Morgunblaðið - 02.08.2006, Blaðsíða 22
22 MIÐVIKUDAGUR 2. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
„ÞESSI málverk eru máluð frá
árinu 2003 til dagsins í dag og þetta
eru afstrakt-expressjónísk verk.“
Svo hreint og klárt byrjar Óli G. Jó-
hannsson myndlistarmaður að ræða
um verk sín. Engu ofaukið, hreint
til verks: blátt áfram.
„Þau eru afstrakt en grunntónn-
inn er landið, veðrið og dýralífið.
Myndirnar eru frá öllum árstímum
og í raun og veru þá er það birtan
og ástand landsins, ýmist snjór,
gróður eða annað slíkt, sem hefur
áhrif og svo það skaplyndi sem ríkir
í kallinum á hverjum tíma,“ bætir
hann við.
Sýningin Viðkomustaðir er um
þessar mundir í Gallery Turpentine
í Ingólfsstræti og um það leyti sem
sýningin opnaði var gefin út bók um
verk listamannsins sem ber einfald-
lega titilinn Óli G. Jóhannsson. Í
bókinni er búið að prenta úrval
verka frá síðustu fimm árum ásamt
ritgerð um Óla, Náttúran, tíminn og
spuninn, eftir Aðalstein Ingólfsson
listfræðing.
Heldur sig við grunninn en
þróar og mótar verkin
Á þessum fimm árum hafa orðið
nokkrar breytingar á verkum lista-
mannsins, en þau eru öll byggð á
sama grunni, að sögn Óla. „Ég mál-
aði fyrir nokkrum árum síðan meira
í flötum, en núna brýt ég oft og tíð-
um hið séða niður í frumeindir.
Verkin eru sum hver meira unnin,
því ég hef gefið mér allt að tvö og
hálft ár í sumar myndirnar, til þess
að ýta í og teikna ofan í. Þannig að
sumar myndirnar eru nokkuð þykk-
ar og maður sér inn í litalögin.“
Óli leitar þannig á ný mið og
víkkar út sinn afstrakt-expressjón-
íska stíl um þessar mundir. En sér
hann fyrir sér að hann muni fást við
aðra hluti í framtíðinni?
„Eins og er þá fullnægir það sem
ég er að fást við alveg minni þörf í
málverkinu. Ef einhver árangur á
að nást, þá verður auðvitað að vera
ánægja og gleði í því sem maður
gerir þannig að það bíði manns eitt-
hvað spennandi þegar maður kemur
á vinnustofuna að morgni. Mál-
verkið er í þróun og gerjun hjá mér
og ég tel trúlegast að ég muni mála
áfram í þeim anda sem ég geri í
dag.“
Þótt Óli hafi haldið sig við sinn
afstrakt-expressjóníska stíl fer því
hins vegar fjarri að hann sé á móti
því sem aðrir fást við í myndlistinni.
„Ég er opinn gagnvart öllu sem
lifir og hrærist innan þessa geira.
Allt á rétt á sér. Ég er aðallega á
móti þeirri stefnu sem hefur verið í
gegnum tíðina á Íslandi, að menn
séu einsýnir og að eingöngu eitt sé
algilt og gott. Það er bara ekki
þannig. Og unga fólkið okkar sem
er í þessari „nýlist“, þetta er alveg
blússandi fínt og flott og gaman að
þessu. Ég er orðinn það gamall að
ég er líklega orðinn andskoti víð-
sýnn.“
Húnvetnsk gen ráða ferðinni
Þessi víðsýni listamannsins er lík-
lega til komin með árunum og víð-
tækri reynslu í gegnum tíðina. Óli
hefur t.a.m. ekki alltaf einbeitt sér
að myndlist og fékkst áður við sjó-
mennsku og blaðamennsku með-
fram myndlist. Í kjölfar „hafarís
norður í Barentshafi“ sem hann
lenti í fyrir 13 árum einbeitti hann
sér að listinni.
„Ég var í sjónum í tuttugu mín-
útur og lifði það af en „kíkkaði“ svo-
lítið yfir um. Hægt og bítandi hef
ég unnið mig út úr áverkum, þó ég
sé ekki heill. En skítt og laggó,
maður er lifandi. Axlarmeiðsl og
hálsmeiðsl sem ég hlaut há mér í
starfi. En maður lærir að lifa með
því. Bítur á jaxlinn og bölvar í
hljóði og lætur húnvetnsku genin
ráða ferðinni.“
Brýtur hið séða niður í
frumeindir í nýju verkunum
Morgunblaðið/Jim Smart
Myndlistarmaðurinn Óli G. heldur sig við sinn afstrakt-expressjóníska stíl, en hefur þróað málverk sín síðustu ár.
Myndlist | Óli G. Jóhannsson með sýningu í Gallery Turpentine og listaverkabók
Eftir Hjálmar S. Brynjólfsson
hsb@mbl.is
Myndasöguunnendur höfðu heldur beturástæðu til að kætast um miðjan síð-asta mánuð, en þá kom út sjöunda
bókin í Fables-seríunni.
Ég er meðal þeirra sem biðu spenntir eftir að
bókin kæmi í hillur bókabúðarinnar Nexus, litlu
nördaparadísarinnar á Hverfisgötu (þar sem ég
gæti hæglega eytt öllum mínum peningum í
heilu árgangana af Star-Trek, hilluraðir af
teiknimyndasögum, herdeildir af tindátum, og
ágætis vopnabúr af næstum-ekta Star-Wars
geislasverðum).
Það er rétt að ég leggi á það áherslu að Fables-sögurnar eru ekki bara fyrir
laumu-nörda eins og mig. Allir ættu að kunna
að meta þessar teiknimyndasögur, sem eru með
því allra besta sem býðst af myndasögubók-
menntum í dag.
Fables segja frá kunnuglegum hetjum: Mjall-
hvít, Öskubuska, Alladín og Móglí eru öll mætt
til sögunnar. Ekki nóg með það heldur eru
Baba Yaga, Gosi og Svartskeggur og ótal aðrar
ævintýra- og goðsagnapersónur það líka.
Sögusviðið er New York, þar sem ævintýra-
hetjurnar hafa sest að eftir að hafa flúið í ör-
væntingu ævintýraheimanna, undan stríðandi
fylkingum dularfulls og ógurlegs óvinar.
Nú gætu menn haldið að ævintýraheimurFables væri barnalegur, enda sögupersón-
urnar allar fengnar að láni úr sögum sem í dag
eru helst lesnar fyrir börn. Aldeilis ekki: Bill
Willingham, höfundi Fables, tekst að galdra
fram raunsæjan og spennandi heim með al-
vörugefnum söguþræði. Sögupersónurnar eru
fjarri því barnalegar og saklausar. Þvert á móti
er dregin upp persónuleg og djúp mynd af
breyskum söguhetjunum, sem hafa þroskast og
breyst frá því sem eitt sinn var og þurfa nú að
takast á við vandamál allt annars eðlis en gerð-
ist í ævintýraheimum. Frasinn „þau lifðu ham-
ingjusamlega upp frá því“ á ekki lengur við.
Ósjaldan endurspeglast vandamál raunveru-leikans í Fables-sögunum. Í nýjustu bók-
inni verða árekstrar milli ævintýrapersóna hins
vestræna heims og goðsagna Mið-Austurlanda.
Sjálfur Sindbað sæfari er kominn til Man-
hattan með fríðu föruneyti. Innan um hafurtask
Sindbaðs leynist ægilegt gjöreyðingarvopn sem
hæglega gæti umturnað lífi ævintýrahetjanna.
Strax kemur í ljós að mikil gjá er milli menn-
ingarheima austurs og vesturs og má lítið út af
bera svo allt fari á versta veg.
Heldur betur kunnuglegt mótíf, og ómót-
stæðileg lesning í túlkun Willingham og lista-
mannanna sem hann hefur fengið til liðs við
sig.
Söguhetjur barnabókanna vaxa úr grasi
’ … „þau lifðu hamingjusamlegaupp frá því“ á ekki lengur við.‘
Í nýjustu bókinni í Fables-seríunni kastast í
kekki milli ævintýrahetja hins vestræna menn-
ingarheims og þess austræna. asgeiri@mbl.is
AF LISTUM
Ásgeir Ingvarsson
RJÓMABLÍÐA var í Skálholti og
létt yfir mönnum þegar leið að fyrri
tónleikum sl. laugardags. Nærri
hvert sæti kirkjunnar var skipað.
Eflaust hafði þegar borizt orð af frá-
bærum Árstíðatónleikunum tveim
dögum áður þegar sama fólk var að
verki – Bachsveitin í Skálholti, sem
undir forystu rúmensk-ísraelsk-
enska fiðluleikarans Katiar De-
bretzeni hafði sýnt þvílíka fjörkálfa-
spretti í konsertafernu Vivaldis að
annað eins heyrist varla nema hjá
fremstu núverandi barokk-
strengjasveitum heims á góðum
degi.
Hér á yfirstandandi afmælisári W.
A. Mozarts voru verk eftir hann á
bæði fyrri og seinni tónleikum dags-
ins. Var því dável til fundið að kynna
í upphafi tónlist tveggja næstu fyr-
irrennara undrabarnsins frá „gal-
anta“ rókókóskeiðinu. Pietro Anton-
io Locatelli (1695–1764) átti fyrsta
leik með Introduzio Teatrali, þrem
bráðskemmtilegum strengjasveit-
arþáttum af sex er leiknir voru af
sama smitandi fjöri og Vivaldi und-
angenginn fimmtudag. Af ein-
hverjum torskiljanlegum ástæðum
voru tveir aðrir þættir bálksins síð-
an fluttir að loknum flautukonsert
Quantzs næst á eftir, að því er Sig-
urður Halldórsson kynnti, enda ótil-
greint í tónleikaskrá.
Johann Joachim Quantz (1697–
1773) mun þekktastur fyrir digran
flautuskóla („Versuch der wahre Art
die Flöte traversière zu spielen“) og
um 300 flautukonserta. Flestir
samdir fyrir valdamesta flautuama-
tör 18. aldar, Friðrik mikla Prússa-
konung, sem hafði á honum miklar
mætur. C. P. E. Bach (Sebastíans-
son), er einnig starfaði fyrir Pots-
damhirðina á sama tíma, fékk þann-
ig aðeins brot af launum Quantzs.
Hermt er að þessi eftirlæt-
isflautukennari einvaldsins hafi m.a.
haft það þarfa hlutverk að rjúka á
fætur og æpa „bravó!“ þegar kóngsi
þurfti að stelast til að anda í miðri
hendingu. Rifjaðist sú sögn óhjá-
kvæmilega upp við heljarlöngu ein-
leiksrunur G-dúr konsertsins QV
5:174 er Martial Nardeau fór snilld-
arvel með á klappalausu barokk-
flautu sína. Íðilfagur sortulyngstónn
hennar – einhvers staðar á milli
blokkflautu og nútímaþverflautu –
var syngjandi mjúkur í hæga mið-
þættinum (merkilega laus við hinn
ýkta „kjökuraffekt“ er áður fyrr gat
lýtt barokktúlkun Martials) og
blásturinn áreynslulaust virtúós í
leifturhraða lokaþættinum.
Að meðtöldum eldvökrum samleik
Bachsveitarinnar var þetta skýrt
mótaða og vel samda verk að mínu
viti hápunktur tónleikanna, jafnvel
þótt hin öllu þekktari Serenata
Notturna Mozarts K239 (1776) væri
einnig yndisvel flutt sem síðasti lið-
ur.
Því miður heyrði ég ekki fyr-
irlestur Debretzenis kl. 14. Hins
vegar tjáði hún mér eftir tónleikana
að sum „nútíma“leikbrögð Vivaldi-
tónleikanna – þ. á m. „sul ponticello“
og „Bartók-pizzicato“ – fyndust þeg-
ar fyrirskrifuð í handritum miðbar-
okkhöfunda á við Biber og Schmel-
zer(!). Svosem gott að vita eitt sér.
Hitt var þó fyrir mestu hversu sann-
færandi var með farið. Og það vant-
aði hvorki umræddan fimmtudag né
við þetta tækifæri. Það var bók-
staflega eins og að verða unglingur á
nýjaleik að upplifa jafn hörundslaust
fágaðan og fantasprækan flutning.
Ódáins-
veigar í
tónum
TÓNLIST
Skálholtskirkja
Verk eftir Locatelli, Quantz og Mozart.
Bachsveitin í Skálholti. Leiðari: Kati
Debretzeni fiðla. Laugardaginn 29. júlí
kl. 15.
Sumartónleikar í Skálholti
Ríkarður Ö. Pálsson