Fréttablaðið - 19.08.2006, Page 22
22 19. ágúst 2006 LAUGARDAGUR
■ LAUGARDAGUR, 12. ÁGÚST
Útsala, útsala!
Fórum á útsölulok í Kringlunni.
Því miður fann ég engar glæsiflík-
ur að spóka mig í en við keyptum
föt á krakkana.
Ég er alveg hættur að voga mér
inn í eina af mínum uppáhaldsfata-
verslunum. Þar starfar ofvirkur
sölumaður sem ræðst að mér um
leið og ég birtist í dyrunum og
byrjar að djöflast í mér, tínir fram
flíkur sem ég hef engan áhuga á og
rausar um verð og gæði.
Maðurinn fattar greinilega ekki
að ég er þverhaus. Ef einhver held-
ur því fram að ég verði að gera
eitthvað er alveg pottþétt að ég
geri það ekki, hversu mikið sem
mig kann að langa til þess.
Fórum út að borða í kvöld,
Austur Indíafjelagið á Hverfis-
götu 56. Frábær staður.
■ SUNNUDAGUR, 13. ÁGÚST
Hressandi blóðtökur
Fór niður á Ingólfstorg að
heilsa upp á þrjá vaska
drengi Guðjón, Dagbjart og
Gísla sem tóku sig til og
hjóluðu kringum landið í
fjáröflunarskyni fyrir
barnaþorpið sem Spes
rekur í Tógó. Þar hitti
ég líka gamla góða
Villa sem nú er
orðinn borgar-
stjóri í Reykja-
vík. Hann kom fær- andi
hendi sem og Guðlaugur frá Orku-
veitunni.
Mikið vildi ég að einhver álpað-
ist til að fela mér að stjórna ein-
hverju risafyrirtæki, ég mundi
svo sannarlega tappa rösklega af
því til mannúðarmála. Það er fátt
eins hressandi og blóðtökur fyrir
fólk og fyrirtæki. Það vita allir
góðir forstjórar og tappa þess
vegna óspart af fyrirtækjunum – í
eigin vasa.
En alveg er það merkilegt að
ungir strákar skuli taka það upp
hjá sjálfum sér að hjóla hringinn í
kringum landið í mótvindi og rign-
ingu til styrktar fátækum börnum
í landi sem þeir hafa aldrei komið
til. Svona ungmenni eru dáldið
spes. Greinilega mannsefni.
■ MÁNUDAGUR, 14. ÁGÚST
Sjúkrasaga dýra
Loksins komum við
því í verk að
fara til Dagfinns dýralæknis með
kettina okkar. Aladín vegna eyrna-
meiðsla sem hann varð fyrir í næt-
urlífinu og Alíbaba vegna orma-
hreinsunar og almenns eftirlits,
þeir eru 12 og 14 ára feðgarnir,
farnir að reskjast.
Faðirinn Aladín er reyndar
snöggt um hressari en sonurinn og
ákaflega skemmtanasjúkur og
reynir að laumast út á kvöldin.
Fyrir nokkru kom hann heim
alblóðugur með annað eyrað
lafandi. Ég reyndi að sótthreinsa
sárið og vonaði að það mundi gróa.
En það hefst illa við.
Alíbaba er hins vegar var-
færinn og forðast meira að segja
börn eins og pestina; þrátt fyrir
varkárnina lenti hann þó í umferð-
arslysi fyrir nokkrum árum og þar
fuku nokkur líf af þessum níu.
Hann fótbrotnaði og var settur í
gifs sem hann nagaði síðan af sér
um leið og hann kom heim af
spítalanum.
Hjá dýralækninum
var þykkildi skorið úr
eyranu á Aladín og
sárið saumað saman.
Hann bar sig nokk-
uð vel en sendi mér
ásakandi augna-
ráð, hélt greini-
lega að dýra-
læknirinn væri
böðull sem ég
hefði leigt til að
pína hann mér til
skemmtunar.
Alíbaba
fékk
ormahreinsun og gigtarmeðal
því að okkur sýnist hann vera
nokkuð hrumur í göngulagi, en
mér sýndist hann ekki þurfa á
gigtarlyfjum að halda þegar ég
reyndi að handsama hann til að
troða í hann pillunni við heimkom-
una.
Hjá dýralækninum sá ég að
auglýstar voru líkkistur handa
gæludýrum. Nú ætti einhver fram-
sýnn aðili að setja upp útfarar-
stofu og bjóða upp á alvöru jarðar-
farir með tónlist, minningarræðu
og góðri erfidrykkju.
Ég er feginn að sjá það í frétt-
um að löggan segir að drykkju-
skapur tengist ekki frekar mið-
borginni en öðrum hverfum. Það
hefur stórlega dregið úr því að
fólk flykkist í miðborgina til að
drekka frá sér ráð og rænu enda
er bæði fyrirhafnarminna og ódýr-
ara að gera það heima hjá sér.
■ ÞRIÐJUDAGUR, 15. ÁGÚST
Kæfubelgur eða
„smoothie“?
Það er líf og fjör núna hjá Fram-
sóknarflokknum, margir fram-
bjóðendur í hvert embætti.
Svona á þetta að vera.
Í fyrstunni var ég hræddur
um að þetta yrði eins og þegar
gömlu Sovétríkin voru að liðast
sundur, þá var stillt upp þeim
forngripum sem lifað höfðu
af flestar hreinsanir og
þeir svo sjálfkjörnir
með 101% atkvæða.
Það var ekki lífvæn-
legt fyrirkomulag. En
núna er sem sagt fjör
í Framsókn, margir
góðir frambjóðendur og
úr nógu að velja eins og
á velheppnaðri búnaðar-
sýningu.
Nú er það spurning
hvort Framsóknarflokk-
urinn er kæfubelgur eða
„smoothie“.
■ MIÐVIKUDAGUR, 16. ÁGÚST
Biksvartur dagur
Yfirleitt finnst mér tíminn undra-
fljótur að líða. En stundum koma
dagar sem mér finnast óyfirstíg-
anlegir strax á morgnana, dagar
sem aldrei ætla að taka enda. Slík-
ur dagur var dagurinn í dag. Án
nokkurrar sýnilegrar ástæðu.
Á svona degi er það mikið lán
fyrir þjóðina að ég skuli ekki vera
í ábyrgðarhlutverki. Mér er sama
um allt, finnst allt innantómt og
fánýtt. Ef ég væri seðlabanka-
stjóri myndi ég fella niður alla
vexti næsta árið og panta bílfarm
af fimmþúsund köllum handa
hverjum landsmanna. Svo mundi
ég taka símann úr sambandi.
Ég hef heyrt fólk tala um að
það sé blúsað, undirlagt af ein-
hverri blámatilfinningu. Mín
tilfinning er ekki blá, hún er
kolbikasvört.
Engin tónlist getur lýst
þessari tilfinningu, allrasíst
jazz; næst væri sennilega
hægt að komast með því að
spila Sögusinfóníu Jóns
Leifs á gamlan
grammifón við undirleik
breima katta og blikk-
smiðju.
En svo hljóðnar skark-
alinn í höfðinu á mér og
biksvartur dagurinn breyt-
ist í blúsað kvöld og mér finnst
ég sjá grilla í nýjan og glaðan
morgun gegnum kristalstært
myrkur sumarnæturinnar.
Nýr morgunn sem lofar
nýjum og betri degi.
■ FIMMTUDAGUR, 17. ÁGÚST
Skáldið frá Krít
Það fór eins og mig grunaði.
Dagurinn í dag var skárri en
dagurinn í gær, enda gat varla
annað verið. Svona svartnætti
hvolfist yfir mig alltaf annað veif-
ið og þá get ég lítið annað gert en
halda áfram að bryðja lyfin mín og
vona að upp birti um síðir.
Mér til hugarhægðar er ég að
lesa ævisögu Krítverjans mikla,
Nikos Kazantzakis, þess sem fræg-
astur er fyrir að hafa skrifað
„Grikkinn Zorba“ og „Síðasta
freisting Krists“.
Kazantzakis segir þessa sögu:
Ég sagði við möndlutréð:
„Segðu mér frá Guði.“
Og möndlutréð blómstraði.
Kazantzakis leitaði að Guði
alla ævi sína og fann hann/hana/
það að lokum. Guð er alls staðar.
Guð er alheimurinn. Guð er allt
sem er.
Í ævisögu hans stend-
ur: „Nei, maður sem ann-
aðhvort vonast eftir
himnaríki eða óttast
helju getur ekki verið
frjáls.“
Áður en hann dó
samdi Kazantzakis graf-
skrift handa sjálfum sér.
Gröf hans stendur uppi á
hinu forna Martinengo-
virki í Heraklion á eynni
Krít.
Grafskriftin er svona:
Ég vænti einskis.
Ég óttast ekkert.
Ég er frjáls.
Í Dagbók Þráins Bertelssonar er sagt frá útsölum, blóðtökum, mannúðarmálum, heilsufari katta,
nýstárlegri útfararþjónustu og hagsýnum drykkjuvenjum. Einnig er fjallað um grundvallarspurn-
ingar eins og tilganginn í lífinu og hvort Framsóknarflokkurinn sé kæfubelgur eða „smoothie“.
Kæfubelgur eða „smoothie“?
Kæra
Dagbók
Þráinn Bertelsson skrifar
Sólarhliðarnar á Stígamótum
Á menningarnótt 19. ágúst kl. 17-22
Menningardagskrá Stígamóta verður kærkomin tilbreyting frá hefðbundinni starfsemi í húsinu.
Áherslan verður á sólarhliðarnar í samskiptum fólks og allt tal um ofbeldi og svik sem þrífast í
skugga samfélagsins verður lagt til hliðar. Gestum og gangandi verður boðið að flytja í stuttu
máli uppáhaldstextana sína, syngja eða segja frá eigin reynslu af hlýju, ást, samkennd, kynlífi,
fyndni eða vináttu eða bara koma og njóta samverunnar.
Dagskrá:
Kl. 17.00 Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri
Rósa Ólöf Svavarsdóttir skáldkona
Karla Dögg Karlsdóttir frá Stígamótum
Anandi Marke jógakennari syngur
Kl. 17.30 Orðið er laust
Kl. 18.00 Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra
Halldóra Halldórsdóttir frá Stígamótum
Guðrún Ásmundsdóttir leikkona
Anna Scalk Sóleyjardóttir 6 ára
Kl. 18.30 Orðið er laust
Kl. 19.00 Kolbrún Halldórsdóttir alþingiskona
Alma Ágústsdóttir 11 ára
Thelma Ásdísardóttir frá Stígamótum
Ásta S. Ólafsdóttir leikkona
Kl. 19.30 Orðið er laust
Kl. 20.00 Þórunn Valdimarsdóttir, Didda skáldkona og Lilja Valdimarsdóttir
Erla Karlsdóttir
Kolbrún Erna Pétursdóttir leikkona
Kl. 20.30 Orðið er laust
Kl. 21.00 Erna Ragnarsdóttir, Hrólfur Gestsson og Eva María Hrólfsdóttir
Björg G. Gísladóttir frá Stígamótum
Sigrún Edda Björnsdóttir leikkona
Kl. 21.30 Orðið er laust
Boðið verður upp á svalandi drykki og ávexti.
Verið öll hjartanlega velkomin
Stígamót við Hlemmtorg, Laugarvegi 115