Fréttablaðið - 08.05.2007, Síða 27
Þorgils Eiður Einarsson, 13 ára, hreppti silf-
urverðlaun á Norðurlandamóti í kung fu um
helgina.
Það er engum ofsögum sagt að íslenskir keppendur
hafi staðið sig vel á Norðurlandamóti í kung fu, sem
haldið var í Osló um helgina. Keppendurnir, sem eru
á aldrinum átta til þrettán ára, hrepptu tvenn gull-
verðlaun og ein silfur, sem hlýtur að teljast góður ár-
angur í ljósi þess að kung fu hefur aðeins verið kennt
hérlendis síðastliðin þrjú ár. Með í för var Þorgils
Eiður Einarsson, 13 ára, sem getur vel við unað þar
sem hann sneri heim með silfur í farteskinu.
„Þetta var algjör snilld,“ segir Þorgils um árang-
urinn. Hann skemmti sér konunglega í ferðinni, en
hann hafði ekki komið áður til Noregs. „Við vorum í
einn dag og sýndum sérstakar sverðæfingar, sem ég
var búinn að æfa í mánuð. Þetta voru bara hreyfing-
ar. Engin slagsmál.“ Þorgils tekur kung fu auðheyri-
lega alvarlega, því ekki er nóg með að hann hafi æft
á hverjum degi fyrir mótið klukkutíma í senn, heldur
passar hann vel upp á mataræðið. „Ég borða góðan ís-
lenskan mat. Líka fullt af ávöxtum og grænmeti.“
Að sögn Þorgils vaknaði áhuginn fyrir bardagalist-
um snemma og var hann aðeins tíu ára þegar hann
byrjaði að æfa kung fu. „Ég var að lesa Fréttablaðið
með pabba og sá kung fu námskeið auglýst í Heilsu-
drekanum. Ég ákvað að prófa, þótt ég væri líka að
æfa tai-kwan-do. Svo valdi ég bara kung fu. Tai-kwan-
do er samt alveg skemmtilegt líka.“
Á næsta ári fer Norðurlandamótið fram í Finnlandi
og hyggst Þorgils taka aftur þátt ásamt hópi hressra
krakka á vegum Heilsudrekans.
Ungar bardagahetjur