Morgunblaðið - 19.08.2006, Page 39
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. ÁGÚST 2006 39
MINNINGAR
✝ Sigurjón ArnarTómasson bif-
vélavirkjameistari
fæddist í Vest-
mannaeyjum 21.
febrúar 1946.
Hann andaðist á
heimili sínu á
Brekastíg 22 í Vest-
mannaeyjum 10.
ágúst síðastliðinn.
Foreldrar Sigurjóns
voru hjónin Elísabet
Hrefna Eyjólfsdótt-
ir, f. 8. júní 1913, d.
11. júlí 1984, og
Tómas Elías Sigurðsson, f. 30.
mars 1914, d. 26. janúar 1994. Þau
bjuggu allan sinn búskap á Breka-
stíg 7c í Vestmannaeyjum. Systur
Sigurjóns eru: Erna Tómasdóttir,
f. 29. desember 1937, gift Guðjóni
Stefánssyni, og Hrefna Guðbjörg
Tómasdóttir, f. 28. janúar 1942,
gift Kristni V. Pálssyni.
Hinn 25. desember 1971 giftist
Sigurjón eftirlifandi eiginkonu
sinni Maríu Ragnhildi Ragnars-
dóttir, f. 10. ágúst 1949. Foreldrar
hennar voru Guðmunda Valgerð-
ur Jónsdóttir, f. 13
desember 1908, d.
16. október 1978, og
Ragnar Benedikts-
son, f. 13. mars
1895, d. 7. júní 1968.
Börn Sigurjóns
og Maríu eru: 1)
Ragnar Benedikt, f.
28. september 1971,
starfsmaður hjá BM
Vallá, kvæntur
Ragnheiði Jónsdótt-
ur sjúkraliða, f. 30.
október 1973. Börn
þeirra eru: a) Ólafur
Brynjar, f. 9. febrúar 1994, b)
María Ragnhildur, f. 7. júní 2000.
2)Elísabet Hrefna, f. 22. janúar
1975, leikskólakennari og nemi,
gift Gísla Gunnari Geirssyni, við-
skiptafræðingi og nema, f. 24.
febrúar 1976. Börn þeirra eru: a)
Gísli Rúnar, f. 15. ágúst 1994, b)
Arnar Geir, f. 19. febrúar 1998, og
c) Gunnar Hrafn, f. 5. ágúst 2002.
3) Arnar Valgeir, f. 10. júní 1980.
Útför Sigurjóns Arnars verður
gerð frá Landakirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 11.
Elsku pabbi.
Ein af mínum fyrstu minningum
er um ferðirnar mínar með þér og
Tomma afa inn á bílaverkstæðið þitt.
Þar kenndir þú mér ýmislegt um
bílaviðgerðir, og seinna þegar ég var
kominn með bílpróf varst þú alltaf
tilbúinn að rétta mér hjálparhönd.
Þú varst svo hrifinn af gömlum bíl-
um, og gekkst í fornbílaklúbbinn.
Ógleymanleg er hringferðin sem við
fjölskyldan fórum með þeim árið
1987 á gamla Buicknum hans
Tomma afa. Í þeirri ferð naust þú þín
vel innan um alla gömlu bílana.
Óteljandi bílana gerðir þú upp,
meira að segja bíla sem margir
sögðu um „þetta er ekki hægt, þessi
bíll er allt of mikil drusla.“ En allir
urðu þessir bílar flottir í þínum
höndum, þú varst svo mikill snilling-
ur í höndunum. Það var alveg sama
hvort sem var inni á verkstæði eða
heima. Þú varst alltaf tilbúinn að
styðja okkur systkinin í gegnum allt,
og gladdist alltaf þegar okkur gekk
vel í lífinu. Ekki grunaði mig að
brúðkaupsdagurinn minn 24. júní sl.
yrði síðasti dagurinn sem við sæj-
umst í þessu lífi. Það var yndislegur
dagur, og er ég þakklátur fyrir allt
spjallið sem ég og þú áttum saman
um morguninn bara við tveir. Sum-
arið var planað og ætluðum við fjöl-
skyldan og þið mamma eitthvað sam-
an eins og svo oft áður í ágúst. Sú
ferð verður ekki farin að sinni. Þú ert
komin í önnur heimkynni þar sem afi
og amma bíða þín örugglega.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaður viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðasta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem)
Elsku pabbi, hafðu þökk fyrir allt
og allt.
Þinn sonur,
Ragnar.
Elsku hjartans pabbi minn.
Þetta er það versta sem ég hef
gert, að skrifa minningargrein um
þig. En mér finnst ég skulda þér það.
Ég var alltaf pabbastelpan þín og
þótti svo vænt um þig og það veistu.
Ég gleymi aldrei þeim stundum er
við sátum við eldhúsborðið og spil-
uðum fram á nótt, bara við tvö. Við
föndruðum líka mikið saman og fyrir
jólin var alltaf sest við eldhúsborðið
og föndrað. Ég gleymi aldrei kirkj-
unni sem þú bjóst til úr eldspýtum og
settir flottan turn á, og settir ljós í og
bómull yfir. Þessa kirkju áttum við í
mörg ár og þú pakkaðir henni alltaf
svo vel niður eftir jólin. Einnig
bjóstu til eftirlíkingu af húsinu okkar
úr pappakassa og málaðir alveg eins.
Ég gæti endalaust talið upp allt sem
þú bjóst til og föndraðir. Þú varst
líka byrjaður að mála og ein mynd
var komin upp á vegg eftir þig. Þú
sagðir stundum í gamni, „ætli ég
verði ekki bara listmálari í ellinni.“
Þú varst líka svo sérstaklega
barngóður og þegar barnabörnin
komu til sögunnar gast þú eldalaust
leikið við þau. Elsku pabbi, síðustu
átta mánuðir voru svo góðir í lífi
þínu. Þegar Ragnar bróðir gifti sig
24. júní síðastliðinn bókstaflega
geislaði af þér þar sem þið sátuð
tveir saman inni í kór. Þá hugsaði ég
að þú værir kominn yfir allt og ættir
bara góð ár framundan. En lúmski
sjúkdómurinn var aldrei langt undan
og þú hélst að þér væri óhætt. Að
horfa upp á þig síðustu þrjár vikur
án þess að geta gert neitt er búið að
vera svo erfitt. Þú hringdir í mig
reglulega til að spjalla, en lífsviljinn
var einhvern veginn búinn, þótt þú
segðir það ekki þá vissir þú að hverju
stefndi.
Hafðu þökk fyrir allt og allt, ég
veit að afi og amma eru búin að taka
vel á móti þér.
Þín dóttir,
Elísabet Hrefna.
Elsku pabbi.
Að setjast niður og skrifa minn-
ingargrein um þig er eitthvað svo
skrýtið og erfitt. Þú varst alltaf svo
klár og laghentur. Mín fyrsta minn-
ing er að þú varst alltaf eitthvað að
brasa og laga. Þú hélst alltaf öllum
hjólunum okkar við. Krakkarnir í
hverfinu komu með sín hjól til þín,
alltaf gastu lagað allt. Þú spilaðir svo
oft á gítar. Ég held að ég hafi ekki
verið nema fimm ára þegar þú fórst
að kenna mér að spila. Þú komst
músíkáhuganum inn hjá mér, og
fylgdist alltaf með mér.
Fyrir tíu árum síðan fórum við
saman til Reykjavíkur að kaupa
fyrsta alvöru bassann minn. „Arn-
ar,“ sagði hann við mig, „þú kaupir
þér flottan bassa.“ Hann hafði svo
mikla trú á öllu sem við gerðum.
Elsku pabbi þegar ég var barn og
unglingur var ég þér oft reiður og
sár, þegar þér tókst ekki að hafa
stjórn á lífi þínu, en ég ætla bara að
minnast góðu stundanna sem voru
svo miklu, miklu fleiri. Ég gæti skrif-
að svo margt meira um allt sem við
gerðum saman, en ég kveð þig ekki
bara sem pabba heldur líka sem
besta vin.
Þinn elskandi sonur,
Arnar Valgeir.
Elsku tengdapabbi minn.
Ég man þegar ég hitti þig í fyrsta
skipti, í ágúst 1999, þá vorum við
Raggi á leið norður í land að heim-
sækja foreldra mína í annað skiptið
síðan við kynntumst. Þið María vor-
uð þá nýkomin frá Prag. Ég gleymi
ekki hvað ég var stressuð enda boð-
uðuð þið okkur til ykkar með fimm
mínútna fyrirvara. Að sjálfsögðu var
þessi kvíði algjörlega ástæðulaus og
varð okkur bara ágætlega til vina að
ég held. Ein af mínum bestu stund-
um með þér og Maríu var þegar við
ferðuðumst saman. Fyrir nokkrum
árum fórum við með ykkur á Akur-
eyri og við fórum líka með ykkur og
foreldrum mínum í Borgarvirki sem
var æðislegt. Þá eru ótaldir allir
smábíltúrarnir sem við fórum í þegar
þið María komuð upp á land. Þá voru
Gullfoss og Geysir í miklu uppáhaldi
og rúnturinn endaði með ís í Eden.
Því miður verða ferðalögin okkar
ekki fleiri í þessu lífi. Vonandi mun-
um við hittast í því næsta.
Þín tengdadóttir,
Ragnheiður.
Það var árið 1993 að við hittumst
fyrst. Þá var ég sautján ára síðhærð-
ur rokkari að koma heim með einka-
dóttur þinni og verð ég því að við-
urkenna að ég kveið svolítið fyrir. Þú
tókst strax vel á móti mér og gerðir
það alltaf eftir það.
Það var ótrúlegt að fyrstu bílarnir
sem við Elísabet keyptum okkur
biluðu allir eftir fyrstu vikuna. Það
kom sér því vel að eiga tengdapabba
sem var bifvélavirki. Ég gleymi ekki
öllum þeim tíma sem þú lagðir í bíl-
ana okkar og alltaf gerðirðu það með
bros á vör. Svo þegar ég ætlaði að
fara að reyna að gera upp við þig
sagðir þú alltaf: „Ég set þetta bara á
stóra reikninginn.“
Það var oft fjör að koma á heimili
ykkar Maríu í gegnum tíðina. Þar
sast þú ævinlega í eldhúsinu þegar
þú varst heima. Mér þótti mjög gam-
an að því þegar þú varst að skjóta á
mig einhverju gríni til að fá mig til að
þrasa og ég gerði það sama á móti.
Yfirleitt mistókst þetta hjá okkur
báðum, enda þekktum við hvor ann-
an orðið það vel. Þrátt fyrir að vera
fjörugur maður tók ég alltaf eftir því
hve góð og róandi áhrif þú hafðir á
peyjana okkar Elísabetar. Það var
nefnilega svo merkilegt að sjá hvern-
ig þeir komu kannski ærslafullir í
heimsókn, en þegar þeir settust hjá
þér róuðust þeir allir og sátu jafnvel
hjá þér alla heimsóknina. Það er ekki
líkt mínum peyjum. Takk fyrir allar
góðu stundirnar.
Þinn tengdasonur,
Gísli Gunnar Geirsson.
Elsku besti afi okkar.
Það er svo ótrúlegt að hafa þig
ekki lengur hjá okkur. Þú komst allt-
af í heimsókn á laugardagsmorgn-
um. Þú kallaðir okkur alltaf litlu
prinsana þína þrjá. Við söknum þín
svo og gleymum þér aldrei.
Legg ég nú bæði líf og önd
ljúfi Jesús í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(H. Pétursson.)
Gísli Rúnar, Arnar Geir og
Gunnar Hrafn.
Elsku afi.
Þegar við komum til Vestmanna-
eyja var alltaf farið inn í dal með
bátana sem þú keyptir handa okkur.
Þú ætlaðir að kaupa handa okkur
gítar og kenna okkur á hann. Þú
varst alltaf svo góður við okkur, við
söknum þín svo.
Ástarfaðir himinhæða,
heyr þú barna þinna kvak.
Enn í dag og alla daga
í þinn náðarfaðm mig tak.
(Stgr. Thorst.)
María Ragnhildur og
Ólafur Brynjar.
Þegar maðurinn hefur tæmt sig af
öllu kemur friðurinn mikli yfir hann.
Eftir blóma ævinnar færist hvað
eina aftur til upphafsins. Að hverfa
til upphafsins er friðurinn.
Eftir langa og ójafna baráttu hef-
ur Sigurjón mágur minn fengið
hvíld. Losnað úr ánauð þeirra afla
sem náð höfðu heljartaki og svipt
hann reisn hinna fögru og tæru
hljómum lífsins, hinum helgu gild-
um, og fundið fyrir friðlausum öld-
um. Örvilnaður af angist svo tilveran
fékk á sig harða ásýnd þess mis-
kunnarleysis, sem við eigum svo erf-
itt með að skilja. Lífið, sem er svo
fagurt, er hverfult, það er svo margt
sem hefur áhrif á örlög þess.
Sigurjón ólst upp í foreldrahúsum.
Hann var sonur hjónanna Elísabetar
Eyjólfsdóttur og Tómasar Sigurðs-
sonar, yngstur barna þeirra. Systur
hans eru Erna, gift Guðjóni Stefáns-
syni, og Hrefna, gift undirrituðum.
Æskuárin heima á Efrahvoli liðu við
mikið ástríki og væntumþykju og var
sú skrautmálaða mynd í umgjörð
tryggðar og fegurðar og ætíð í aug-
sýn hugans. Það leið yfir hann djúpt
andvarp þegar hann minntist þeirra
gleðiríku ára. Þá var hamingjan eins
og sólarupprás, litrík og óþrjótandi
fögur. Í myndum daganna má sjá
fjölskylduna í sunnudagsferðum á
gamla Rauð sem svo var kallaður, en
það var pallbíll, eða Gránu, gömlum
Playmout, og síðan Ráðherrabílnum
hans Ólafs Thors, sem Tómas eign-
aðist árið 1959, stolt bílaflotans af
Buick-gerð, það var áð í blómskrýdd-
um lundi og nestistaskan tekin fram.
Síðan komu björt og ævintýrarík
unglingsárin, nýjar vonir og þrár
með bliki hinna liðnu ára. Ungling-
urinn knái eignaðist KK-skellinöðru
og þeysti á henni um eyjuna þvera og
endilanga. Þá átti hann heiminn all-
an og hugurinn var ferskur af mann-
dómskrafti í gleðiríkri tilveru. Svo
eignaðist hann drossíurnar hverja af
annarri og var hver annarri glæsi-
legri. Lengst man ég eftir amerískri
eðalbifreið, rauðri og hvítri, af gerð-
inni De Sodo. Ég minnist ferðar okk-
ar hjóna með þeim félögum Sigur-
jóni og Adda Palla á íslensku sumri
um landið okkar fagra. Í litrófi
bjartra sumardaga blómstraði lífið
sínu fegursta í söng og gleði. Núna
finnst manni það undarlegt að öll þau
fagnaðarljóð séu löngu hljóðnuð, en
minningin um þá ljúfu daga hjúfra
sig að hjartarótum.
Tómas, faðir Sigurjóns, var lands-
þekktur bifvélavirki og það var því
eðlilegt að Sigurjón legði þá iðngrein
fyrir sig. Varð hann fljótlega snjall
bifvélavirki enda erfði hann marga af
eiginleikum föður síns, sem þekkt-
astur var undir nafninu Sæsi. Og
saman störfuðu þeir í áratugi, lengi
vel með Herberti Sveinbjörnssyni,
sem bjó yfir skemmtilegri kímnigáfu
og laðaði að marga viðskiptavini,
sem héldu tryggð sinni við gamla
verkstæðið á Strandvegi ævilangt.
Þegar Tómas hætti störfum eftir
langa starfsævi keypti Sigurjón
verkstæðið og rak það af miklum öð-
lingsskap meðan hann lifði. En í
heimi bílaviðgerða hefur tækninni
fleygt fram með tölvunotkun og sér-
þekkingar er krafist á öllum sviðum
þótt margt af hinu gamla hafi haldið
velli. Þessi þróun dró smátt og smátt
úr rekstrinum og vann því Sigurjón
hluta dagsins í Vinnslustöðinni,
ásamt því að sinna tryggum við-
skiptavinum. Mörgum rétti hann
hjálparhönd án þess að krefjast
þóknunar fyrir, slík greiðasemi lýsir
mannkostum hans. Eitt af hinum
stóru augnablikum í lífi Sigurjóns
var þegar hann giftist eftirlifandi
konu sinni, Maríu R. Ragnarsdóttur.
Og þá urðu himnarnir rauðir og
stjörnur tindruðu þegar börn og síð-
an barnabörn fæddust hvert af öðru.
Hnigin er sól og sorgin seytlar um
svipi. Sigurjóni er þökkuð samfylgd-
in og óskað góðrar heimkomu á nýjar
lendur. Eflaust á hann eftir að að-
stoða einhverja sem ferðast um há-
landavegi himnaríkis.
Ég votta syrgjendum samúð mína.
Vertu sæll félagi.
Kristinn Viðar Pálsson.
Kæri Sigurjón, mig langar að
þakka þér fyrir allt sem ég komst
upp með á mínum unglingsárum
heima hjá ykkur Maju þegar ég og
Elísabet dóttir ykkar brölluðum sem
mest saman. Ekki var spurt um hve
hátt mætti spila á græjurnar uppí
herbergi, og það þungarokkið. Þá
voruð þið Maja, konan þín, bara orð-
in vön þessu enda Raggi í næsta her-
bergi við eldhúsið með sína tónlist og
Arnar uppi líka með sitt rokk og eng-
inn samt að spila sama lagið. Þvílíkt
umburðarlyndi hjá ykkur.
Svo má ekki gleyma „Toyota ter-
cel“ bílnum sem þú gafst Elísabetu
og á þessum kagga rúntuðum við og
áttum okkar bestu tíma saman, þökk
sé þér. En við þökkuðum fyrir það að
þú hafðir ekki keypt hvítu Löduna
með bláu sportröndunum á, sem líkt-
ist löggubílnum að okkur fannst,
þegar við vorum sautján því við hefð-
um þá frekar labbað heldur en að fá
hann lánaðan. Jú, við vorum skvísur
inn við beinið.
Svo kom stóra ástin hjá Elísabetu,
hann Gísli, inn í lífið og eignuðust
þau svo sinn fyrsta son og það var
náttúrulega ekki að spyrja að við vin-
konurnar ólum drengi með 11 daga
millibili. Þá hélt minn heimagangur
áfram hjá ykkur og þú, Sigurjón,
kallaðir þig líka afa sonar míns og
þótti mér mjög vænt um það. Þú
gafst þér alltaf tíma til að tala við
strákana okkar og gantast með okk-
ur, takk fyrir það.
Hver man ekki eftir V-752? Já, þú
fékkst að ditta að bílnum mínum oft-
ar en einu sinni og aldrei þurfti ég
nema að droppa við á verkstæðinu
hjá þér þá var kagginn lagaður hið
snarasta.
Með þessum orðum mínum langar
mig að þakka þér, Sigurjón, fyrir alla
samveruna sem við áttum saman,
spjallið, grínið, bílafjörið og að hafa
alið með þér svona yndislega fjöl-
skyldu, sem ég var svo heppin að fá
að kynnast.
Elsku Maja, Raggi, Elísabet, Arn-
ar, og fjölskylda, ég votta ykkur
mína samúð.
Stefanía Ársælsdóttir.
SIGURJÓN ARNAR
TÓMASSON
Minningarkort
535 1825
www.hjarta.is 5351800
Útfararþjónustan ehf.
Stofnað 1990
Þegar andlát ber að
Alhliða útfararþjónusta í 16 ár
Símar: 567 9110 & 893 8638
www.utfarir.is • utfarir@utfarir.is
Rúnar
Geirmundsson
Sigurður
Rúnarsson
Elís
Rúnarsson