Fréttablaðið - 25.07.2008, Blaðsíða 58
34 25. júlí 2008 FÖSTUDAGUR
sport@frettabladid.is
GOLF Íslandsmeistarinn Björgvin
Sigurbergsson úr Keili sýndi
snilldartakta á fyrsta degi Íslands-
mótins í höggleik, sérstaklega á
seinni níu holunum.
Björgvin náði meðal annars
fimm fuglum á sjö holu kafla frá
tíundu til sextándu holu og endaði
á 66 höggum eða fjórum höggum
undir pari. Björgvin er með
þriggja högga forskot á Heiðar
Davíð Bragason úr GR sem er eini
annar kylfingurinn sem lék undir
pari í fyrsta degi. Það eru síðan
sex kylfingar jafnir í 3. til 8. sæti
en það eru Ólafur Björn Loftsson
(NK), Sigmundur Einar Másson
(GKG), Örn Ævar Hjartarson
(GS), Axel Ásgeirsson (GR), Hlyn-
ur Geir Hjartarson (GK) og Kristj-
án Þór Einarsson úr Kili.
„Þetta var rosalega flottur
seinni hringur,“ sagði Björgvin
kátur. „Ég var smá ryðgaður í
byrjun, þrípúttaði á fyrstu flöt og
síðan var mótvindurinn erfiður á
annarri. Síðan fór þetta að ganga,“
segir Björgvin og bætti við.
„Stutta spilið var mjög gott og
púttin gengu líka vel þannig að
þetta gekk allt nokkuð vel,“ segir
Björgvin sem lét ekki veðrið aftra
sér við að ná frábæru skori. „Það
var mikill vindur,“ sagði Björgvin
sem tók undir það að þessi frammi-
staða minnkaði ekki talið um að
hann elski rok og rigningu. Björg-
vin er að reyna að vinna sinn
fimmta Íslandsmeistaratitil og
veit því að það vannst ekkert í
gær.
„Þetta er rétt að byrja en það er
nóg eftir af þessu móti en ég er
búinn að spila einn hring undir
pari og það er markmið útaf fyrir
sig. Nú er bara að reyna að gera
áfram eitthvað svipað,“ saði
Björgvin að lokum.
Hin sextán ára Eygló Myrra
Óskarsdóttir úr golfklúbbinum
Oddi hefur einnig þriggja högga
forskot þrátt fyrir að hafa fatast
aðeins flugið á síðustu holunum.
Eygló Myrra lék á 74 höggum eða
fjórum höggum yfir pari. Keilis-
konan Tinna Jóhannsdóttir er
önnur á 77 höggum en Íslands-
meistarinn Nína Björk Geirsdótt-
ir úr Kili er í 3. til 5. sæti ásamt
Ástu Birnu Magnúsdóttur (GK)
og Andreu Ásgrímsdóttir (GA)
en þær komu allar inn á 79 högg-
um.
Eygló Myrra var mjög ánægð
með daginn en þetta er í fyrsta
sinn sem hún tekur þátt í Íslands-
móti meistaraflokks.
„Ég vissi varla að ég væri í for-
ystu þegar ég kom inn. Ég var
bara að spila mitt golf. Ég var að
spila vel, púttin voru að detta og
vippin voru góð. Ég fór nákvæm-
lega eftir leikskipulaginu og það
gekk. Það var bara gaman að glíma
aðeins við rokið,“ sagði Eygló sem
fékk þrjá skolla í röð í lokin.
Eygló hafði ekki miklar áhyggj-
ur af því að hún myndi ekki sofa í
nótt. „Ég er sallaróleg yfir þessu
og á eftir að sofa vel í nótt. Ég er
bara jákvæð, bjartsýn og lýst
mjög vel á framhaldið,“ sagði hún
að lokum. ooj@frettabladid.is
Björgvin og Eygló eiga þrjú högg
Björgvin Sigurbergsson úr Keili og hin sextán ára Eygló Myrra Óskarsdóttir úr Oddi eru bæði með þriggja
högga forystu eftir fyrsta daginn á Íslandsmótinu í höggleik í Vestmannaeyjum.
FRÁBÆR HRINGUR Björgvin Sigurbergs-
son úr GK lék vel í rokinu.
KYLFAN Í STÍL Eygló Myrra
Óskarsdóttir úr Oddi sést hér
slá í gær en takið eftir bleiku
kylfunni.
Íslenska landslið kvenna 20 ára og yngri vann frábæran 24-23 sigur
á Þýskalandi á HM í Makedóníu í gær. Íslenska liðið lenti 14-11
undir í upphafi seinni hálfleiks en skoraði þá fimm mörk
gegn einu og hélt síðan frumkvæðinu út leikinn. Þetta var
fyrsti sigur liðsins á mótinu eftir jafntefli við Ungverja og
Slóvena í fyrstu tveimur leikjum sínum.
Guðrún Ósk Maríasdóttir átti stórleik í íslenska markinu
og varði 19 skot og þar af tvö víti. „Þetta var markmiðið og
við tókum skrefið sem við ætluðum okkur. Það er gaman
að koma að óvart en þetta kemur okkur ekkert á óvart.
Við eigum góða möguleika og það er bara næsta
markmið að tryggja okkur sæti í milliriðlinum,“
segir Guðrún. „Ég fékk bara gæsahúð í lokin en
ekki af stressi heldur af spenningi. Það var hópur
af íslenskum áhorfendum í stúku því krakkar á
bakpokaferðalagi komu á leikinn og voru með
trommur og fleira. Það var þvílík stemning hjá
þeim. Við erum bara hjarta HM og það eru allir
farnir að halda með okkur,“ segir Guðrún.
„Þetta var stórkostlegur leikur. Þær spiluðu þennan leik alveg
frábærlega því þær voru að spila við gríðarlega sterkt þýskt lið,“ sagði
Stefán Arnarson, þjálfari liðsins, ánægður í leikslok enda taldi
hann þýska liðið vera eitt af sex bestu liðunum í þessari keppni.
„Það gengur alltaf mikið á í lokin hjá okkur og þetta var
sannkallaður háspennuleikur. Við fengum boltann þegar 30
sekúndur voru eftir og misstum hann þegar 10 sekúndur voru
eftir en náðum að koma í veg fyrir að þær næðu að jafna,“ sagði
Stefán og þar lék Guðrún lykilhlutverk. „Ég tók tvö síðustu skotin
þeirra og svo var vörnin alveg brjáluð. Vörnin í lokin klikkaði
á móti Slóveníu þannig að við ætluðum bara að kýla
á þetta og klára þetta,” sagði Guðrún en liðið verður
að vinna Rúmena í dag til þess að gulltryggja sæti í
milliriðli.
„Því miður nægir þetta ekki til að tryggja okkur
áfram því þetta er allt en galopið. Þetta er kallaður
dauðariðillinn og við erum ekki ennþá búin að
tapa leik sem er frábært. Mér finnst það vera mikið
afrek hjá stúlkunum,“ sagði Stefán að lokum.
GUÐRÚN ÓSK MARÍASDÓTTIR MARKVÖRÐUR 20 ÁRA LIÐSINS: VARÐI 19 SKOT Í SIGRI Á STERKU ÞÝSKU LIÐI
Allir eru farnir að halda með okkur
FÓTBOLTI Viðræður ÍA um
kaupverð á Bjarna Guðjónssyni
við Val og KR verður haldið
áfram eftir helgi. Bjarni sagði við
Fréttablaðið í gær að hann hefði
enn ekki tekið neina ákvörðun um
framtíð sína, hann ætlaði að spila
leikinn gegn FH á sunnudag.
Allar viðræður um framtíð
Bjarna væru settar á ís fram yfir
leikinn.
Börkur Edvardsson, formaður
knattspyrnudeildar Vals, sagði að
hann hefði spjallað við Skaga-
menn undanfarna daga og að
viðræðurnar gangi ágætlega. „Við
þokumst nær, við getum orðað
það svoleiðis,“ sagði Börkur.
Rúnar Kristinsson staðfesti að
KR væri að „fylgjast með
framgangi mála,“ hvað varðaði
Bjarna sem á heima steinsnar frá
KR-vellinum. Hann sagði þó að
engar viðræður um verð hefðu átt
sér stað. - hþh
Valsmenn þokast nær Bjarna:
Viðræður bíða
fram yfir helgi
ENGIN ÁKVÖRÐUN Bjarni hefur ekki
tekið ákvörðun hvort hann verði áfram
hjá ÍA eða ekki. FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
> Eiður með tvö í fyrsta æfingaleik
Eiður Smári Guðjohnsen skoraði tvö
marka Barcelona í fyrsta leik liðsins
undir stjórn Joseps Guardiola. Eiður
var í byrjunarliðinu og skoraði mörk-
in á 5. og 18. mínútu. Honum
var skipt af velli um miðjan
síðari hálfleik. Barcelona
vann leikinn 6-0 en Lionel
Messi, Yaya Toure, Pedrito og
Bojan Krkic skoruðu hin mörkin.
Eiður minnti Guardiola þarna ræki-
lega á sig en framtíð hans er þó enn
í óvissu. Eiður segir enn að allt komi
til greina en vitað er af áhuga félaga um
alla Evrópu á honum.
VÍ
KU
R
FR
ÉT
TI
R
/V
A
LU
R