Morgunblaðið - 27.04.2006, Side 51
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. APRÍL 2006 51
MINNINGAR
til hennar á Landspítalann núna um
daginn, þar sem hún sat í hjólastól
og sagði, að hún væri búin að fá pláss
á líknardeildinni – það væri nú gott,
því að þar fengi hún gott pláss fyrir
gesti. – Ekki var að finna nokkurn
bilbug á henni. Mikið fann maður til
vanmáttar síns að geta engu breytt.
Núna þrem dögum fyrir andlátið,
þegar við systurnar litum til hennar
á líknardeildina. heyrðist glaðlega úr
rúminu. „Nei eru nú söstrene Grene
komnar!“ Þessar stundir svo og
kveðjustundin við dánarbeð hennar
á skírdag, þar sem hún var um-
kringd allri sinni fjölskyldu, gleym-
ast aldrei. Þú, Jói minn, varst sá
klettur, sem aldrei haggaðist, og sú
alúð og natni, sem þú og börnin
sýnduð, var einstök.
Elsku Jói, Hanna Dóra, Páll,
Kristín Þóra og Signý, Kristín (eldri)
og Geir, Helgi og fjölskyldur – við
Svavar sendum ykkur öllum innileg-
ar samúðarkveðjur. Megi minningin
um hugprýði hennar og geislandi
bros verða ykkur styrkur í framtíð-
inni.
Haf þökk fyrir samfylgdina, Sig-
rún mín. Guð geymi þig.
Þorgerður Árnadóttir (Togga).
Hún Sigrún vinkona hennar
Toggu er dáin. Ég kveið því að þurfa
að segja þessi orð. Þó það hafi lengi
verið ljóst, að barátta hennar mundi
enda á þennan veg, hefur maður
aldrei í raun viljað trúa því. Í veik-
indum Sigrúnar urðu mörg krafta-
verk, það síðasta nú fyrir jólin. Ég
vonaðist eftir fleiri kraftaverkum en
þau komu ekki.
Sigrún og Togga systir mín voru
æskuvinkonur og skólasystur, fyrst í
Kársnesskóla og síðan lá leiðin í
Gagnfræðaskólann í Kópavogi. Þær
tóku síðan stúdentspróf frá MR
1971. Alltaf í sama bekk, alltaf kátar
og allt var svo skemmtilegt og
„pjúsugt“ á þessum árum. Þær fóru
ævinlega fótgangandi í og úr skóla á
gagnfræðaskólaárunum þótt leiðin
væri löng. Þó að þær töluðu stans-
laust á leiðinni var alltaf eitthvað eft-
ir að segja þegar þær á heimleiðinni
komu í Holtagerðið, þar sem Sigrún
bjó. Þá héldu þær áfram að tala og
stóðu þá úti við öskutunnurnar. Fjöl-
skyldur okkar kölluðu þetta ösku-
tunnufundi, en þeir áttu til að drag-
ast mjög á langinn, og voru ekki
vinsælir þegar beðið var með mat-
inn. Á þessum árum mátti ekki missa
af lögum unga fólksins í útvarpinu og
bítlalögin voru vinsælust, lög voru
tekin upp á segulbönd og spiluð aftur
og aftur.
Þó svo að ég væri fjórum árum
yngri fékk ég stundum að vera með
þegar Sigrún var í heimsókn hjá
Toggu. Mér fannst allt svo spenn-
andi sem þær voru að tala um og
gera. Sigrún var hláturmild með af-
brigðum þannig að tárin runnu niður
kinnarnar á henni í mestu hláturs-
köstunum. Setningar eins og „ég
fékk algjört kast“ heyrðust ósjaldan
og voru oft eina lýsingin á skemmti-
legum atvikum. Þetta var góður og
áhyggjulaus tími.
Sigrún var alltaf mjög samvisku-
söm og dugleg í skólanum. Einnig
var hún mjög vandvirk og flink í
höndunum. Hún prjónaði og heklaði
og var nýbúin að fitja upp á hring-
prjón fyrir enn eina peysuna, þegar
hún lést. Hún lærði lyfjafræði í Há-
skólanum, eignaðist góðan mann og
fjögur börn sem bera foreldrum sín-
um gott vitni. Fyrir níu árum veikt-
ist hún af alvarlegum sjúkdómi, sem
hún tókst á við af miklu æðruleysi og
hafði sterkan lífsvilja. Hinn mikli
styrkur hennar í veikindunum var
aðdáunarverður og okkur hinum
næstum óskiljanlegur.
Elsku Jói, Hanna Dóra, Kristín,
Páll og Signý, sagt er að sorgin sé
tvíburasystir gleðinnar og þær eigi
sömu móður, kærleikann. Þið hafið
umvafið Sigrúnu kærleika, sem eng-
an átti sinn líka, og veitt henni allan
þann stuðning í veikindunum sem í
mannlegu valdi var. Sorgin er nú
óbærileg, en öll eigum við glaðar og
góðar minningar um Sigrúnu sem
munu ylja um ókomin ár.
Við á Kársnesbrautinni sendum
ykkur og Kristínu móður Sigrúnar
okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Einfríður Árnadóttir.
Það var skyndilega
kallað á hann Krist-
ján sem kvaddi þetta
tilverustig eftir stutt veikindi. Við
kynntumst Kristjáni þegar Guð-
laug kona hans hóf störf hér fyrir
5 árum. Hann kom oft við hjá okk-
ur, ýmissa erinda við Gullu sína
eins og gengur eða stundum bara
til að fá sér kaffisopa. Hann var
aufúsugestur með Gullu í starfs-
mannaferðunum okkar, þessi ró-
legi og viðmótsþýði maður sem
hafði svo einkar notalega návist.
Hann sat iðulega íbygginn álengd-
ar þar sem kona hans var hrókur
alls fagnaðar og hann hafði lag á
að leggja aðeins gott til málanna.
Æðruleysi var augljóslega líka
sterkur þáttur í skapgerð hans og
honum var ekki tamt að hafa hátt
um það þó eitthvað þjakaði hann
eins og við skynjuðum síðustu vik-
urnar þegar veikindi hans komu í
ljós. Rósemi er eiginleiki sem lað-
ar oft að sér börn og Kristján var
með annarri vinnu knattspyrnu-
þjálfari yngri flokka áratugum
saman, nú síðast hjá KR. Það var
augljóst að það var starf sem þessi
barngóði maður hafði mikla
ánægju af. Ótalmargir ungir
knattspyrnumenn hafa fengið sína
fyrstu knattspyrnuþjálfun hjá
Kristjáni.
Við sendum Gullu og fjölskyldu
hennar innilegar samúðarkveðjur
og biðjum almættið og alla góða
krafta að styrkja þau á sorgar-
stundu.
Starfsfólk Fítons og
Auglýsingamiðlunar.
Kæri bróðir, sjaldan hafa skref-
in að tölvunni verið jafn þung og
nú. Aldrei hef ég verið jafn illa
undirbúin undir neitt verkefni og
nú, það að skrifa þessa kveðju til
þín. Undanfarnir mánuðir, kannski
ár, hafa að mörgu leyti verið erf-
iðir okkur og fjölskyldum okkar.
Samt sem áður hefur þetta að hinu
leytinu verið einn okkar besti tími,
sjaldan höfum við öll verið nánari
en einmitt nú. Fyrir þennan tíma
er ég ævinlega þakklátur. Ekki
ætla ég þó að hefja hér lofræðu
um þig, það væri ekki í þínum
anda. Kæri bróðir og vinur, takk
fyrir samfylgdina, takk fyrir
stuðninginn, takk fyrir að vera
ávallt þú sjálfur á hverju sem
gekk. Nú hefur þú fengið hvíld frá
þrautum þínum, fyrir það ber að
þakka. Að kveðja þennan heim
hljóðlaust, orðalaust, fara í friði og
fyrirvaralaust var þér líkt. Óþarfa
orðagjálfur og langur fyrirvari var
óþarfur, enda ekki þinn stíll. Guð-
laug og strákarnir þínir ásamt
tengdadætrum og barnabarni sjá
nú á eftir ástríkum eiginmanni,
pabba, tengdapabba og nú líka afa,
ástríkum fyrst og fremst en ekki
varstu berandi tilfinningar þínar á
torg. Í afanum kom aftur á móti
hlutverk sem þú naust þín í, gam-
an var að fylgjast með þér í því
hlutverki og sorglegt að þú skyldir
ekki fá aðeins lengri tíma til að
sinna því. Ekki síst, Kristján minn,
með tilliti til þess að þitt annað
barnabarn er væntanlegt í heiminn
innan skamms.
Kæri bróðir, mínar bestu kveðj-
ur færi ég þér og þinni fjölskyldu
um leið og ég, Hulda, Kristján
Orri nafni þinn og stelpurnar okk-
ar tvær, Jóhanna og Brynja, fær-
um öllum þeim er um sárt eiga að
binda nú við fráfall þitt okkar inni-
legustu samúðarkveðjur. Berðu
KRISTJÁN G.
ÞORVALDZ
✝ Kristján G. Þor-valdz fæddist
20. febrúar 1954.
Hann lést á LSH á
Hringbraut 23.
mars síðastliðinn
eftir stutt veikindi
og var útför hans
gerð frá Dómkirkj-
unni í Reykjavík 31.
mars.
mömmu og pabba
kveðjur okkar. Far
þú í friði.
Þinn bróðir,
Jóhann
Jóhannsson.
Okkur langar til að
minnast með nokkr-
um orðum fyrrver-
andi þjálfara okkar.
Kristján þjálfaði okk-
ur hjá 2. flokki Fylk-
is árin 1989-90. Æf-
ingar hans á
undirbúningstímabili voru gríðar-
lega góðar og árangurinn eftir því.
Má þar einna helst nefna: Íslands-
meistarar í innanhússknattspyrnu
og bikarmeistarar utanhúss.
Eftir eina æfinguna sem var
töluvert erfiðari en aðrar sagðist
hann gera þetta öðru hverju til
þess að sjá hverjir væru í bolt-
anum til þess að ná árangri og
hverjir ekki. Það voru alltaf aðeins
færri á næstu æfingu. Með þessu
tókst honum að skapa sterka liðs-
heild.
Fyrir nokkrum misserum var
hann aftur farinn að þjálfa hjá
Fylki. Er við hittum hann og
spurðum hann hvað hann ætlaði að
endast í þessu lengi þá var svarið
einfalt. ,,Þetta er bara svo gaman“.
Þessi orð eru lýsandi fyrir hann.
Kristján var sterkur persónuleiki
og naut virðingar sem þjálfari.
Aðdáunarvert var hversu samstiga
kona hans var honum í þjálfuninni.
Við viljum votta fjölskyldu hans og
vinum okkar dýpstu samúð. Við
munum minnast Kristjáns fyrir
þau verk sem hann vann, því orð-
spor það sem hann skapaði sér
deyr ekki.
2. flokkur Fylkis 1989.
Góður félagi okkar Kristján G.
Þorvaldz er fallinn frá, langt fyrir
aldur fram. Hann flutti á unglings-
árum sínum í Vallargerðið í Kópa-
vogi. Þetta var í hjarta Blikahverf-
isins og fór Kristján að sjálfsögðu
að æfa knattspyrnu með Breiða-
bliksliðinu enda mikill íþróttamað-
ur í sér. Þetta var uppgangstími
hjá félaginu og meðal annars vann
meistaraflokkur félagsins í karla-
knattspyrnu sig upp í efstu deild í
fyrsta skipti á þessum tíma. Krist-
ján tók þátt í þessari uppbyggingu
og spilaði með meistaraflokknum í
nokkur ár.
Kristján Þorvaldz var ágætur
knattspyrnumaður; sterkur og
fylginn sér og það fóru fáir
framhjá honum í vörninni. Hann
var líka mikill félagsmálamaður og
fljótlega haslaði hann sér völl sem
stjórnarmaður og sem þjálfari
yngri flokka félagsins. Kristján sat
í stjórn knattspyrnudeildar
Breiðabliks í nokkur ár, meðal
annars var hann gjaldkeri deild-
arinnar. Það starf þykir eitt hið
erfiðasta sem nokkur tekst á við í
félagsstarfi íþróttafélaga en Krist-
ján sinnti því af ákveðni og festu
eins og öllu því sem hann tók sér á
hendur fyrir félagið.
En mest af mörkum lagði þó
Kristján til félagsins í formi þjálf-
unar. Hann þjálfaði marga flokka
félagsins og þeir eru ófáir knatt-
spyrnumennirnir sem hlutu góða
grunnþjálfun hjá Kristjáni. Hann
var afskaplega áhugasamur þjálf-
ari og vel skipulagður í starfi sínu.
Kristján var ákveðinn við drengina
sem hann þjálfaði en sanngjarn.
Margir þessara pilta náðu langt í
íþrótt sinni og má að hluta þakka
það ötulu starfi Kristjáns.
Þó svo að það séu nokkur ár síð-
an Kristján þjálfaði hjá félaginu þá
fylgdist hann alltaf vel með starfi
Breiðabliks. Ekki minnkuðu sam-
skiptin þegar sonur hans Skúli fór
að þjálfa hjá félaginu. Kristján
studdi vel við bakið á syni sínum
enda hafði Skúli spilað undir hans
stjórn í grænu treyjunni.
Breiðablik kveður góðan dreng
og sendir Guðlaugu og fjölskyld-
unni allri innilegar samúðarkveðj-
ur.
Fyrir hönd knattspyrnudeildar
Breiðabliks,
Andrés Pétursson.
„Ef ég ætti að velja drengja-
landslið í dag þá værir þú fyrsti
maðurinn sem ég myndi velja“,
sagði Kristján við mig um leið og
hann tók utan um axlirnar á mér.
Þetta var fyrir rúmlega 20 árum,
rétt fyrir einn leikinn sem við átt-
um að spila. Þessi orð, sem hann
lét eflaust falla um fleiri í uppörv-
unarskyni, komu fyrst upp í hug-
ann þegar ég frétti af andláti hans.
Kristján þjálfaði mig í 3. flokki í
Val árin 1985 og 1986. Þessi orð
voru mér mikill innblástur og
hvatning til að leggja hart að mér
áfram í knattspyrnunni. Þetta end-
urspeglar einnig einkenni Krist-
jáns sem þjálfara en hann lagði
mikla áherslu á að hvetja læri-
sveina sína til dáða. Auk þess var
hann gríðarlega metnaðargjarn
um að ná góðum árangri. Ég man
enn hversu vonsvikinn hann var
þegar við töpuðum leik gegn Vík-
ingi í úrslitakeppni 3. flokks árið
1986 og misstum þar með af Ís-
landsmeistaratitlinum. Kristján
náði einnig að sameina snilldarlega
þá eiginleika að vera ákveðinn
þjálfari, sem lét okkur vita þegar
við gerðum mistök, og að vera frá-
bær húmoristi. Hann hélt uppi aga
en alltaf var stutt í glaðværðina og
kímnina sem létti okkur lund. Ég
bar mikla virðingu fyrir Kristjáni,
sem hann ávann sér svo auðveld-
lega með óþvingaðri og þægilegri
framkomu sinni.
Mér er einnig minnisstætt þegar
hann bauð okkur strákunum heim
til sín við lok keppnistímabilsins
1986. Þar áttum við frábæra stund
með honum og Gullu, konu hans,
sem fylgdist oft með leikjum okkar
og veitti okkur stuðning. Þar var
mikið borðað, hlegið og spiluð tón-
list. Þau kunnu svo sannarlega að
taka á móti fólki.
Leiðir okkar Kristjáns lágu aft-
ur saman níu árum síðar þegar ég
spilaði með Breiðabliki. Þá var það
hluti af lokaverkefni hans við
E-þjálfunarstig Knattspyrnusam-
bands Íslands að fylgjast með æf-
ingum og leikjum okkar. Þarna
upplifði ég aftur metnað hans í
þjálfuninni því E-stigið var á þeim
tíma hæsta gráða sem hægt var að
ná í þjálfunarnámi á Íslandi. Það
var sannarlega gaman að hitta
Kristján aftur. Hann hafði ekkert
breyst. Húmorinn var á sínum stað
og hann hvatti okkur til dáða.
Knattspyrnuhreyfingin er einum
reynslumiklum þjálfara fátækari
en mestur er missir Gullu og son-
anna Skúla og Ólafs. Ég færi þeim
mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Arnaldur Loftsson.
Elskuleg eiginkona mín, móðir okkar, tengda-
móðir, amma og systir,
STEFANÍA INGIBJÖRG SNÆVARR,
sem lést fimmtudaginn 20. apríl, verður jarðsungin
frá Seljakirkju fimmtudaginn 27. apríl kl. 15.00.
Guðmundur Lárus Guðmundsson,
Árni Snævarr Guðmundsson,
Sesselja Guðmundsdóttir, Orri Haraldsson,
Sesselja Snævarr,
Sigrún Snævarr
og barnabörn.
Elsku afi, Kjartan Aðalsteinn
Jónsson, andaðist á sjúkrahúsinu á
Ísafirði 27. mars sl. Hann var einn
yndislegasti maður sem við þekkt-
um. Við minnumst afa með hlýju og
þakklæti og það fyrsta sem kemur
upp í hugann þegar við hugsum um
hann, er brosið hans. Afi var alltaf
brosandi og þegar hann brosti, þá
brosti hann með augunum eins og öll
systkinin frá Eyrardal.
Eyrardalur í Súðavík var hans
heimili og þaðan eigum við honum að
þakka margar ljúfar minningar úr
sveitinni. Það var gott að vera saman
í kyrrðinni í sveitinni hjá afa og
ömmu. Þau lögðu alltaf mikið upp úr
góðu samtali og skemmtilegum fé-
lagsskap. Við fundum alltaf mikla ró
í kringum hann sem fékk okkur til að
gleyma öllu amstri og stressi hvers-
dagslífsins. Það fylgdi honum afa já-
kvæð útgeislun sem hafði góð áhrif á
fólkið sem umgekkst hann. Eitt
skýrasta einkenni persónuleika afa
KJARTAN AÐAL-
STEINN JÓNSSON
✝ Kjartan Aðal-steinn Jónsson
fæddist á Galta-
hrygg í Heydal í
Mjóafirði í Ísa-
fjarðardjúpi 29.
janúar 1917. Hann
andaðist á öldrun-
ardeild Sjúkra-
hússins á Ísafirði
aðfaranótt 27.
mars síðastliðins
og var útför hans
gerð frá Súðavík-
urkirkju 8. apríl.
er vafalaust dugnaður
hans, þolinmæðin og
einlægnin. Fjölmörg
börn dvöldu sumar-
langt í Eyrardal, flest
komu ár eftir ár og
hlökkuðu ávallt til að
koma aftur. Öll börn
fóru þaðan ríkari og
betri manneskjur en
þau komu. Við munum
alla okkar ævi búa að
því gildismati, viðhorf-
um og viðmóti sem við
fengum þar.
Afi er alltaf hjá okk-
ur og æskuminningarnar sem við
eigum um hann eru eins og gull í
hjarta okkar og verða þar alltaf. Við
vitum að núna er hann kominn til
pabba og Helenar og unir sér vel í
þeim félagsskap. Viljum við þakka
afa fyrir þær dýrmætu minningar
sem hann skilur eftir. Hann hefur
sannarlega getað litið yfir farinn veg
með gleði og stolti.
Ég heyri ljúfan lækjarnið,
sé ljósar fífur í haga,
máltæki mótuð að fornum sið.
Minning um sumardaga.
Góðmennskan og brosið bjarta,
blíðlegt faðmlag og koss á kinn.
Sorgin stingur í litlu hjarta,
ég sakna þín elsku afi minn.
Dásamlegur engill dvelur hjá mér,
dvelur í mínu hjarta.
Glaður hann gengur á móti þér
í Guðsríkinu bjarta.
(R.H.)
Inga Dóra, Heiða og
Rannveig Hrólfsdætur.