Morgunblaðið - 14.09.2007, Side 26
matur
26 FÖSTUDAGUR 14. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Æ
tli megi ekki segja
að ástin hafi tog-
að mig til Ís-
lands,“ segir
Eliza Reid, sem
er fædd og uppalin í Kanada, en
fluttist til Íslands árið 2003 með
manni sínum og sagnfræðingnum
Guðna Th. Jóhannessyni.
„Ég ólst upp í höfuðborginni Ot-
tawa og við Guðni hittumst í Oxford
á Englandi árið 1998 þar sem við
vorum bæði við nám, ég í masters-
námi í sagnfræði og hann í sínu
doktorsnámi. Eftir fimm ára dvöl í
Englandi ákváðum við að setjast að
á Íslandi og fluttum hingað heim ár-
ið 2003,“ segir Eliza.
Frumburðurinn að fæðast
Þau hjónin hafa nú komið sér fyrir
í litlu gömlu, gulmáluðu húsi vestast
í Vesturbænum innan um önnur
gömul hús með sál. Iðnaðarmenn
voru í óða önn að búa til auka-
herbergi í risinu þegar útsendara
Daglegs lífs bar að garði því von er á
frumburðinum í heiminn innan ör-
fárra daga. „Þetta er víst strákur og
ég er alveg tilbúin. Það er mikil til-
hlökkun í loftinu og nú taka við ný
ævintýri,“ segir Eliza og brosir, en
fyrir á Guðni þrettán ára dóttur, Rut
að nafni.
Fæðingarorlof er því á næsta leiti
hjá Elizu, sem hingað til hefur titlað
sig sem blaðamann á Íslandi þar
sem hún hefur verið að vinna í hálfri
stöðu við að skrifa fyrir tímaritin
Iceland Review og Atlantica. Auk
þess hefur hún tekið að sér verkefni
við að skrifa enska texta í bæklinga
fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir.
„Ég hef líka afskaplega gaman af
ferðalögum og hef til dæmis gert
viðreist um Vestur-Afríku, Asíu og
Rússland,“ segir Eliza á góðri ís-
lensku og því liggur beinast við að
spyrja hvernig hún hafi nálgast
tungumálið, sem liggur nú ekki jafn-
vel fyrir öllum útlendingum. „Þar
sem við ákváðum að framtíðarheim-
ili okkar yrði á Íslandi, fannst mér
ekki annað hægt en að leggja mig
eftir því að læra íslenskuna. Við
Guðni tölum einhverra hluta vegna
alltaf saman á ensku, en ég tók ís-
lenskukúrsa í Endurmenntun Há-
skóla Íslands auk þess sem tengda-
móðir mín Margrét Thorlacius hefur
verið óþreytandi við að tala við mig á
íslensku, en hún var kennari í
Garðabæ í mörg ár. Svo hefur mér
fundist mjög mikilvægt að koma
mér upp mínu eigin tengslaneti hér í
staðinn fyrir að vera bara konan
hans Guðna. Ég hef kynnst hér
mörgu góðu fólki þó svolítið erfitt sé
að komast að Íslendingum, sem eru
yfir höfuð fremur lokaðir persónu-
leikar.
Um tíma var ég að syngja með
Mótettukór Hallgrímskirkju og nú
er ég sjálfboðaliði hjá Rauða kross-
inum í litlu sjoppunni á Landspít-
alanum til að geta æft mig á íslensk-
unni.“
Gaman að grúska í matargerð
Eliza er líka mikill matgæðingur
og á fullt af matreiðslubókum uppi í
hillu í litla eldhúsinu sínu. „Ég á mér
svo sem engan uppáhaldsmat, en hef
afskaplega gaman af því að grúska í
alls konar alþjóðlegri matreiðslu.
Ætli mér finnist ekki matur frá Taí-
landi, Líbanon og Tyrklandi mest
spennandi í augnablikinu.
Mjög erfitt er að lýsa kanadískum
matarhefðum því þær koma í reynd
frá mörgum löndum þar sem Kan-
ada hefur byggst upp af þjóðar-
brotum héðan og þaðan,“" segir
Eliza um leið og hún ber fram svo-
kallaða nanaimo-bita, sem sækja
nafn sitt til samnefndrar borgar í
Bresku-Kólumbíu þar sem upp-
skriftin varð til um eða upp úr 1930.
„Það má segja að bitar þessir séu
hálfgert þjóðarstolt Kanadabúa þar
sem allir Kanadamenn kannast við
þá og baka þá á góðum stundum, en
varla nokkur sála utan Kanada
þekkir uppskriftina. Það er því kom-
inn tími til að bæta úr því,“ segir
Eliza og gefur blaðamanni uppskrift
af bitunum góðu sem eru einkar ljúf-
fengir með kaffisopanum. „Þið fáið
líka uppskrift af bráðgóðri bláberja-
köku og af franskættuðu kjötböku
frá Québec sem gjarnan er fram bor-
ið að afloknu messuhaldi, ýmist á jól-
um eða á gamlaársdag.“
Nanaimo-bitar
175 g suðusúkkulaði
15 muldar Graham hafrakexkökur
¾ bolli kókosmjöl
75 g valhnetukjarnar, muldir eða
smátt saxaðir
2 msk. sykur
175 g lint, ósaltað smjör
1 egg
1 tsk. vanilludropar
3 msk. mjólk
2 msk. vanillubúðingsduft, t.d. frá
Royal
350 g flórsykur
Blandið saman kexmylsnu, kókos-
mjöli og valhnetum í skál. Blandið
saman í aðra skál 50 g af smátt söx-
uðu súkkulaðinu, tveimur þriðju af
smjörmagninu, sykri, eggjum og
vanilludropum. Bræðið saman yfir
vatnsbaði. Hrærið svo þessari
blöndu í kexmylsnuna. Þrýstið þessu
í kökumót, um 20 cm í þvermál.
Blandið saman mjólkinni og van-
illubúðingsduftinu og hrærið saman
ásamt helmingnum af því sem eftir
er af smjörinu og bætið síðan flór-
sykrinum út í. Smyrjið þessu ofan á
kökuna í forminu og kælið vel, t.d. í
frysti. Bræðið saman restinni af
smjörinu og súkkulaðið yfir vatns-
baði og breiðið yfir kökuna. Kælið
vel og skerið síðan í litla bita áður en
„nammið“ er fram borið.
Bláberjakaka
2 bollar hveiti
1 bolli sykur
3 tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
1⁄3 bolli lint, ósaltað smjör
250 ml mjólk
1 egg
2 bollar fersk eða frosin bláber
Kremið:
1 bolli flórsykur
1 tsk. raspaður sítrónubörkur
1-2 msk. sítrónusafi
Hrærið öll hráefnin að undan-
skildum berjunum saman í stórri
skál í hálfa mínútu og hrærið síðan í
hrærivélarskál á hálfum hraða í
tvær mínútur. Setjið helminginn af
deiginu í smurt eldfast fat eða
bökunarform, um 23 cm í þvermál,
stráið helmingnum af berjunum yfir,
setjið restina af deiginu yfir og loks
afganginn af berjunum. Bakið í ofni í
35-45 mínútur. Smyrjið kreminu svo
yfir á meðan kakan er enn volg.
Québec-„tourtiere“
Hægt er að kaupa tilbúið bökudeig
úti í búð eða búa það til úr tveimur
bollum af sigtuðu hveiti, 1 tsk. af
salti, 2⁄3 bollum af smjörlíki og 5-7
msk. af köldu vatni.
Fyllingin:
450 g svínahakk
1 smátt saxaður laukur
salt og pipar
½ tsk. oregano
negull
season-all
rauður pipar
60 ml sjóðandi vatn
Blandið saman kjöti, lauk og
kryddum í pott og bætið sjóðandi
vatni út í. Sjóðið án loks í 20 mínútur
og hrærið vel í á meðan. Fleytið fitu
ofan af.
Breiðið helming deigsins út og
leggið í eldfast mót, um 23 cm í þver-
mál. Hellið fyllingunni ofan á deigið.
Breiðið hinn helming deigsins út og
leggið ofan á. Pikkið í með gaffli á
nokkrum stöðum. Bakið við 190°C í
um 30 mínútur. Borið fram með tóm-
at- eða salsasósu.
join@mbl.is
Allir Kanadamenn
kannast við nanaimobita
Það var ástin sem togaði
blaðamanninn og mat-
gæðinginn Elizu Reid til
Íslands. Jóhanna Ingv-
arsdóttir kíkti í heimsókn
og fékk hana til að gefa
upp nokkrar góðar kan-
adískar uppskriftir.
Morgunblaðið/Sverrir
Matgæðingurinn Eliza Reid hefur gaman af að grúska í matreiðslubókum og elda nýja rétti.
Nanaimobitar Kökur sem allir Kanadamenn kannast við.