Morgunblaðið - 17.08.2006, Blaðsíða 8
8 FIMMTUDAGUR 17. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Sveiflur á vatnsborðiÞingvallavatns hafalengi verið í um-
ræðunni og hvaða áhrif
þær kunni að hafa á vatna-
svið og lífríki þess. Sigurð-
ur G. Tómasson, útvarps-
maður, hefur fylgst með
Þingvallavatni frá blautu
barnsbeini en hann segir
að Landsvirkjun hafi, í
gegnum Sogsstöðvar, vald-
ið því að vatnsborðið hafi
sveiflast úr öllum takti við
það sem lífríki vatnsins
hafi lagað sig að. Afleiðing-
arnar séu þær að stórkost-
legum skaða hafi verið valdið á líf-
ríki vatnsins og með þessu sé
stofnunin að brjóta lög um vernd-
un Þingvallavatns og vatnasviðs
þess. Hann hyggist því leggja fram
formlega kæru til Umhverfisstofn-
unar.
„Þeir eru að brjóta lögin og það
er ekki verjandi. Þessi staður og
þetta vatn er á heimsminjaskrá
UNESCO og það er útilokað að
sætta sig við að Landsvirkjun noti
þetta til þess að spara einhverja
aura í rafmagnssölu,“ segir Sigurð-
ur en hann telur einu hugsanlegu
skýringuna á umræddum sveiflum
vera þá að Landsvirkjun noti Þing-
vallavatn til þess að jafna út sveifl-
ur í raforkukerfinu og nýti virkj-
anirnar í Sogi eins og toppstöð.
Reynum að halda
vatnsborðinu stöðugu
Þorsteinn Hilmarsson, upplýs-
ingafulltrúi Landsvirkjunar, segir
að Þingvallavatn sé ekki notað til
miðlunar og þær sveiflur sem nú
verða á vatnshæð Þingvallavatns
séu minni en þær náttúrulegu
sveiflur sem voru áður til staðar.
Hann tekur fyrir að breytingar á
vatnsborðinu séu til komnar af
völdum Landsvirkjunar sem ein-
ungis reyni að dempa þær.
„Það eru lokur í Þingvallavatni
sem hafa ekki verið notaðar í raf-
magnsframleiðslu frá árinu 1984
en þeim er stýrt í samráði við Þing-
vallanefnd og fleiri hagsmunaaðila
til þess að halda vatnsborðinu stöð-
ugu.“
Aðspurður segir Þorsteinn að
sveiflur á rennsli í Soginu ráðist af
viðleitni Landsvirkjunar til þess að
halda vatnsborði Þingvallavatns
stöðugu en séu ekki til komnar
vegna breytinga í rafmagnsfram-
leiðslu.
„Þessar stöðvar hafa lítið vægi í
álagsstjórnun í raforkukerfinu nú
til dags en virkjanirnar við Sogið
eru samanlagt um 90 MW og eru
um 5–7% af afli raforkukerfisins.“
Að sögn Þorsteins eru í gildi
starfsreglur innan Landsvirkjunar
sem mæla fyrir um að sveiflur á
vatnsborði Þingvallavatns verði
ekki meiri en tíu sentímetrar til
eða frá en sveiflurnar séu almennt
um fimm sentimetrar.
Út í hött að nota Þingvalla-
vatn sem miðlunarlón
„Það er mjög óheppilegt ef það
eru sveiflur í yfirborðinu og það er
skýr stefna okkar í Þingvallanefnd
að þær verði sem allra minnstar,“
segir Össur Skarphéðinsson al-
þingismaður og fulltrúi í Þingvalla-
nefnd. Hann telur augljóst að
Landsvirkjun noti vatnið sem miðl-
unarlón og bendir á að virkjun sé í
fullum gangi.
„Ef bændur og búalið við vatnið
verða varir við sveiflur umfram
það sem heimilt er er það alvarlegt
mál og ekki heimilt.“
Að sögn Össurar kunna sveiflur
á vatnsborðinu að hafa mjög
óæskileg áhrif á kuðungableikju
sem lifi nær eingöngu á vatnakuð-
ungum.
„Vatnakuðungar halda sig ofar-
lega á undirlagi í vatninu þannig að
þegar það eru sveiflur í vatninu
verða mikil afföll af þeim kuðung-
um sem lenda ofan vatns. Þá dreg-
ur úr fæði fyrir bleikjuna en tíðar
sveiflur geta leitt til þess að það
sneiðist mjög um lífsskilyrði henn-
ar.“
Össur segir það út í hött að
stærsta og merkilegasta vatn
landsins sé notað sem miðlunarlón
en engum manni myndi koma það
til hugar að setja upp slíka virkjun
í dag.
„Ég er þeirrar skoðunar að það
eigi að stefna að því að endur-
heimta Þingvallavatn í uppruna-
legri mynd og afleggja Steingríms-
stöð.“
Ekki hefur tekist að halda
vatnsborðinu stöðugu
Jóhann Jóhannsson, bóndi að
Mjóanesi í Þingvallasveit, segir að
ávallt séu sveiflur í Þingvallavatni
og það töluvert miklar. Þannig hafi
komið fyrir að vatnsborðið hafi
lækkað um tíu sentimetra á einum
sólarhring þrátt fyrir rigningu
þann daginn.
„Það hafa verið þó nokkrar
sveiflur í sumar en maður hélt að
þeir [Landsvirkjun] væru að reyna
að halda þessu nokkuð stöðugu.
Það virðist bara ekki takast hjá
þeim. Þetta er miðlunarlón og þeir
haga þessu eins og þeim sýnist eft-
ir því hvað þeir þurfa að nota,“ seg-
ir Jóhann en hann telur þær sveifl-
ur sem hafa orðið í sumar ekki
meiri en undanfarin ár.
„Þetta hefur oft á tíðum verið
svona og var enn meira áður fyrr.
Þeim virðist ekki takast að halda
því stöðugu og það verður aldrei á
meðan þetta er miðlunarlón.“
Fréttaskýring | Vatnsborð Þingvallavatns
„Þeir eru að
brjóta lögin“
Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar segir
Þingvallavatn ekki notað til miðlunar
Frá Þingvallavatni.
Verndun vatnasviðs Þing-
vallavatns bundin í lögum
Í lögum um verndun Þing-
vallavatns kemur fram að vernda
skuli lífríki vatnsins og gæta þess
að raska ekki búsvæðum og
hrygningarstöðvum bleikjuaf-
brigða og urriðastofna sem nú
lifa í vatninu. Í reglugerð sem
byggist á lögunum kemur fram
að markmið hennar sé að tryggja
að tegundum, búsvæðum, vist-
gerðum og líffræðilegri fjöl-
breytni Þingvallavatns verði
ekki spillt og að lífríki þess fái
eftir því sem kostur er að þróast
eftir eigin lögmálum.
Eftir Þóri Júlíusson
thorirj@mbl.is
EININGAR í fimm sætaröðum, um 60 sæti, í hólfum B
og H í eldri hlutanum á vesturstúku Laugardalsvallar
losnuðu meðan á landsleik Íslands og Spánar stóð á
þriðjudag. Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri
Knattspyrnusambands Íslands, sagði í samtali við
Morgunblaðið í gær að það væri óljóst hvað hefði valdið
þessu en hugsanlega hefði gleymst að herða bolta sem
héldu sætunum.
KSÍ mun bjóða þeim sem lentu í því að sætið losnaði
undan þeim á landsleikinn gegn Dönum 6. september
en þeir sem ekki hafa áhuga á leiknum geta fengið end-
urgreitt.
Einn viðmælandi Morgunblaðsins sem keypti sér
miða á landsleikinn í verslun Skífunnar varð hvumsa
þegar afgreiðslumaðurinn krafðist þess að hann gæfi
upp kennitölu sína. Spurður um skýringar sagði af-
greiðslumaðurinn að þetta væri gert að kröfu KSÍ. Geir
Þorsteinsson sagði að þetta hlyti að vera misskilningur
hjá viðkomandi afgreiðslumanni, hvorki KSÍ, vallaryf-
irvöld eða midi.is hefðu gefið slík fyrirmæli.
Morgunblaðið/Einar Falur
Áhorfendur á Laugardalsvelli á leik Íslendinga og Spánverja í fyrrakvöld voru vel með á nótunum.
Um 60 sæti losnuðu á landsleiknum