Morgunblaðið - 14.10.2007, Blaðsíða 44

Morgunblaðið - 14.10.2007, Blaðsíða 44
44 SUNNUDAGUR 14. OKTÓBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ Nýverið efndi Miðstöð munnlegrar sögu til námskeiðs þar sem fjallað var um þessa grein sagnfræðinnar, farið yfir viðtalstækni og tækjabún- að svo að nokkuð sé nefnt. Kennarar voru Gísli Sigurðsson, rannsókn- arprófessor við stofnun Árna Magn- ússonar, og Unnur María Berg- sveinsdóttir, verkefnisstjóri stöðvarinnar. Fé til starfsemi miðstöðvarinnar hefur fengist frá Alþingi. Þá hefur menntamálaráðuneytið styrkt starf- semina. Gerður hefur verið samn- ingur á milli ráðuneytisins og mið- stöðvarinnar um miðlun efnis sem miðstöðin varðveitir. Miðstöðin hyggst nýta heimasíðu sína til þess að miðla hluta þess og eiga menn jafnvel að geta sótt sýn- ishorn þess þangað. Efnt hefur verið til svokallaðra vefsýninga á heima- síðunni þar sem blandað er saman texta og hljóðritunum. Þar gefst fólki færi á að lesa um og hlusta á efni í eigu miðstöðvarinnar. Nú er unnið að því að koma upp aðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni handa þeim sem vilja hlusta á efni úr safni miðstöðvarinnar. Samstarf margra aðila Sagnfræðingar hafa á und- anförnum áratugum áttað sig æ bet- ur á gildi munnlegra heimilda við rannsóknir. „Áhugi minn á munnlegri sögu hefur farið vaxandi á umliðnum ár- um, en ég kem að þessari grein úr ólíklegri átt,“ segir Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, en hann er formað- ur stjórnar Miðstöðvar munnlegrar sögu. „Ég hef stundað rannsóknir á hagsögu og félagssögu út frá al- mennum kenningum og heild- stæðum sjónarmiðum þar sem hin stærri öfl eru fremur að verki. Í rannsóknum mínum á verslunarsögu tók ég þó nokkur viðtöl við við- skipta- og verslunarmenn. Í kjölfar þess fór ég að velta fyrir mér gildi munnlegra heimilda og þessari að- ferð við sagnfræðirannsóknir. Árið 2004 leitaði ég eftir því við Sagnfræðistofnun hvort menn þar á bæ hefðu áhuga á að vinna betur að varðveislu munnlegra heimilda en mér fannst alls ekki nægilega vel bú- ið að þeim í samanburði við rituð gögn. Málaleitan minni var vel tekið og fljótlega tókst samstarf á milli Sagnfræðistofnunar, Rannsókn- arstofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) undir forystu Kristínar Ást- geirsdóttur og Þorsteins Helgason- ar, dósents við Háskóla Íslands. Við ræddum um nauðsyn þess að stuðla að varðveislu munnlegra heimilda og auka veg munnlegrar sögu í landinu. Við leituðum m.a. á fund landsbókavarðar því að við töldum eðlilegt að Þjóðarbókhlaðan hýsti slíka miðstöð. Í huga okkar mótaðist hugmynd að stofnun sem safnaði munnlegum heimildum frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Þá skyldi einnig vera í verkahring miðstöðvarinnar að skapa munnlegar heimildir með því að taka viðtöl við fólk um efni sem tengjast ýmsum málaflokkum.“ Varðveisla hljóðrita í ólestri Um mitt síðastliðið ár var hafist handa við stofnun miðstöðvarinnar og voru ráðnar til verksins þær Sig- rún Sigurðardóttir og Unnur María Bergsveinsdóttir, núverandi starfs- maður. Á því hálfa ári sem und- irbúningurinn stóð var kannað hvernig staðið er að varðveislu munnlegra heimilda á nokkrum stöðum á Norðurlöndum og hjá breska landsbókasafninu, British Li- brary. Þá var einnig kannað hvernig varðveislu munnlegra heimilda væri háttað hér á landi og haft samband við 72 söfn. Í 38 þeirra eru varð- veittar munnlegar heimildir af ýmsu tagi. „Það kom í ljós að það er til gletti- lega mikið af ýmiss konar efni um allt land. Það er í margs konar ástandi. Mest er á segulbands- snældum. Sums staðar eru jafnvel til vaxhólkar eða stálþræðir með hljóð- ritum.“ Guðmundur segir að varðveisla þessara gagna sé ekki í góðu horfi. Skráningu þeirra sé ábótavant og flest sé þetta efni á þannig formi að það glatist fyrr eða síðar. „Segulbandsspólur endast ekki nema tiltekinn tíma. Vafningarnir geta límst saman og segulagnirnar orðið að ryki sem hreinlega hverfur af böndunum. Þess vegna er brýnt að koma þessu efni í varanlegar geymslur með því að færa það yfir á stafrænt snið.“ Efni berst víða að Eftir að Miðstöð munnlegrar sögu var stofnuð hefur borist þangað tals- vert efni frá einstaklingum, stofn- unum og ráðuneytum. Sagn- fræðistofnun átti safn viðtala við sex einstaklinga sem nemendur í sagn- fræði tóku á árunum 1974-76 að frumkvæði Ólafs Hanssonar pró- fessors. Þar greindi fólk, sem fætt var fyrir aldamótin 1900, frá lífs- hlaupi sínu. Á meðal viðmælenda voru Jón Ívarsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri með meiru, og Anna Klemensdóttir, ekkja Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra og dóttir Klemensar Jónssonar landrit- ara. „Langstærsta safn hljóðrita er hjá ríkisútvarpinu og það er mjög mik- ilvægt að hlúa sem best að því safni,“ heldur Guðmundur áfram. „Haft hefur verið samband við stjórnendur útvarpsins og lagt til að miðstöðin taki að sér skráningu elsta efnisins í safni þess og yfirfærslu á stafrænt snið. Um leið verði safnið gert að- gengilegt. Við hugsum okkur gott til glóð- arinnar vegna samstarfs við útvarp- ið. Það gæti orðið með þeim hætti að við öfluðum efnis sem nýtt yrði jöfn- um höndum við sagnfræðirann- sóknir og gerð útvarpsþátta. Þetta tíðkast víða erlendis. Ég þekki best til í Bretlandi en þar eiga BBC og British Library með sér samstarf um söfnun hljóðrita. Einkum er um að ræða viðtöl við fólk sem segir frá ævi sinni og þessi hljóðrit eru síðan notuð við gerð þátta hjá BBC.“ Munnlegar heimildir vanmetnar Á áttunda áratug síðustu aldar varð mikil vakning víða um lönd á meðal sagnfræðinga í söfnun munn- legra heimilda. Hér á landi fór þessi hreyfing að mestu framhjá garði. Við Háskóla Íslands hafa menn eink- um iðkað hefðbundnar aðferðir við rannsóknir sínar og munnlegum heimildum fremur lítill gaumur gef- inn. Guðmundur segir að ýmsir sagn- fræðingar tortryggi munnlegar heimildir. Þær þyki hvorki nægilega áreiðanlegar og erfitt sé að umgang- ast þær. „Gildi munnlegra heimilda er engu síðra en hinna rituðu. Sagn- fræðingar hafa löngum bent á að það skipti máli hvenær ritaðar heimildir séu skráðar og áreiðanleiki þeirra minnki eftir því sem lengra líður á milli atburðanna sem greint er frá og skráningarinnar. Hið sama gildir um munnlegar heimildir. Það skiptir hins vegar máli hvernig fólk man at- burðina og munnleg heimild skilar ýmsu til hlustandans sem hinar rit- uðu heimildir skortir.“ Guðmundur bendir á að þjóðfræð- ingar hafi orðið einna fyrstir til að safna skipulega þjóðlegum fróðleik víða um lönd. „Hallfreður Örn Ei- ríksson er gott dæmi hér á landi, en hann var ráðinn til þess að safna efni. Safn Hallfreðar ásamt ýmsu efni öðru, sem tengist þjóðlegum fróðleik, er nú í vörslu Stofnunar Árna Magnússonar. Miðstöð munnlegrar sögu safnar fyrst og fremst annars konar fróð- leik. Við hyggjumst einkum safna frásögnum af ýmsum atburðum sem tengjast sögu Íslendinga. Okkar verkefni er atburðasagan en ekki söfnun þjóðfræða. Þetta gildir um alls konar atburði: byggðasögu, sögu ýmissa iðngreina, stofnana o.s.frv. Við tökum einnig við heimildum annars staðar frá. Sem dæmi má nefna að við viljum gjarnan fá hljóð- rit frá fræðimönnum eftir að þeir hafa nýtt sér þau við fræðilegar rannsóknir sínar. Þá stuðla þeir um leið að því að efnið verði gert að- gengilegt öðrum til annars konar af- nota.“ Fyrsta söfnunarátakið – Er söfnun hafin á vegum mið- stöðvarinnar? „Um þessar mundir er verið að hleypa af stað fyrsta verkefninu sem hefur hlotið heitið Minningar úr kvennabaráttunni. Tekin verða við- töl við konur sem voru virkar í kvennabaráttunni á 7. og 8. áratugn- um, þau skráð, unnið fræðilega úr þeim og þau gerð aðgengileg. Síðar hyggjumst við hrinda fleiri verkefnum af stokkunum. Fyr- irmynd okkar er m.a. finnska bók- menntafélagið, en það hefur staðið fyrir söfnunarherferðum víða um land á undanförnum árum. Markmið okkar er að unnið verði fræðilega úr samtölunum því að verkefnið er í raun ekki fullklárað fyrr en það hef- ur nýst við sagnfræðilegar rann- sóknir.“ – Það er kunnara en frá þurfi að segja að fjöldi fólks hér á landi hefur áhuga á alls konar sögu. Hvað þarf fólk að hafa í huga til þess að efni hafi sagnfræðilegt gildi? „Það er efni sem er persónulegt og hefur um leið víðari skírskotun til umhverfisins. Þetta getur verið frá- sögn af hversdagslegum atburðum, lýsing á mataræði, samskiptum inn- an fjölskyldu, minningar um stór- atburði – hvaðeina sem bregður ljósi á líf þess sem segir frá.“ – Hvaða kröfur eru gerðar til spyrlanna? „Við erum að móta verklagsreglur okkar sem gilda bæði um okkar söfnun og þá sem taka að sér einstök verkefni fyrir miðstöðina. Þar er um að ræða fagleg, siðferðileg og tækni- leg atriði um söfnun munnlegra heimilda. Hér skulu nokkur atriði nefnd. Spyrillinn þarf að vera vel und- irbúinn og hafa þekkingu á efninu. Hann þarf að vera viðbúinn ýmsu sem kann að henda í viðtalinu og geta brugðist við því. Spyrillinn þarf að hafa gott upp- tökutæki þannig að hljóðritin geti nýst til útsendingar í útvarpi. Hann þarf einnig að kunna á tækið. Þá skiptir afar miklu máli að spyr- illinn virði skoðanir viðmælandans og þrengi ekki sínum skoðunum upp á hann. Við setjum leiðbeiningar inn á heimasíðu okkar innan skamms, sem eru ætlaðar þeim sem vilja byrja að nýta sér aðferðir munnlegrar sögu.“ Mikilvægi munnlegra heimilda Morgunblaðið/GolliGuðmundur Jónsson, prófessor: „Spyrillinn verður jafnan að sjá til þess að viðmælandinn tjái eigin skoðanir.“ Miðstöð munnlegrar sögu var stofnuð 26. jan- úar sl. Hlutverk hennar er að safna munnlegum heimildum um sögu lands og þjóðar og varðveita þær til frambúðar. Guð- mundur Jónsson prófess- or sagði Arnþóri Helga- syni frá starfi miðstöðvarinnar. Í HNOTSKURN »Miðstöðin er safn og rann-sókna- og fræðslustofnun á sviði munnlegrar sögu. »Miðstöðin leitast við aðgera safnkostinn aðgengi- legan með því að yfirfæra hann á stafrænt form og miðla honum á vefsíðu sinni. » Í miðstöðinni er aðstaða tilað hlusta á hljóð- og mynd- efni. »Miðstöð munnlegrar söguer samstarfsvettvangur fjögurra aðila: Sagn- fræðistofnunar Háskóla Ís- lands, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og Kennaraháskóla Íslands í sam- vinnu við Landsbókasafn Ís- lands – Háskólabókasafn. safn
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76
Blaðsíða 77
Blaðsíða 78
Blaðsíða 79
Blaðsíða 80
Blaðsíða 81
Blaðsíða 82
Blaðsíða 83
Blaðsíða 84

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.