Morgunblaðið - 21.08.2006, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 21.08.2006, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 21. ÁGÚST 2006 11 VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF ÚR VERINU Sú athyglisverða staðreynd að Íslendingar, nánar til tekið Sam-herji, eiga nú allar úthafsveiðiheimildir Breta í þorski og ýsu,er nú til umræðu í brezkum fjölmiðlum. Brezka blaðið The Her-ald fjallaði um þessa stöðu í síðustu viku í grein eftir sérfræð- ing sinn í skozkum stjórnmálum, Robbie Dinwoodie. Þar segir hann að þorskastríðinu, sem stóð fyrir um 30 árum, hafi reyndar ekki lokið fyrr en nýlega með algjörum sigri Íslendinga. Þegar Samherji hafi keypt útgerðarfyrirtækið J Marr hafi það þýtt að síðasti hluti hins mikla flota sem stóð í stríði við Íslendinga hafi horfið úr brezkri eigu. „Allar heimildir Breta til veiða á þorski og ýsu á fjarlægum miðum eru nú í eigu Íslendinga,“ segir Ian MacSween, formaður samtaka skozkra sjó- manna. „Harold Wilson myndi bylta sér í gröfinni ef honum væri ástandið ljóst. Stjórnvöld hafa setið aðgerðarlaus og horft á atvinnu til framtíðar hverfa úr landinu. Það er ótrúlegt.“ Leiðtogi Skozka þjóðernisflokksins, Alex Sal- mond, segir að það sé ljóst hver staða Skotlands sé. „Við gætum farið sömu leið og enski flotinn, sokkið hægt og rólega í hafið, eða stefnt að því sama og Íslendingar, að stjórna höfunum.“ Höfundur rifjar svo upp síðasta þorskastríðið og átökin sem því fylgdu og nefnir leiðtoga brezkra stjórnvalda, þá Wilson, Callaghan og Hattersley svo og John Prescott sem þá var þingmaður fyrir Hull. Á næstu áratugum hefur heillum horfinn úthafsveiðifloti Breta skroppið saman og einangrast við Humber-svæðið. Á síðustu árum hef- ur kaupgeta Íslendinga náð því fram sem varðskip með víraklippur og fallbyssur megnuðu ekki. Samherji hefur í gegnum dótturfyrirtæki sitt, UK Fisheries, keypt útgerðarfyrirtækið Boyd fyrir tveimur árum og á nú síðustu útgerðina í Hull, J Marr, líka. Salmond dáist að árangri Íslendinganna. „Það, sem ræður úrslitum hjá Íslendingum og skýrir algjöran sigur þeirra í þorskastríðunum er að á áttunda ára- tugnum varð þeim þegar orðin ljós nauðsyn þess að ráða yfir eigin nátt- úruauðlindum. Sú staðreynd að stjórnvöld skuli á síðustu 30 árum hafa látið það viðgangast að fiskveiðiþjóð eins og England tapi öllum úthafs- veiðiheimildum sínum er fáheyrð uppgjöf.“ MacSween bendir á ástæðu þess að síðasta yfirtaka Íslendinga í Hull hafi nánast enga athygli vakið. Nú nemi heildarlandanir enskra og vel- skra skipa aðeins um 10.000 tonnum árlega, samanborðið við 200.000 tonna árlegan afla Skota. Það sýni að fiskveiðar séu tuttugu sinnum mik- ilvægari fyrir skozkt efnahagslíf en fyrir England, þar sem sjávarútvegur skipti litlu máli í stjórnmálum. Eða eins og Bertie Amstrong hjá Samtökum sjávarútvegsins í Skot- landi orðaði það: „Það er svolítið síðan blótsyrðin voru notuð um þær stofnanir sem fara með stjórn náttúruauðlinda Bretlands, en það mætti ætla að sjálfbær nýting náttúrulegra auðlinda ætti að kalla fram einhver viðbrögð hjá ráðherranum.“ Það er full ástæða til að taka eftir þessari umræðu og því lykilatriði sem felst í því að ráða eigin auðlindum hafsins og standa vörð um þær. Það hafa Bretar ekki gert, heldur falið ESB þessi yfirráð með vægast sagt hörmulegum afleiðingum. BRYGGJUSPJALL Hjörtur Gíslason Algjör íslenzkur sigur Allar heimildir Breta til veiða á þorski og ýsu á fjarlægum miðum eru nú í eigu Íslendinga hjgi@mbl.is AFLI af norsk-íslenzku síldinni er nú orðinn um 75.000 tonn, sem er rétt tæpur helmingur leyfilegs síld- arafla okkar Íslendinga. Mest er nú veitt til bræðslu, enda verð á fiski- mjöli og lýsi mjög hátt, en markaðir fyrir frysta síld yfirfullir. Samkvæmt upplýsingum Samtaka fiskvinnslustöðva hafa íslenzku skip- in landað tæpum 44.000 tonnum til vinnslu hér á landi og erlend skip um 2.400. Samtals hafa því íslenzku verksmiðjurnar tekið á móti ríflega 46.000 tonnum. Síldarvinnslan á Seyðisfirði hefur tekið á móti mestu, 17.300 tonnum, Ísfélag Vestmanna- eyja á Krossanesi er með 8.250 tonn, Síldarvinnslan í Neskaupstað með7.800 tonn og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum með svipað. Helmingur veiddur ÞETTA HELST ... VIÐSKIPTI ● HALLDÓR G. Eyjólfsson hefur verið ráðinn í starf forstjóra Sjó- klæðagerð- arinnar – 66°Norður. Hall- dór starfaði áður sem fram- kvæmdastjóri hjá Sjóvá Al- mennum trygg- ingum. Sjóklæðagerð- in – 66°Norður er eitt elsta framleiðslufyr- irtæki landsins, stofnað árið 1926 og hefur um áratugaskeið verið leiðandi í framleiðslu á sjó- og vinnufatnaði. Fyrirtækið rekur nú tíu verslanir á Íslandi undir vöru- merkjum 66° Norður og Ramma- gerðarinnar 66°Norður hefur verið í útrás á síðustu árum. Áætluð ársvelta Sjóklæðagerð- arinnar í ár er um 1,8 milljarðar. Nýr forstjóri Sjóklæðagerðarinnar – 66° Norður Halldór G. Eyjólfsson ● HALDI tölvurisinn Hewlett- Packard áfram þeim vexti sem fyr- irtækið hefur notið undanfarin ár mun hann velta IBM úr sessi sem stærsta tæknifyrirtæki heimsins. Hewlett-Packard kynnti í vikunni afkomutölur fyrir þriðja fjórðung reikningsárs fyrirtækisins. Tekjur á fjórðungnum námu 22 milljörðum Bandaríkjadala, um 1.500 millj- örðum íslenskra króna, sem er aukn- ing um 5%, eða 1,1 milljarð frá sama tíma í fyrra. Afkoman var betri en greiningarað- ilar höfðu gert ráð fyrir og telja flestir stjórnendur Hewlett-Packard að fyr- irtækið geti farið fram úr IBM síðar á þessu ári. Mark V. Hurd, forstjóri Hewlett- Packard segist búast við að tekjur fyrirtækisins á þessu ári muni fara yfir 92 milljarða dala, en sérfræð- ingar búast við tæplega 90 milljarða dala tekjum IBM. Hewlett-Packard að fara fram úr IBM KÍNA er æ oftar nefnt sem einn af stærstu þátttakend- unum á hinum og þessum mörkuðum og stálmarkaður- inn er þar engin undantekning en nú er landið orðið stærsti útflytjandi stáls í heimi samkvæmt frétt á vef- síðu Dagens Industri. Nýjar tölur sem Iron and Steel Statistics Bureau í London, ISSB, hefur birt sýna að Kína hefur á fyrstu sex mánuðum ársins flutt út um 18,9 milljónir tonna af stáli og er það aukning um 22% frá sama tíma í fyrra en þá var landið fimmti stærsti útflytjandi stáls í heimi. Þessar tölur sýna hversu gífurlega mikið stál er fram- leitt í Kína en landið er einnig einn allra stærsti stál- neytandi í heimi. Samkvæmt vef ISSB áttu 35% af allri stálframleiðslu í júnímánuði sér stað í Kína. Í öðru sæti yfir stærstu stálútflytjendur heims er Evrópusambandið með um 17 milljónir tonna og í þriðja sæti er Japan með 16,6 milljónir tonna. Þar á eft- ir koma Rússland og Úkraína með um 15 milljónir tonna hvort. Athygli vekur að Bandaríkin eru ekki í fimm efstu sætunum en landið nær ekki að framleiða til eigin neyslu og þarf því að flytja inn mikið af stáli. Risinn í austri stálsleginn LENGI hefur verið talað um að Straumur-Burðarás myndi vilja koma á breytingum innan Finnair en bankinn er annar stærsti hluthafinn í Finnair, á eftir finnska ríkinu, með um 10,6% hlut en FL Group er þriðji stærsti hluthafinn með um 10% hlut í Finnair. Hefur í þessu sambandi einkum verið talað um að Straumur- Burðarás hafi áhuga á að sameina Fly Nordic, dótturfélag Finnair, sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe, þar sem Fons eignarhalds- félag er stærsti hluthafinn. Til þess hafa stjórnendur Finnair tekið fálega í slíkar hugmyndir: „Þeir [Straumur-Burðarás] hafa til- kynnt að þeir vilji þjappa saman lág- fargjaldamarkaðinum. Finnair hefur allt aðrar hugmyndir um það. Það er alls ekki hluti af framtíðaráætlunum okkar, sagði Riku Helminen, yfir- maður Finnair í Svíþjóð, í samtali við Dagens Industri fyrir rúmu hálfi ári. Kemur til greina að selja En nú virðist hugsanlega vera komið annað hljóð í strokkinn hjá Finnair, ef marka má nýleg ummæli forstjórans, Jukka Hienonen í finnska blaðinu Taloussanomat og greint er frá í frétt Reuters. Haft er eftir Hienonen að til greina komi að Finnair selji burt frá sér rekstrar- einingar sem ekki skila félaginu hagnaði. „Það gæti verið að sumir hlutar rekstrarins væru betur komn- ir í höndum annarra,“ sagði hann en vildi þó ekki tilgreina hvaða rekstr- areiningar Finnair íhugaði að selja en tók fram að félagið myndi halda í þær sem skiluðu hagnaði. Á blaðamannafundi þar sem greint var frá minnkandi hagnaði Finnair á öðrum fjórðungi ársins, m.a. vegna hærra eldsneytisverðs, sagði Hienonen að enn væri ekki hagnaður af rekstri FlyNordic eftir tveggja ára starfsemi félagsins. Hann vildi hins vegar engu svara um hver framtíð þess yrði. Breytt viðhorf hjá Finnair Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.is SÉRFRÆÐINGAR telja líklegt að þó nokkur uppgangur verði á hluta- bréfamörkuðum í Bandaríkjunum í haust og er það fyrst og fremst rakið til áætlunar Microsoft um endur- kaup á eigin hlutabréfum. Fyrirtækið er stærsta tækni- fyrirtæki heims og nú í lok ágúst ætlar það að hefja endurkaup á hlutabréfum fyrir allt að 20 milljarða doll- ara, um 1.400 milljarða króna, að markaðsvirði, en til samanburðar má geta þess að samanlagt markaðsvirði íslensku bankanna er um 1.144 milljarðar króna. Þessi endurkaup munu skila miklu lausafé í vasa fjárfesta og ef gera má ráð fyrir að þeir ákveði að endur- fjárfesta þetta fé felur það í sér að eftirspurn eftir hlutabréfum eykst og þar með hækkar verðið þar sem framboðið verður að öllu jöfnu óbreytt. Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem Microsoft „skilar“ fjármunum til markaðarins því í nóvember 2004 greiddi félagið aukaarðgreiðslu til hluthafa sinna og var þar um nær 30 milljarða dollara að ræða. Í kjölfar þess náði Nasdaq-vísitalan hæsta gildi sínu í þrjú ár á örfáum vikum. Microsoft styrkir markaðinn Bill Gates SVO GÆTI farið að hið nýja flug- félag í Færeyjum, FaroeJet, yrði að hætta rekstri innan skamms. Félag- ið hóf að fljúga á milli Færeyja og Kaupmannahafnar í maí í vor en eft- irspurnin og reksturinn hefur frá- leitt gengið eins vel og stofnendur fé- lagsins gerðu sér vonir um. Í frétt Travel People kemur fram að jafnvel nú í júlí hafi sætanýtingin varla náð 40%. Johan Simonsen, forstjóri fé- lagsins, birtist í færeysku sjónvarpi og hvatti Færeyinga til þess að styðja við bakið á félaginu. Hann sagði verulegt tap vera af rekstrin- um og breyttust rekstrarskilyrðin ekki fljótt mundu eigendur skoða þann kost að hætta flugrekstrinum. FaroeJet í erfiðleikum ♦♦♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.