Morgunblaðið - 16.04.2008, Qupperneq 25
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 16. APRÍL 2008 25
„Megum við koma inn og fá Guðs orð
og bæn?“ Það var auðsótt og síðan var
þeim boðið að matarborðinu.
Þórarin langaði mjög að lifa 85. af-
mælisdag sinn 16. mars, sem nú bar
upp á pálmasunnudag. Honum veittist
það, þó að lífskraftar hans væru að
þverra út. Hann gladdist yfir því, að
þessa sömu helgi hélt dóttursonur
hans Þórarinn einsöngstónleika á
Gimli og í Winnipeg líkt og Hanna eig-
inkona hans hafði gert rúmri hálfri öld
áður. Afmælisdagur Þórarins kallast
einnig Gvendardagur, sem var dánar-
dægur Guðmundar góða Arasonar
biskups árið 1237. Hann var vinsæll
meðal alþýðunnar og góðmennska
hans sögð einstök.
Góðmennska Þórarins var einnig
einstök. Æskuvinkonan hafði svo
sannarlega rétt fyrir sér. Hið góða
hjartalag hans var svo sannarlega
gulls ígildi.
Þegar ég kom að sjúkrabeði Þór-
arins fann ég fyrir sérstakri nærveru
Guðs, djúpstæðum heilags anda friði,
sem heimurinn þekkir ekki, en Jesús
einn getur gefið. Sérstakt var að sjá
hvernig trúarstyrkur Þórarins óx í
hans mikla veikleika. Hann skyldi allt-
af eiga kraft til bæna, þó að annars
gæti hann vart tjáð sig í orðum. Hann
sagði líka nær alltaf að sér liði vel.
Þórarinn hélt trúarstyrk sínum,
ljúflyndi og góðlátlegri kímnigáfu til
hinstu stundar. Hann var mikill föð-
urlandsvinur og íslenskumaður. Síð-
asta kveðjan hans til mín var því nokk-
uð sérstök, en hann sagði lágt með
bros á vör og góðlátlegum glettnisfull-
um augunum: „See you later“.
Ég bið þess, að Guðs miskunn og
náð megi leiða til þess að eilífðarvonin
bjargfasta, sem Þórarinn átti, megi
einnig vera okkar og að við megum
fullna skeiðið líkt og hann gerði. „See
you later“.
Í Guðs friði og Jesú nafni.
Drottinn gaf. Drottinn tók. Lofað
veri nafn Drottins.
Ólafur Óskar Jakobsson.
Að eiga góðan afa, eru dýrmæt for-
réttindi. Í gegnum tíðina hefur fólk
minnt mig á hvað ég sé heppin að ég
eigi ekta afa. Hvað áttu þau við með
því, jú það er ekki sjálfsagður hlutur
að eiga afa sem kemur beint upp úr
uppskriftinni að fyrirmyndarafanum.
Þann afa átti ég. Hann var einstakur
maður, sem var alltaf í góðu skapi með
bros á vör. Vildi alltaf halda friðinn og
ég sá hann aldrei rífast við nokkurn
mann. Hann hélt í gleðina og kenndi
manni jákvæðni og létta lund. Afi
minn var einskonar lærifaðir okkar
allra, hann var tvímælalaust höfuð
fjölskyldunnar. Móðir mín er eina
barnið hans og afi bjó í sömu götu og
við, hann var einn af okkur, átti mjög
stóran þátt í að móta lífsskoðanir
manns og ala okkur systkinin upp. Á
ensku þegar sagt er afi er notað orðið
„grandfather“ sem útleggst á ís-
lensku hinn mikli faðir. Þannig var
hann afi, hann var stóri mikli pabbinn
okkar, sem viskan kom frá og maður
leit alltaf upp til.
Afi minn var líka alveg einstaklega
barngóður og alltaf til í að leika við
mann. Hann smíðaði með okkur dót
og ef við áttum ekki einhver leikföng
þá bjó hann þau til. Afi gat lagað
ónýta barbie-kalla, búið til barbie-
bíla, hermannahatta og allskyns dót,
svo leyfði hann okkur líka að smíða
með sér. Hann gat hermt eftir og leik-
ið öll dýrin, fór með okkur í hina ýmsu
leiki og átti alltaf góðar sögur að
segja. Ég eyddi öllum stundum með
ömmu og afa og gisti oft hjá þeim.
Amma og afi komu líka með allar há-
tíðir með sér, jólin fyrir mér komu
þegar þau gengu inn um dyrnar. Þau
vógu hvort annað svo skemmtilega
upp, hún svo ör og hress, algert fiðr-
ildi en hann alltaf svo rólyndur og
ótrúlega geðgóður.
Þau voru mjög samstillt í öllu sem
þau gerðu og maður sá alltaf hvað þau
voru hamingjusöm og ástfangin.
Amma sagði líka öllum þeim er heyra
vildu að hún ætti besta mann í heimi.
Afi minn hafði alltaf trú á mér, það er
honum að þakka að ég dreif mig aftur
í píanónám og að mörgu leyti honum
að þakka að ég sem ennþá ljóð. Hann
vildi alltaf hlusta og það var svo gam-
an að vita að maður gæti gert eitthvað
til að gleðja hann. Ég á margar ótrú-
lega dýrmætar minningar um mann
sem var alltaf í mínum augum besti
maður í heimi. Það var sárt að horfa á
hann veikan í sjúkrarúmi síðustu
mánuði. Hann rétt lifði 85 ára afmælið
sitt og dó daginn eftir að hann átti 60
ára trúlofunarafmæli. Þau voru nefni-
lega svo miklir húmoristar að þau trú-
lofuðu sig 1. apríl. Það er ótrúlega
gott að eiga þá von að afi sé á himnum
hjá Guði og ömmu og ég mun halda í
þá trú. Hann fékk frið í sál sína og lík-
amlegar þjáningar hans eru á enda.
Ég veit að þetta var besta lausnin en
þó er sárt að horfa upp á stólinn hans
við borðið alltaf auðan og tómlegt að
koma í húsið hans. Það er skrýtið að
eiga ekki eftir að sjá breiða brosið
hans meira í þessu lífi. Ég held í þá
von að við hittumst á ný. Ég er ótrú-
lega þakklát fyrir þann tíma sem ég
fékk að eiga með afa mínum. Æskan
mín og öll ferðalögin með afa síðustu
ár geyma dýrmætar minningar.
Guð blessi minningu elsku afa
Þóra.
Hanna Lísa.
Afi Þóri var ekki maður sem vílaði
hlutina fyrir sér. Þegar hann var
staddur á samkomu austur í Kirkju-
lækjarkoti í Fljótshlíð og predikarinn
hafði eftir Jesú Kristi í Biblíunni að
hver sem væri ekki með Jesú væri á
móti honum, þá var afi fljótur að
ákveða sig. Drottinn allsherjar fengi
stjórnina, umyrðalaust. Svo vildi
hann bara fara í næsta læk og taka
skírn. Afgreitt mál.
Skírnin fór reyndar fram daginn
eftir, en þetta lýsti honum vel. Hann
vildi klára allt strax og ekki bíða eftir
neinu. Enda ekki eftir neinu að bíða.
Það er þessi eiginleiki sem ein-
kenndi hann. Það var ekkert „við
skulum bíða og sjá“, það var bara
framkvæmt. Eitt sinn stóðu þau hjón
frammi fyrir hvort ætti að kaupa bíl
eða ekki. Engir peningar til. Spyrjum
Drottin. Þá var dregið orð úr Biblí-
unni, og upp kom 2. Korintubréf, 6.
kafli
Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á
hjálpræðisdegi hjálpaði ég þér. Nú er hag-
kvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur.
Þá var keyptur bíll og blessaðist
það eins og svo margt annað í þeirra
lífi. Þegar afi hlóð forláta arin úr
fjörugrjóti heima hjá mömmu og
pabba, þá var bara byrjað. Ég horfði
agndofa á hann – „er það bara svona
sem maður gerir þetta?“ sagði ég. Já,
maður tekur þetta bara, einn stein í
einu. Byrja bara. Svo er ekki hver
sem er sem getur lifað af litlum lífeyr-
issjóði, samt rekið einbýlishús, bíl,
styrkt Ómega og alls konar happ-
drætti og samt átt afgang. En þetta
var afi. Nægjusamur og gaf alltaf af
sér. Það var nóg fyrir hann að fara út í
garð og hlaða útiarin úr gömlum vikri
úr rauðamöl frá JL og brenna svo
nokkrar greinar í arninum. Eins og
hellisbúarnir gerðu á sínum tíma.
Hann þurfti ekki meir. Afi kallaði
vinnuna leik. Hann var alltaf að leika
sér. Einu sinni byggðum við garðhús
og útiarin í garðinum heima. Þá sagði
hann að við værum að byggja fallegt
úr ljótu. Í leiðinni sagði hann mér frá
Alvar Aalto og fleiri snillingum, og
sagði að ég gæti náð alveg jafnlangt
og þeir. Þyrfti bara að trúa á sjálfan
mig og framkvæma.
Hann sagði mér einnig frá fleiri
snillingum eins og Halldóri Laxness
og forfeðrum mínum, Einari í Nesi og
Þorleifi ríka. Meðan afi vann við bygg-
inguna og fræddi mig um þessa menn,
varð ég vitni að sömu eiginleikum í afa
og þeim sem komu þessum mönnum
áfram, hugviti og metnaði.
Afi fann alltaf leið. Ef eitthvað var
bilað, þá var það bara lagað. Tekinn
upp vasahnífur og málið dautt.
Á spítalanum var afi alltaf á leiðinni
heim. Heim í húsið sitt. Eins og
örugglega allir hinir sem eru á sjúkra-
húsi. En nú er hann kominn heim til
Drottins. Þar sem samræmið og arki-
tektúrinn og hleðslurnar og allt annað
eru magnaðri en við getum ímyndað
okkur. Enda erum við bara menn og
geta okkar til að spá fyrir um annað
en við þekkjum bundið við okkar
reynsluheim. Hann er kominn á góðan
stað.
Guð blessi minningu afa Þóra og
ömmu Hönnu. Ég þakka Guði fyrir
þennan tíma sem ég fékk með þeim og
að fá að vera vitni að þeim metnaði
sem einkenndi þau.
Sigurður Anton Ólafsson.
„Engin ógæfa hendir þig og engin
plága nálgast tjald þitt“. Þetta er ritn-
ingarstaður úr Davíðssálmi 91 í heil-
agri ritningu, sem afi hafði eitt sinn
látið grafa í stein og blöstu þessi ritn-
ingarorð ávallt við manni á arinhill-
unni þegar í stofuna hjá honum var
komið. Honum fannst þetta vera fyr-
irheit fyrir sig og sína fjölskyldu enda
má segja að afi hafi verið einstakur
gæfunnar maður í þessu lífi.
Ég var staddur í Montreal þegar
mér bárust þær sorgarfréttir að
elskulegur afi minn væri látinn. Minn-
ingarnar um góðan mann flæddu um
hugann. Mann sem hafði það að leið-
arljósi að vera jákvæður og uppörv-
andi persónuleiki. Hann hafði áhuga á
sönglist og var mjög hvetjandi í að
amma heitin, Hanna Bjarnadóttir,
færi til söngnáms í Hollywood í byrj-
un 6. áratugar síðustu aldar. Öllu var
fórnað, íbúð var seld til þess að amma
gæti látið drauminn rætast um að
læra hjá einum af bestu kennurum
sem völ var á þá. Afi var maður sem
lét verkin tala og verklagni hans í
múrverki ber þess merki í þeim fögru
verkum sem hann skildi eftir sig. Ég
minnist þess að þegar ég var fimm ára
gamall hannaði hann sverð, skildi og
húfur til að gleðja okkur bræðurna.
Hann hafði gaman af að leika við börn
og var hann einstaklega hæfileikarík-
ur í að herma eftir hinum ýmsu dýr-
um, allt í raun til að vekja undrun og
gleði hjá okkur barnabörnunum.
Mannkostir hans voru ótvíræðir og
var hann alltaf einstaklega hvetjandi
og hlýr persónuleiki sem einatt sá það
jákvæða í margbreytilegum kringum-
stæðum lífsins.
Í huga mér koma orð Páls postula í
5. kafla Galatabréfsins sem hljóða
þannig: „En ávöxtur andans er: Kær-
leiki, gleði, friður, langlyndi, gæska,
góðvild, trúmennska, hógværð og
bindindi.“ Afi hafði í raun alla þessa
kosti til að bera.
Ég náði einnig að vinna með honum
á sumrin þegar ég var unglingur og sá
ég þá enn frekar hversu yfirvegaður
og úrræðagóður hann var. Hann hafði
gott lag á að tala við fólk og var honum
alls staðar vel tekið.
Afi hafði mikinn áhuga á klassísk-
um söng og fékk ég einatt hvatningu
frá honum í því sem ég var að vinna að
í söngnum. Hann studdi vel við bakið
á mér á ýmsan hátt og var stoltur þeg-
ar ég gat sýnt honum afrakstur af því
sem ég hafði verið að vinna að.
Ég hafði einstaklega gaman af því
að fá tækifæri til að sýna honum töfra
Ítalíu þegar hann kom þangað sum-
arið 2004. Honum fannst það áhrifa-
mikið að sjá merkustu staði Rómar,
Feneyja, Písa og að fara á óperuna
Aidu í hringleikahúsinu í Veróna.
Komið er að kveðjustund þar sem far-
sælli ferð afa á þessari jörð er lokið.
Það er því mikið tómarúm í hjarta
mínu nú þegar hann er farinn og rödd
hans hljóðnuð. En minningarnar um
einstakan mann munu lifa innra með
mér um ókomna tíð.
Að lokum vil ég kveðja afa með orð-
um sem mér finnst lýsa lífsviðhorfi
hans og því sem hann stóð fyrir. Þessi
ritningarstaður er úr 37. sálmi Davíðs.
„Fel Drottni vegu þína og treyst hon-
um, hann mun vel fyrir sjá“. Guð
blessi minningu þína elsku afi,
Þórarinn Jóhannes Ólafsson.
Fleiri minningargreinar um Þór-
arin Jónsson bíða birtingar og munu
birtast í blaðinu næstu daga.
strax miklir mátar og ósjaldan sem
þið rædduð um ykkar uppáhald, ís,
enda bæði sérfræðingar í heimatil-
búnum ís, það var auðvelt að gleðja
þig ef komið var í heimsókn með ís í
poka. Minningarnar eru svo góðar af
okkar samverustundum og eina
þeirra áttum við fyrir nokkrum dög-
um, mamma hringdi og sagði að nú
væri kallið komið og þú ættir ekki
nema nokkrar klukkustundir eftir. Ég
mælti mér mót við mömmu og við
strukum þér og héldum í höndina þína
góða stund meðan þú svafst, þú hélst
þéttingsfast eins og þú gerðir alla tíð,
ótrúlegur kraftur. Þegar síðan var
komið með ís til þín þá hresstist þú
heldur betur. Þú settist upp, lagaðir
þig til og lékst síðan á als oddi þennan
tíma sem ég dvaldi hjá þér. Þetta var
ómetanleg stund að sjá að þú varst
ekki þjáð þrátt fyrir mikil veikindi. Þú
söngst, fórst með vísur og rifjaðir upp
gamlar minningar og talaðir um hvað
væri gaman, við mamma hlógum
stanslaust með tárin í augunum, þú
stríddir mömmu og hlóst mikið. Þegar
ég var að fara þá reistir þú þig upp og
breiddir út faðminn þú vildir fá faðm-
lag. Takk fyrir þetta mikilvæga kveð-
jufaðmlag. Þú varst tilbúin að kveðja
og ég veit að nú hefur þú öðlast hvíld.
Þú varst ótrúlega kona, svo sterk, já-
kvæð, glöð, hæfileikarík, prakkari,
ung í hjarta og umfram allt með stórt
hjarta.
Guð geymi þig, amma prakkari, og
takk fyrir allt. Þín
Elín.
Elsku besta amma mín, þetta er
erfið stund hjá mér að vera að skrifa
minningargrein um þig. Samt er það
léttir að vita að þú sért komin við hlið
afa aftur. Ég á margar margar góðar
og yndislegar minningar um þig og
okkur saman. Mínar bestu æsku-
minningar eru þegar við vorum ásamt
afa og Ástrúnu frænku uppi á Apa-
vatni, það voru sko ófáar stundirnar
sem við áttum þar saman. Og svo þeg-
ar leið að jólum beið maður spenntur
eftir að þú færir að baka piparkökur
sem við máluðum og borðuðum svo
með bestu lyst. Hafðu hjartans þakk-
ir fyrir og allt sem þú gerðir fyrir mig,
elsku amma mín.
Amma, góða nótt! Þitt barnabarn,
Ástríður Linda.
Hinn 5. apríl sl. lést móðursystir
mín Ástríður Hafliðadóttur. Lauk þá
farsælli ævi hennar. Síðustu æviárin
glímdi hún við illvígan sjúkdóm sem
svipti hana raunveruleikaskyninu.
Sjúkdómurinn svipti hana þó ekki
glaðværðinni sem var einkenni henn-
ar alla tíð.
Ásta var fædd og uppalin í Reykja-
vík. Ólst hún upp á heimili foreldra
sinna, Hafliða Baldvinssonar fisksala
og Jóneu H. Fríðsteinsdóttur, að
Hverfisgötu 123. Naut hún öryggis og
elsku í uppvextinum ásamt systkinum
sínum Hákoni, Halldóru og Helga, en
þau eru öll látin. Var samband systk-
inanna alla tíð gott en einkanlega
tengdust systurnar sterkum böndum.
Hinn 12. maí 1945 giftist Ásta
Ágústi Guðmundssyni slökkviliðs-
manni en hann lést árið 2004. Ágúst
var ættaður frá Efra-Apavatni í
Laugardal. Foreldrar mínir, Halldóra
og Jón Sveinsson, gengu í hjónaband
sama dag. Var haldið veglegt systra-
brúðkaup sem löngum var í minnum
haft og jafnan haldið upp á daginn
með pomp og prakt.
Ásta og Ágúst bjuggu lengst af á
Rauðalæknum. Stóðu þau alla tíð vel
saman og hlúðu vel að fjölskyldunni.
Þau eignuðust fjögur mannvænleg
börn: Jónu, Hafdísi, Guðmund Karl
og Ástrúnu. Þeim náði ég að kynnast
mjög vel vegna þess hve mæður okk-
ar voru nánar. Hafa þau alla tíð
reynst mér eins og bestu systkini sem
hefur verið mér, einkabarninu, afar
dýrmætt.
Ásta var einstaklega myndarleg
húsmóðir og lipur var hún við sauma-
skapinn. Hún var ákaflega gestrisin.
Gestum var ævinlega tekið opnum
örmun og ekkert til sparað. Hún var
gamansöm, glöð og hress og gat verið
stríðnispúki þegar svo bar undir. Allt-
af fór maður glaður af hennar fundi.
Hún var félagslynd og hafði ánægju
af samskiptum við fólk. Það kom
greinilega í ljós á síðari hluta ævinnar
þegar börnin voru löngu uppkomin og
hún tók sig til og fór að vinna utan
heimilis. Starfaði hún m.a. um tíma
við verslunarstörf hjá Hagkaupum
við Laugaveg og síðar við þjónustu-
störf hjá Sjálfsbjörg við Hátún.
Leyndi sér ekki hvað hún naut þess
að sinna þessum störfum sínum og
vera í samvistum við annað fólk.
Eins og gengur og gerist fluttu
börnin að heiman og stofnuðu sínar
eigin fjölskyldur og eru afkomend-
urnir orðnir margir. Það var alltaf
mikið fjör hjá Ástu og Gústa í hangi-
kjötinu á jóladag. Þá var borðað, hleg-
ið og farið í leiki. Í sumarbústaðnum
við Apavatn var alltaf sól í minning-
unni og gaman að dveljast þar. Ásta
að vinna í garðinum og hella upp á
könnuna og krakkaskarinn úti að
leika sér. Í nokkur ár hittumst við
Ásta, og fleiri hressar konur, á
morgnana í sundlaugunum í Laugar-
dal. Eru það eftirminnilegar stundir
enda var oft glatt á hjalla.
Ásta var systur sinni einstaklega
góð þegar hún missti mann sinn og
stóð eins og stólpi við hlið hennar.
Sama var þegar móðir mín dó. Þá
sýndi Ásta mér einstakan stuðning og
umhyggju. Það eru auðvitað óteljandi
minningar sem koma upp í hugann
við fráfall Ástu sem verða ekki raktar
frekar hér. Ég vil með þessum fátæk-
legu orðum þakka elsku Ástu minni
samfylgdina öll þessi ár og umhyggju
hennar í minn garð.
Guð blessi minningu hennar.
Kristjana Jónsdóttir.
Kær svilkona og vinkona mín er
látin. Við gengum í hjónaband báðar
ungar með bræðrum frá Efra-Apa-
vatni, Ásta giftist Ágústi (Gústa), ég
giftist Þorsteini (Steina). Ásta var
yndisleg kona, myndarleg húsmóðir,
falleg og alltaf hress og kát. Við áttum
margar samverustundir í skemmtun
og leik þegar við vorum ungar. Við
fórum oft út að skemmta okkur og
nutum þess að vera saman. Ásta og
Gústi eignuðust fjögur börn, öll ynd-
islegt fólk, sem öll hafa stofnað fjöl-
skyldu.
Efra-Apavatn kom mikið við sögu í
lífi okkar Ástu, þangað var farið í öll-
um sumarfríum og um helgar.
Tengdaforeldrar okkar voru dásam-
leg, þau voru bændur á sinni
eignarjörð, Efra-Apavatni (vest-
urbæ) í Laugardal, þau hétu Jónína
Þorsteinsdóttir og Guðmundur Ás-
mundsson. Þau eignuðust sjö börn,
tvær dætur og fimm syni, stórmynd-
arlegt fólk. Jónína var stórkostleg
húsmóðir, skemmtileg og góð. Guð-
mundur spilaði á orgel sem hann hafði
lært ungur og var organisti í Mos-
fellskirkju og við sáum stundum á eft-
ir honum þeysast á hesti sínum yfir
holt og hæðir til kirkju á sunnudög-
um. Það var alltaf orgel á heimilinu og
mikið sungið. Systkinin flest byggðu
sér sumarhús í Aphól.
Gústi og Ásta byggðu fyrst hús við
vatnið en við byggðum uppi í hólnum.
Það voru lögð net í vatnið og vitjað um
á hverjum morgni. Gústa og Steina
þótti þetta hinn besta skemmtun og
alltaf var komið við hjá Ástu og Gústa,
drukkið kaffi og spjallað. Einnig fór-
um við í heimsóknir hvert til annars,
fengum okkur í glas og mikið var
hlegið. Öll systkinin frá Apavatni
sóttu mikið á æskustöðvarnar og þar
var alltaf fullt hús af fólki, stórkost-
legar móttökur og miklar veitingar.
Ég vil þakka Ástu gömlu og góðu dag-
ana og hvíldu í friði kæra vinkona.
Kveðja,
Elín Th. Björnsdóttir.