Fréttablaðið - 02.09.2006, Side 72
2. september 2006 LAUGARDAGUR36
Ísólfur Gylfi fór inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 1995 og sat tvö kjörtímabil, þar til
hann datt út eftir kosningarnar
2003. Það ár tók hann við sveitar-
stjóraembættinu í Hrunamanna-
hreppi en í síðustu sveitarstjórnar-
kosningum bauð hann sig fram í
fjórða sæti á lista Framsóknar-
flokksins í Rangárþingi eystra, þar
sem hann var sveitarstjóri áður en
hann fór á þing. Litlu munaði að
Ísólfur Gylfi næði inn en Fram-
sóknarflokkurinn fékk nær helm-
ing atkvæða. Hann segist ekki úti-
loka að bjóða sig fram til þings í
kosningunum á næsta ári þó hann
kunni vel við sig á Flúðum. Síðast-
liðinn vetur hefur verið nokkuð
annasamur hjá varaþingmannin-
um Ísólfi Gylfa, sem kom inn í stað
Hjálmars Árnasonar sem átti við
veikindi að stríða í vetur.
Líf og fjör á þinginu
„Ég kunni afskaplega vel við mig í
þingmennskunni,“ segir Ísólfur
Gylfi á lítilli en snoturri skrifstofu
sveitarstjórans á Flúðum. „Það var
venjulega líf í tuskunum og nóg
um að vera. Það sem mér þótti þó
verra við þingmennskuna var að
vera eins konar almenningseign
og verða að kunna skil á öllu milli
himins og jarðar, því annars verð-
ur fólkið hissa ef maður kann ekki
alla hluti utanbókar. Það eru marg-
ir sem átta sig ekki á því að þing-
menn hafa sín sérsvið.“
Stundum hefur það verið sagt að
Alþingi hafi ekki lengur á jafn lit-
ríkum persónum að skipa og áður.
Einnig hafa sumir komist þannig
að orði að síðasti sjarmörinn sé
kominn af þingi. „Það getur verið
að eitthvað sé til í þessu,“ segir
Ísólfur Gylfi. „En við verðum líka
að hafa það hugfast að þingið er
þverskurðurinn af þjóðfélaginu og
þjóðfélagið er nú bara orðið þannig
í dag að það má enginn vera öðru-
vísi. Ef barn er örlítið innskeift eða
skrollar þá eru strax komnir sér-
fræðingar til að laga það,“ segir
hann og hlær við. „Svo það er
kannski búið að fletja mannflóruna
svolítið út og þingheim þá í leiðinni.
En það eru þó mjög góðar týpur
núna á þinginu rétt eins og áður. Ég
bíð þó með það að segja frá þessum
týpum, ég geri það kannski þegar
ég gef út æviminningar mínar á
seinni hluta þessarar aldar,“ segir
Ísólfur Gylfi og hlær við.
Sló KK ref fyrir rass í tónlistinni
Þingmennskubakterían er ekki sú
eina sem hrellt hefur sveitarstjór-
ann í Hrunamannahreppi. Tónlist-
arbakterían gerir það að verkum
að hann eggjar fólk til að spila og
syngja með sér hvar sem hann
kemur. Meira að segja þingheimur
fór ekki varhluta af þessari bakt-
eríu Ísólfs Gylfa. Hann spilaði á
bassa í þingmannabandinu með
þeim Sturlu Böðvarssyni, Magnúsi
Stefánssyni, Árna Johnsen og
Gísla S. Einarssyni, bæjarstjóra á
Akranesi.
„Ég spila á gítar, bassa og
trommur,“ segir hann og tekst allur
á loft þegar þetta áhugamál hans er
rætt. „Ég er einmitt með trommu-
settið á stofugólfinu og það er
afskaplega gott að fá útrás á því.
Ég spilaði nú síðast í hádeginu, þess
vegna er ég svona endurnærður,“
segir hann og hlær. „En ég hef ekki
aðeins spilað með þingmönnum því
ég spilaði með Sigga Björns sem nú
er landsþekktur trúbador. Svo hef
ég stundum montað mig af því að
ég komst í skólahljómsveitina á
Núpi í Dýrafirði þegar ég var þar
og þá skaut ég sjálfum KK ref fyrir
rass en hann komst ekki í bandið.
Síðan hefur reyndar leið hans legið
upp á við í bransanum en mín niður
á við.“
Tvær landsþekktar hljómsveit-
ir hafa tekið upp hljómdiska sína á
Flúðum enda hefur Árni Hjaltason
veitingamaður í Útlaganum, sem
er sveitakráin á Flúðum, gert vel
við fjölmarga tónlistarmenn sem
leita í kyrrðina á Flúðum. Sveitar-
stjórinn stóðst ekki mátið að láta
til sín taka á meðan á þeim upptök-
um stóð. „Það voru hljómsveitirn-
ar Hjálmar, ekki Árnason heldur
bara Hjálmar og svo Baggalútur.
Ég gaukaði nú að þeim í Hjálmum
textanum að laginu Ég þarf að fá
mér kærustu og viti menn; það rat-
aði á diskinn.“
Ísólfur Gylfi syngur einnig í
Karlakór Hreppamanna og þegar
hann er spurður um ófarir Fram-
sóknarflokksins að undanförnu
bregður hann fyrir sig myndlík-
ingu úr tónlistarheimnum. „Því er
náttúrlega ekki að neita að aðrir
eru að sækja inn á miðjuna og
þrengja að okkur, vilja syngja í
sömu tóntegund og við. En svo
þurfum við líka að samhæfa söng
okkar framsóknarmanna; það
þýðir ekkert að vera með einhverj-
ar hjáróma raddir úti í sal.“
Það er mikið hringt ...
En hvernig tók fólkið í Hruna-
mannahreppi fyrrum þingmannin-
um þegar hann kom fyrir þremur
árum til að taka um stjórnartaum-
ana? „Ég er óskaplega þakklátur
fyrir það hvað fólk tók mér vel. Það
veit það ef til vill að þó að sveitar-
stjórinn sé pólitískt merktur er það
hlutverk hans að þjóna fólkinu og
ég geri ekkert upp á milli manna,
hvar sem þeir standa í pólitík.
Ég get ekki sagt að ég hafi feng-
ið einhver þung skot á mig en sem
betur fer er þó gert grín að mér á
þorrablótum og við slíkt tækifæri,
skárra væri það nú. Það væri nú
leiðinlegt að vera sveitarstjóri í
samfélagi þar sem enginn gerir
grín að manni. Það minnir mig á
það að þegar ég var kennari á Bif-
röst í gamla daga og allir voru hætt-
ir að gera grín að mér síðasta vet-
urinn, þá fannst mér rétt að fara að
hætta þessu og hætti eftir sex ára
kennslu.“ Spurður hvað menn tíni
til þegar grínast er á kostnað sveit-
arstjórans segir hann að vaxtarlag-
ið kom oft við sögu. „Enda er ég lít-
ill og samanrekinn. En aðrir hafa
meira hugmyndaflug eins og félag-
ar mínir í sundhópnum Vinir Dóra
sem hittast reglulega í Vesturbæj-
arlauginni. Þó ég sé vel syntur á
bringu, bak og fleira og með kenn-
arapróf frá Íþróttakennaraskóla
Íslands eru þeir alveg vissir á því
að ég hafi lært til íþróttakennara í
bréfaskóla SÍS og ASÍ.“
Sjálfur er Ísólfur Gylfi óspar á
grínið, til dæmis svaraði hann eft-
irminnilega þegar hann var inntur
eftir því hvort hann hygði á fram-
boð í forystuhlutverk í Framsókn-
arflokknum: „Það er mikið hringt
... en þó aðallega út af öðru.“
Gaman í Gullhreppnum
Ísólfur Gylfi kann vel við sig í
Hrunamannahreppi. „Þetta er oft
kallaður Gullhreppurinn enda eru
80 prósent af öllu grænmeti lands-
ins ræktuð hér. Hér er grunnskóli
með 200 nemendur, sem er nokkuð
merkilegt fyrir svona fámennt
sveitarfélag sem telur um 800
manns. En við erum einnig í sam-
starfi við Skeiða- og Gnúpverja-
hrepp varðandi elstu bekki grunn-
skólans. Svo er mikill uppgangur
hérna og kraftur í fólkinu enda
hefur það nóg að gera í frítíma
sínum. Hér er mikið um hesta-
mennsku og golf er hálfgerð
skyldugrein hérna enda eru tveir
golfvellir í sveitarfélaginu og geri
aðrir betur.“
Það er völlur á sveitarstjóran-
um þegar hann gengur um bæinn
og heilsar þeim sem á vegi hans
verða og ganga þá jafnan gaman-
yrði á víxl. Hlutverki sveitarstjór-
ans virðist fara honum svo vel að
blaðamaður kemst ekki hjá því að
hugsa sem svo að Ísólfi Gylfa
hljóti að þykja afskaplega gaman á
þingi ef hann er til í að láta þetta
hlutskipti af hendi fyrir karpið á
Austurvelli. ■
Ekki er það svo að tómið gleypi þingmenn þegar
þeir fara af þingi og hverfa frá kastljósi fjöl-
miðlanna. Þó að Ísólfur Gylfi Pálmason sakni
að mörgu leyti hasarsins á Alþingi væsir ekki
um hann á Flúðum í Hrunamannahreppi. Jón
Sigurður Eyjólfsson spjallaði við þennan gaman-
sama sveitarstjóra um þingmennskuna, tónlistina
og lífið á Flúðum.
TROMMARINN RASAR ÚT Ísólfur segir
það nauðsynlegt að fá útrás á tromm-
unum eftir sveitarstjórnarerilinn. Þarna
sleppir hann fram af sér beislinu eftir
erilsaman dag. FRÉTTABLAÐIÐ/JÓN SIGURÐUR Sveitarstjórinn
sem nærist á
glamri og gríni
„Því er náttúrlega ekki að neita að aðrir eru að
sækja inn á miðjuna og þrengja að okkur, vilja
syngja í sömu tóntegund og við. En svo þurfum
við líka að samhæfa söng okkar framsóknar-
manna; það þýðir ekkert að vera með einhverj-
ar hjáróma raddir úti í sal.“