Morgunblaðið - 17.08.2006, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 17.08.2006, Blaðsíða 35
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. ÁGÚST 2006 35 MINNINGAR þeir voru nokkrir á þessum dögum sem voru til í að leggja umtalsvert á sig fyrir sveitina, var eldmóður hans og fórnfýsi í garð Svansins meiri en annarra og átti sér vart takmörk. Hann gekk í öll störf sem vinna þurfti, hvatti aðra til dáða og lét á sér skilja með ótvíræðum hætti ef honum þótti menn ekki gera skyldu sína. Áhugi Sæbjörns og metnaður fyrir hönd sveitarinnar, einkum eftir að hann gerðist stjórnandi hennar, var slíkur, og þar með kröfur þær sem hann gerði bæði til sjálfs sín og ann- arra félaga, að sumum eldri félögum reyndist torvelt að samræma þær skyldum sínum við fjölskyldur og vinnuveitendur. En í skörð þeirra sem heltust úr lestinni reyndist vandalaust að fylla með nýjum kyn- slóðum blásara sem Sæbjörn átti drjúgan hlut í að mennta. Ég verð Sæbirni Jónssyni ævin- lega þakklátur fyrir að hafa beint mér inn á þessa braut. Valgerði og afkom- endum þeirra vottum við Edda samúð og biðjum þeim Guðs blessunar. Jóhann Gunnarsson. Sumir búa yfir þeim þrótti og skap- ferli að geta afkastað margfalt meiru en meðalmanninum er fært. Einn þeirra var Sæbjörn Jónsson tromp- etleikari, hljómsveitarstjóri og tón- menntakennari, sem nú er látinn langt um aldur fram. Tónlistarferill hans var glæsilegur og afrekin mörg. Hann kenndi mörgum af okkar bestu tónlistarmönnum, stjórnaði margs konar hljómsveitum og blés í trompet með Sinfóníunni. Mesta afrek hans er þó stofnun Stórsveitar Reykjavíkur 1992, sem hann stjórnaði þar til heils- an gaf sig. Síðustu tónleikarnir hans með sveitinni voru sumarið 2002, er seinni geislaplatan er hann stjórnaði með Stórsveitinni, Í Reykjavíkur- borg, kom út; Reykjavíkurlög í út- setningum Veigars Margeirssonar, sem var einn af máttarstólpum Stór- sveitarinnar meðan hann bjó hérlend- is og blés á fyrstu Stórsveitarskífunni sem einfaldlega hét Stórsveit Reykja- víkur og kom út 1995. Þar braut Sæ- björn blað í íslenskri djasssögu. Þótt Stórsveit Reykjavíkur verði helsti bautasteinn Sæbjörns má ekki gleyma Tónmenntaskólasveitum hans eða Svaninum. Elsta hljóðritaða djasssóló með Sigurði Flosasyni í safni Ríkisútvarpsins er með hljóm- sveit Tónmenntaskólans og með big- bandi Svansins hljóðritaði fyrsti djassleikari Íslands, Sveinn Ólafsson, sín einu saxófónsóló á hljómplötu; Lúðrasveitin Svanur leikur lög eftir Árna Björnsson. Sæbjörn stjórnaði. Fyrsta íslenska stórsveitin lék upp úr stríði undir stjórn Bjarna Böðv- arssonar. Um skeið stjórnuðu Björn R. Einarsson og Kristján Kristjáns- son tilfallandi stórsveitum og seinna Magnús Ingimarsson. Ríkisútvarpið rak um skeið stórsveit en sprakk á limminu. Sæbjörn gafst aldrei upp. Ég er sannfærður um að ef ekki hefði komið til maður með hans skaphöfn og kennsluhæfileika væri íslensk djassstórsveit rétt að slíta barnsskón- um um þessar mundir í stað þess að hafa starfað í 14 ár. Hafi hann þökk fyrir alla tón- leikana er hann stjórnaði með Stór- sveitinni og við Anna Bryndís send- um Gerðu, börnum hans og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Vernharður Linnet. Ég var um 10 gamall gutti þegar ég byrjaði í Lúðrasveit Tónmenntaskóla Reykjavíkur undir stjórn Sæbjörns Jónssonar. Það voru mikil viðbrigði að vera kominn í svo stóra hljómsveit og kynnast því starfi og félagslífi sem verður til í kringum lúðrasveitir. Sæ- björn var ákveðinn stjórnandi, hélt uppi aga en var um leið hlýr og metn- aðarfullur fyrir okkar hönd. Nokkrum árum seinna stofnaði Sæbjörn Léttsveit Tónmenntaskól- ans sem var fullskipuð stórsveit sem spilaði „alvöru“ big-band tónlist. Þetta var nýnæmi á þessum tíma í tónlistarskólastarfi og mikið fram- fara- og frumkvöðlastarf sem Sæ- björn stóð þarna að. Varð Léttsveitin frábær vítamínsprauta fyrir marga nemendur skólans sem jafnvel hug- leiddu að hverfa frá námi á viðkvæm- um unglingsárum. Þarna varð til samheldinn og skemmtilegur hópur unglinga sem Sæbjörn var ákaflega stoltur af og lét óhikað koma fram og spila við ýmis tækifæri. Nokkrir okk- ar úr hópnum sem hafa haldið áfram og gert tónlistina að aðalstarfi feng- um þarna dýrmæta reynslu í vega- nesti snemma á mótunarárum. Sæ- björn lét ekki þar við sitja og af miklum metnaði stofnaði hann og ýtti úr vör Stórsveit Reykjavíkur árið 1992. Kjarninn í þeirri sveit saman- stóð einmitt af mörgum fyrrverandi nemendum hans úr Léttsveit Tón- menntaskólans. Ekki sér fyrir end- ann á þeirri siglingu, nú 14 árum seinna og er sveitin nú skipuð mörg- um af fremstu hljóðfæraleikurum landsins og hefur starfað með mörg- um þekktustu nöfnum í stórsveitar- heiminum á ótal tónleikum innan- lands og utan. Í öllu starfi Sæbjörns hefur legið frumkvöðlakraftur, þrjóska og metnaður sem er nauðsyn- leg til að halda utan um svona starf fyrir lítið annað en andlega umbun í áraraðir. Þar hefur verið eins og klettur við hlið hans eiginkona hans, Valgerður, alla tíð. Frá þeim hjónum geislaði hlýja, væntumþykja og stolt í garð okkar sem í sveitinni starfa. Þegar heilsu Sæbjörns fór að hraka á síðari árum sinntu þau hjónin í sam- einingu nótnasafni Stórsveitarinnar af sama dugnaði og elju og einkenndi allt starf Sæbjörns Jónssonar og verður það seint þakkað. Jóel Pálsson. Sinfóníuhljómsveit er stór og afar sérstæður vinnustaður. Þar vinna saman hátt í hundrað manns. Á tveimur til fimm dögum undirbú- um við sameiginlegt verkefni, sem síðar er skilað til áheyranda á u.þ.b. tveimur klukkustundum. Slíkt fyrir- bæri nefnist sinfóníutónleikar. Á þessum mikilvægu klukkustundum þurfa allir meðlimir að vera sem einn maður, einn hugur. Öll hljóðfærin mynda eina stórkostlega heild og skila til áheyrenda fjölbreyttu úrvali af meistaraverkum tónbók- menntanna. Vegna þessarar miklu samheldni, sem skapast á augnabliki tónleikanna, tengjumst við hvort öðru sterkari böndum en almennt gerist á vinnustöðum. Þegar einn af okkur fer á vit feðra sinna þá skapar það stórt tómarúm hjá okkur, sem unnum svo náið með viðkomandi í áratugi. Sæbjörn Jónson lék á trompet í Sinfóníuhljómsveit Íslands í þrjátíu ár. Það er drjúgur hluti af þeim tíma sem sveitin hefur starfað sem at- vinnuhljómsveit. Hann skilur því eftir sig stóran þátt í sögu hljómsveitar- innar, ekki einvörðungu sem hljóð- færaleikari, heldur einnig sem bar- áttumaður fyrir kjörum okkar. Þegar Sæbjörn hóf störf árið 1969 var hljómsveitin rétt að slíta barns- skónum. Einkum og sér í lagi voru kjaramálin fremur skammt á veg komin. Á þessum tíma var hljóðfæra- leikur ekki almennt viðurkennd at- vinnugrein. Sumir álitu jafnvel að fólk hlyti að vinna við eitthvað annað á daginn, en spilaði svo bara á kvöldin. Auk þess hlyti þetta að vera svo gam- an að óþarfi væri að greiða laun fyrir. Fram að þessum tíma unnu ýmsir meðlimir hljómsveitarinnar önnur störf óskyld tónlist til þess að hafa í sig og á. Sæbjörn lét félagsmálin fljótlega til sína taka og þegar hann tók við forystu í starfsmannastjórn sveitarinnar árið 1986 var kominn maður, sem var tilbúinn að berjast með oddi og egg fyrir réttindum hljómsveitarfólks í stóru og smáu. Hann var sannur verkalýðsforingi og unni sér engrar hvíldar fyrr en samningar voru orðnir nokkuð ásætt- anlegir. Hann áorkaði miklu í þau fjögur ár sem hann var okkar for- svarsmaður í kjaramálum og fullyrða má að þau fræ sem þá var sáð og sú mikla vinna sem hann af mikilli óeig- ingirni og eljusemi lagði fram komi okkur til góða enn fram á þennan dag. Sæbjörn stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum; brosandi, kím- inn, ákveðinn, einarður, heiðarlegur, en umfram allt hlýr. Hann var fé- lagslyndur og afar skemmtilegur á góðum stundum. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að vera honum samferða þenn- an tíma. Valgerði og öðrum aðstandendum vottum við okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Sæbjörns Jónssonar. Fyrir hönd hljóðfæraleikara Sin- fóníuhljómsveitar Íslands, Guðný Guðmundsdóttir. Nú er komið að kveðjustund hjá okkar kæra Sæbirni. Það má með sanni segja að Sæ- björn beri ábyrgð á uppeldi stórs hóps tónlistarfólks hér á Íslandi með störfum sínum við hljómsveitar- stjórnun og kennslu. Þeim þætti í lífi Sæbjörns verða söguritarar að halda til haga. Á einum hópi ber Sæbjörn trúlega meiri ábyrgð en öðrum. Sá hópur var myndaður á árinu 1976 með stofnun Unglingadeildar Svansins. Unglinga- deildin var mynduð úr tveimur skóla- lúðrasveitum Reykjavíkurborgar á þessum tíma, unglinga sem voru á aldrinum 12–14, ára en þá var það þannig að þessir hópar horfðu fram á hálfgerða upplausn í tónlistarástund- un að loknum grunnskóla. Af öllum öðrum ólöstuðum var Sæbjörn aðal- hvata- og verkmaðurinn í að láta stofnun þessa fyrirbæris verða að veruleika. Sæbjörn sá möguleika á því að mynda úr slíkum hópi kjarna sem gæti reynst Svaninum liðsauki. Í þeirri vinnu synti Sæbjörn gegn straumnum, sem betur fer segjum við, þar sem síðar kom á daginn að með stofnun Unglingadeildarinnar kom sá mannskapur sem varð kjarn- inn í Svaninum næsta áratuginn þar á eftir. Það vissu allir að Sæbjörn sinnti þessu hugarfóstri sínu í öllum sínum frítíma og rúmlega það. Hann lagði fjölskylduna sömuleiðis alla undir og Valgerður var okkur sem hálfgerð mamma; faldaði buxur, festi tölur og bakaði kökur og öll börnin þeirra fjögur spiluðu með bandinu um tíma. Sæbjörn kom að öllu í starfinu. Hann hélt uppi ströngum aga og gerði mikl- ar kröfur. Hann skapaði svigrúmið sem þurfti til að byggja upp fé- lagsstarfið. Hann hvatti okkur áfram á sinn einstaka hátt og náði ætíð fram hinu besta úr hópnum. Hann kom á tónlistarskóla fyrir hópinn. Hann skipulagði tónleika og tónleikaferðir innanlands sem utan. Hann fór með okkur í fyrstu utanlandsferðina. Hann kynnti okkur fyrir Stykkis- hólmi þangað sem við fórum ófáar ferðirnar. Hann gróf upp tónlist héð- an og þaðan og útsetti og skrifaði út eftir því sem þörf var á. Hann bjó til Big-Band og Dixieland. Hann dans- aði valsa og polka og ræla og lék her- foringja og hefðarmeyjar á æfingum til að túlka tónlistina sem við æfðum. Með þrotlausri vinnu, samviskusemi og ástundun skapaði Sæbjörn ótrú- lega þroskaðan og góðan hóp blásara hvort sem litið var til hópsins sjálfs eða einstaklinga innan hans sem ófáir hafa tónlist að lifibrauði sínu í dag. Við stöndum í ævarandi þakkarskuld við Sæbjörn þess vegna. Hitt sem við fáum aldrei fullþakk- að er sá félagsskapur sem hann bjó okkur og hefur fylgt okkur alla tíð síðan. Út úr þessum hópi unglinga- spilara myndaðist ótrúlegur fjöldi kærustupara sem síðar varð að stórum vinahópi hjónafólks sem heldur saman enn þann dag í dag og hittist reglulega. Það myndaðist ein- hver ólýsanleg stemming í þessum hópi sem tengt hefur okkur sterkum vináttuböndum æ síðan. Við hittum Sæbjörn í síðasta skipt- ið á sjötíu og fimm ára afmæli Svans- ins síðasta haust. Þar faðmaði og kyssti Sæbjörn hvert og eitt af okkur á sinn einlæga hátt og afhenti okkur stoltur eintak af geisladiski sem hann hafði sett saman með nokkrum af helstu perlum Svansins. Valgerður stóð við hlið hans eins og ætíð áður og faðmaði okkur ekki síður. Á kveðjustund horfum við til baka og rifjum upp allar þær stundir sem Sæbjörn bjó okkur eða átti hlut í að yrðu til. Við erum svo sannarlega öll ríkari af því að hafa átt þennan kæra vin sem færði okkur svo margt sem við munum ætíð búa að. Við sendum Valgerði og börnum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Félagar í Unglingadeild Svansins. Kveðja frá Stórsveit Reykjavíkur Stórsveit Reykjavíkur (S.R.) kveð- ur í dag aðalpersónuna í 14 ára sögu hljómsveitarinnar. Það var vorið 1992 að nokkrir ungir menn, fyrrverandi nemendur við Tónmenntaskóla Reykjavíkur, komu að máli við Sæ- björn Jónsson og vildu stofna alvöru stórsveit. Þeir höfðu kynnst stór- sveitatónlist undir hans stjórn í Tón- menntaskólanum og þar höfðu þeir líka kynnst vinnubrögðum og fram- kvæmdasemi sem ekki voru á hverju strái. Þeir vissu að hann var maður til að framkvæma það sem þá dreymdi um. Sæbjörn vék sér ekki undan þessari ögrun frekar en öðrum á lífs- leiðinni. Hann tók strákana á orðinu og stofnaði S.R. í febrúar 1992. Til að byrja með voru flestir meðlimir fyrr- um nemendur, en hægt og rólega bættust aðrir í hópinn. Nokkrum ár- um síðar skartaði hljómsveitin fram- úrskarandi hljóðfæraleikurum á ýms- um aldri og með ólíkan bakgrunn. Sæbjörn keyrði allt áfram af krafti og framfaraskrefin urðu mörg og hröð. Eftir að Sæbjörn veiktist var farið að leita til erlendra stjórnenda, fyrst í litlum mæli, en á síðari árum hefur hljómsveitin fyrst og fremst starfað með fólki úr fremstu röð stórsveita- heimsins. Það var ólýsanleg ánægja að fylgjast með stolti Sæbjarnar þeg- ar hljómsveitin hans blómstraði undir stjórn heimsþekktra meistara. Í Stór- sveitinni lá nefnilega metnaður ævi- starfs hans. Eftir að hann hætti að stjórna sá hann um nótnasafn hljómsveitarinn- ar. Það mikla starf rækti hann af ótrúlegri natni og vandvirkni og mun hljómsveitin búa að því um ókomna tíð. Við nótnaumsjónina naut hann dyggrar aðstoðar Valgerðar eigin- konu sinnar og á S.R. henni mikið að þakka. Áður en S.R. varð til hafði Sæ- björn verið ein aðaldriffjöðrin í Átján manna hljómsveit FÍH 1974. Hann kom líka á fót stórsveitum innan Tón- menntaskóla Reykjavíkur og Lúðra- sveitarinnar Svans. Þannig er óhætt að fullyrða að hér á landi hafi enginn lagt jafnmikið af mörkum til þessarar gerðar tónlistar, útbreiðslu hennar og kynningar. Stórsveit Reykjavíkur kveður frumkvöðul sinn með innilegu þakklæti og djúpri virðingu. Stjórn Stórsveitar Reykjavíkur. Kveðja frá Lúðrasveitinni Svan Heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svans, Sæbjörn Jónsson, er nú fallinn frá eftir langa baráttu við erfið veik- indi. Sæbjörn ólst upp í Stykkishólmi og hóf fljótt afskipti þar af tónlistarmál- um. Sæbjörn gekk til liðs við Svaninn árið 1960 sem trompetleikari. Hann tók síðan við tónsprotanum árið 1974 og stjórnaði sveitinni allt til ársins 1982. Hann gegndi öllum helstu emb- ættum Svansins og var formaður á ár- unum 1966-1968. Sæbjörn var einn helsti hvatamaður að stofnun ung- lingadeildar á árinu 1976. Sæbjörn var ekki aðeins stjórnandi á þessum árum heldur var hann sannur félagi sem lét sér ekkert óviðkomandi í starfseminni. Óeigingirni og fórnfýsi hans áttu sér engin takmörk á þessum árum. Hann var skipuleggjandi starfsins, kennari og óeiginlegur „faðir“ unglinganna. Árið 1990 var Sæbjörn gerður að 7. heiðursfélaga Svansins. Sæbjörn hefur haft vökult auga með Svaninum og þrátt fyrir erfið veikindi mætti hann reglulega tónleika og aðra viðburði. Eitt síðasta verkefni Sæbjörns, í sam- vinnu við eftirlifandi heiðursfélaga Svansins, var að færa efni sem Svan- urinn hefur gefið út yfir á geisladisk. Geisladiskinn færðu heiðursfélagarnir Svaninum að gjöf á 75 ára afmæli sveitarinnar sl. haust. Við kveðjum góðan félaga með söknuði. Kæra fjölskylda, Valgerður, Jón Aðalsteinn, Valbjörn, Alma og Smári við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Minning um góðan félaga lifir um ókomna tíð. F.h. Lúðrasveitarinnar Svans. Jón Ingvar Bragason, formaður Afi okkar, KRISTÓFER VILHJÁLMSSON, Sniðgötu 3, Akureyri, sem lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri aðfaranótt fimmtudagsins 10. ágúst, verður jarð- sunginn frá Möðruvallakirkju í Hörgárdal mánu- daginn 21. ágúst kl. 13.30. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir. Hildur Friðleifsdóttir, Kristófer Arnar Einarsson. Móðir mín, SIGRID SÆTERSMOEN HANSEN, andaðist á heimili sínu í Ellisworth, Maine, sunnudaginn 6. ágúst. Minningarathöfn fór fram í heimabæ hennar sunnu- daginn 13. ágúst. Fyrir hönd fjölskyldunnar, Gunnar Hansen. Hjartkær systir, mágkona, svilkona, frænka og vinkona, MARÍA H. ÞORGEIRSDÓTTIR, Þingholtsstræti 30, er látin. Þorgeir Þorgeirsson, Kristjana F. Arndal, Júlíus Valdimarsson, Rannveig Haraldsdóttir, Garðar Valdimarsson, Brynhildur Brynjólfsdóttir, Þórður Valdimarsson, Þóra Sigurbjörnsdóttir, Bergur, Lilja, Finnur og Fjóla Þorgeirsbörn, Anna Lárusdóttir.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.