Morgunblaðið - 21.09.2006, Blaðsíða 4
4 FIMMTUDAGUR 21. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur
elva@mbl.is
EKIÐ var á átta ára gamla stúlku á
gangbraut við Háaleitisbraut um
áttaleytið í gærmorgun, en slysið átti
sér stað til móts við Háaleitisbraut
105. Að sögn lögreglunnar fór betur
en á horfðist og stúlkan hlaut minni-
háttar meiðsl, en hún var flutt á
slysadeild til skoðunar. Foreldraráð
Álftamýrarskóla og leikskólanna
Álfta- og Múlaborgar, sem eru í
hverfinu, hafa miklar áhyggjur af
umferðaröryggismálum á svæðinu
við Háaleitisbraut milli Ármúla og
Fellsmúla. Birgir Björnsson, fulltrúi
í foreldraráði Álftamýrarskóla, segir
foreldra lengi hafa haft áhyggjur af
stöðu mála. Í febrúar hafi fulltrúar
foreldra rætt við þáverandi borgar-
stjóra, Steinunni Valdísi Óskarsdótt-
ur. Hafi þau lagt fram óskir um
breytingar á umferðaröryggismálum
á svæðinu.
„Við þessa götu búa mörg börn
sem eiga leið yfir hana, í skóla, í tóm-
stundir, í Fram og annað,“ segir
Birgir. Umferð um þennan hluta
Háaleitisbrautar sé mjög mikil og
samkvæmt tölum frá Reykjavíkur-
borg, fari um 13 þúsund bílar á sólar-
hring um þennan vegarkafla.
„Hraðinn er oft og tíðum gífurleg-
ur. Hraðahámarkið er 50 kílómetrar
og við höfum verið að biðja um að
þessi hraði yrði lækkaður niður í 30
km á klst.,“ segir Birgir. Hann bend-
ir á að svæðið sé „skilgreint sem
íbúagata og víðast hvar í borginni er
búið að lækka hámarkshraða á sam-
bærilegum götum. Ég gent bent á
götu eins og Hjarðarhaga sem er að
mörgu leyti lík gata og Háaleitis-
braut,“ segir Birgir.
Ekkert hafi hins vegar gengið við
að ná í gegn breytingum á hámarks-
hraða við Háaleitisbrautina. Þrátt
fyrir samskipti við Reykjavíkurborg
hafi ekki enn verið tekið á vandanum.
Birgir segir að einstakir íbúar hafi
áður kvartað við Reykjavíkurborg og
þá hafi verið sett upp blikkljós í göt-
unni. Annað þeirra sé stöðugt bilað,
ef gert sé við það virki það í einn til
þrjá daga en hætti svo að virka.
Blikkljósin hafa ekki áhrif
„Þessi blikkljós hafa ekki áhrif
nema á einstaka ökumenn og það eru
einmitt þeir sem keyra hratt sem
þetta hefur ekki áhrif á. Það þarf að
gera grundvallarbreytingu á hraðan-
um þarna og frágangi götunnar upp á
umferðaröryggið,“ segir Birgir og
segir að foreldaráðin hafi sjálf lagt
tillögur til úrbóta fyrir borgaryfir-
völd. Þar komi m.a. fram óskir um
hraðahindranir og fleiri gönguljós.
Til standi að koma upp götuljósum,
en ekki hafi enn orðið af framkvæmd-
um. Þá hafi foreldrar áhyggjur af því
að umferð eigi enn eftir að aukast á
vegarkaflanum vegna fyrirhugaðrar
nýbyggingar við Ármúla 1. Umfjöll-
un um málið í borgarkerfinu hafi
gengið mjög hægt og „það er eins og
bílarnir hafi forganginn,“ segir Birg-
ir. Þetta séu foreldrar ekki sáttir við.
Slysið sem varð í gær sé annað slysið
sem hann viti um á þessu ári. „Okkur
finnst ekki eftir neinu að bíða með að
þessi mál verði löguð. Meðan við bíð-
um gerast þessi slys og við spyrjum
hvað við eigum að bíða lengi. Hvað á
að keyra á mörg börn?“ spyr Birgir.
Gunnar H. Gunnarsson, deildar-
verkfræðingur hjá framkvæmdasviði
Reykjavíkurborgar, segir að í gegn-
um tíðina hafi verið reynt að hamla
gegn slysum á svæðinu, með því að
setja hlykk á götuna og þá hafi mið-
eyjubútar þar verið lengdir dálítið.
Þá hafi gangbrautarljós verið sett
upp þarna fyrir um 10-12 árum auk
tækja sem sýna á hvaða hraða fólk
ekur þegar það er á leið í suðurátt.
Einnig hafi verið sett upp umferð-
arljós við gatnamót Fellsmúla og
Háaleitisbrautar fyrir nokkrum ár-
um.
Áður hafi orðið þarna allmörg um-
ferðarslys en þeim hafi sem betur fer
eitthvað fækkað eftir að gripið var til
ráðstafana.
Segja marga aka ógæti-
lega um Háaleitisbraut
Morgunblaðið/ÞÖK
Mótmæla hraðakstri Aftari röð frá vinstri: Steinunn Stefánsdóttir, Birgir Björnsson, Hlíf Ísaksdóttir, Valgerður
S. Pálsdóttir og Þorbjörg Gunnarsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Anna Sigrún Gunnarsdóttir, Atli Rúnar Sigurðs-
son, Bára Lyngdal Magnúsdóttir, Katla Rún Káradóttir, Bergur Páll Birgisson og Ragnhildur Kristinsdóttir.
Eftir Andra Karl
andri@mbl.is
KJARVALSMÁLIÐ svokallaða var tekið til að-
almeðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Málið er höfðað af afkomendum Jóhannesar S.
Kjarval listmálara, af hálfu dánarbús hans, gegn
Reykjavíkurborg og er tekist á um eignarrétt á
munum málarans sem eru í vörslu borgarinnar.
Skýrslutökur fóru fram yfir nokkrum vitnum en
aðalmeðferðin heldur að öllum líkindum áfram
29. nóvember nk. – með fyrirvara um breyt-
ingar.
Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni stefn-
enda, Kristni Bjarnasyni, eru það m.a. um fimm
þúsund verk sem krafist er eignarréttar og af-
hendingar á. Þar eru að vísu öll verk tiltekin,
bæði stór og smá, en uppistaðan er alls kyns
teikningar Kjarvals sem fluttar voru af vinnu-
stofu hans í Sigtúni 7 haustið 1968.
Meðal þeirra sem komu fyrir dóminn voru
málssækjendur, börn Sveins Kjarvals, sonar Jó-
hannesar. Lögmaður þeirra spurði m.a. út í hagi
þeirra haustið 1968 en málsaðila greinir á um
hvort Jóhannes hafi gefið Reykjavíkurborg
munina eða hvort þeir hafi verið ætlaðir til
geymslu og séu í raun eign ættingja hans. Fram
kom hjá afkomendum Jóhannesar að mikil reiði
og vonbrigði hafi verið innan fjölskyldunnar eft-
ir að kom í ljós að Reykjavíkurborg lýsti því yfir
að munirnir væru í hennar eigu og gjöf frá Jó-
hannesi. Kvaðst enginn hafa heyrt þess getið
haustið 1968 að Jóhannes hefði ákveðið að gefa
eigur sínar. Var m.a. leitað til lögfræðinga sem
sögðu málið ekki vænlegt til sigurs og hvöttu
frekar til að hætta við málið.
Sagði borgina beita valdníðslu
Jóhannes S. Kjarval, sonur Sveins, sagði m.a.
afa sinn hafa gefið Reykjavíkurborg margar
góðar og miklar gjafir en að munirnir úr vinnu-
stofu hans væru ekki þar á meðal. Systir hans
Kolbrún S. Kjarval var þá spurð út í afstöðu föð-
ur síns til málsins eftir að borgin hafði lýst yfir
eignarrétti sínum á mununum og sagði hún
hann hafa sagt þetta vera valdníðslu og bætti við
að hann hefði verið sár og reiður, líkt og fjöl-
skyldan öll.
Guðmundur Alfreðsson lagaprófessor var
tekinn til skýrslutöku í gegnum síma þar sem
hann var staddur erlendis. Lögmaður borgar-
innar, Kristbjörg Stephensen hdl., bar undir
hann brot úr dagbók sem hann ritaði í nóvember
1968. Þá aðstoðaði Guðmundur föður sinn Al-
freð Guðmundsson, sem síðar varð forstöðu-
maður Kjarvalsstaða, við að ferja kassa og ann-
að úr vinnustofu Jóhannesar, sem hann hitti þar
alloft. Guðmundur staðfesti það sem þar stend-
ur, þ.e. að Jóhannes hefði afhent þáverandi
borgarstjóra að gjöf nokkra tugi teikninga
ásamt kössum ofan af háalofti hjá sér úr vinnu-
stofunni.
Einnig kom fyrir dóminn Þorvaldur Þor-
valdsson, sem var leigubílstjóri Jóhannesar hjá
BSR í mörg ár en með þeim tókst góð vinátta.
Sagði hann Jóhannes oft hafa rætt um að gefa
borginni myndir til að hafa á Kjarvalsstöðum.
Síðar hefði hann einnig rætt um að gefa borg-
inni dót og myndir úr Sigtúni. Aðspurður af
Kristbjörgu hvers vegna hann teldi að „gjafir“
Jóhannesar hefðu ekki verið gerðar opinberar
þegar hann gaf þær sagði Þorvaldur að Kjarval
hefði aðra siði en almennt gerðist. Þorvaldur
sagðist hafa séð Kjarval þiggja fjármuni fyrir
myndir sínar án þess að reikningar hefðu verið
gerðir, aðeins handsal. „Hann var öðruvísi í
sniðum en aðrir,“ sagði Þorvaldur. Aðspurður af
lögmanni sækjanda hvort hann hefði heyrt Jó-
hannes tilkynna að hann ætlaði að gefa allt það
sem hann átti á vinnustofu sinni sagði Þorvaldur
svo ekki vera, tiltók hann tvo kassa á miðju gólfi
vinnustofunnar auk einhverra hluta af efri hæð
hennar. „Þessir kassar voru býsna stórir en
hann sagðist aldrei ætla að gefa borginni allt
sem þar var,“ sagði Þorvaldur.
Tekist á um rétt á eignum Kjarvals
Snýr að munum sem fluttir voru úr vinnustofu Kjarvals til vörslu hjá borginni – gjöf eða geymsla?
Í HNOTSKURN
»Kjarvalsmálið var höfðað af afkom-endum Jóhannesar S. Kjarvals list-
málara gegn Reykjavíkurborg og snýr
að eignarrétti á munum sem eru í
vörslu borgarinnar og voru fluttir af
vinnustofu Jóhannesar haustið 1968.
»Af hálfu borgarinnar er því haldiðfram að Jóhannes hafi gefið
Reykjavík munina. Því eru afkomend-
urnir ósammála.
UM þann möguleika að lækka umferðarhraða niður í
30 km á klst. á umræddum vegarkafla segir Gunnar H.
Gunnarsson að það hefði ekki áhrif, nema því yrði fylgt
eftir þannig að götunni yrði breytt svo hún yrði erfiðari
til hraðaksturs. Algengast sé að upphækkanir séu sett-
ar á veginn í þessu skyni. Hinn möguleikinn sé sá að
koma upp sjálfvirkri ljósmyndavél á staðnum sem taki
mynd af þeim sem aka yfir ákveðnum hraða. „Hún yrði
að vera þannig að menn vissu að hún væri í sífelldum
rekstri og að sífellt væri verið að sekta,“ segir Gunnar.
Þá myndu menn hika að aka þarna of hratt. Nokkrar
svona löggæsluvélar séu á höfuðborgarsvæðinu og ein
sé staðsett í Hvalfjarðargöngunum. „Það er sú vél sem
alltaf koma fréttir af annað slagið að sé að gefa af sér
margar sektir. Það eru ekki eins miklar fréttir af því að
aðrar sjálfvirkar löggæslumyndavélar hali inn sektir.“
Ekki nóg að lækka hámarkshraða
Foreldrar barna sem búa
í námunda við Háaleit-
isbraut og þurfa að fara
yfir hana á leið í skóla eða
tómstundastarf eru ósátt-
ir við umferðaröryggi við
götuna og vilja aðgerðir
til þess að bæta úr.
ÚTILOKAÐ
hefur verið að
um hraðakstur
hafi verið að
ræða þegar
vöruflutninga-
bíll sem bar um
20 tonn af gleri
valt neðarlega í
Ártúnsbrekku á
þriðjudags-
morgun. Tildrög slyssins eru þó enn
ókunn en líkur benda til að frágangi á
farmi hafi verið ábótavant. Upplýs-
ingafulltrúi hjá Umferðarstofu segir
það vandamál sem sannarlega hafi
gert vart við sig.
Komið hefur í ljós að ökumaður
flutningabílsins var á um 50 km hraða
og staðfesti Ásbjörn Gíslason, for-
stjóri Landflutninga – Samskipa, það
en bifreiðin var að flytja gler fyrir þá.
Hann segir það af hinu góða að engin
slys hafi orðið í óhappinu en annars
verði málið skoðað ofan í kjölinn inn-
an fyrirtækisins. Hann segir gríðar-
lega flutninga vera á þessu svæði „og
sem betur fer gerist það mjög sjaldan
að svona slys verða. Það hefur gerst í
þrígang á síðustu fjórum árum að við
höfum lent í óhappi með svona gler-
flutninga,“ segir Ásbjörn og vísar þá í
slys sem orðið hafa í eða í námunda
við Ártúnsbrekku.
Ökumaður ber alltaf ábyrgð
Einar Magnús Magnússon, upp-
lýsingafulltrúi Umferðarstofu, segir
að ef farmur vöruflutningabíla sé
ekki samkvæmt öllum reglum og lög-
um eigi ökumaður að taka af skarið
og segja að hann fari ekki lengra.
„Það sem skiptir gríðarlega miklu
máli er að ökumaður, sem ber alltaf
ábyrgð á ökutækinu, og því sem í
ökutækinu er, gangi úr skugga um að
allt sé tryggilega fest samkvæmt
þeim reglum sem um það gilda. En
ég held að almennt sé vilji hjá flutn-
ingafyrirtækjum að hafa þetta í lagi
og þessi tilfelli sem komið hafa upp
séu yfirsjónir,“ segir Einar sem hefur
heimildir fyrir því að tryggingafélög
hafi á árinu 2005 þurft að standa und-
ir tjóni sem nam um 60 milljónum
króna vegna þess að farmur fauk af
vörubílspöllum, s.s. grjót eða möl.
Frágangi
farms
ábótavant?
Vöruflutningabíll-
inn sem valt í Ár-
túnsbrekku var á
um 50 km hraða