Fréttablaðið - 28.11.2006, Blaðsíða 22
greinar@frettabladid.is
„Umferðaröryggi er meira á
Íslandi en í flestum öðrum
Evrópulöndum“. Þetta þótti mér
áhugaverð frétt, ekki síst í ljósi
þess hvernig aðrar fregnir af
umferðarmálum þjóðarinnar
hafa hljóðað þetta árið. Fyrir
nokkrum dögum var maður
dæmdur til að greiða nokkrar
krónur eftir að hafa ekið á um
140 kílómetra hraða í þéttbýli
þar sem búast má við gangandi
vegfarendum á öllum aldri og
umferð ökutækja er mikil alla
daga. Þetta er því miður ekki
einsdæmi nema síður sé. Það
fylgdi fréttinni af umferðarör-
ygginu að gæði umferðarmann-
virkja skipti sköpum í öryggis-
málum. Ekki ætla ég að draga
það í efa en ég veit hins vegar
ekki hvers lags mannvirki þarf
til að tryggja öryggi þar sem
ökumenn hegða sér eins og
berserkir og við höfum haft
mýmörg dæmi um á síðustu
vikum og mánuðum. Ökumenn
sem stíga bensínið í botn og
þeytast um á öðru hundraðinu
ógna umferðaröryggi og þar með
öllum í kringum sig, hvernig svo
sem mannvirkin eru hönnuð.
Það hefur verið áhugavert að
fylgjast með árangri lögreglunn-
ar á Blönduósi á undanförnum
árum. Þar var einfaldlega skorin
upp herör gegn alvarlegum
umferðarslysum í umdæminu
með því að stórauka eftirlit á
þjóðvegunum. Árangurinn hefur
ekki látið á sér standa, almenn-
ingur hægir á sér í Húnavatns-
sýslum og veiting Umferðar-
ljóssins á dögunum var
verðskulduð. Alvarlegum slysum
hefur fækkað og dregið úr
hraðakstri. Er ekki hægt að fara
að dæmi Blönduósslögreglunnar
víðar? Það er enginn vafi á því að
tvöföldun Reykjanesbrautarinn-
ar er þarft verkefni og árangurs-
ríkt og sama mun gilda um
tvöföldun Suðurlandsvegar. En á
meðan ökumenn leyfa sér að aka
eins og þeir séu í kappakstri
erum við hin í stórhættu, hvort
sem vegir eru einbreiðir,
tvíbreiðir eða fjórbreiðir. Mér
finnst óásættanlegt að menn
skuli komast upp með að aka á
140–170 kílómetra hraða,
refsingarlítið, og ógna þar með
lífi og limum allra í kringum sig.
Árangurinn í Húnavatnssýslum
segir okkur að vegaeftirlit virkar
og þar hefur verið gefið fordæmi
sem ber að fylgja. Það þarf að
fjölga lögreglumönnum og bílum
í eftirliti um allt land, jafnt í
þéttbýli sem á þjóðvegum. Það
þarf að stórhækka sektir, jafnvel
tvöfalda þær, því pyngjan er
góður kennari. Það á að hækka
bílprófsaldur því það er eðlilegt
að ábyrgð ökumanns fylgi
sjálfræðisaldri. Þeir sem hafa
alið upp og starfað með ungling-
um vita hversu mikinn þroska
þeir taka út á hverju ári milli
tektar og tvítugs. Auknum
þroska fylgir aukin ábyrgð og
þess vegna er eðlilegt að álykta
að 18 ára ökumenn séu ábyrgari
en 17 ára ökumenn, þótt sjálfsagt
sé það ekki einhlítt. Það þarf líka
að koma upp æfingasvæði þar
sem öllum verðandi ökumönnum
verði skylt að finna það á eigin
skinni hvað gerist ef eitthvað ber
út af, innan allra öryggismarka
að sjálfsögðu. Þetta kostar
auðvitað allt peninga en ég er
viss um að þetta allt saman,
samtals, er þó ódýrara en sá
fórnarkostnaður sem við færum
í umferðarslysum á hverju ári.
Og umferðarslys eru ekki
óhjákvæmileg eins og hverjar
aðrar náttúruhamfarir.
Umferðin hefur verið
skelfilega mannskæð á þessu ári
og enn eru ökumenn að gera sig
seka um glæfralegan akstur. Það
er ljóst að í alltof mörgum
tilvikum eru vítin ekki til að
varast þau og ef fólk getur ekki
haft vit fyrir sér sjálft þarf að
hafa vit fyrir því. Í þessu
samhengi þarf enginn að efast
um tilgang eða réttmæti þess að
hafa vit fyrir fólki. Öryggi alls
almennings er í húfi. Lögreglu-
menn í Húnavatnssýslum hafa
sýnt okkur hvað þarf til. Aukið
vegaeftirlit dregur úr ofsaakstri
og að auki þarf að þyngja
refsingar við afbrotum í umferð-
inni umtalsvert. Sennilega þarf
reyndar að þyngja viðurlög
almennt en það er önnur saga. En
það er ástæða til að óska
húnvetnskum lögreglumönnum
til hamingju með verðskulduð
verðlaun. Kannski þeir fáist til
að halda námskeið í öðrum
umdæmum.
Umferðarljósið
Fréttablaðið tók í gær viðtal við ungan mann, sem á dóttur sem bíður enn
eftir plássi á frístundaheimili í borginni.
Ræðir ungi maðurinn, Dofri Hermanns-
son, þessa stöðu og gagnrýnir mig m.a.
sem formann ÍTR fyrir að vera athafna-
stjórnmálamann en sinna þó ekki þess-
um skyldum mínum.
Nú er það svo, að enn eru ríflega sjö-
tíu börn á biðlista eftir plássi á frístunda-
heimilum ÍTR. Það er of mikið. En samt
er það um helmingi minna en t.d. á sama
tíma og í fyrra og raunar hefur gengið
betur að fá fólk til starfa síðustu daga,
sem vonandi skilar sér í fækkun barna á biðlista á
næstu dögum. Við höfum líka tekið ákvörðun um
að veita yngstu börnunum forgang, sem og þeim
sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Sömu-
leiðis hefur aldrei verið auglýst jafnmikið eftir
starfsfólki og þetta árið og þá höfum við lagt spurn-
ingar fyrir foreldra barna á biðlista og leitað eftir
þeim sem aðeins þurfa hlutavistun, svo fleiri kom-
ist að.
Allt gerum við þetta vegna þeirrar miklu spurn-
ar sem er eftir vinnuafli. Þetta þekkjum við einnig
frá skólum, leikskólum, verslunargeiranum og
heilbrigðisþjónustunni. Atvinnuleysi er innan við
eitt prósent, atvinnuþátttaka með því
mesta í heiminum og ástandið einfaldlega
mjög erfitt að þessu leytinu til. Það er erf-
itt að fá fólk.
En þetta veit Dofri Hermannsson auð-
vitað. Þótt Fréttablaðið greini ekki frá
því, hefur hann einmitt skrifað áður um
þessi mál í vetur og ávallt með þeim hætti
að reyna að gagnrýna mig persónulega.
Það er hans siður, og hann um það. Dofri
er nefnilega varaborgarfulltrúi Samfylk-
ingarinnar og starfsmaður flokksins og
þess vegna pólitískur andstæðingur, svo
ég læt mér slíkt í léttu rúmi liggja.
Það sem mér finnst alvarlegra er að
Fréttablaðið skuli birta viðtal við Dofra
um þessi mál án þess að geta þess að
Dofri sé stjórnmálamaður og varaborgar-
fulltrúi. Spurningin er: Sagði Dofri Fréttablaðinu
ekki frá því, eða taldi Fréttablaðið ekki að lesendur
ættu að vita af því?
Ég tel skynsamlegast í þessari umræðu að koma
hreint fram, þegar rætt er um viðkvæm pólitísk
deilumál. Ef Dofri Hermannsson telur rétt að
blanda börnum sem þurfa þjónustu frístundaheim-
ilis inn í pólitískan slag, þá hann um það. En hann á
þá að tala um það sem pólitík, en ekki sleppa því
þegar honum hentar. Það er ekki sérlega smekk-
legt.
Höfundur er formaður borgarráðs.
Ekki öll sagan sögð
Það hefur verið áhugavert að
fylgjast með árangri lögregl-
unnar á Blönduósi á undan-
förnum árum.
K
ynbundið ofbeldi tekur á sig margar myndir. Nauðgun er
ein þeirra.
Í núgildandi hegningarlögum er kynferðisleg mis-
neyting ekki skilgreind sem nauðgun nema misneytingin
hafi átt sér stað með ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Aðrar
greinar hegningarlaganna taka til þess að þröngva manni til sam-
ræðis eða kynferðismaka og sömuleiðis þess að notfæra sér veik-
indi eða andlega annmarka til kynferðismaka. Tvennt hið síðar-
nefnda telst ekki vera nauðgun vegna þess að ekkert ofbeldi er þar
talið vera í spilinu og hámarksrefsing er 6 ára fangelsisvistun en 16
ár þegar um nauðgun er að ræða. Á þetta benti Þorbjörg S. Gunn-
laugsdóttir lögfræðingur í erindi sem hún hélt á vegum Mannrétt-
indaskrifstofu Íslands í gær.
Nú liggur fyrir þinginu frumvarp þar sem þessi skilnaður er
upprættur og það skilgreint nauðgun að hafa samræði eða kynferð-
isleg mök við einstakling sem ekki hefur gefið samþykki sitt til
þess. Þetta er afar mikilvæg breyting og raunar nauðsynleg vegna
þess að áherslan flyst frá aðferðinni sem beitt er við nauðgunina
yfir á atburðinn sjálfan, nauðgunina sem felst í því að hafa sam-
ræði við manneskju sem ekki hefur gefið samþykki sitt fyrir því.
Þegar fjallað er um nauðganir er verið að fást við margar fyr-
irframgefnar hugmyndir. Býsna algengt er að varpa ábyrgðinni,
að minnsta kosti að hluta, yfir á fórnarlamb nauðgunarinnar. Þá
er velt upp hugmyndum eins og að konan sem fyrir nauðguninni
varð hefði ekki átt að vera ein á ferð eða að hún hefði átt að gæta
sín betur á áfenginu. Um leið og farið er að velta upp slíkum hug-
myndum er skollaeyrum skellt við þeirri staðreynd að nauðgun er
ofbeldisglæpur sem, eins og aðrir glæpir, er alfarið á ábyrgð ger-
andans. Glæpur hans er jafnmikill hvort sem nauðgunin á sér stað
í heimahúsi eða úti á götu, hvort sem hún á sér stað milli vina eða
fólks sem ekkert þekkist. Glæpurinn er jafnstór hvort sem fórnar-
lamb eða gerandi eru ofurölvi eða hafa aldrei á ævi sinni bragðað
áfengi, hann er jafnstór hvort sem fórnarlambið er í fleginni blússu
og stuttu pilsi eða í Kraftgalla.
Réttur konu, því það er undantekningalítið konum sem er nauðg-
að, til að samþykkja ekki kynlíf er skýlaus og kona sem ekki er í
ástandi til að samþykkja kynlíf, til dæmis vegna þess að hún sefur
áfengissvefni, hafnar kynlífi. Sá sem færir sér slíkt ástand í nyt,
eins og sá sem notfærir sér andlega annmarka einstaklings til sam-
ræðis, nauðgar, rétt eins og sá sem kemur fram vilja sínum með
ofbeldi.
Nú stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Þetta er í
þriðja sinn sem ýmis mannréttindasamtök í landinu standa að slíku
átaki. Hvern dag frá 24. nóvember fram til 10. desember eru við-
burðir sem vekja athygli á ýmsum birtingarmyndum kynbundins
ofbeldis. Þetta er átak sem ber að gefa gaum því kynbundið ofbeldi
verður að uppræta.
Misneyting er
líka nauðgun
„Glæpur hans er jafnmikill hvort sem nauðgunin á sér
stað í heimahúsi eða úti á götu, hvort sem hún á sér
stað milli vina eða fólks sem ekkert þekkist.“
GADDAVÍR
SIGURJÓN MAGNÚSSON
„Frábærlega skrifuð og áleitin saga …“
Fréttablaðið
„Gaddavír er látlaus, hefðbundin, vel
skrifuð skáldsaga sem gefur tilefni til
þess að velta fyrir sér mannlegu eðli…
Í stærra samhengi og táknsögulega
fjallar Gaddavír um erfðasyndina,
þjáningu, jafnvel píslarvætti.“
- Geir Svansson, Morgunblaðið, 3. nóv. 2006
ÁHRIFAMIKIL SKÁLDSAGA
SEM HELDUR LESANDANUM
Í HELJARGREIPUM