Morgunblaðið - 16.07.2006, Side 34
34 SUNNUDAGUR 16. JÚLÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Í sunnanvindinum dansanokkrir hrafnar ofan á þeimVatnsdalshólanna semstanda næst Flóðvangi,glæsilegu veiðihúsi laxveiði-
manna í Vatnsdal. Þetta fræga
kennileiti dalsins, hólarnir, mynda
einskonar skeifu utan um húsið, að
vestan og norðan; að austanverðu
glampar á Flóðið, vatnið í mynni
dalsins. Neðan flóðsins er stutt
laxveiðisvæði en frægt fyrir marga
laxa og væna; þarna eru Hnausa-
strengur, Skriðuvað, Hólakvörn og
Bjarnastaðarkvörn. Nokkrir kíló-
metrar árinnar innan við Flóðið til-
heyra silungasvæði árinnar en síð-
an tekur við margbreytilegt
laxveiðisvæði, með þveránni Álku,
en sjálf Vatnsdalsá sveigir til aust-
urs inn Forsæludal, sögusvið átaka
Grettis Ásmundarsonar við draug-
inn Glám.
Veiðimenn ákváðu að fara ekk-
ert of snemma á fætur en uppúr
átta hverfa bifreiðar úr hlaði í
rykskýi. Reyndasti leiðsögumaður-
inn er eftir, í flóknari leiðsögn en
oft áður; gegnum símann lóðsar
hann nokkra Frakka frá hóteli í
Reykjavík inn í veiðibúð í Síðu-
múla. Að því loknu kemur Ágúst
Sigurðsson út í bíl, framundan er
rannsóknarferð um veiðisvæðið.
Veiðin er komin vel af stað í
Vatnsdalsá, síðasta holl fékk 23
laxa, nær allt tveggja ára fiska og
innan um sannkölluð tröll: 100, 97
og 95 cm. Og öllum sleppt aftur út
í strauminn.
„Það eru forréttindi að fá að
taka á móti svona stórum fiskum.
Þetta gerist ekki í öllum laxveiði-
ám landsins,“ segir Ágúst. „En
þeir koma hingað. Þetta eru líka
sverir og miklir fiskar, stofninn er
þannig; þeir geta verið ansi þungir
á.“
Við ökum inn dalinn, meðfram
silungasvæðinu en Ágúst segir lax-
inn lítið stoppa þar „Upp frá á
laxasvæðinu eru líka staðir sem
geta haldið miklu af bleikju, fal-
legum fiski, tvö þrjú pund. Það
hefur oft komið sér vel að fara með
veiðimenn sem hafa ekki náð að
setja í fisk á slíka staði. Svo hefur
sjóbirtingurinn verið að sækja á í
ánni.“
– Ég þykist vita að leiðsögumað-
urinn standi oft í kastkennslu og
kenni fólki að setja í fisk.
„Já, já. Undanfarin ár hefur ver-
ið talsvert um byrjendur og fólk
sem er stutt á veg komið. Þá er oft
gott að vera þolinmóður. En það er
mjög gefandi þegar fólk sem mað-
ur hefur verið að kenna nær að
setja í fisk.“
Lönduðum 13 í röð
– Skyldi leiðsögumaðurinn eiga
sér eftirlætisstað í ánni?
„Já, Skriðuvað á mikið í mér,“
segir Ágúst. „Mér finnst gaman að
veiða það. Og þar hef ég lent í
mestri veiði með manni. Það var í
endann á júlí og við lönduðum 13
löxum í röð – alla á hits. Þeir komu
stundum tveir og þrír í fluguna í
einu.
Maðurinn hætti að veiða áður en
vaktin var búin, vildi fara niður í
Hnausastreng og veiða „stóra“
laxa, samt hafði hann fengið þarna
einn 15 punda og annan 16. Ég
held hann hafi fengið fjóra í viðbót,
það sem eftir lifði túrsins.
Svo á ég annan eftirlætisstað,
Grjóthrúgukvörn. Þar fékk ég
minn stærsta lax, 23 punda.“
– Hvað tók hann?
„Það er nú það versta. Örn
frændi minn í Útilífi gaf mér og
vini mínum sitthvora fluguna og
við veiddum báðir vel á þær en
týndum báðum. Svo man Örn ekki
lengur hvaða fluga þetta var!“ seg-
ir hann og hlær.
Við nemum staðar við brúna
neðst á Álku, þar sem Ágúst
skyggnir veiðistaði ofan og neðan
brúar. Hann heldur fyrst að hann
hafi orðið var við lax bakvið grjót
en þegar það er skoðað betur,
reynist það ekki rétt. Þá göngum
við inn í tignarlegt gljúfrið, að
skoða helstu veiðistaði.
„Einu sinni gekk ég hér með
belgískum veiðimanni sem benti á
strenginn þarna og spurði hvort
þarna væri fiskur.
Ég sagði nei, það væri aldrei
fiskur þar en hann mætti kasta ef
hann vildi. Ég var ekki búinn að
ganga nema tíu skref áfram þegar
hann kallaði, var búinn að setja í
lax.“
Ágúst kastar á veiðilega breiðu í
gilinu, lætur hitsið renna yfir töku-
staðina, án þess að fá viðbrögð.
„Hann getur legið við þetta
grjót þarna,“ segir hann og bendir
„Og líka við alla þessa steina. Við
tókum einu sinni fjóra hér á hálf-
tíma.“
Hann bendir mér síðan á annan
veiðistað, hraðan streng. „Þarna á
hann til að liggja. Þá rétt glittir í
hann. Við höfum hitsað þá upp, það
er mjög gaman.
Hitsið, ef það má kallast ein
fluga, er í uppáhaldi hjá mér. Ég
reyni að láta þá sem ég veiði með
byrja með hits. Mér finnst þetta
góð fluga að leita með. Þetta er
heldur ekki það flóknasta, að láta
fluguna skera yfirborðið – þótt það
sé hægt að flækja það með mynd-
um,“ segir hann og brosir.
Eftir skoðunarferðina upp með
Álku röltum við til baka og síðan
liggur leið framhjá Grímstungu og
inn Forsæludal. Í ljós kemur að
þrátt fyrir að Ágúst sé við leiðsögn
í Vatnsdal nær allt sumarið, hlakk-
ar hann til haustveiðiferðar með
góðum félögum í Straumsfjarðará
á Snæfellsnesi.
„Við höfum farið þangað und-
anfarin ár. Það er allt öðruvísi á en
þessi, minni og styttri, meira í
gljúfrum en alveg bráðskemmti-
leg.“
Hann segir nauðsynlegt að
breyta til í veiðinni. Stundum fer
hann í sjóbleikjuveiði í Skálmardal
á Barðaströnd. „Þar er óbeisluð
náttúra, ég að dunda mér og hef
það náðugt, fjarri allri menningu.
Það getur verið erfitt að gíra sig
niður, en maður gengur um dalinn
með léttar græjur og leitar að
fiski.“
Dreginn eins og handklæði í land
Ágúst er uppalinn á Snæfells-
nesi og þar fékk hann sína fyrstu
veiðireynslu. Fjölskyldan bjó um
tíma í Stykkishólmi og í fimm ár í
Laugagerðisskóla, á bökkum Haf-
fjarðarár. „Ég fór með föður mín-
um í vötnin í Kerlingarskarði,
Baulárvallavatn og Hraunsfjarðar-
vatn, að veiða urriða. Svo var oft
farið í bleikju í Hlíðarvatn. Pabbi
hafði gaman af að veiða og var í
ræktun líka. Hann var í að rækta
upp Bakka- og Gríshólsá, rétt hjá
Stykkishólmi. Í Haffjarðará sá ég
laxa nokkrum sinnum – en ég
stalst bara einu sinni til að kasta
þar.“
– Veiddirðu eitthvað?
„Nei. Ég gat farið á bát frá skól-
anum að neðsta veiðistað á flóðinu.
Ég kastaði nokkrum sinnum en
fékk engin viðbrögð.
Svo fór pabbi ásamt fleirum að
rækta upp Valhamarsá á Skógar-
strönd. Þar fékk ég maríulaxinn,
14 punda hæng, grútleginn og
aumingjalegan. Það var ævintýri
fyrir mig, en hann var dreginn eins
og handklæði í land.“
Við ána fyrir neðan okkur eru
veiðimenn að kasta í Þórhöllu-
staðahyl, fyrir neðan tóttir bæj-
arins þar sem þeir Glámur og
Grettir tókust á. Þar hafa nokkrir
veiðst í sumar.
Og áfram höldum við, upp fyrir
bæinn Forsæludal, upp að
Stekkjarfossi, þar sem er laxastigi.
Ofan hans er ekki mikil veiði, þó
veiddust þar yfir 100 laxar eitt
sumarið. Í Stekkjarfossinum hafa
veiðst nokkrir stórir fiskar í sum-
ar. Ágúst laumast fram á klett og
gægist, sér einn vænan liggja þar
og þeir gátu verið fleiri.
„Ég setti í einn hér í fyrra og
nötraði allur eftir þá viðureign.
Þvílíkur kraftur. Hann fór fyrst
þarna niður eftir, svo upp að fossi,
það voru ekki nema 20 metrar eftir
af undirlínunni. En hann slapp
blessaður, fór niður flúðirnar.“
Neðar í dalnum, við Efri ármót,
eru veiðimenn og Hallur leiðsögu-
maður sem þar er, segir veiðimenn
hafa verið að reisa fiska trekk í
trekk en hann taki bara ekki.
„Svona getur þetta verið,“ segir
Ágúst þegar við ökum áfram niður
eyrarnar. „Hérna lenti ég annars
einu sinni í því að veiðimaðurinn
týndi stönginni. Þetta var gamall
erlendur vinur minn, hann var úti í
Ármótunum og ég sá að hann var
að rýna ofan í vatnið, stangarlaus.
Þegar ég kom til hans kom í ljós
að hann hafði misst stöngina. Ég
taldi ekki mikið mál að finna hana,
hún var með skærgrænni línu. En
ég óð um allt og leitaði, án árang-
urs. Það var svo ekki fyrr en hálf-
tíma seinna, þegar ég gekk niður
með ánni, að þar var félagi manns-
ins að veiða og var kominn með
aukastöng. Hún hafði þá runnið
niður til hans, eina 300 metra, en
félaginn var svo kappsamur við
veiðarnar að hann bara dró stöng-
ina uppúr en var ekkert að láta
þann gamla vita.
Þegar ég kom með stöngina til
baka var ósk gamla mannsins ein:
Ekki segja konunni minni frá
þessu! Hann fengi ekki leyfi til að
halda til veiða ef hún vissi að hann
lenti í svona vandræðum.“
Biðlisti í september
Við ræðum um veiðiaðferðina
sem stunduð er í dalnum, veitt og
sleppt, en sumir hafa gagnrýnt
hana og finnst skrýtið að sleppa
veiddum fiski.
„Það kom mér skemmtilega á
óvart hvað margir tóku þessu vel í
upphafi. Einhverjir fastakúnnar
hurfu á braut en þeir dagar voru
gripnir, flestir af útlendingum sem
vildu stunda svona veiði. En Ís-
lendingar hafa tekið við sér og nú
er kominn fastur kúnnahópur: það
er uppselt í ána og biðlisti í sept-
ember, enda er þetta þá eina áin á
landinu sem er full af laxi. Það er
ekki búið að drepa 60–70 % af lax-
inum.
Samkvæmt mælingum vísinda-
manna hefur aldrei sést jafngóður
seiðastofn og hér í Vatnsdalsá nú;
meira að segja lækir þar sem hef-
ur ekki fyrr verið náttúruleg
hrygning eru að fyllast af seiðum.“
– Margir fylgjast grannt með
þessari tilraun.
„Ég finn fyrir því og ég finn líka
fyrir fordómum. Ætli það sé ekki
bara öfund. Þetta gengur mjög vel,
áin er seld og veiðimenn eru
ánægðir. Auðvitað ætti þetta að
vera stundað víðar. Þetta tekur
bara sinn tíma og það þarf þol-
inmæði meðan verið er að ná
stofninum upp.“
– Veiðast stundum aftur fiskar
með flugum í, sem hafa slitið?
„Já, það kemur fyrir. Ég sleppi
líka stundum fiski með flugunni í,
klippi bara á tauminn ef flugan er
á slæmum stað. Hún dettur úr eft-
ir nokkra daga. Það skaðar laxinn
ekkert. Einu sinni veiddi ég í
Stóru-Laxá lax sem var með stór-
an maðkakrók í sér. Hann var að
verða laus og við að detta úr. Það
var ekki að sjá að hann háði fisk-
inum.“
Við dólum okkur niður dalinn og
Ágúst staðfestir að það geti verið
betra að treysta ekki leiðsögu-
manninum í blindni.
„Fyrir nokkrum árum fór ég um
alla ána með vini mínum Gauja
Berta og kenndi honum á ána, því
hann var að koma hingað í haust-
veiði. Hann skráði alla tökustaði
samviskulega í stílabók. Og hann
skrifaði líka niður eftir mér at-
hugasemdir eins og „Línufljót –
Sleppa!“ Ég ráðlagði honum að
aka bara þar framhjá.
Og ég hef fengið að heyra það
síðan. Þetta var aðalveiðistaðurinn
eitt árið og ég fékk aldrei að fara
þangað! segir félaginn.“
STANGVEIÐI | VEITT MEÐ ÁGÚSTI SIGURÐSSYNI Í VATNSDALSÁ
Forréttindi að taka á móti
svona stórum fiskum
Morgunblaðið/Einar Falur
Kastað á breiðuna. Ágúst Sigurðsson veiðir í Álku, þverá Vatnsdalsár.
Eftir Einar Fal Ingólfsson
efi@mbl.is
Ágúst Sigurðsson kom fyrst á laxa-
svæðið í Vatnsdalsá sumarið 1996,
veiddi þar í þrjár vaktir en hefur verið
leiðsögumaður þar síðan, í allt að tvo
mánuði á sumri. Hann starfar annars
hjá Haraldi og Sigurði, rafverktökum í
Reykjavík.
Ágúst hefur síðustu níu ár verið við
leiðsögn í ánni fyrir Pétur Pétursson,
sem tók hana þá á leigu ásamt frönsk-
um félaga sínum, og tóku þeir upp
„veiða og sleppa“.
„Í einni vikunni í fyrra vorum við með
15 Maríulaxa en við bjóðum fólki að
taka þá,“ segir Ágúst. „En í nánast öll-
um tilvikum vill það sleppa fiskinum aft-
ur,“ bætir hann við. „Því finnst gaman
að horfa á eftir honum synda út í ána.
Það eru allir hættir að biðja um að
taka lax. Það var nýtt fyrir menn að
sleppa fyrir áratug, ég átti sjálfur erfitt
með það. En auðvitað fara menn eftir
reglunum.
Hér áður fyrr lenti maður í því að moka laxi úr frystikistunni á vorin, það er
dapurleg staðreynd. Þeir fiskar hefðu verið betur settir í ánni. En ég veiði alltaf
talsvert af bleikju í matinn.“
Hættir að biðja um að taka lax
Morgunblaðið/Einar Falur
Ágúst Sigurðsson.