Morgunblaðið - 28.04.2008, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 28. APRÍL 2008 25
systur. Við urðum strax góðar vin-
konur og sú vinátta hélst alla ævi.
Hún kom til Akureyrar m.a. til þess
að stunda nám í píanóleik hjá Gunn-
ari Sigurgeirssyni.
Siggu fylgdi alla tíð glaðværð og
iðulega gáski. Tónlist var henni í
blóð borin og ákaflega hjartfólgin
alla ævi. Hún spilaði og söng, stjórn-
aði kórum í Eyjafirði, Akureyri og á
Húsavík. Meðal kennara hennar var
dr. Róbert A. Ottósson. Þau héldu
vel heppnaða tónleika á Akureyri.
Verkefnavalið var í höndum dr. Ró-
berts. Sigga hafði ákaflega fallega
sópranrödd en henni var fleira til
lista lagt. Hún tók þátt í leiksýning-
um á Akureyri við góðan orðstír.
Hún hefði örugglega náð langt á
braut sönglistarinnar, ef hún hefði
alist upp við rýmri kringumstæður
en þá voru á Akureyri.
Alltaf verður mér minnisstætt,
þegar Sigga kom óvænt í heimsókn á
stórafmæli föður míns. Húsið var
fullt af gestum. Pabbi dreif Siggu að
píanóinu og húsið fylltist á svip-
stundu af söng enda spilaði hún allt,
sem um var beðið af hjartans lyst.
Ég minnist frænku minnar með
miklum söknuði. Afkomendum
hennar og öðrum aðstandendum
sendi ég hjartanlegar samúðar-
kveðjur.
Anna S. Snorradóttir.
Við kveðjum nú Sigríði Guð-
mundsdóttur Schiöth, organista og
söngstjóra til margra áratuga.
Við sem tilheyrum Lómatjarnar-
heimilinu í dag kveðjum Sigríði með
mikilli virðingu. Nú eru öll börn
þeirra Valgerðar og Guðmundar á
Lómatjörn fallin frá en þau voru 12
talsins. Sigríður var næst yngst og
náði háum aldri. Sverrir á Lóma-
tjörn var tveimur árum eldri. Sigríð-
ur hélt góðri heilsu alveg fram í síð-
ustu vikuna sem hún lifði og er það
þakkarvert.
Sigríður var einstök kona. Hún
var afburða vel gefin og hæfileikarík.
Allt lá opið fyrir henni og krafturinn
var engu líkur. Það sem einkenndi
hana mest og hennar verður lengst
minnst fyrir eru einstakir hæfileikar
á tónlistarsviðinu. Hún stjórnaði
söng, lék á hljóðfæri, samdi lög og
hafði einstaklega fagra söngrödd.
Hún hefði getað náð langt á því sviði
ef hún hefði troðið þá slóð.
Ég er Sigríði þakklát fyrir stuðn-
inginn sem hún veitti mér, ekki hvað
síst á hinu pólitíska sviði. Hún kom
margoft fram á samkomum í aðdrag-
anda kosninga og skemmti. Þá var
hún ýmist með kórinn sinn með sér
eða þá að hún söng gamanvísur sem
hún hafði sjálf samið. Það brást ekki
að hún gerði stormandi lukku.
Þegar við hjónin heimsóttum Sig-
ríði nokkrum dögum fyrir andlátið
var mjög af henni dregið og ljóst að
hverju stefndi. Hún vildi eins og
vanalega geta boðið upp á veitingar
og stóð ekki á því hjá starfsfólki
Dvalarheimilisins Hlíðar sem annað-
ist hana einstaklega vel. Við spjöll-
uðum saman nokkra stund. Hún
sagði okkur að henni fyndist mjög
gaman þegar spurningaþættirnir
færu fram á morgnana. Það er skilj-
anlegt að henni hafi fundist þær
stundir skemmtilegar þar sem hún
kunni yfirleitt svör við öllum spurn-
ingum sem upp komu. Minnið sveik
hana aldrei þótt aldurinn færðist yf-
ir. Sigríður hafði sömuleiðis mikið
vald á íslenskri tungu og í þeim fræð-
um skjátlaðist henni ekki heldur.
Það er mikils virði fyrir okkur öll
að s.l. sumar var haldið ættarmót
Lómatjarnarættarinnar þar sem
hún gat tekið þátt. Hún lét sig ekki
muna um að spila á orgelið í Lauf-
áskirkju þá eins og svo oft áður, á ní-
tugasta og fjórða aldursári. Þessa
sömu helgi sat hún í suðurstofunni á
Lómatjörn á sunnudagsmorgninum
með ættingjana allt um kring og
sagði frá merkum atvikum frá upp-
vaxtarárunum.
Það er margs að minnast á kveðju-
stundu. Mikil hæfileikakona hefur
gengið sinn veg en hefur með fram-
lagi sínu sem tónlistarmaður og
söngstjóri lagt mikið af mörkum til
íslensks samfélags.
Blessuð sé minningin um Sigríði
Schiöth.
Valgerður Sverrisdóttir.
✝ JóhannesBjarnason
fæddist í Dalbæ á
Stokkseyri 14. sept-
ember 1920. Hann
lést á Hjúkr-
unarheimilinu
Skógarbæ í Reykja-
vík 18. apríl síðast-
liðinn. Foreldrar
hans voru Bjarni
Guðmundsson
verkamaður og
barnakennari, f. 24.
júní 1884, d. 3. maí
1966 og Jóhanna
Guðrún Jónsdóttir verkakona, f.
21. jan. 1893, d. 7. ágúst 1974.
hennar eru Ingibjörg Sigurð-
ardóttir og Steinunn S. Kristjáns-
dóttir. 2) Jóhanna, f. 27. mars
1959, giftist Sveini Guðmundsyni,
þau skildu, dóttir þeirra er Þóra
Björt, sambýlismaður Andri Berg
Haraldsson, sonur þeirra Jóhann-
es Berg.
Jóhannes lauk hefðbundnu
skólanámi þess tíma. Hann starf-
aði við ýmis störf svo sem vega-
vinnu, beitningar, en mestan
hluta starfsævi sinnar vann hann
byggingarvinnu og lengst af hjá
Byggingariðjunni hf. Jóhannes og
Dagbjört bjuggu lengstan hluta
hjúskapar síns í Reykjavík en síð-
ustu tvö árinn dvaldi Jóhannes á
Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ.
Útför Jóhannesar verður gerð
frá Bústaðakirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
Systkini hans sem öll
eru látin voru Lilja
Bjarnadóttir, f. 1910,
d. 1997, Guðbjörg
Jóna Bjarnadóttir, f.
1911, d. 1972. og
Guðmundur Óskar
Bjarnason, f. 1913,
d. 1982.
Jóhannes kvæntist
31. des. 1954 Dag-
björtu Guðmunds-
dóttur frá Króki í
Ásahreppi, f. 1. mars
1925. Þau eignuðust
2 börn, þau eru: 1)
Þorsteinn, f. 24. desember 1952,
maki Ólöf Erlingsdóttir, dætur
Minningar streyma fram. Pabbi
með veiðistöngina við fjallavatn þar
sem hann naut fallegrar náttúru,
kyrrðarinnar og ekki sakaði að hann
var ákaflega fiskinn, fann alltaf staði
þar sem fiskurinn hélt sig. Pabbi elsk-
aði landið sitt og gaf lítið fyrir útlanda-
ferðir, sagðist hafa komið til Vest-
mannaeyja og það væri nóg. Íþróttir
voru hans annað áhugamál og að horfa
á góðan handboltaleik var hans uppá-
hald, hvort sem það var í íþróttahúsi
eða bara í sjónvarpinu eins og núna
síðustu árin, og ekki sakaði ef hann
þekkti einhvern sem var að spila eða
þjálfa.
Pabbi var með afbrigðum bóngóður
og var ávallt tilbúinn að hjálpa ef hann
mögulega gat. Hann átti mjög auðvelt
með að mynda vinatengsl, og hafði
mjög gaman að fylgjast með og
spjalla. Ég var það heppinn að fá að
vinna með pabba í tíu ár og kynntist
því hversu frábær verkmaður hann
var og ef allt járnið sem hann beygði
væri komið í einn haug þá væru
stærstu byggingar borgarinnar sem
litlar þúfur.
Þú hélst vel utan um fjölskylduna
og fylgdist með miklum áhuga með
öllu sem við tókum okkur fyrir hendur
og varst manna stoltastur þegar vel
gekk. Yndislegar minningar um þig
hjálpa okkur aðstandendunum að tak-
ast á við sorgina
Takk fyrir allt.
Þorsteinn og fjölskylda.
Elsku hjartans pabbi minn.
Þau verða fátækleg orðin sem ég
skrifa til þín hér. Hugur minn er fullur
af sorg og söknuði eftir þér. Það er
ekki öllum gefið að eiga yndislegan,
elskandi og gefandi föður. Föður sem
vill allt fyrir þig gera smátt sem stórt.
Þannig varst þú pabbi minn. Þú hefðir
farið á heimsenda fyrir mig, það var
ekkert of stórt fyrir stelpuna þína.
Við áttum saman góða tíma og vor-
um miklir og góðir vinir. Gátum talað
um allt milli himins og jarðar. Ég var
ekki há í loftinu þegar ég fór að fara
með þér í silungsveiði. Þú varst fiskinn
og það að fara að veiða var það
skemmtilegasta sem þú vissir. Veiði-
vötnin voru þér kærust, þangað var
farið öll sumur meðan heilsan leyfði.
Þú þekktir hverja þúfu og hvern hyl.
Þegar heilsan fór að bila fórum við í
pollana í kringum Reykjavík. Þóra
Björt mín fór oft með þér og sat og las
bók á meðan þú veiddir. Það þurfti
ekki orð á milli ykkar, svo heitt elsk-
uðuð þið hvort annað. Hún var afa-
stelpan þín, gullmolinn þinn og saman
áttu þið dýrmætan tíma eftir að skóla
lauk. Þá hljóp hún heim til þín í afaf-
aðm. Þér þótti gott að fá hana. Hún
gaf þér síðan hann litla Jóa sinn. Þér
þótti svo óendanlega vænt um hann og
spurðir um hann á hverjum degi.
Varst alltaf að segja við mig hversu
glaður og góður hann væri. Þegar
Andri okkar kom inn í líf okkar varstu
glaður. Þér fannst Þóra heppin að hafa
fengið svona góðan strák. Ábyrgan og
góðan. Þið Andri horfðuð á marga
handboltaleikina saman. Það var ykk-
ar tími saman. Já, hann Andri var ein-
stakur við þig og þú vissir það.
Landið þitt Ísland var þér kært. Þú
varst hafsjór af fróðleik. Það var unun
að ferðast með þér. Þú vissir allt.
Sagðir manni sögur og fylltir mann af
fróðleik. Þig langaði til að læra. Varst
bráðskarpur. En á þeim tíma gastu
ekki fengið að fara í skóla. Það voru
ekki til fjármunir. Þú tjáðir þig oft
með söknuði um að hafa ekki fengið að
mennta þig. Þú hvattir mann til dáða í
námi og starfi. Það að standa sig skipti
þig miklu máli. Vera ábyrgur og dug-
legur þjóðfélagsþegn. Þú varst stoltur
af okkur öllum.
Elsku pabbi minn, það var auðvelt
að elska þig. Nú ertu kominn heim.
Frjáls eins og fuglinn. Kominn í faðm
drottins þar sem allar þrautir eru
horfnar. Búinn að hitta alla fjölskyld-
una og vinina og örugglega kominn að
einhverjum pollinum með prikið þitt
og öngulinn. Sæll og glaður.
Mig langar að þakka öllum þeim
sem hafa sýnt okkur fjölskyldunni
kærleika, hlýhug og vináttu á þessum
erfiðu dögum með heimsóknum, gjöf-
um og símhringingum. Guð blessi ykk-
ur öll. Sérstakar þakkir fyrir trú-
mennsku og tryggð við pabba fá Ási
og Bagga, Óli bróðir mömmu, Guðjón
og Sólveig og allir hinir sem kíktu í
heimsókn til hans og styttu hjá honum
daginn og veittu honum ómælda gleði.
Starfsfólk Skógarbæjar fær hlýjar
kveðjur frá okkur fyrir umönnunina.
Ég elska þig pabbi minn. Þú varst
engill í mannsmynd.
Þín dóttir,
Jóhanna.
Elsku afi minn kvaddi okkur föstu-
dagskvöldið 18. apríl. Hann var ynd-
islegasti maður sem til var og það er
ekki annað hægt en að vera þakklátur
fyrir það að hafa fengið að eiga svona
góðan afa. Það var sko alveg nóg að
eiga bara einn afa þar sem afi jafnaðist
á tíu afa ef ekki meira.
Hann var svo endalaust góður og
gjafmildur. Hann mátti ekkert aumt
sjá. Hann átti alltaf falleg orð handa
manni og hvatningu. Hann sá alltaf já-
kvæðu hliðarnar á öllu sem ég tók mér
fyrir hendur og var duglegur að láta
mig vita hvað hann væri stoltur af
mér. Ég átti sko sannarlega hauk í
horni í honum afa. Það var ekkert
betra en að labba inn í herbergið hans
á Skógarbæ þreytt og sjúskuð eftir
vinnudag og heyra hann segja: Mikið
ósköp ertu fín í dag. Hann gat látið
manni líða eins og heimsins fallegustu
prinsessu með fallega brosinu sem
skein úr augum hans þegar hann sagði
þessi orð við mann.
Elsku afi minn, takk fyrir allt. Ég er
heppnasta afastelpa sem til er. Ég
mun aldrei gleyma stundunum þar
sem ég sat í fanginu á þér og þú last
allar þjóðsögurnar fyrir mig nema
draugasögurnar því ekki mátti ljósið
þitt verða hrætt. Það var svo gott að
koma heim úr skólanum eftir að þú
hættir að vinna og saman bjuggum við
til bláberjasúpu eða búðing. Þú skutl-
aðir mér hvert á land sem var og
komst oftast við í ísbúðinni sama
hversu ferðin var stutt. Þú varst mér
bæði sem afi og faðir. Þú kenndir mér
svo ótal margt sem ég mun búa að í
framtíðinni. Þú hafðir alltaf tíma fyrir
mig en það er dýrmætasta gjöf sem
hægt er að gefa barni. Ég vildi samt
óska að við hefðum fengið meiri tíma
saman. Ég átti eftir að launa þér svo
margt.
Ég er svo stolt af því að hafa gefið
þér hann nafna þinn og ég mun vera
dugleg að segja honum frá því hversu
yndislegur þú varst. Ég gleymi aldrei
hvað þú varst glaður á skírnardaginn.
Ég vona að hann beri gæfu til þess að
líkjast afa sínum sem mest. Ég veit að
þú vakir yfir honum og okkur öllum.
Ég fann svo sterkt fyrir nærveru þinni
þegar ég kvaddi þig. Þú gafst mér svo
mikinn frið og styrk. Það var þér líkt
að halda áfram að gefa af þér þó þú
værir farinn úr líkama þínum.
Elsku afi, nú ertu frjáls eins og fugl-
inn og laus úr fangelsi líkama þíns.
Njóttu þess og ég hlakka til að hitta
þig aftur. Ætli það verði ekki við sil-
ungapoll einhvers staðar á himninum
þar sem þú situr með bros á vor og
bíður eftir því að ég setjist hjá þér í
flæðarmálið og lesi bók eins og við vor-
um vön að haga veiðitúrunum okkar.
Elsku mamma, þú sinntir afa af
mikilli umhyggju og samband ykkar
var einstakt. Þú varst honum algjör
stoð og stytta. Þú mátt vera svo stolt
af þér. Ég veit að afi er það. Ég veit
hversu sárt þú saknar hans og ég vil
að þú vitir að ég er alltaf til staðar fyrir
þig. Eins er missir þinn mikill elsku
amma mín og megi Guð gefa þér styrk
til að takast á við lífið án afa. Við mun-
um öll umvefja þig og standa við hlið
þér um ókomna framtíð. Elsku Steini
minn og fjölskylda, hugur minn er
einnig hjá ykkur.
Þín afastelpa,
Þóra Björt.
Dóttir mín Þóra Björt hringdi í mig
að kveldi föstudags í síðustu viku og
tilkynnti að afi sinn, hann Jóhannes
Bjarnason, hefði látist. Í rödd hennar
mátti heyra söknuð og sorg.
Hann Jóhannes eða Jói eins og
hann var kallaður af vinum og ætt-
ingjum var búinn að vera veikur til
lengri tíma en þrátt fyrir það kom kall-
ið skyndilega og óviðbúið.
Ég átti því láni að fagna að hafa
kynnst Jóa. Hann var glaðlyndur,
hjálpsamur, traustur og hafði
ákveðnir skoðanir á mönnum og mál-
efnum. Ef hann var búinn að gera upp
sinn hug þá breyttir þú ekki afstöðu
hans.
Atvik höguðu því þannig til að dóttir
mín, hún Þóra Björt, ólst upp í mikilli
nálægð við móðurforeldra sína þau
Jóa og Dæju. Ég er þakklátur þeirri
forsjón, þau hafa reynst henni vel og
verið henni góð. Ég held í reynd að Jói
hafi verið mjög stoltur af afahlutverk-
inu og fylgdist hann náið með þeim
góða árangri sem afabarnið skilaði í
leik og starfi.
Fyrir tæpum fimm árum kom í
heiminn augasteinninn hann Jóhann-
es Berg. Það voru stoltir foreldrar,
Þóra Björt og Andri Berg, sem gáfu
honum nafn afa síns. Það var mjög við
hæfi og komst gamli maðurinn við í
skírninni og mátti sjá perlur í augna-
krókum.
Á árum áður fór ég margar ferðir
með Jóa í Veiðivötnin. Hann hafði
mjög gaman af veiði og þekkti vel til
staðhátta þar. Á þeim tíma kynntist ég
fyrst þessum fallega stað og þeirri
friðsæld og dulúð sem umlykur vötnin.
Fyrir þau kynni og þann góða fé-
lagsskap sem ég var í þakka ég og
geymi góðar minningar.
Ég trúi því að þeir sem deyja séu
ekki horfnir. Þeir eru aðeins komnir á
undan. Jafnframt vil ég trúa því að
skilnaðarstundin sé dagur samfunda í
himnasal.
Nú þegar hann Jói er farinn, kveð
ég góðan mann með söknuði og þakk-
læti fyrir samfylgdina.
Sorgin er mikil og sendum við Alla
og börn, Dæju, Jóhönnu, Steina og
fjölskyldum dýpstu samúðarkveðju.
Hana Þóru Björt okkar, Andra Berg
og Jóa litla biðjum við góðan guð að
styrkja og geyma þann fjársjóð sem
minning um góðan afa er.
Mannsandinn líður ekki undir lok,
minning um góðan mann lifir í hjarta
og minni. Líkt og sólin sem virðist
ganga undir, en alltaf heldur áfram að
lýsa.
Sveinn Guðmundsson.
Jóhannes Bjarnason, eða Jói eins og
hann var alltaf kallaður, hefur kvatt
þessa jarðvist. Jói og hans góða kona
Dæja, ásamt börnum sínum Steina og
Jóhönnu, hafa verið samofin tilveru
minni síðan ég man eftir mér. Dæja al-
in upp frá barnsaldri upp í miðbænum
í Meiri-Tungu ásamt börnum bræðr-
anna Þorsteins og Bjarna. Vináttan
hafði staðið í langan tíma og samgang-
ur milli fjölskyldnanna mikill frá
fyrstu tíð. Oft komu þau austur og
dvöldu þar daglangt eða í lengri tíma.
Jói var stór og stæðilegur. Hann var
hlédrægur maður að eðlisfari og hlýr,
en iðulega var hann í góðu skapi og
stutt í hláturinn. Náttúrunni unni
hann og hans helsta tómstundagaman
var silungsveiði. Það var gaman að
fara með honum fram í Rauðalæk að
veiða ásamt krökkunum. Þar var hann
í essinu sínu, dró margan fiskinn og
lék á als oddi. Veiðivötn á Land-
mannaafrétti voru honum hugleikin
og þangað hélt hann oft til veiða. Árið
1969 fór ég með honum og föður mín-
um ásamt fleira fólki inn í Veiðivötn.
Það var fyrir tíma brúa yfir á Tungná
svo farið var yfir á Hófsvaði. Hreppt-
um við hið versta veður, mikið rok og
sandbil, tjöldin fuku og lítið var hægt
að vera við veiðar. Þó náði Jói þar í
fisk, en við feðgar ekkert. Þessarar
ferðar var oft minnst síðar þegar
Veiðivötn báru á góma.
Jói var ákaflega hjálpfús og bóngóð-
ur. Alltaf var hann tilbúinn að rétta
hjálparhönd. Ómældar voru þær
kvöldstundir og helgar sem hann
hjálpaði foreldrum mínum við hús-
bygginguna í Stigahlíðinni á sjötta tug
síðustu aldar og verður það aldrei full-
þakkað. Mikla tryggð hafa þau Dæja
og Jói sýnt foreldrum mínum alla tíð
og traustari vini ekki hægt að hugsa
sér.
Kæru Dæja, Steini, Jóhanna og fjöl-
skyldur, innilegar samúðarkveðjur til
ykkar á sorgarstundu frá okkur öllum
úr Stigahlíðinni. Minningin um góðan
dreng mun lifa með okkur öllum um
ókomna tíð. Blessuð sé minning hans.
Bjarni Valtýsson
Ég kynntist Jóa fyrir rúmum sex
árum. Ég fann strax að í honum hafði
ég eignast einstakan vin. Ég var svo
heppinn að eyða meginu af þeim tíma
sem ég notaði til lærdóms á meðan ég
var í háskólanum inni á heimilinu hjá
þeim Jóa og Dæju þar sem aukaher-
bergið var fullkomin lærdómssvíta ef
svo má að orði komast. Á þeim tíma
sem Jói var enn heima náðum við
kynnast mjög vel. Það var alltaf gam-
an að ræða við hann enda var hann
fróður og skemmtilegur sögumaður.
Hann bjó yfir mikilli vitneskju um
land og þjóð ásamt því að hafa sterkar
skoðanir á þjóðmálum sem hann
fylgdist alltaf vel með.
Hann var einlægur íþróttaaðdáandi
og fundum við okkur vel í því að ræða
handboltann enda horfðum við á
marga leiki saman, bæði heima á
Hólmgarðinum og seinna á Skógarbæ.
Hann fylgdist vel með því sem ég tók
mér fyrir hendur og hvernig mér gekk
í boltanum. Hann stóð alltaf með
manni og var alltaf jafn-stoltur af
manni. Hann var duglegur að segja
mér hvað ég stæði mig vel og notaði
hvert tækifæri til að hrósa og styðja
mann. Þessi eiginleiki hans Jóa er eitt-
hvað sem mættum öll temja okkur
enda hafði hann einstaka nærveru.
Fyrir fimm árum síðan kom hann
Jói litli svo í heiminn og mikið var
hann glaður og ánægður með litla
manninn. Hann fylgdist alltaf vel með
stráknum og naut þess að fá hann í
heimsókn. Hann var honum mikill
gleðigjafi. Ég vildi óska þess að þeir
nafnar hefðu fengið að njóta lengri
samvista en við munum vera dugleg
að segja honum frá afa Jóa sem er
okkur öllum svo kær.
Elsku Jói, þín er og verður sárt
saknað. Við hittumst heilir hinum
megin og horfum á enn fleiri leiki sam-
an með besta útsýni sem hægt er að
hafa.
Andri Berg Haraldsson
Jóhannes Bjarnason