Fréttablaðið - 01.09.2007, Blaðsíða 68
H
öfnin í Keflavík. Fyrsti
tökudagur. Hópur ungl-
inga hefur safnast saman
við sjoppu með djús í bjór-
flöskum og læti. Fljótlega
beinist athyglin að aðal-
persónunum fjórum, leiknum af Heru
Hilmarsdóttur, Atla Óskari Fjalarssyni,
Sigurði Jakobi Helgasyni og Þórunni Jak-
obsdóttur. Leikstjóri er Rúnar Rúnarsson
og samnemendur hans í Danska kvik-
myndaskólanum eru í tökuliðinu ásamt
Íslendingum. Rúnar vakti töluverða athygli
í fyrra þegar hann var tilnefndur til Ósk-
arsverðlauna fyrir stuttmyndina Síðasti
bærinn. Þá var hann nýbyrjaður í
kvikmyndanáminu. Þessi mynd sem ber
heitið 2 Birds er næsta stóra verkefnið
hans á eftir Síðasta bænum.
Strákarnir hrósa Atla fyrir góðan leik eftir
að fyrstu senurnar hafa verið festar á
filmu. Atli leikur Óla sem er skotinn í Láru
sem er leikin af Heru.
„Þarna eiga sér stað ákveðnir atburðir
sem ég tel að verði innlegg í samfélagsum-
ræðuna,“ útskýrir Rúnar. „Þetta er falleg
saga tveggja einstaklinga sem á erindi til
fólks. Þetta er vaxtarsaga Óla, saga af því
þegar strákur verður að manni.“
Rúnar er hálfnaður með kvikmyndanám-
ið en ákvað að koma heim og gera þessa
mynd fyrir utan skóla en myndin er fram-
leidd af Zik Zak.
„Ég var einu sinni unglingur og langaði
að gera mynd um unglinga. Ég hef gert
margar myndir um gamalt fólk og langaði
núna að gera mynd um yngra fólk. Það
skiptir reyndar ekki máli hvort persónurn-
ar eru ungar eða gamlar, þetta eru alltaf
sömu sögurnar á einn eða annan hátt. Per-
sónur sem heilla mig eru gjarnan staddar á
einhvers konar vendipunkti í lífinu vegna
ytri aðstæðna sem þær geta ekki stjórnað.
Þarna upplifum við sakleysi æskunnar með
súrsætu eftirbragði,“ segir Rúnar án þess
að vilja gefa upp atburðarásina í mynd-
inni.
Í myndinni villast unglingarnir inn í fullorð-
inspartí þar sem nokkrir vafasamir ein-
staklingar eru samankomnir. „Þetta er raun-
sæ mynd. Svona partí eru að gerast í hverri
viku. Yfirleitt væri krökkum hent öfugum
út en þetta er samt veruleiki sem á sér stað.
Og unglingar drekka bjór og reykja. Það er
ákveðin samfélagsspeglun sem á sér stað í
myndinni. Þó að sagan sé falleg ástarsaga,
þá eru skúmaskot alls staðar í samfélaginu
sem koma þarna í ljós.“ Þó að unglingar fari
með aðalhlutverkin í myndinni þá er þetta
engin unglingamynd og verður líklega bönn-
uð innan 16 ára.
Leikararnir eru allir óreyndir og hafa í
mesta lagi tekið þátt í skólaleikritum. Hera
hefur nokkuð meiri reynslu með Leikfélagi
Menntaskólans í Hamrahlíð og Atli hefur
fyrir utan skólaleikrit fengist við að tal-
setja teiknimyndir.
„Ég gengst upp í lágstemmdum leikstíl
og legg mikið á mig til að finna réttu leikar-
ana,“ segir Rúnar. „Það var rosalega mikil
vinna að finna rétta fólkið. Við héldum
áheyrnarpróf allt sumarið og um 100 ungl-
ingar mættu í prufur.“
Atvinnuleikurum bregður fyrir í mynd-
inni í smærri hlutverkum, Gísli Örn
Garðarson og Víkingur Kristjánsson úr
Vesturporti leika til dæmis partígesti.
„Þau fjögur sem við völdum í aðalhlut-
verkin stóðu sig rosalega vel, frammistaða
þeirra fór fram úr björtustu vonum. Þau
eru ekki skóluð þannig að þau leika frá
hjartanu, það sem kemur frá þeim grípur
mann 100%. Það gekk mjög vel að láta
óvana leikara leika á móti vönum enda
mikið hæfileikafólk þar á ferð,“ segir
Rúnar ánægður með afraksturinn og hlakk-
ar til að byrja að klippa.
Tökur fóru fram á varnarsvæðinu í Kefla-
vík sem hefur staðið autt síðan herinn fór
af landi og lánaði Kadeco: Þróunarfélag
Keflavíkurflugvallar heila blokk fyrir tök-
urnar. Það var því lítið mál að breyta einni
af tómu íbúðunum í subbulegt partípleis.
„Þetta er mjög skrítinn staður. Maður er
vanur í upptökum að vera í vandræðum
með að leggja bílum og þurfa að stoppa
umferð eða biðja fólk í næstu húsum að
lækka í græjunum. Þarna höfðum við heilt
þorp út af fyrir okkur. Þróunarfélagið á
stórar þakkir skildar fyrir að styðja svona
vel við bakið á okkur,“ leggur Rúnar áherslu
á.
Við tökur á stuttmynd skiptir hver mín-
úta máli og lítið má útaf bregða. „Það er
mikið í húfi þegar verið er að taka stutt-
mynd. Ef eitthvað fer úrskeiðis þá er ramm-
inn miklu knappari. Það eru alltaf einhverj-
ar brekkur þegar svona tökur eiga sér stað
en allir lögðust á eitt við að leysa málin. Það
er rosalega góð tilfinning þegar tökuliðið er
að gera meira en mæta bara í vinnuna. Það
var til dæmis erfitt að fá fólk í fjöldatökur
um verslunarmannahelgi þannig að hluti af
tökuliðinu skellti sér í þungarokksboli og
meiköpp og endaði fyrir framan myndavél-
ina. Eitthvað sem gerist eiginlega aldrei.“
Myndin verður ekki sýnd fyrr en á næsta
ári. Það er reyndar nóg að gera hjá Rúnari
í skólanum en þetta er stærsta verkefnið
hans síðan Síðasti bærinn. Ætli það sé
aukin pressa eftir óskarstilnefningu?
„Nei, ég hef alltaf verið svo mikill bölv-
aður egóisti að það er eiginlega ekki á það
bætandi. Ég hef bara verið að bíða eftir því
að aðrir átti sig á því hvað ég er mikill snill-
ingur. Ég hef reyndar metnað fyrir hverju
einasta verkefni sem ég tek mér fyrir
hendur sama hversu lítið eða stórt það er.
Þannig að ég er búinn að leggja sál mína
nokkrum sinnum að veði síðan Síðasta
bæinn. Það er gott að vera í þessu skólaum-
hverfi. Ég get prufað hitt og þetta sem ég
hefði ekki tækifæri til annars. Það er gerj-
un og gredda í gangi í skólanum og talað
um bíó frá því að maður mætir á morgnana
og fær sér fyrsta kaffibollann og sígarett-
una og þangað til maður fær sér síðasta
bollann og rettuna og hjólar heim.“
Tveir fuglar Rúnars
Brjálað partí, dóp, blákaldur raunveruleiki, skúmaskot samfélagsins og falleg
ástarsaga tveggja unglinga. Hanna Björk Valsdóttir fylgdist með tökum á
nýjustu mynd Rúnars Rúnarssonar á beisinu í Keflavík.
Persónur
sem heilla
mig eru
gjarnan
staddar á
einhvers
konar vendi-
punkti
í lífinu
vegna ytri
aðstæðna
sem þær
geta ekki
stjórnað.
Þarna
upplifum
við sakleysi
æskunnar
með súrsætu
eftirbragði.