Fréttablaðið - 03.09.2008, Blaðsíða 16

Fréttablaðið - 03.09.2008, Blaðsíða 16
16 3. september 2008 MIÐVIKUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS ÚTGÁFUFÉLAG: 365 RITSTJÓRAR: Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir, Kristján Hjálmarsson, Trausti Hafliðason og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál). FULLTRÚI RITSTJÓRA: Páll Baldvin Baldvinsson. VIÐSKIPTARITSTJÓRAR: Björn Ingi Hrafnsson og Óli Kr. Ármannsson. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og þéttbýlissvæðum á suðvesturhorninu. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. issn 1670-3871 Vera má að einhverjum finnist undarlegt hve Nikulás Sarkozy forseti skipar mikið rúm á þessum blöðum mínum, en þá er því til að svara að það er nánast ógerningur að skrifa um einhver frönsk málefni þessa stundina, hver sem þau eru, án þess að hann skjóti upp kollinum einhvers staðar í einhverjum línum eða þá á milli þeirra. Það er nefnilega ekki ofmælt að hann sé upphaf flestra þeirra tíðinda sem nú verða í Frakklandi eða endir þeirra, nema hvort tveggja sé. Og þetta sannaðist fyrir nokkru á dramat- ískan hátt. Síðast í júní var haldin mikil hersýning í borginni Carcassonne sunnarlega í landinu, sem er einn af þeim stöðum þar sem herbúðir með setuliði hafa verið staðsettar frá fornu fari. Sýningin var reyndar kölluð „opinn dagur“ í herbúðunum, og eitt af því sem var til sýnis voru handbrögð hermannanna við að gera árás til að leysa gísla úr haldi. En þegar hermennirnir stukku fram og byrjuðu að freta úr sínum hólkum, gerðist furðulegur og í rauninni óskiljanlegur atburður. Það kom í ljós að einn hermannanna hafði ekki hlaðið hríðskotabyssu sína með púðurskotum eins og lög gera ráð fyrir, heldur hafði hann sett í hana raunveruleg skot með 5,56 mm kúlum, og nú skaut hann þeim á ímyndaðan hryðjuverkamann mitt í áhorfendaskaranum. Eftir skothríðina lágu sautján særðir. Fjórir voru mjög alvarlega særðir, þ.á m. tveir lífshættulega, en fyrir guðs miskunn lifðu þeir allir. Engin skýring fékkst á þessum atburði, og var ekki ljóst hvort þetta voru „mannleg mistök“ eins og sagt er, hreinn og beinn klaufaskapur – frumhlaup hermanns sem ímyndaði sér öfugt við alla skynsemi að það væri meira púður í að hafa alvöru kúlur – eða þá vísvitandi spellvirki. Þetta síðasta er þó langólíklegast. Hermálaráðherrann og yfirmaður herforingjaráðs landhersins, Bruno Cuche hershöfðingi, fóru þegar á stúfana og heimsóttu þá sem særst höfðu. Um leið var boðuð rannsókn í málinu, og sá sem var talinn bera ábyrgðina var settur í gæsluvarðhald. Þetta var hörmulegur atburður, og voru viðbrögð yfirvalda í réttu samræmi við það; meira var varla hægt að gera að svo stöddu. En þá fann Sarkozy forseti brýna þörf fyrir að uppljúka sínum túla. Hann fór sjálfur til Carcassonne, gekk um sjúkrahúsið í fylgd með hermönnum, en hann heilsaði engum þeirra heldur rak hann vísifingurinn í áttina að Cuche hershöfðingja og sagði í bræði: „Þið eruð fúskarar! Það er ekki til í ykkur nein atvinnumennska!“ Hann bætti því við, að hann vildi að mönnum yrði refsað yfir alla línuna, og svipuð orð lét hann falla í sjónvarpinu sama kvöld, af meiri hófsemi að vísu. Viðbrögðin við þessu voru þau að Bruno Cuche hershöfðingi sagði þegar af sér embætti sínu sem yfirmaður herforingjaráðs alls landhersins. Engin yfirlýsing var gefin, enda kalla Frakkar herinn gjarnan „hinn mikla þegjanda“. En í orðræðum blaðamanna við herforingja sem „vildu ekki láta nafns síns getið“ kom í ljós að hermenn voru yfirleitt sárir og reiðir, þeir töldu rangt að gera herinn í heild ábyrgan fyrir slysi einstaklings og einnig fannst þeim ómaklega farið með Cuche hershöfðingja. En við þetta bættist nú annað. Í júní var gefin út „hvít bók“ um nýskipun franska hersins, og mátti þar lesa að í hinum mikla sparnaði hins opinbera og niðurskurði á öllum sviðum væri röðin nú komin að honum: það á sem sé að fækka í hernum um 54.000 menn á næstu árum og annað eftir því. Í eina tíð þurfti stórorrustu til að valda svo miklu mannfalli. Þetta þótti mörgum nokkuð langt gengið, ekki síst nú þegar herflokkar eru sendir til Afganistans: hvað svo sem mönnum finnst um þær aðgerðir er ekki álitamál að sá her sem fær slíkt hlutverk verður að vera vel búinn að mönnum og öðru. Hinir þöglu hermenn sögðu þó ekki neitt um þessa nýskipun, en þeim mun meira heyrðist í borgarstjórum á stöðum eins og Carcassonne þar sem hermenn hafa löngum verið staðsettir, gjarnan með fjölskyldum sínum. Þeir sáu fram á efnahagslegt hrun sinna borga ef herbúðirnar yrðu skyndilega lagðar niður, að þeim forspurðum, svo og lokun skóla og sjúkrahúsa og annað af því tagi. Nú er því svo komið að hyl- dýpisgjá virðist hafa opnast milli Sarkozys og hersins. Fréttaskýr- endum kemur það ekki að öllu leyti á óvart, þeir sjá lítið sameig- inlegt með herforingjum sem eru gjarnan kaþólskir, íhaldssamir upp á gamla móðinn og standandi á gömlum merg, afkomendur herforingja í marga ættliði, og svo á hinn bóginn þeim nýríku frjálshyggjumönnum og stjörnum skemmtanaiðnaðarins sem Sarkozy safnar í kringum sig. En þá vaknar spurningin: er hyggilegt af forsetanum að láta þessa gjá opnast og breikka? Það hefði de Gaulle varla talið. Skothríðin EINAR MÁR JÓNSSON Í DAG | Sarkozy og herinn Þ að er nýr háttur á Alþingi að koma saman í september- byrjun til að ljúka afgreiðslu óútræddra mála frá liðnu vori. Áður þurfti að byrja slíkar umræður að nýju við upphaf næsta þings. Nú er unnt að taka til við þær þar sem frá var horfið. Þetta losar lítið eitt um þá tíma- spennitreyju sem þingumræður festast í á hverju vori. Eins og viðgangur þjóðlífsins hefur verið er álitaefni hvort rök standa yfir höfuð til að skipta kjörtímabilinu upp í sjálfstæð þing. Störf þingsins gætu orðið enn skilvirkari með því að hverfa frá þessari gömlu hefð ef einföld leið fyndist til að afskrifa þau mál sem ekki hafa fylgi. Til þess að þetta megi verða þarf væntanlega að breyta stjórnarskránni. En það er verðugt umhugsunarefni. Breytingar sem gerðar voru á þingsköpum fyrr á þessu ári fólu í sér takmarkanir á málþófsmöguleikum. Þær hafa bætt umræð- ur í þinginu. Ýmsir óttuðust að möguleikar stjórnarandstöðunnar til að koma skilaboðum á framfæri við þjóðina myndu þrengjast við þetta. Sú hefur ekki orðið raunin. Umræðurnar eru einfald- lega beinskeyttari. Forsætisnefndin hefur kunngert opnun á störfum þingnefnda. Þær geta nú kallað ráðherra til samráðs eða yfirheyrslu um mikil- væg mál í heyranda hljóði. Fari svo að yfirborðskenndar utandag- skrárumræður í þingsal færist yfir á þennan vettvang má reikna með að þær verði bæði dýpri og beittari en þó umfram allt meira upplýsandi. Takist vel til getur þessi háttur oðrið liður í mark- vissara aðhaldi að framkvæmdavaldinu. Árangurinn gæti birst í sterkara þingi. Formaður utanríkisnefndar hefur réttilega vakið athygli á umfjöllunarleysi Alþingis um nýjar gerðir og reglur Evrópusam- bandsins sem hér fá lagagildi. Þetta er alvarleg brotalöm í þing- störfunum. Í ljósi þeirra róttæku breytinga sem forseti þingsins hefur þegar komið fram væri þetta viðfangsefni rökréttur næsti áfangi í umbótastarfinu. Upplýst hefur verið að forsætisnefnd vinni nú að reglum sem þingmenn geti farið eftir til að upplýsa um hagsmunatengsl sem rétt þykir að séu kunn og opinber. Vel fer á því. En mikilvægt er að hafa í huga að staða alþingismanna er í eðli sínu önnur en emb- ættismanna. Frelsi kjósenda til að velja þá sem þeim sýnist til setu á Alþingi verður ekki skert með vanhæfisreglum. Þeir eiga einfaldlega rétt á að velja menn til setu á Alþingi til þess að verja þá hagsmuni sem þeir telja brýnasta hverju sinni og hver eftir sínu höfði. Hitt er annað að miklu skiptir fyrir lýðræðislega umræðu og allt mat á störfum þingmanna að skoðanir þeirra séu kunnar. Að sama skapi getur verið þörf á að hagsmunatengsl þeirra séu gegn- sæ. Því hafa skráningarreglur þar um víða verið settar. Að ýmsu er að hyggja í því sambandi. Er gagn af þeim nái þær ekki til maka? Sums staðar hefur það á hinn veginn verið talið andstætt jafnréttisreglum að kalla eftir slíkum upplýsingum. Er gagn af eignaskráningu ef skuldaskráning fylgir ekki? Eiga regl- ur af þessu tagi að ná til annarra? Nefna má sveitarstjórnarmenn, forseta Íslands og jafnvel ábyrgðarmenn fjölmiðla. Umræður um þetta viðfangsefni og þær breytingar sem þegar eru ráðnar sýna að forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, er á góðu skriði við að laga starfshættina að nýjum tímum og nýjum kröf- um. Alþingi: Gott skrið ÞORSTEINN PÁLSSON Eigendur meðfylgjandi listaverka eru vinsamlegast beðnir um að hafa sam- band við Sveinssafn sem bæði hefur áhuga á að skrá verkin og að fá þau lánuð á sýninguna “SJÓRINN OG SJÁVARPLÁSSIД, sem safnið opnar í Hafnarborg 15. nóv n.k. Þeir sem eiga í fórum sínum myndir eftir Svein frá Hafnarrði þar sem skip og höfnin gegna hlutverki í mynd- etinum eru sömuleiðis hvattir til að hafa samband við safnið. Vinsaml. hað samband við Erlend Sveins- son í síma: 8610562 eða 5525235. Sveinssafn auglýsir eftir listaverkum eftir Svein Björnsson Netið góða Guðni Ágústsson, formaður Fram- sóknarflokksins, fór aðeins fram úr sjálfum sér á Alþingi í gær. Geir H. Haarde forsætisráðherra hafði talað um aðsteðjandi þrengingar á vinnu- markaði í ræðu sinni og sagði meðal annars: „Þeir sem missa vinnuna geta treyst á netið sem sterkt velferðarkerfi býður uppá.” Þetta tók Guðni óstinnt upp en illu heilli virðist hann þó aðeins hafa hlustað á hálfa setning- una: „Og forsætisráðherra segir fólki bara að treysta á netið,“ sagði Guðni í umvöndunartón, ekki par hrifinn af brýningu Geirs um að hinir atvinnulausu dræpu tímann með bloggi. Hanna og Hanna „Hitabeltisstormurinn Hanna er ekki lengur skilgreindur sem fellibylur en talið er að hann gæti náð styrk fellibyls á ný.“ Þetta mátti lesa á Mbl. is í gær. Hanna hitabeltisstormur virðist vera að ganga í gegnum nákvæmlega sömu sviptingar og nafna hennar, borgarstjór- inn í Reykja- vík. The National Movement Hans Kristján Árnason og félagar í Þjóðarhreyfingunni gáfu þingmönn- um í gær bókina Animal Farm, eða Dýrabæ, eftir George Orwell. Um er að ræða sérútgáfu sem kemur út í 63 eintökum, hvert þeirra ánafnað og merkt einum tilteknum þingmanni. Með þessu vill Þjóðarhreyfingin hvetja alþingismenn til góðra verka, ekki síst í eftirlaunamálinu, sem hreyfingin hefur andmælt af krafti. Athygli vekur aftur á móti, að þótt til sé ágæt íslensk þýðing á Dýrabæ eftir Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi, er útgáfan sem þingmennirnir fengu að gjöf á frummálinu, ensku. Ekki mjög þjóðlegt hjá Þjóðarhreyfingunni. bergsteinn@frettabladid.is UMRÆÐAN Guðmundur Ingvarsson og Ólafur Stefánsson skrifa um handbolta Viðburðaríkasta vika í sögu handknattleiks á Íslandi er nú að baki. Landslið karla í hand- knattleik og stjórn HSÍ vilja með örfáum orðum þakka fyrir þá gríðarlegu samstöðu og stuðning sem við höfum fundið fyrir frá þjóðinni allri. Íþróttamenn eru ávallt stoltir af því að keppa undir merkjum Íslands og á Ólympíuleikum getur heilbrigt þjóðarstolt verið mikill drifkraftur til árangurs. Það var landsliðinu í handbolta mikils virði að finna stuðning forseta landsins og ráðherra íþróttamála á keppnisstað í Kína. Leikmenn leyfðu sér margir að túlka það sem táknræna nærveru þjóðarinnar allrar, enda sá liðið jákvæðni í hverju horni, eins og landsmenn þekkja. Landslið karla í handknattleik hefur áður fundið meðbyr hjá þjóðinni en líklega aldrei eins sterkt og á þessum leikum. Þegar kom að því að taka á móti silfurverðlaun- um var það stór stund fyrir leikmenn og hópinn allan. En þær mögnuðu móttökur sem liðið fékk, þegar íslenska þjóðin fagnaði heimkomunni, tóku öllu fram sem þessi hópur hefur áður upplifað. Ráðherra íþróttamála lofaði okkur góðum móttökum þegar heim kæmi, en engan okkar óraði fyrir því að hún og hennar ráðuneyti, ásamt borgaryfirvöldum, gætu skipulagt heila „þjóðhátíð“ með svo skömmum fyrirvara. Handboltalandsliðið og handknattleikshreyfing- in vilja láta í ljós þakklæti fyrir stuðninginn, móttökurnar og þá jákvæðu strauma sem við höfum fundið. Sá fjárhagslegi styrkur sem nú berst handboltanum í landinu, gefur auk þess von um fleiri þjóðhátíðir í framtíðinni. Íslensk þjóð er að læra að láta ekkert „bíb“ skemma einbeitinguna og einblínir þess í stað á jákvæðni og metnaðarfull markmið. Takk fyrir okkur – og áfram Ísland. Guðmundur Ingvarsson er formaður HSÍ. Ólafur Stefánsson er fyrirliði landsliðs karla í handknattleik. Með þakklæti og handboltakveðju GUÐMUNDUR INGVARSSON ÓLAFUR STEFÁNSSON

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.