönn-
um. Síðan munum við vinna með
yfirvöldum á Suðurnesjum að því
að koma á aðgerðum í atvinnu-
málum eftir bestu getu til þess að
hjálpa þessu fólki að fá störf í fram-
tíðinni. Þetta er tvíþætt. Ríkis-
stjórnin hefur þegar hafið starf að
því er varðar Keflavíkurflugvöll,
það er að segja forsætis-, utanríkis-,
dómsmála- og fjármálaráðuneytið
hafa þegar hafið starf að því er
varðar undirbúning þess að það
þarf að kaupa nýjar þyrlur. Við
þurfum að efla okkar björgunar-
sveitir. Við þurfum að taka við
rekstrinum á Keflavíkurflugvelli,
þannig að það er margt sem gera
þarf á næstunni. Þessi þáttur máls-
ins er þegar farinn í gang. Síðan er
atvinnuþáttur-
inn. Við munum
eiga fund með
forsvarsmönnum
á Suðurnesjum
fljótlega. Það á
að ræða þau mál
við þá og ég á von
á að þar verði
samstaða ríkis-
stjórnarinnar og
aðila á Suðurnesj-
um.
Brotthvarf
Varnarliðsins frá Keflavíkurflug-
velli getur hugsanlega réttlætt sér-
tækar og tímabundnar aðgerðir í
atvinnumálum heimamanna. Gætu
til dæmis hugmyndir ríkisstjórnar-
innar um forgangsröðun varðandi
staðsetningu álvera og forgangs-
röðun þeirra breyst vegna þessa?
„Ég vil ekkert segja um það á
þessari stundu. Uppbygging álvera
fer fyrst og fremst eftir vilja
þeirra sem ætla sér að fjárfesta í
þeim og vilja þeirra íbúa sem búa á
þessum svæðum. Ég held að þetta
sé fyrst og fremst spurning um
raforku. Við ræðum þetta við
heimamenn og ég vil bíða eftir
þeim fundi,“ segir Halldór
Ásgrímsson að endingu.
Hafði grun um að þetta
myndi enda svona
HERSTÖÐIN Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI Halldór neitar því alfarið að stuðningur við Íraksstríð-
ið og varnarmálin hafi tengst með einhverjum hætti. „Hinu er ekkert að leyna að það sem
Bandaríkjamenn eru núna að gera er mikil vonbrigði fyrir okkur og við áttum ekki von á því
að þetta yrði gert með þessum hætti.“
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra talaði tæpitungulaust um varnar-
samstarfið á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins fyrir fjórum mánuðum.
Jóhann Hauksson rifjar málið upp og segir frá fundi forsætisráðherra með
blaða- og fréttamönnum fyrir helgi um söguleg tíðindi af varnarsamstarfinu
við Bandaríkjamenn.
HALLDÓR ÁSGRÍMSSON FORSÆTIS-
RÁÐHERRA „Ástæðan fyrir því að ég
sagði þetta (11. nóvember) var að ég
hafði grun um að þetta myndi enda
svona. Og ég taldi það þá mikilvægt að
leiða það til lykta sem fyrst þannig að við
gætum þá farið að vinna út frá ákveðinni
staðreynd.“ FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Og það liggur alveg ljóst fyrir í
mínum huga að ef samskiptin við
Bandaríkin veikjast með einhverjum
hætti þá verðum við að treysta enn
betur samstarf og samskipti við
Evrópuríkin.“ (Halldór Ásgrímsson á
miðstjórnarfundi Framsóknarflokks-
ins 11. nóvember 2005)