Fréttablaðið - 02.09.2006, Side 22

Fréttablaðið - 02.09.2006, Side 22
 2. september 2006 LAUGARDAGUR22 ■ FÖSTUDAGUR, 25. ÁGÚST Takmörkuð auðlind Brennu-Njáls saga er rétt um eitt- hundrað þúsund orð á lengd. Það er ekki óvenjuleg lengd á skáld- verki. Sumar skáldsögur eru reyndar miklu lengri og aðrar mun styttri. Til að verk geti flokk- ast sem skáldsaga er oft miðað við fjörutíu þúsund orð, styttri verk eru þá smásögur eða nóvellur. Það eru talin býsna góð afköst hjá rithöfundi að koma frá sér einu verki á ári. Ef verkið er hundrað þúsund orð eru afköstin 273 prenthæf orð á dag, sjö daga vikunnar. Til að berja saman sæmi- lega prenthæfan texta er lág- mark að reikna með tveim- ur umferðum, uppkasti og hreinskrift. Það þýðir að afköstin eru a.m.k. 546 orð á dag. Hvern einasta dag. Á hverju ári skrifa ég í Fréttablaðið texta sem er sam- tals eitthundrað og tíuþúsund orð á lengd. Lengri en Njáls saga sem er 100.125 orð, en töluvert styttri en Biblían; hún er 783.137 orð. Á þremur síðustu árum, að viðbættu yfirstandandi ári, er ég búinn að setja saman lesmál sem slagar upp í biblíulengd. Þetta rifja ég upp til að rétt- læta fyrir sjálfum mér að það er ólíklegt að mér takist að reka smiðshöggið á bókina sem ég er að skrifa, „Augnablik sannleikans“, í tæka tíð fyrir þessa jólavertíð. Og það finnst mér verra því að þegar maður er kominn á minn aldur er manni vel ljóst að jól eru tak- mörkuð auðlind. Andri er með hálsbólgu og tekur pensillín. Jóhanna læknir sagði að þetta væru streptó- kokkar og Andri er þess fullviss að ákveðin sósa sé sjúkdómsvaldur- inn: Streptókokkteilsósa. Kannski ný farsótt sé í uppsiglingu? ■ LAUGARDAGUR, 26. ÁGÚST Í afplánun Fór í ræktina eftir að hafa verið í sumarfríi. Það er ótrú- legt hvað maður getur orðið hrumur á fáeinum vikum. Sem straff fyrir letina lyfti ég lóðum þar til ég hafði varla þrek til að lyfta tómum lófanum til að þurrka svita af enn- inu og svo hljóp ég á færibandi í yfirbótarskyni þangað til ég var kominn með hreina samvisku. Það var langt hlaup. Kosturinn við að hlaupa á færibandi er sá að enginn keyrir yfir mann á meðan. Eftir gufuböðun og slökun enda ég á því að dýfa mér ofan í risa- stóran tréstamp fullan af köldum sjó. Og þegar ég hjóla heimleiðis líður mér eins og Arnaldi Schwartzenegger meðan hann var upp á sitt besta - áður en hann fór í pólitíkina. ■ SUNNUDAGUR, 27. ÁGÚST Uppvask Það hlýtur eitthvað alvarlegt að hafa komið fyrir mig; þegar ég var að vaska upp fattaði ég allt í einu að mér leiðist uppvask ekki lengur. Verð að muna að minnast á þetta við geðlækninn minn og vita hvað hann (hún) segir. Andri byrjar í Ísaksskóla á morgun og kvöldið fór í að telja upp þær áleggstegundir sem hann vill ekki sjá í nesti. ■ MÁNUDAGUR, 28. ÚST Sænautasteik og fúi Keypti sænautakjöt á 1140 kr. kíló- ið. Það finnst mér dáldið hátt verð því að sænautin „ganga“ jú sjálfala. Börnin höfðu aldrei heyrt minnst á sænautakjöt áður og reyndar ekki hrefnukjöt heldur. En þetta var mikið borðað í minni æsku. Ég skóf af ketinu búðarmarín- eringuna og bjó til minn eigin kryddlög. Þetta var herramanns- matur. Finnur vinur minn kom og gerði við útidyratröppurnar sem verið hafa dauðagildra fyrir bréf- bera, stefnuvotta, rukkara og far- andsölumenn. Vinir og ættingjar hafa haft „inside“ upplýsingar og gengið inn bakdyramegin. Annars er það alveg merkilegt að 15 ára gamlar spýtur skuli grotna sundur. Eina skýringin á þessu er að ég hafi hugsanlega bleytt of duglega í þeim með rán- dýru fúavarnarefni sem ég hef makað á þær á hverju hausti. ■ ÞRIÐJUDAGUR, 29. ÁGÚST Föndur Ég eyddi mestöllum deginum í að leika mér. Ég byrjaði að fikta við að mála fyrir ári í Prag og veit ekkert skemmtilegra en að dunda með liti. Úr því að ég hef ákveðið að sitja hjá þessi jólin og fresta bókinni get ég leyft mér svona munað. Mest gaman finnst mér þegar við Andri málum saman. Hann teiknar guðdómlegar fígúrur sem ég reyni að stæla og aðal- þemað í myndum hans eru átök góðs og ills, eða „vondir menn og góðir“, eins og hann orðar það með mikilli skothríð og blóðsúthellingum. ■ MIÐVIKUDAGUR, 30. ÁGÚST Blindgata í Kaíró Nasjíb Mafús er dáinn. Mafús fékk Nóbelinn 1988 fyrstur þeirra fjölmörgu höfunda sem skrifa á arabísku - og sá eini til þessa. Ég veit um þrjár bækur eftir hann sem hafa verið þýddar á íslensku, en þær gætu verið fleiri. Þær heita „Blindgata í Kaíró“, „Míramar“ og „Þjófar og hundur“. Sigurður A. Magnússon þýddi Blindgötuna og Míramar og Úlfur Hjörvar þá síðastnefndu og eiga heiður skilinn fyrir að opna okkur sýn inn í arabíska bókmenntir. Þegar við Sólveig vorum í Kaíró hérna um árið bauð ég henni á veitingahúsið í gamla miðbænum þar sem Mafús var vanur að sitja umkringdur sinni bókmenntahirð. Sennilega hefur hann verið illa fyrir kallaður þetta kvöld því að hann lét ekki sjá sig. Það þótti mér verra. Reyndar er ég ekki sérlega uppnæmur fyrir því frægðarfólki sem ég hef hitt um dagana. Eina súperstjarnan sem mér þótti þó verulega gaman að hitta og spjalla við var Astrid Lindgren sem ég var svo stálheppinn að vera kynnt- ur fyrir í kokkteilboði í Stokk- hólmi hjá þeim hjónum Silvíu og Karli G. Ekki man ég nú hvað hún sagði, en ég man hvað hún hafði tært augnaráð og svo vottaði annað slagið fyrir skelmsku glotti. Sólveig og krakkarnir tíndu rifs og sólber og í kvöld sauð ég sultur og setti í krukkur. ■ FIMMTUDAGUR, 31. ÁGÚST. Gwyllyn verður Glenn Ég tölti tindilfættur niður í eldhús í morgun að gá hvort sultan hefði hlaupið almennilega. Mælikvarð- inn er hvort hægt er að hvolfa krukkunum án þess að innihaldið detti í gólfið. Sultan haggaðist ekki. Og bragðið! Maður lifandi! Það er nú meira hvað deyr af fólkinu. Mafús í gær og Glenn Ford í dag. Glenn karlinn náði trú- lega aldrei að verða risastjarna, en hann lék í mörgum sterkum myndum sem ég sá í gamla daga. Notalegur náungi sem hafði þann skrýtna sið þegar hann var kom- inn úr kúrekafötunum að safna salt- og piparstaukum af mikilli ástríðu. Nú er komin út ný stafsetningar- orðabók. Íslensk stafsetning er dáldið snúin. En samt held ég að hún sé eins og englasöngur í samanburði við sum önnur mál, til að mynda velsku. Glenn Ford sál- ugi sem var af velskum ættum var reyndar skírður Gwyllyn en hann tók upp nafnið Glenn um leið og hann varð lög- ráða og varð heimsfræg kvik- myndastjarna um leið og hann var búinn að einfalda stafsetninguna. Frænkurnar Inga og Birta komu í pitsupartí. Smátt og smátt er ég að skapa mér nafn sem pitsu- bakari. Það er hægt að hugsa sér verri eftirmæli en: „Hann bakaði prýðilegar pitsur.“ Streptókokkteilsósa Í Dagbók Þráins Bertelssonar er sagt frá meðalafköstum meðalrithöfunda; vikið að Arnaldi Schwartzenegger, sænautakjöti og uppvaski. Einnig er minnst á tréstamp fullan af köldum sjó, blindgötu í Kaíró, dauðagildru fyrir bréf- bera, stafsetningu - og nýja farsótt. Kæra Dagbók Þráinn Bertelsson skrifar agt frá

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.