Fréttablaðið - 23.08.2006, Blaðsíða 38
MARKAÐURINN 23. ÁGÚST 2006 MIÐVIKUDAGUR8
F R É T T A S K Ý R I N G
Við því er að búast að Síminn muni láta
til sín taka á næstunni. Þar á bæ hefur nú
aukinn kraftur verið settur í útrás og leit
stendur yfir að erlendum fjárfestingar-
tækifærum. Í því augnamiði hefur Sigríður
Olgeirsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri
Ax hugbúnaðarhúss, verið ráðin til félags-
ins og er henni ætlað að vinna að fjárfest-
ingum í erlendum félögum og fylgja þeim
eftir. Hún mun þar að auki starfa með
Brynjólfi Bjarnasyni, forstjóra Símans, að
nýjum innlendum þróunarverkefnum.
“Verkefni mitt snýr fyrst og fremst að
því að hjálpa til við vöxt fyrirtækisins,”
segir Sigríður. “Fjarskiptatæknin og
upplýsingatæknin eru sífellt að tengjast
meira saman. Síminn leitast við að veita
fjölbreyttari þjónustu til einstaklinga og
heimilanna og ekki síst til fyrirtækja.
Þessar fjárfestingar munu hjálpa til við
það enda munu þær miðast að því að fylgja
stefnu fyrirtækisins og finna álitlega kosti
sem falla vel að rekstri Símans.”
FJÖLMÖRG VAXTARTÆKIFÆRI
Töluverð vinna hefur þegar átt sér stað
á erlendri grundu og er útrás Símans því
formlega hafin. Að mati Sigríðar hefur
Síminn mörg tækifæri til ytri vaxtar og
verður það hennar helsta starf að þefa
þau tækifæri uppi og fylgja þeim eftir,
með samræmingu og samnýtingu þar sem
hægt er, í nánu samstarfi við Brynjólf
Bjarnason, forstjóra og þróunarsvið
Símans. Hún segir tækifærin jafnframt
fjölmörg hér á landi en ekki sé þó tíma-
bært að deila þeim með umheiminum enn
sem komið er.
Í erlendum fjárfestingum stefnir
Síminn meðal annars að því að eignast
ráðandi hluti í fyrirtækjum í rekstri sem
henta Símanum og því er leitast við að
greina tækifæri sem bjóða upp á sam-
þættingu fjarskipta og upplýsingatækni. Í
þeim tilfellum sem Síminn mun kaupa ráð-
andi hluti mun það koma í hlut Sigríðar að
sitja í stjórn fyrir hönd Símans. Samstarf
við önnur fyrirtæki eru líka í skoðun og
þá kemur, að sögn Sigríðar, til greina að
Síminn eigi minni hluti í þeim félögum.
FORRITARI SEM LÍTIÐ HEFUR FORRITAÐ
Mestan hluta starfsferils síns hefur
Sigríður unnið í upplýsingatækni og hún
hefur verið í störfum tengdum viðskipta-
hugbúnaði undanfarin tuttugu ár. Hún er
kerfisfræðingur að mennt en segist þó lítið
hafa komist í það að forrita. Undanfarin ár
hefur hún gegnt starfi framkvæmdastjóra
Ax hugbúnaðarhúss þar sem hún gat sér
góðs orðs fyrir vaska framgöngu. Er henni
meðal annars þakkað að hafa snúið margra
ára tapi í góðan og arðbæran rekstur á
nokkrum árum. Það er því ekki komið að
tómum kofanum í reynslu af stjórnun og
rekstri fyrirtækja.
Þrátt fyrir erilsamt starf taldi Sigríður
það ekki eftir sér að sitja á skólabekk sam-
hliða því og lauk hún MBA-námi í alþjóða-
stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík í
fyrra. “Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á
öllu sem heitir alþjóðlegt og alltaf verið á
nokkuð miklum þvælingi. Í nýja starfinu
verð ég meira í þessu alþjóðlega umhverfi
en í fyrra starfi og það þykir mér mjög
spennandi. Þannig kynnist maður ýmiss
konar fólki af öðrum menningarheimum.
Það er bráðnauðsynlegt að skilja menn-
ingu fólks sem maður vinnur með og allt
aðrar víddir sem koma inn í starfið leggi
maður sig eftir því.”
ENGIN VANDAMÁL - BARA TÆKIFÆRI
Reynsla Sigríðar af upplýsingatækni og
rekstri er sem fyrr segir umtalsverð.
Það sem hins vegar er nýtt fyrir henni er
fjarskiptamarkaðurinn og sú staðreynd að
nú eru engin vandamál til staðar heldur
bara tækifæri til að ráðast í. “Þegar ég tók
við starfinu í Ax hugbúnaðarhúsi var ég
stöðugt að takast á við vandamál og í bar-
áttu fyrir framtíð fyrirtækisins. Ég hafði
gaman af því og það var mikil áskorun.
Núna eru hins vegar engin vandamál held-
ur nóg af tækifærum og nýjungum sem ég
þarf að finna,” segir Sigríður. Hún segir
að það hafi verið tímabært að breyta um
starf og segist hafa séð ákveðin tækifæri
í því að fara yfir í fjarskiptamarkaðinn.
Þar séu gífurlegar hræringar sem henni
þyki eftirsóknarverðar. “Ég hef það í mér
að þurfa alltaf að vera að takast á við eitt-
hvað nýtt og spennandi. Ef það færist of
mikil ró yfir hlutina þá verð ég að finna
upp á einhverju nýju að gera,” segir hún
hlæjandi. “Þegar maður er búinn að vera
lengi í ákveðinni starfsgrein hefur maður
líka gott af því að skipta um vettvang. Í
tækninni er alltaf eitthvað nýtt að gerast
og maður nær aldrei að vera leiður því
hún rífur mann alltaf áfram í endurnýjun.
Þetta er ótrúlega skemmtilegur bransi
upp á það að gera. Í upplýsingatækninni
eru líka sífellt að koma ný tækifæri sem
er ofboðslega spennandi en um leið mjög
krefjandi.”
FRÁ STOFNUN Í MARKAÐSDRIFIÐ STÓR-
FYRIRTÆKI
Eins og engum hefur dulist hefur Síminn,
sem í september fagnar hundrað ára
afmæli sínu, farið í gegnum miklar breyt-
ingar síðan fyrirtækið var stofnað. Á það
ekki síst við um síðustu ár, þegar hann
hefur farið frá því að vera opinber stofnun
í það að vera markaðsdrifið fyrirtæki.
Með breyttu eignarhaldi og kröfu um
arðsemi hefur fyrirtækið orðið framsækn-
ara og áherslurnar breyst töluvert. Eftir
einkavæðinguna fór fyrirtækið í gegnum
mjög umfangsmikla stefnumótun og mikið
hefur verið unnið með að breyta menningu
þess. Eitt af því sem leitast hefur verið við
að breyta er ímynd Símans úr því að vera
“bara” tæknifyrirtæki í að vera þjónustu-
fyrirtæki sem er alltaf með nýjustu tækn-
ina og setur hana fram á einfaldan hátt
fyrir viðskiptavininn.
Stefna Símans er að vinna eftir hug-
myndafræði stafrænnar tilveru á
einstaklingssviði og stafrænna viðskipta á
fyrirtækjasviði. Þetta einkennist að miklu
leyti af samþættingu fjarskiptatækni og
upplýsingatækni sem er hvort tveggja
kunnur og ókunnugur flötur fyrir Sigríði
sem hefur að mestu unnið í upplýsinga-
tækni.
“Síminn stendur á tímamótum núna
og það er mikið að gera í samþættingu
fjarskipta og upplýsingatækninnar,” segir
Sigríður. “Það er spennandi að vera hluti
af þessari þróun því víst er að hún muni
halda hratt áfram og verða sífellt sjálf-
sagðari hlutur af lífi okkar allra.”
Síminn sækir inn á nýjar vígstöðvar
Sigríður Olgeirsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Ax hugbúnaðarhúss, hefur verið ráðin til Símans
þar sem henni er ætlað að þefa uppi álitlega fjárfestingarkosti á erlendri grundu. Hólmfríður Helga
Sigurðardóttir hitti Sigríði í höfuðstöðvum Símans.
SIGRÍÐUR OLGEIRSDÓTTIR Sigríður, sem á
glæstan feril að baki í upplýsingatæknigeiran-
um, hefur verið ráðin til starfa hjá Símanum þar
sem hún mun leiða fyrirhugaða erlenda útrás.