Fréttablaðið - 16.03.2007, Blaðsíða 106
Stjörnustúlkur geta
stigið stórt skref í átt að fyrsta
Íslandsmeistaratitli sínum í átta
ár þegar þær sækja Valsstúlkur
heim í Laugardalshöllina í DHL-
deild kvenna í kvöld en með sigri
getur liðið náð fjögurra stiga for-
skoti á toppnum auk þess að eiga
leik inni. Til að svo geti farið þarf
Stjörnuliðið að gera eitthvað sem
hefur ekki tekist í vetur – að vinna
Val.
„Við erum búnar að tapa báðum
leikjunum og ég veit eiginlega ekki
af hverju. Við spiluðum illa á móti
þeim og þær voru virkilega vel
stemmdar og spiluðu vel í báðum
þessum leikjum á móti okkur,“
segir Rakel Dögg Bragadóttir sem
er markahæsti leikmaður Stjörn-
unnar í vetur. „Vandamálið hjá
okkur á móti Val er búið að vera
okkar sóknarleikur. Við þurfum að
hugsa um okkar sóknarleik,“ segir
Rakel en Stjarnan sem hefur skor-
að 31,6 mörk að meðaltali í deild-
inni í vetur hefur aðeins skorað 36
mörk samtals í leikjunum á móti
Val. „Mér finnst Valsliðið rosa-
lega sterkt þótt þær hafi verið
að klúðra málunum sínum í und-
anförnum leikjum,“ segir Rakel
en Valsliðið tapaði meðal annars
mjög óvænt á móti Fram á dögun-
um og verður að vinna Stjörnuna
ætli liðið sér titilinn.
Rakel segist alveg sjá í gegn um
sálfræðibragð Ágústar Jóhanns-
sonar þjálfara um að Valsliðið sé
bara sátt með 2. sætið. „Þær eru
að setja pressuna á okkur og fría
sjálfar sig um leið undan ábyrgð.
Það er krafa hjá okkur að klára
þennan leik á móti Val sem og þá
tvo næstu sem eru á móti Gróttu
og Haukum. Næstu tíu dagar eru
aðaldagarnir fyrir okkur,“ segir
Rakel. „Ef við klárum þessa leiki
lítur þetta óskaplega vel út fyrir
okkur en það þarf ekki mikið að
fara úrskeiðis til þess að Valur sé
komið upp að hliðinni á okkur. Við
þurfum að halda einbeitingunni,“
segir Rakel og hún veit að Garð-
bæingar vilja fá titilinn heim.
„Það er verið að krefjast titils
alls staðar í Garðabænum núna,“
segir Rakel sem hefur skorað 7,1
mark að meðaltali í leik í vetur en
„aðeins“ 7 mörk samtals í leikjun-
um tveimur á móti Val. „Ég var
ekki sátt með minn leik síðast á
móti Val og vil bæta úr því eins
og við allar í liðinu. Við erum með
rosalega góða breidd og ef við
náum að nýta hana rétt þá er erf-
itt fyrir lið að mæta okkur,“ segir
Rakel að lokum.
Tekst Stjörnunni loksins að leggja Val að velli?
Í kvöld er stórleik-
ur í Kölnarena er Gummersbach
tekur á móti meisturum Kiel í
þýsku úrvalsdeildinni. Þrír lands-
liðsmenn eru í lykilhlutverk-
um hjá Gummersbach sem og að
landsliðsþjálfarinn Alfreð Gísla-
son stýrir liðinu.
„Það eru tvö stig í boði eins og
venjulega,“ sagði Guðjón Valur
við Fréttablaðið í gær af sinni al-
kunnu yfirvegun. „En ef við vinn-
um getum við jafnað toppliðið.
Við höfum spilað marga toppleiki
upp á síðkastið og menn ættu því
að vera orðnir vanir þeim aðstæð-
um,“ sagði hann.
Kiel er í efsta sæti deildarinn-
ar með 40 stig en Hamburg og
Gummersbach koma næst með 38
stig. Hamburg er með hagstæðari
markatölu. Kiel hefur lengi verið
topplið í þýska boltanum og unnið
deildina í níu skipti síðustu þrett-
án tímabil. Gummersbach varð
síðast Þýskalandsmeistari árið
1991.
Mikið hefur mætt á handbolta-
köppum undanfarið eftir mikla
keyrslu á HM. Þýska deildin hófst
svo aðeins viku síðar og hafa Evr-
ópukeppnirnar einnig verið í full-
um gangi. Guðjón Valur segist
þó vera í góðu ásigkomulagi þótt
hann hafi spilað nánast hverja
einustu mínútu sem hægt var á
HM.
„Ætli andlega áreitið hafi ekki
verið meira en það líkamlega. Ég
átti fyrst og fremst erfitt með að
sætta mig við niðurstöðuna. Ég
hef svo sem ekki verið fullkom-
lega sáttur við alla mína leiki með
Gummersbach síðan HM lauk en
líkamlega líður mér mjög vel,“
sagði hann.
„Við munum koma vel úthvíld-
ir til leiks á morgun enda spiluð-
um við síðast á laugardaginn. Al-
freð hefur því haft góðan tíma til
að undirbúa okkur fyrir þennan
leik.“
Gummersbach datt úr leik í
fjórðungsúrslitum Meistara-
deildarinnar fyrir spænska liðinu
Valladolid. Guðjón Valur segir að
það hafi verið gríðarlega svekkj-
andi.
„Við vorum og erum enn afar
svekktir með þá niðurstöðu. Við
vorum með þetta í höndunum en
Valladolid spilaði frábærlega og
átti skilað að vinna. Nú gildir það
að tryggja okkur inn í Meistara-
deildina næsta tímabil.“
Efstu þrjú liðin í deildinni
tryggja sér þátttökurétt í deild-
inni næsta tímabil en ef þýskt
lið vinnur keppnina í vor komast
efstu fjögur liðin áfram.
Guðjón Valur segir að mikið
sé eftir af tímabilinu og ekkert
sé í höfn þó að liðið vinni Kiel í
kvöld. „Það er þó rétt að mögu-
leikar á titlinum minnka mikið
ef við töpum í kvöld en við erum
fyrst og fremst að einbeita okkur
að Meistaradeildarsæti. Allt liðið
hefur verið að spila vel að undan-
förnu og það ætti einnig að koma
okkur til góða að við erum eina
liðið af efstu fimm í deildinni sem
eru ekki lengur með í Evrópu-
keppnunum.“
Leikurinn hefst klukkan 18.30 í
kvöld og er í beinni útsendingu á
Sýn.
Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í Gummersbach taka á móti Kiel í toppslag
þýska boltans í kvöld. Uppselt er í Kölnarena þar sem 19.400 manns sjá leikinn.
Leik FH og HB frá Fær-
eyjum hefur verið frestað um
óákveðinn tíma. Um er að ræða
árlegan leik Íslands- og Fær-
eyjameistaranna í knattspyrnu
sem hefur farið fram undanfar-
in fimm ár undir heitinu Atlant-
ic Cup. Nú mun keppnin framveg-
is heita NATA Cup þar sem nýtt
fyrirkomulag er á fjármögnun
keppninnar.
„Það er búið að fresta leikn-
um og knattspyrnusamböndin eru
nú að reyna að finna leikdag sem
gæti gengið upp fyrir báða aðila,“
sagði Birkir Sveinsson, móta-
stjóri KSÍ, við Fréttablaðið í gær.
Vestnorrænn samstarfssamn-
ingur hefur fjármagnað keppn-
ina undanfarin ár en sá samn-
ingstími er nú liðinn. „Við vissum
ekki af þessu fyrr en allt of seint.
Nú hefur annar samstarfssamn-
ingur, NATA, tekið að sér að fjár-
magna keppnina. Það er því ljóst
að ef svo fer að leikurinn fari
ekki fram í vor verður þráðurinn
tekinn upp að nýju á næsta ári.“
Leitað að nýj-
um leikdegi
Einvígi Njarðvíkur og
Hamars/Selfoss annars vegar og
Skallagríms og Grindavíkur hins
vegar hefjast í kvöld klukkan
19.15 í Njarðvík og Borgarnesi.
Njarðvík sló Hamar 2-0 út úr 8
liða úrslitunum í eina skiptið sem
liðin hafa mæst en Skallagrím-
ur og Grindavík eru hins vegar að
mætast í fjórða sinn þar af annað
árið í röð.
Það vekur athygli að í öll þrjú
skiptin hefur liðið með heima-
vallarréttinn unnið einvígið 2-0.
Grindavík vann einvígi liðanna
1996 og 1997 og fór síðan alla leið
í lokaúrslitin. Skallagrímur vann
síðan einvígi liðanna í fyrra 2-0
og fór þá líka alla leið í lokaúrslit-
in á móti Njarðvík.
Aldrei farið í
oddaleik
Guðmundur E. Step-
hensen, Íslandsmeistari í borð-
tennis, er kominn í úrslit um
sænska meistaratitilinn ásamt
félögum sínum í sænska liðinu
Eslövs.
Eslövs vann 5-1 stórsigur á
Lyckeby BTK í seinni leik liðsins
í undanúrslitum en fyrri viður-
eignina vann liðið 5-2. Guðmund-
ur vann tvo af þremur leikjum
sínum í einvíginu þar af öruggan
3-1 sigur á Henrik Rosvall í seinni
leiknum. Guðmundur og félagar
mæta BTK Rekord í úrslitunum
sem hefjast 6. apríl næstkomandi.
Guðmundur og
félagar í úrslit
Phoenix Suns vann
129-127 sigur á Dallas í tvífram-
lengdum leik í uppgjöri tveggja
bestu NBA-liðanna í fyrrakvöld.
Þetta var annað tap Dallas í röð
eftir að liðið vann 17 leiki í röð.
Leikurinn boðar gott fyrir úr-
slitakeppnina en hann var upp-
fullur af miklum sveiflum og mik-
illi dramatík. Amare Stoudem-
ire hjá Phoenic stal senunni í lok
leiksins en hann endaði leikinn
með 41 stigi og 10 fráköst. Steve
Nash bætti við 32 stigum og 16
stoðsendingum fyrir Phoenix og
tryggði meðal annars fyrri fram-
lenginguna með því að skora 10
stig á lokamínútu leiksins.
Hjá Dallas var Jerry Stack-
house með 33 stig og Dirk Nowitz-
ki bætti við 30 stigum, 16 fráköst-
um og 6 stoðsendingum. Jason
Terry tryggði Dallas seinni fram-
lenginguna með þriggja stiga
körfu en tvær troðslur og alls 6
stig frá Stoudemire gerðu úti um
seinni framlenginguna.
Tvíframlengt í
toppslagnum
SPRON hefur ákveð-
ið að styðja vel við bakið á Rögnu
Ingólfsdóttur sem er að fara að
gera lokaatlöguna við að kom-
ast inn á Ólympíuleikana í Peking
2008. Samningurinn er til tveggja
ára og á sams konar nótum og sá
sem SPRON hefur gert við stang-
arstökkvarann Þóreyju Eddu Elís-
dóttur.
„Ég vil fara á mótin í Asíu sem er
mjög dýrt að fara á. Það skiptir því
miklu máli að fá svona styrk. Þessi
mót gefa miklu fleiri stig en mótin
í Evrópu. Ég hef líka aldrei farið til
Asíu þannig að ég þarf að prófa það
núna í sumar. Ég þarf að sjá hvern-
ig þetta er því Ólympíuleikarnir
eru í Peking,“ sagði Ragna eftir að
hún hafði skrifað undir samning-
inn í gær. Markmiðið með honum
er að auðvelda Rögnu undirbúning
og þátttöku í æfinga- og keppnis-
ferðum.
„Þessi styrkur skiptir mjög miklu
máli fyrir mig og ég sé ekki fram á
að ég hefði getað gert það sem ég vil
gera til að komast á Ólympíuleik-
ana nema af því að ég fékk þenn-
an styrk. Ég trúi þessu fyrst núna
þegar ég er búin að skrifa undir,“
segir Ragna kát og hún er staðráðin
í að komast til Peking.
„Ég stefndi á að komast á Ólymp-
íuleikana fyrir fjórum árum þannig
að nú er ég reynslunni ríkari. Ég
trúi því innilega að ég komist á
leikana í Peking og efast ekki um
það,“ segir Ragna full sjálfstrausts
og það er ljóst að frábær frammi-
staða hennar síðustu mánuði gefur
henni ástæðu til bjartsýni.
„Hún er að reyna að vinna sig
upp heimslistann og komast í góða
stöðu fyrir 1. maí. Hún er í 50.
sæti á heimslistanum og við erum
að vonast til þess að hún komist
niður í 40. sæti fyrir 1. maí. Það
er geysilega sterkt að vera komin
svona hátt,“ sagði Árni Þór Hall-
grímsson, landsliðsþjálfari Ís-
lands í badminton, og bætir við.
„Ég fór á fyrstu badminton-
leikana í Barcelona 1992 og það
var alveg meiri háttar gaman.
Vonandi tekst henni að komast til
Peking því hún á mjög góða mögu-
leika. Leikarnir eru á fjögurra ára
fresti og þátttökulágmörkin eru
gríðarlega ströng og erfið þannig
að það verður einstakt afrek hjá
henni nái hún þessu.“
Bjartsýn á að komast til Peking