Fréttablaðið - 08.06.2008, Side 74

Fréttablaðið - 08.06.2008, Side 74
18 8. júní 2008 SUNNUDAGUR Þá mælti móðir mín að einu lífi hefði þegar verið fórnað fyrir heimilið svo það væri eins gott að standa sig í stykkinu. F erðalög enda ekki alltaf eins og áætlan- ir gera ráð fyrir. En þegar allt virðist hafa farið á versta veg má hafa í huga að fall er fararheill. Að minnsta kosti var það svo í ferðalagi búddamunks- ins Lamas Tenzins Choegyal þegar hann ferðaðist frá heima- landi sínu, Indlandi, árið 2000 til Dolpo-héraðs sem er við landa- mæri Nepals og Tíbets. Þá virtist allt fara á versta veg en afrakst- ur ferðarinnar vegur heldur betur á móti verstu svaðilförum. Um miðjan maí síðastliðinn kom hann til Íslands þar sem hann var viðstaddur viðburði sem velunnarar héldu til að afla fjár fyrir mannúðarstarf hans á Indlandi. Hann gaf sér tíma til að rifja upp fyrir blaðamanni svaðilförina og afrakstur henn- ar. Auralausir og áttavilltir munkar „Ég fór ásamt tveimur bræðrum mínum til Himalajafjalla en þar sem við höfðum alið manninn lengst af í klaustri vorum við ekki sérlega veraldarvanir ferða- langar og vissum ekki alveg hvernig við áttum að bera okkur að,“ rifjar Lama Tenzin upp. „Þetta er alls engin ferðamanna- staður því þarna er fátækt mikil og innviðir samfélagsins í lama- sessi. Og í raun er afar dýrt að fara þessa löngu leið svo við vorum með mikið af peningum meðferðis. En það vildi ekki betur til en svo að uppreisnarmenn í Nepal rændu okkur. Við höfðum leið- sögumann með okkur en þegar hann sá fram á að við værum ekki lengur borgunarmenn fyrir þjónustuna lét hann sig hverfa. Við stóðum því eftir slyppir og snauðir á slóðum þar sem við þekktum ekkert til og höfðum ekki hugmynd um hvernig við ættum að komast til baka. Til að bæta gráu ofan á svart villtumst við og vorum týndir í viku. En það var vissulega hugg- un harmi gegn að við vorum munkar og fólk í þorpunum er vant að sjá á eftir einhverju smá- ræði til þeirra. Eins gátum við boðið upp á trúarlegt starf svo að við komumst af í einu þorpi sem er ekki einu sinni á landakorti.“ Stúlkan með bjórinn í smalamennskunni „En meðan við vorum að veita fólki tilsögn þarna þá kynntumst við í leiðinni högum þess afar vel,“ segir Lama Tenzin. „Og það sem sló okkur hvað mest var bágur hagur stúlkna. Til dæmis bjuggum við í sama húsi og ein sjö ára stúlka sem vann myrkr anna á milli en hafði enga aðstöðu fyrir eigin umhirðu. Hún var send hátt upp í fjöll til að smala og var þá eingöngu með bjór meðferðis. Hann er reyndar ólíkur þeim sem tíðkast á Vest- urlöndum en menn telja hann nauðsynlegan í þessar fjallaferð- ir þar sem hann veitir þeim orku. Þegar hún kom úr slíkri ferð á kvöldin biðu hennar gegningar og þannig tók hvert verkið við af öðru þar til hún gat loksins hall- að höfði. Einu skiptin sem stúlkurnar gátu gert eitthvað fyrir sjálfar sig var þegar þær komu saman í litlu herbergi og lásu sér til gam- ans við kertaljós og það kom mér á óvart hvað þær voru einbeittar og áhugasamar við þá iðju. Ég hreifst af þessu og hugsaði sem svo að á þessum grunni væri hægt að byggja en viðhorf feðr- anna var það að stúlkur þyrftu engrar menntunar við. Viðkvæði þeirra var á þá leið að stúlkur ættu aðeins að læra um dýra- og heimilishald, annað væri bara sóun á tíma og orku.“ Brá þegar rödd heyrðist í útvarpinu Loks komst Lama Tenzin aftur til síns heima en hugurinn dvaldi við börnin sem hann hafði kynnst í hinu strjálbýla og harðneskju- lega héraði Dolpo. Hann var ákveðinn í að gera eitthvað sem bætt gæti hag æskunnar þar. Fjölskylda hans átti jörð á Ind- landi og ráðgert hafði verið að byggja þar klaustur en svaðil- förin varð til þess að þeim áætl- unum var breytt. „Ég ákvað þess í stað að reisa þar munaðarleys- ingjaheimili fyrir börn frá Dolpo,“ segir hann. Árið 2001 komu fyrstu börnin þangað, fjór- ir drengir og sjö stúlkur. „Það voru mikil viðbrigði fyrir þau að koma og njóta aðstæðna sem þau höfðu ekki kynnst áður. Þau kunnu ekki að bursta tennurnar og ein stúlkan brást við með miklum látum þegar hún heyrði rödd í útvarpinu.“ Lífi fórnað fyrir heimilið En þótt landið væri til staðar þurfti mikið fjármagn til að koma heimilinu á koppinn og lögðu móðir hans og systir mikið af mörkum í þeirri viðleitni hans. „Móðir mín seldi fyrirtæki sitt til að setja peninga í rekstur- inn og svo fór hún víða um til að afla meira fjármagns. Þegar hún og systir mín komu eftir ferðalag um nær endilangt Indland til að verða við opnun heimilisins mælti móðir mín að einu lífi hefði þegar verið fórnað fyrir heimilið svo það væri eins gott að standa sig í stykkinu. Mér var náttúrulega brugðið,“ segir Lama Tenzin. „Þannig var mál með vexti að þegar systir mín var að ferðast vegna sölunnar og fjáröflunar- innar þá sló hún aldrei slöku við jafnvel þótt hún væri komin átta mánuði á leið. Svo var hún í átján klukkustunda lestarferð í mikl- um hita og við slæmar aðstæður en þá leið yfir hana. Hún vakn- aði svo til meðvitundar á spítala og vissi ekkert hvað klukkan sló. Þar var henni tjáð að hún hefði misst barnið. Hún varð vissulega afar sorg- mædd vegna þess en samt sem áður hundsaði hún orð lækna sem sögðu að nú þyrfti hún að hvílast, fór á fætur og hélt ferð og vinnu sinni áfram. Þegar ég frétti þetta varð ég alveg miður mín og spurði móður mína af hverju enginn hefði sagt mér frá neinu en ég vissi ekki einu sinni að hún væri ólétt enda bjuggum við systir mín langt frá hvort öðru. En þá sagði móðir mín að þær hefðu ekki viljað valda mér áhyggjum af þessu þar sem þær óttuðust að þá myndi ég slá slöku við að ýta úr vör. Og svo sagði hún að það starf sem varð til þess að hún missti barnið gæti orðið til þess að fjöldi annarra barna gæti lifað mannsæmandi lífi þá hefði fórnin verið þess virði. Ég var vissulega sleginn en ég varð upp frá þessari stundu hand- viss um að munaðarleysingja- heimilið yrði ekki aðeins eitt- hvert verkefni heldur köllun.“ Eignast íslenska vini Í dag búa tuttugu börn á heimil- inu. Þau fara í einkaskóla og fá víðtæka þjálfun sem miðast meðal annars að því að koma þurfandi börnum til hjálpar. Lama Tenzin ferðast víða um heim til að kynna starf samtak- anna The Children‘s Education Development en þau hafa veg og vanda af heimilinu. Þegar hann var í einni af sínum tíðu ferðum til New York kynntist hann Önnu Halldórsdóttur Spaid sem búsett er þar í borg. Með honum í för var veik stúlka frá heimilinu sem fékk læknismeðferð þar vestanhafs. Í framhaldi af því komst hann í samband við félag- ið Vinir Tíbets á Íslandi en hann og börnin frá Dolpo eiga rætur sínar að rekja til Tíbets. Hann kom hingað til lands í síðasta mánuði og var þá meðal annars haldin fjáröflunarhátíð í Gerðubergi undir yfirskriftinni Fjölskylduhátíð í þágu barnanna í Himalaja. Einnig var efnt til samkomu í Iðnó 14. maí síðast- liðinn þar sem hópur listamanna tók höndum saman og setti af stað styrktarsöfnun fyrir heim- ilið. Þar var Lama Tenzin sjálfur viðstaddur og ávarpaði samkom- una. Íslandsferðin reyndist engin svaðilför eins og sú sem hann fór til Nepals en vonandi á hún eftir að bera góðan ávöxt og sanna það að fall sé fararheill. Villtist og fann köllun sína LAMA TENZIN CHOEGYAL Í REYKJAVÍK Búddamunkurinn gerði góða ferð til Íslands í síðasta mánuði en ferðin sem hann fór til Nepals fyrir átta árum var mikil svaðilför, þar varð hann fyrir barðinu á uppreisnarmönnum og var á hálfgerðum vergangi á eftir. En fall er fararheill. MYND/JÓN SIGURÐUR Búddamunkurinn Lama Tenzin Choegyal varð fyrir barðinu á uppreisnarmönnum og var týndur, slyppur og snauður við rætur Himalajafjalla. En viti menn, það var hans mesta gæfa. Í Íslandsferð sinni sagði hann Jóni Sigurði Eyjólfssyni blaða- manni alla söguna. NORÐUR-INDLAND, NEPAL OG TÍBET INDLAND NEPAL TÍBET Dolpo Munaðarleysingjaheimilið Á kortinu sést hið strálbýla Dolpohérað og einnig hvar heimilið er í Norður- Indlandi.

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.