Fréttablaðið - 19.08.2006, Page 43
LAUGARDAGINN 19. ÁGÚST
GEFIÐ ÚT AF REYKJAVIKMAG / 365 PRENTMIÐLAR
ÁBM. ANNA MARGRÉT BJÖRNSSON
EFNI HANNA BJÖRK VALSDÓTTIR OG KRISTRÚN HEIÐA HAUKSDÓTTIR
HÖNNUN REYKJAVIKMAG / HELGA GUÐNÝ ÁSGEIRSDÓTTIR
Landsbankinn býður gestum Menningarnætur upp á
veglega dagskrá í ár en bankinn hefur frá upphafi verið
sérlegur bakhjarl hátíðarinnar. Í ár verður bankinn með
hljómsveitir á tveimur sviðum, á aðalsviðinu við útibúið í
Austurstræti 11 og hitt sviðið við Laugaveg 77. Dagskráin
á aðalsviðinu hefst kl. 16 og þar koma meðal annars fram
Íslenski dansflokkurinn, Gunni og Felix sem skemmta
börnunum, Guitar Islancio, Baggalútur og Mezzoforte sem
kemur saman í upprunalegri mynd í fyrsta sinn í 20 ár.
Benni Hemm Hemm stígur á svið kl. 21 en hann sló rækilega
í gegn fyrr á árinu þegar hann hlaut tvenn verðlaun á
Íslensku tónlistarverðlaununum, annars vegar fyrir bestu
plötu ársins í flokknum „ýmis tónlist“ og hins vegar
Bjartasta vonin í íslenskri tónlist. Verðlaunin hlaut hann
fyrir frumburðinn Benni Hemm Hemm sem er mestmegnis
heimatilbúin plata sem Benni gaf út sjálfur.
MEÐ NÝTT EFNI
Benni Hemm Hemm mætir galvaskur til leiks á Menningarnótt
þar sem hann mun spila nýtt og gamalt efni í bland. ,,Já, við
erum búin að taka upp heila plötu og munum spila lög af henni.
Ég ætla að gefa hana út á Íslandi í desember. Þetta verður
jólaplatan í ár,“ segir Benni glaður með nýju plötuna. ,,Ég er
mjög ánægður með hana, hún er svolítið frábrugðin hinni, ég veit
ekki hvernig ég á að lýsa því en hljómurinn er einhvern veginn
dimmari og lögin öðruvísi.“ Benni gefur plötuna út sjálfur á
Íslandi en hin þekkta þýska plötuútgáfa Morr mun gefa hana
út í Evrópu og Bandaríkjunum. Benni er einmitt nýkominn
frá tónleikaferðalagi um Þýskaland með hljómsveitinni. Benni
hefur til liðs við sig stórsveit hlaðinni miklu hæfileikafólki.
Það eru tíu til tólf manns sem spila á trommur, bassa, gítara,
básúnur, trompeta, kornett, klukkuspil og slagverk. ,,Það er
svolítil rótering í bandinu af því að það komast ekki alltaf allir á
sama staðinn á sama tíma. Þess vegna æfum við voðalega sjaldan,
en það er mjög góð æfing að spila svona stanslaust í heila viku
eins og við vorum að gera úti, þannig að hljómsveitin verður
í fínu formi á laugardagskvöldið,“ lofar Benni ánægður með
Þýskalandsferðina.
FRÁBÆRT AÐ SPILA Á MENNINGARNÓTT
Benni segir að það leggist frábærlega í hann að fá að spila á
Menningarnótt. ,,Ég hef eiginlega aldrei verið niðri í bæ á
Menningarnótt eftir að þetta varð svona risastórt dæmi þannig
að ég veit varla við hverju ég á að búast. Mig hlakkar mikið til að
spila fyrir fólkið og það er mjög skemmtilegt að fá að spila nýju
lögin fyrir svona marga þar sem allir skilja textana,“ segir Benni
en nýju lögin eru á íslensku. Mest spiluðu lögin hans Benna eru
„I can love you in a wheelchair baby“ og perlan „Til eru fræ“
eftir Hauk Morthens. „Mig dreymdi að ég væri að spila þetta lag
í kokteilboði og það var hljómsveit að spila það í þessum fílíng,
þess vegna tók ég það upp,“ útskýrir hann. Útsetning Benna fékk
mjög góð viðbrögð og hann lofar að spila það á tónleikunum.
Sviðið verður staðsett við hornið á Austurstræti og
Pósthússtræti og vísar í áttina að krossgötunum og að
Dómkirkjunni. Það má búast við að fólk muni flykkjast til að sjá
þessa einstöku tónleika þannig að á Austurvelli verður risakjár,
hljóðkerfi og góð stemning eins og á alvöru útitónleikum, frá
kl. 20 og þar til Mezzoforte lýkur tónleikadagskránni. -hbv
HITT SVIÐIÐ: UNG OG FERSK BÖND
Á hinu sviðinu við Laugaveg 77 munu tíu ungar og ferskar
hljómsveitir stíga á svið. Capybara hefja tónleikana kl. 14
en síðan koma fram Benny Crespo´s Gang, Bogomil og Flís,
Jan Mayen, Jakóbínarína, Skátar, Hairdoctor og Reykjavík!
en Jeff Who? endar tónleikana kl. 17.15. Hugmyndin var að
búa til svið með tónlistarmönnum sem höfða kannski hvað
helst til yngra fólks og breikka þannig flóru tónlistarmanna
sem bankinn býður fólki að hlýða á.
TÓNLISTARVEISLA
LANDSBANKANS
BENNI HEMM HEMM ÁSAMT FRÍÐU FÖRUNEYTI
Ljósmynd/Silja Magg