Fréttablaðið - 07.12.2008, Side 12

Fréttablaðið - 07.12.2008, Side 12
12 7. desember 2008 SUNNUDAGUR E ftir keyrslu lengst upp í Mosfellsbæ er loks komið að húsi sem einu sinni var lítill sumarbústaður en er nú orðinn að myndarlegu húsi, sem er umlukt hávöxnum trjám á alla vegu enda þau hálfrar aldar gömul. Þar hefur blaða- maður mælt sér mót við mæðgurnar Bryndísi Schram og Kolfinnu Bald- vinsdóttur. Húsið byggðu foreldrar Bryndísar og þar búa hjónin Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson ásamt Kolfinnu og börnunum hennar tveimur, Starkaði og Magdalenu. Erindið er að ræða við mæðgurnar sem báðar hafa verið í sviðsljósinu undanfarið. Bryndís er nýbúin að gefa út bókina Í sól og skugga. Kolfinna hefur hins vegar staðið fyrir mótmæl- um gegn valdhöfum og heldur úti viku- legum þætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Eruð þið samrýmdar mæðgur? Bryndís: „Við eigum langt samlíf að baki, en við höfum aldrei rifist, get ég sagt þér.“ Kolfinna: „Okkur kemur mjög vel saman, ég varð ung móðir og mamma hjálpaði mér.“ Bryndís: „Kolfinna er ólík mér að því leyti að hún skilaði sínum mönnum fljótlega heim og kom aftur til mömmu. Mér fannst alltaf notalegt að hafa hana í kjallaranum á Vesturgötunni og nú haga aðstæðurnar því þannig að hún, þetta mikla borgarbarn, er komin hingað upp í sveit. Þegar hún var lítill krakki þá sagði hún aldrei orð. Hékk bara í pilsfaldi móður sinnar. Þegar ég var leiðsögumaður með ferðamönnum á Ítalíu mörg sumur forðum daga, þá drakk hún í sig allt sem mamma sagði. Ætli hún kunni ekki bara ítölskuna frá þeim dögum. Svo fór hún að tala og nú er hún alveg óstöðvandi. En hún hefur ekki húsmóðurhæfileika fyrir fimm aura.“ Kolfinna: „Nú kemur það.“ Bryndís: „Ekki orð um það meir.“ Kolfinna: „Svo hleyp ég í skarðið fyrir mömmu, ég hef farið að lesa upp fyrir hana úr bókinni á mannamótum, ef hún kemst ekki. Það hefur náttúru- lega alltaf verið þannig að við höfum getað skipst á hlutverkum, ef hún kemst ekki þá fer ég. Bryndís: „Veisluglaumurinn í Wash- ington, t.d. var ekki beinlínis eigin- mannsins „cup of tea“, ég meina Jóns Baldvins. Hann bar því við að amer- ískar kvenraddir lægju svo hátt að það skæri í eyru. Við mæðgurnar erum hins vegar hvor annarri meiri félags- vera. Við hlupum því iðulega í skarðið og skemmtum okkur konunglega. Svona bætum við öll hvert annað upp.“ Kolfinna: „Það birtist mjög vel þegar þau komu að heimsækja mig til Kos- ovó. Pabbi með sinn mikla stjórnmála- áhuga pældi í þjóðfélagsástandinu. Mamma var strax farin að skima í garðana, velta fyrir sér hvernig fólkið byggi. Hún var öll augu og eyru. Við það að fá þau saman var maður kom- inn með heilsteypta mynd af þjóð- félaginu.“ Þjóðfélagið gjörbreyttist Kolfinna flutti heim frá Kosovó fyrir tveimur árum eftir tíu ára dvöl í útlöndum, í Bandaríkjunum, Belgíu og Kosovó. Bryndís bjó líka hátt í tíu ár í útlöndum, í Bandaríkjunum, Finnlandi og á Spáni. Mæðgurnar eru alveg sam- mála því að á þeim tíma sem þær voru úti hafi íslenskt þjóðfélagið breyst mjög mikið. Kolfinna: „Ég bjó í þremur löndum, sem hvert var með sína þjóðfélags- gerð, og alltaf var ég að mæra kosti Íslands við útlendinga. Svo kom ég heim og komst að því að það var verið að sópa burt velferðakerfinu. Og allir farnir að vinna í banka og ekki nóg með það, það voru allir að tala um stýrivexti, sem enginn vissi reyndar hvað var. Bryndís: Ég tók eftir breytingunum með ýmsum hætti, hún birtist til dæmis í umferðinni. Umferðin er spegilmynd af þjóðfélagsástandinu. Bílaflotinn var orðinn svo svakalegur og gassagangurinn mikill. Frekja og tillitsleysi keyrðu úr hófi. Í búðunum fylgdist ég með því hvernig fólk keypti í matinn. Mér blöskraði hvernig fólk bruðlaði í matarinnkaupum og sankaði Við höfum aldrei rifist Það var alltaf svo notalegt að hafa hana í kjallaranum segir Bryndís Schram um dóttur sína Kolfinnu Baldvinsdóttur. Sigríður Björg Tómasdóttir mælti sér mót við mæðgurnar í Mosfellsbænum og ræddi við þær um nýja og gamla tíma. BRYNDÍS SCHRAM OG KOLFINNA BALDVINSDÓTTIR Við húsið notalega í Mosfellsbænum þar sem þær búa. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA að sér óþörfum hlutum. Það var líka allt orðið svo leiðinlegt, andlaust og forskrúfað. Fréttirnar snerust allar um kaup og sölu í Kauphöllinni, um verð á hlutabréfum og um dularfulla díla lánaháka í útlöndum. Mér fannst líka fáránlegt að geta ekki einu sinni farið á tónleika án þess að þurfa að þakka FL Group eða einhverjum slík- um fyrir í hvert sinn.“ Kolfinna: „Við getum sagt sem svo að allir misstu vald sitt, verkalýðs- hreyfingin, þingmenn og ráðherrar, í hendur peningamanna.“ Bryndís og Kolfinna eru báðar á því að hér á landi eigi að vera öflugt vel- ferðakerfi og finnst skörð sem í það hafa verið höggvin skammarleg. Þær segja dvölina í Bandaríkjunum bara hafa styrkt þær í trúnni. Bryndís: „Bandaríkin eru býsna brútalt samfélag. Ef þér hlekkist á í líf- inu, og það hendir flesta einhvern tíma, þá er ekkert öryggisnet sem ver þig falli. Það var þetta sjálfhverfa sam- félag sem fór fyrir brjóstið á mér þegar ég var þar, enda ólíkt því sem ég átti að venjast að heiman. Og sjokkið því kannski enn meira þegar ég kom heim úr útlegðinni og sá hversu hörku- legt, miskunnarlaust og ameríkanís- erað samfélagið var orðið hér.“ Kolfinna: „Mamma er með marga góða punkta um þetta í bókinni sinni. Þar er hún að lýsa því hvernig hún upplifir mannlífið í mörgum ólíkum þjóðfélögum, Bandaríkjunum, Norður- löndunum, Austur-Evrópu og í Mið- jarðarhafsmenningunni. Frásagnir hennar eru oft með pólitísku ívafi.“ Allt snýst um peninga í Bandaríkjunum Í umræddri bók segir Bryndís t.d. frá því hvernig hún upplifði Bandaríkin bæði sem sendiherrafrú og í gegnum skólagöngu barnanna hennar Kol- finnu. Bryndís: „Það var ótrúlega spenn- andi að fá að upplifa aðra hlið sam- félagsins, kynnast venjulegu fólki. Það var gaman að fara með börnin í skól- ann og fá að fylgjast með því hvernig kennaranum tókst að fá allan bekkinn til að tjá sig frá fyrsta degi. Þetta er ein góða hliðin á Ameríkönum, þeir geta alltaf staðið upp og talað frá eigin brjósti. Þessi stund í skólastofunni var kennslustund í lýðræði. Þetta var í Washington D.C. sem er í vitund flestra höfuðborg heimsins og fæstir vita að 80% íbúanna eru blökku- fólk. Meðal þeirra ríkir mikil fátækt og skólakerfi þeirra er í molum. Börnin hennar Kolfinnu áttu t.d. að fara í hverfisskóla. Þar voru vopnaðir verðir á skólalóðinni og skilti sem á stóð „We don´t use drugs here“. Þá mátti bóka það, að sögn þeirra sem til þekktu, að skólinn væri dópgreni. Litla drengnum, honum Starkaði, leist nú ekkert á umhverfið og okkur tókst að komast að í öðrum skóla, sem var líka ríkisskóli en alveg stórkostlegur. Kolfinna: „Þetta var skóli sem auk framlaga frá ríkinu var rekinn af frjálsum framlögum foreldra og það má segja að mömmurnar hafi verið í fullri vinnu við að vera umboðsaðilar barna sinna, að safna peningum, ráða kennara og svo framvegis. Þá var nú gott að hafa mömmu því ég var auðvit- að á fullu í mínu námi.“ Bryndís: „Ég var farin að beita sömu brögðum til að safna pening fyrir skól- ann eins og til að hala inn pening handa menningarstofnunum borgarinnar. Ég hélt kvöldverðarboð, fólk borgaði aðgangseyri og peningarnir runnu til skólastarfsins.“ Kolfinna: „Gallinn við Bandaríkin er hvað allt snýst mikið um peninga. Maður var skíthræddur um að börnin myndu veikjast því að það gat beinlínis kollvarpað fjárhagnum. Skólinn sem ég var í, American University, var algjör ríkra manna háskóli, fyrir utan styrkþega sem þar voru inni á milli.“ Bryndís: „Ég get bætt því við að eftir heimkomuna var ég oft beðin um að segja frá Bandaríkjunum og reynslu minni af bandarísku þjóðlífi á fundum í allra handa klúbbum og félögum. Ég fann það fljótlega að ég talaði fyrir daufum eyrum, þegar ég lýsti hinu félagslega harðræði sem hinir efna- minni búa við í því þjóðfélagi.“ Kolfinna: „Samt er fullt af fólki í Bandaríkjunum að segja hið sama. En Íslendingar hafa horft til Bandaríkj- anna sem draumaþjóðfélags.“ Mótmæli eina úrræðið Þá erum við komin aftur til Íslands í spjallinu og talið berst að nýjum og gömlum mótmælum. Kolfinna bendir á að í lokuðu klíkusamfélagi, þar sem það viðgengst að halda upplýsingum leyndum fyrir almenningi, eru mót- mæli í krafti samtaka fólks oft einu úrræðin sem almenningur hefur til að veita valdhöfum aðhald. Mótmæli bandarískra stúdenta á sinni tíð gegn Víetnam-stríðinu náðu að lokum til almennings og gerðu valdhöfum ókleift að halda stríðinu áfram. Kolfinna: „Mótmæli eru mikilvæg en það er líka mikilvægt að skilaboðin sem þau senda séu skýr. Og þau geta skilað árangri ef rétt er að málum stað- ið, eins og dæmin sanna.“ Talið berst að mótmælunum sem Bryndís tók þátt í gegn veginum í gegnum Álafosskvos. Kolfinna: „Þau mótmæli skiluðu árangri að því leyti að um þau var fjall- að í blöðum og ráðamenn urðu þess vegna skelkaðir.“ Bryndís: „Vegurinn er mistök og það sáum við strax. En kannski er Álafoss- kvosin dæmigerð fyrir ástandið sem hefur verið á Íslandi undanfarin ár. Ákvörðunin um veginn byggðist á hroka, ekki var hlustað á hinn almenna borgara, bara vaðið áfram í krafti pen- inga, alveg eins og í þjóðfélaginu öllu.“ Kolfinna: „Það má segja að þetta hafi verið táknrænt, verktakarnir sem allt yfirtaka eru auðmennirnir, bæjar- stjórnin er eins og ríkisstjórnin og Varm ársamtökin fulltrúi fólksins sem heldur uppi mótmælum en enginn hlustar á.“ Þar með berst talið að stjórnmálum og þjóðfélagsástandi samtímans sem bæði Bryndís og Kolfinna hafa mikla skoðun á. Þær vilja breytingar, nýtt fólk inn og nýtt kerfi og það strax. Kolfinna: „Við höfum ekki tíma til þess að bíða eins og til dæmis Sjálf- stæðisflokkurinn vill að við gerum. Íslenska þjóðin horfist í augu við hrun efnahagslífsins sem á eftir að kippa fótunum undan hversdagslegri tilveru fjölda fólks. Ekkert er eins og var. Það umboð sem stjórnarflokkarnir fengu í seinustu kosningum byggði á forsend- um sem ekki eru lengur fyrir hendi. Hvernig þessi ríkisstjórn hagar sér er nóg sönnun þess hversu langt hún er komin frá kjósendum sínum, hversu illa þetta lýðræði okkar fúnkerar. Þau gríðarlegu vandamál sem við stöndum nú frammi fyrir verða ekki leyst í sátt við þjóðina nema með því að leggja málin í dóm þjóðarinnar. Ný ríkisstjórn þarf nýtt umboð til þess að ná árangri.“ Bryndís: „Það fór ekki fram hjá mér um daginn að þingmenn eru sjálfir farnir að kvarta hástöfum undan upp- lýsingaskorti og áhrifaleysi. Hvað má þá segja um okkur hin? Bendir þetta ekki til þess að það séu alvarlegar veil- ur í okkar stjórnarfari, nefnilega að upplýst lýðræði hafi ekki náð að skjóta nægilega djúpum rótum? Eigum við ekki að láta þessa kreppu, sem við nú erum lent í, okkur að kenningu verða, nefnilega að taka stjórnarfarið – póli- tíkina – til rækilegrar endurskoðun- ar?“ Mér blöskr- aði hvernig fólk bruðlaði í matarinn- kaupum og sankaði að sér óþörfum hlutum. Það var líka allt orðið svo leiðinlegt, andlaust og forskrúfað.

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.