Tíminn - 19.12.1982, Blaðsíða 6

Tíminn - 19.12.1982, Blaðsíða 6
6 SUNNUDAGUR 19. DESEMBER 1982 Sögulegasla meistaravörn í hátíðarsal Hafnarháskóla: Niður úr ræðustólnum — hrópaði rektor að meistaraefninu Þorleifi Guðmundssyni Repp, sem kom ekki upp orði fyrir óstöðvandi og tröllslegum hlátri ■ Einhver frægasta meistaravörn í sögu háskólans í Kaupmannahöfn er tengd nafni þess mikilhæfa íslenska lærdómsmanns Þorleifs Guðmundssonar Repps, og átti sér stað í hátíðarsal skólans hinn 6. febrúar árið 1826. Vörninni lyktaði með því að rektor háskólans rak meistaraefnið úr ræðustólnum með ókvæðisorðum, ekki vegna þess að ritgerðin væri óframbærileg, fjarri því raunar, heldur vegna kynlegra atvika sem hér verður greint frá. En hyggjum fyrst að því hver hann var þessi maður Þorleifur Guðmundsson Repp. Þorleifur var fæddur 6. júlí 1794 í Reykjadal í Hrunamannahreppi í Ár- nessýslu og ólst þar fram yfir fermingu. Hann tók sér nafnið Repp eftir fæðingar- sveit sinni þcgar hann kom til náms í Kaupmannahöfn. Foreldrar hans voru Guðmundur prestur Böðvarsson og kona hans Rósa Egilsdóttir. Hann fór í Bessastaðaskóla 1811 og brautskráðist þaðan stúdent í október tveimur árum síðar. í vitnisburðarbréfi Jóns lektors Jónssonar er farið miklum lofsorðum um hæfileika og hegðun hins námfúsa ungmennis og sagt að hann hafi til að bera mikinn anda í veikbyggðum lík- ama. Þorleifur sigldi til Hafnar sumarið eftir stúdentspróf og innritaðist í Hafnar- háskóla haustið 1814, á ári mikilla umbrota í stjórnmáium Evrópu. Snemma komu fjölbreyttar námsgáfur hans í Ijós og hann reyndist ekki við eina fjölina felldur um námsefni; virðist fyrst og fremst hafa rækt þau til að fullnægja þekkingarþörf sinni, en síður með tilliti til atvinnuhagsmuna og embættisframa. Lagði hann upphaflega stund á læknis- fræði, efnafræði og eðlisfræði og fyrir ástundan sína í þeim greinum hlaut hann mikið lof kennara síns H.C. Örsted, eins kunnasta náttúruvísindamanns Dana. Af rökvísi og skarpskyggni Þorleifs fór orð og hann var ráðinn oftlega svara- maður (respondes) við dispútazíur, m.a. í Iæknisfræði. Árið 1817 sneri Þorleifur sér loks heils hugar að þeim fræðum sem upp frá því hafa haldið orðstír hans lengst á lofti, en það eru málvísindi, heimspeki og fagurfræði. Mikið orð fór af málakunn- áttu Þorleifs og haft er fyrir satt að hann hafi numið flestar höfuðtungur Evrópu, svo sem ensku, frönsku, þýsku, spænsku og ítölsku. til þeirrar hlítar að hann gæti talað þær og ritað viðstöðulaust. Mælt er að þar á ofan hafi hann aflað sér víðtækrar kunnáttu í tungum Austur- landa rn.a. arabísku og persnesku. Hann var ráðinn tungumálakennari margra nafnfrægra Dana: skáldinu Oehlen- schláger leiðbeindi hann í latínu áður en sá fyrrnefndi flutti hátíðarræðu við háskólann er hann var gerður heiðurs- prófessor og hann var beðinn að kenna sjálfri drottningunni enska tungu árið 1822. Lokið lofsorði á ritgerð Það ritverk sem Þorleifur taldi best til fallið að bera vitni um vísindalegan lærdóm sinn De sermone tentemen (Tilraun til málskýringa), og fjallaði um uppruna tungumála, þróun þeirra og skyldleika, ákvað hann að leggja fram til meistaravarnar við Hafnarháskóla og reka þannig smiðshöggið á námsferil sinn við skólann. Tveir af kennurum heimspekideildar skólans voru kvaddir til að dæma um ritgerðina, annar sem málfræðingur, Birgir prófessor Thorla- cius, og hinn sem heimspekingur, P.E Múller, dósent. Báðir luku þeir á hana lofsorði, og var hún metin gild til varnar án ágreinings, en síðan prentuð og kom bókin út í ársbyrjun 1826. Janframt var ákveðið að vörnin færi fram 6. febrúar saman ár, og auglýsing um það send með ritinu. Þegar hér var komið við sögu átti enn eftir að tilnefna andæmælendur af hálfu heimspekideildar, og gekk það ekki með öllu hljóðlaust. Um annan þeirra er til þess var kvaddur, Birgi Thorlacius prófessor, var að sjálfsögðu ekki deilt, en því meira um hinn stðari. Hét sá Jens Möller og var guðfræðikennari. Þótt hann sækja andmælendastarfið ískyggi- lega fast og hefur víst aldrei verið úr því skorið til fulls, hvort hann hafi í reynd verið löglega til þess kjörinn. Hafði Birgir Thorlacius einkum illan bifur á honum og taldi hann með engu móti hæfan til starfans, m.a. fyrir þá sök að hann væri ekki skynbær á efni ritgerðar- innar. Væntanlega hefur hann einnig grunað hvað Jens Möller gekk til, en skýringarinnar á því er að leita talsvert aftur í tímann. Endurskrifaði doktorsritgerð Þess var áður getið að Þorleifur hefði tekið þátt í dispútazíum, ýmist til andmæla eða varnar, og þótti hann hinn öruggasti rökræðumaður, fyndinn, ein- beittur og málsnjall. Og bar nú svo við að guðfræðingur einn, bróðir Jens Möllers, hafði samið doktorsritgerð, og var hún metin gild til varnar. í Avisen frá 29. mars 1890 hefur danskur blaða- maður háaldraður, J. Davidsen, lýst því hvernig doktorsvörnin fór fram, og er frásögn hans þýdd í fimmta árg., Sunnanfara. „Ég minnist nú hneykslis eins, sem kom fyrir við doktorsdispútazíu í æsku minni og vakti óvenjumikla og eftirtekt rnanna", segir J. Davidsen. „Það var kominn saman múgur og margmenni í sal þann í háskólanum þar sem athöfnin skyldi fram fara til þess að hlusta á. Skömmu eftir að annar hinna tilskipuðu andmælenda hafði tekið til máls kemur fram ungur maður, sem ég man ekki betur en væri íslesnskur stúdent, og rogast með heljarmikinn doðrant undir hendinni, og heimtar að mega tala sem aukaandmælandi. Hon- um var leyft það. Fletti hann þa upp doðrantinum og sýndi fram á það að dispútazía doktorsefnisins væri svo að segja orð fyrir orð skrifuð upp úr skruddunni. Eins og nærri má geta rak alla í rogastans á þvílíkri bíræfnmi. Doktorsefninu varð svo felmt við að það var nær liðið yfir hann, og varð að styðja hann út úr salnum. Prófessorarnir sem höfðu dæmt ritið gilt nöguðu sig í handabökin og dauðskömmuðust sín fyrir hvernig leikið hafði verið á þá og að þeir skyldu ekki hafa þekkt það guðfræðirit sem dispútazían var stolin úr, einkum af þvf að það kvað ekki hafa verið alveg óþekkt bók meðal lærðra manna. En samt varð kandídatinn doktor!" Sá íslenski stúdent sem upp- náminu olli var enginn annar en Þorleifur Guðmundsson Repp. Harma hefnt Mælt er að það sé hverjum manni ein hin erfiðasta þolraun að vera gerður hlægilegur í augum almennings. Samt er sú von til að yfir það fyrnist. Hitt er hálfu þungbærra að vera jafnframt gerður hlægilegur í augum sjálf síns eins og hlýtur að hafa átt sér stað um þá Möllersbræður. Það er mótgerð sem fæstir geta fyrirgefið og enn færri geta gleymt. Það er einnig haft fyrir satt að hefnd eigi sér biðlund, en hún sefur laust og hefur andvara á sér. Það er til dæmis góður tími liðinn frá því þeim atburði sem síðast sagði frá þegar önnur annáls- verð dispútazía, að þessu sinni kennd við Þorleif Repp, hefst í salarkynnum háskólans að morgni hins 6. febrúar 1826. Við þessa sögulegu athöfn tók Jens Möller fyrstur til máls sem andmælandi af hálfu heimspekideildar. Hann réðst strax með hatursfullu orðbragði að Þorieifi Repp og taldi ritgerð hans allt til foráttu. Staðhæfði hann auk annars, að þar væri að finna ekki færri en sex hundruð latneskar málvillur, og fjöl- margt annað bar hann fyrir sig sem allir máttu vita að var mælt gegn betri vitund. Þá rausaði hann lengi um heiður háskólans og íaldi honum stefnt í voða ef höfundur ritgerðarinnar hreppti tii- ætlaða nafnbót. Virtist hann ekki hafa neinn skilning á því að þetta væri jafnframt hinn þyngsti áfellisdómur yfir þeim trúnaðartnönnum háskólans sem höfðu metið ritgerðina gilda. Þannig bar Jens MöIIer sig að í einu og öllu sem hann væri óður af ofsóknarhug, svo að vitnað sé í orð sem BirgtrThorlacius hafði um hann síðar í bréfi til háskólans. Mælskusnillingi bregst vörnin Auðvitað hefði' Þorleifi Repp átt að vera innan handar að hrinda hinni hatursfullu ofsóknarræðu Jens MöIIer, svo að þar stæði ekki steinn yfir steini. Það mundi hann líka hafa gert - að öllu eðlilegu. Samt fórst það fyrir. Hinum slynga rökræðumanni brást bogalistin - aldrei þessu vant, því að óvinveitt örlög gripu í taumana. Og örlög neyta ótrú- legustu bragða til að koma fram vilja sínum. Að þessu sinni voru þeim hæg heima- tökin. Þau höfðu gert honum að fæðast með líffræðilegan annmarka, sem til allrar hamingju sagði þó sjaldan til sín og var þess vegna á fárra vitorði. Hann var í því fólginn að væri ráðist á Þorleif með upplognum sakargiftum og hann reittur sviplega til reiði, gat sett að honum óstöðvandi hlátur, sem hann fékk með engu móti ráðið við. Og hvort sem Jens Möller hefur vitað um þennan annmarka eða ekki virðist málfærsla hans öll hafa miðast við það eitt að egna fyrir hann, særa hann fram, svo að vörnin af hálfu Þorleifs færi út um þúfur. Og þetta heppnaðist. Um leið og Þorleifur kom í ræðustólinn og renndi gneistandi augum yfir þéttskipaðan sal- inn með háskólarektor, prófessora og aðra fyrirmenn hið næsta sér, setti að honum slíkan hlátur samfelldan og langvarandi, að hann mátti vart mæla. Má geta nærri að mörg fyrirmannieg andlit hafi þolað önn fyrir langþjálfaðan tignarsvip andspænis svo vanvirðandi og þóttafullu framferði. En ekki er ástæða til að rekja nánar það sem þarna gerðist. Þess eins má geta að hlutverki Þorleifs í þessari sögulegu athöfn í háborg menningar og lærdóms lauk með því að rektor fataðist stjórn á skapsmunum sínum. Kallaði hann m.a. til Þorleifs: Absit risus! Absit scurrilitas! Burt með hlátur! Burt með skípalæti! og rak hann úr forsæti. Synjað um nafnbót Þeir Birgir Thorlacius og P.E. Múller reyndu þó enn að rétta hlut Þorleifs og bentu á hve ranglátt væri að láta hann gjalda líkamlegs annmarka, sem honum væri ósjálfráður. Kom málið fyrir heim- spekideild og var þar samþykkt með átta atkvæðum gegn sex að mæla með því að Þorleifur fengi nafnbótina, en talið var sannarlegt að fimm hinna síðartöldu hefðu ekki kynnt sér ritgerðina. Lagðist háskólaráð einnig á stoð með Þorleifi en ekkert stoðaði. Reri Jens Möller svo undir við yfirstjórn þeirra mála er tóku til háskólans að Þorleifi var synjað um meistaranafnbót og eins og segir í sambandi við áðurnefnda grein Sunnan- fara, „þóttu það hrópleg rangindi og að öllu þrælslega með hann farið.“ Þessi úrslit voru þungt áfall fyrir hinn grandvara drengskaparmann, Birgi Thorlacius. Skrifaði hann háskólaráði einarðlegt bréf og ýtarlegt það sem hann rakti gang málsins og lýsti skoðun sinni á málalokum. Vítti hann framkomu háskólarektors og einnig mun hann hafa sagt sig úr háskólaráði í mótmælaskyndi. Loks reit hann Jens Möller guðfræði- prófessor skorinort bréf þar sem hann sagði honum hreinskilnislega til synd- anna. „Máli Repps er þá lokið", skrifaði hann Möller, „Þér getið nú í fullum mæli notið sætleika þeirrar hefndar sem þér sóttust eftir, og þeirrar djöfullegu gleði að hafa neytt ýtrustu bragða til að gera saklausan mann óhamingjusaman.“ Af Þorleifi Guðmundssyni Repp er það að segja að eftir þessi málalok fór hann frá Danmörku og til Skotlands og dvaldist þar næstu ellefu árin. Þar starfaði hann sem bókavörður í Edin- borg og sinnti fræðistörfum. Hann sneri síðan aftur til Hafnar og gerðist atkvæða- mikill í menntalífi og stjórnmálum, en gæfan var honum ekki alltaf mjög hliðholl, og hann átti enn eftir að rata í hin ótrúlegustu vandræði, en af því er önnur saga sem hér verður ekki rakin að sinni. (Heimild: Gamlar slóðir. íslenskir öriagaþættir. Rvík 1971).

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.