Fréttablaðið - 01.09.2007, Blaðsíða 35
Freyr Jónsson tæknifræðingur hefur hannað
margar breytingar fyrir íslenska jeppa. Sjálfur
er hann á Toyota-jeppa sem leynir svo sannar-
lega á sér.
„Ég er búinn að vera á sama Toyota Hi-Lux jeppanum
síðan 1993. Ég keypti bílinn nýjan og tók hann þá í
gegn. Ég setti í hann sérsmíðaða fjöðrun ásamt vél
og afturhásingu úr Land Cruiser svo hann myndi
henta mínum lífsstíl,“ segir Freyr Jónsson, tækni-
fræðingur og fjallamaður.
Hann hefur stundað fjallamennskuna í yfir
tuttugu ár og er bæði meðlimur í Jöklarannsóknafé-
lagi Íslands og umhverfisnefnd Ferðaklúbbsins 4x4.
„Jöklarannsóknafélagið var stofnað um 1950 af
áhugamönnum um jöklaferðir sem höfðu tæki og
getu til að fara á jökla við erfiðar aðstæður, ásamt
vísindamönnum sem þurftu að komast upp á jökul
til að rannsaka meðal annars afkomu jökulsins og
eldfjallavirkni,“ segir Freyr, sem ferðast einnig
mikið með félögum sínum í 4x4.
Hann hefur hannað gríðarlega margar breytingar
fyrir jeppa og fjallabíla, svo sem fyrir fjalla-
mennsku, björgunarsveitir og leiðangra á jafn fjar-
lægar slóðir og Grænlandsjökul og Suðurskauts-
landið.
Freyr starfaði lengi hjá Arctic Trucks þegar það
var undir Toyota og sá þá um hönnun á breytingum.
„Þetta var mikið af fjöðrunarbreytingum auk þess
sem ég hannaði nýtt þrjátíu og átta tommu dekk. Við
vorum með dekk sem gripu vel í drullu og sandi en
vantaði alveg dekk sem greip vel í snjó,“ segir Freyr,
sem segir að hönnun og prófun á breytingum á bílum
sé einstök hérlendis.
„Lög um bílabreytingar eru mjög raunhæf á
Íslandi. Við erum með gott eftirlit og getum því gert
þessar breytingar á skynsaman og öruggan hátt.
Enda verða aksturseiginleikar breyttra jeppa mun
betri, til að mynda í lausamöl,“ segir Freyr, sem
ferðast um á jeppanum jafnt að sumri sem að vetri.
„Ég var um þrjátíu daga á fjöllum síðastliðinn
vetur og fer þá helst í Grímsvötn og Jökulheima,
sem eru mínir uppáhaldsstaðir,“ segir Freyr.
Fram undan er stikuferð hjá Ferðaklúbbnum 4x4
þar sem stikuð verður svokölluð Bárðargata.
„Margar slóðir á hálendinu hverfa undir foksand
eða vatn. Þess vegna er mikilvægt að stika reglu-
lega til að halda umhverfinu snyrtilegu og vernda
það,“ segir Freyr.
Bílabreytingar eru
einstakar á Íslandi
Ferðaskrifstofa
Auglýsingasími
– Mest lesið