Morgunblaðið - 18.06.2008, Síða 29

Morgunblaðið - 18.06.2008, Síða 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 18. JÚNÍ 2008 29 „Það er verið að banka hjá okkur Gurrý.“ Klukkan var hálf-sjö að morgni. Ég opna dyrnar. Þar stendur tengda- móðir mín Ransý skælbrosandi með rúllur í hárinu, slæðu að aftan en greitt að framan. „Ætlið þið ekki að koma á markaðinn. Hann byrjar klukkan sjö“? Árið er 1973, við erum í Cascai, litlu þorpi í Portúgal. Kvöldið áður hafði hún boðið okkur upp á „Lúmúmba“ meðan við sátum og horfðum á mann- lífið. Hún var vanari „Lúmúmba“ en við. Eitt er víst að við Gurrý áttum ekkert erindi á einhvern markað klukkan sjö. Ég kynntist tengdamóður minni, þessari merkilegu konu, þegar við Gurrý byrjuðum að skjóta okkur saman. Því miður kynntist ég Tómasi lítið því hann dó stuttu seinna. Tómas og Ransý ferðuðust mikið. Hún naut þessara ferða, sem dæmi: að hlusta á Mariu Callas á tónleikum í Barcelona. Þau hjónin stunduðu laxveiði í Sog- inu og Þverá. Fyrir utan aðrar veiði- ferðir. Tómas var framkvæmdastjóri Ólafs Gíslasonar hf. En vinirnir voru með svona lítið „undirverkefni“, Am- anti sem framleiddi Adrett-brilljant- ín. Þetta er á tímum Presleys og rokksins. Salan á Íslandi sló öll met. Því vildu enskir, líklega meðeigendur, heimsækja fyrirtækið. Í hvert sinn sem erlendir gestir komu til Íslands var matarveisla á Grenimel 19. Ransý stóð fyrir matseldinni af myndarskap. Það vafðist að vísu fyrir vinunum að sýna verksmiðjuna. Það voru ein- hverjar bilanir. Verksmiðjan var í kjallara undir setustofunni. Þar var stór pottur. Yfir honum stóð Lína og hrærði öllu sam- an. Við fluttumst til Kaupmannahafnar 1970 og bjuggum þar í tólf ár. Ransý kom í heimsókn á hverju ári. Minnisstætt er kvöld á De Syv smaa hjem. Þjónustan var ekki sem skyldi. Allt í einu smellir Ransý fingr- um og kallar „tjener“ sem brást skjótt við. „Saadan kalder mand ikke paa en tjener í Danmark. Saadan kal- der mand paa sin hund og jeg kan godt tale jeres sprog.“ „Mikið er það gott við viljum gjarnan panta mat- inn“. Tjeneren skildi ekkert, var viss um að við værum Svíar. Þjónustan var eins og best verður á kosið það sem eftir var kvöldsins. Lorry var kabarettstaður með alls konar uppákomum. „Sjáið þið himin- inn. Hann er allur í stjörnum,“ sagði hún og benti upp. Við höfðum aldrei séð flottari stað. Þegar skemmtiatrið- in byrjuðu fékk hún strax hlátursköst af einstaklega smitandi hlátri og áður en varði var allur salurinn farinn að taka undir. Ransý fann alltaf tilefni til að halda veislur. Ég fann þrjár eggjahvítur í frystinum, hringdi í Gideo og vini og hélt þriggja rétta veislu. Hún spilaði brids. Þegar hún settist niður með vinkonum sínum í spila- klúbbnum, þeim Nönnu, Gústu, Leifu og Steinu, breyttist svipurinn. Kappið var mikið og rifist var um hver hafði sagt fjögur hjörtu eða tvö lauf. Það var góð vinátta milli foreldra minna og Ransýjar og fóru þau oft saman í frí. Hún tengadmóðir mín elskaði lífið. „Skal det være gilde, saa lad det være gilde.“ Ransý mín, takk fyrir allt, það var heiður að fá að kynnast þér og vera samferða þér meðan þú lifðir. Guðni Pálsson. Ragnheiður Einarsdóttir ✝ RagnheiðurEinarsdóttir fæddist í Reykjavík 11. febrúar 1917. Hún lést á Hjúkr- unarheimilinu Eir 2. júní síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkj- unni í Reykjavík 16. júní. Í dag kveð ég elsku- lega móðursystur mína, Ransý. Ragnheiður Einars- dóttir var dóttir Ragn- heiðar Hall og Einars M. Jónassonar, sýslu- manns af Skarðsætt. Hún var fimmta barn foreldra sinna úr hópi sjö systkina. Elst var Erna, svo komu bræð- urnir Birgir, Sverrir og Agnar og þá Hjördís og Hulda. Öll eru þau látin nema yngsta syst- irin, Hulda, sem býr í Boston. Eru þetta erfiðar stundir fyrir Huldu frænku að vera fjarri fjölskyldunni, en hún treystir sér ekki sökum van- heilsu að fljúga til Íslands. Að morgni 2. júní sl. sat ég við sjúkrarúm móðursystur minnar, Ransýjar. Hárið silfurgrátt og fölur vanginn. Einhvern veginn upplifði ég einhverja dulúð sem lá í loftinu. Sér- kennilegt andrúmsloft, tákn um frið- helgi við dánarbeð. Ég minntist svip- aðrar upplifunar fyrir 35 árum þegar ég horfði á annan silfurgráan koll, sem var hún mamma mín. Maður stendur hljóður og hnípinn og vill ekki sleppa takinu á ástvininum sem manni þykir svo vænt um og hugur- inn leitar í „gömul kynni sem gleym- ast ei“. Hér var einstök kona að kveðja. Þessi kyrrðarstund var eins konar sáluhjálp fyrir mig. Ransý var hrífandi persónuleiki, vel máli farin og skörungur mikill. Allt sem hún gerði var af miklum rausnarbrag og smekkvísi. Forystu- kona sem á hrífandi hátt gat alla tíð tileinkað sér lífsviðhorf Pollýönnu. Hún var í senn heimsborgari og glæsikona með geislandi sjarma. Það er kyrrð og ró í hlýlegu herberginu á Eir. Fjölskyldumyndir standa á kommóðunni en aðrar hanga á veggn- um gegnt sjúkrarúminu. Myndir af Tómasi, börnum þeirra, tengdabörn- um, barnabörnum og barnabarna- börnum. Einnig myndir af ömmu og afa og systkinunum sjö. Öll þessi and- lit þekki ég og eru kunnugleg og mér finnst sem frændfólkið á myndunum kinki kolli til samþykkis. Ættmóðirin er að búast til brott- ferðar og öll vitum við að svefninn langi verður henni líkn við þraut. Frá öllum heimsins hörmum, svo hægt í friðar örmum þú hvílist hels við lín. – Nú ertu af þeim borinn hin allra síðstu sporin, sem með þér unnu og minnast þín. (Einar Benediktsson) Ég minnist frænku minnar með mikilli væntumþykju, virðingu og þakklæti. Guðrún Sverrisdóttir. Ragnheiður Einarsdóttir lést hinn 2. júní síðastliðinn. Ransý, eins og hún var ætíð kölluð, var glæsileg kona, glaðleg en þó með ákveðinn svip. Ransý og eiginmaður hennar, Tómas Pétursson, voru, ætla ég, bestu vinir foreldra minna, þeirra Margrétar Ágústsdóttur og Einars G. Guð- mundssonar. Þau eru nú öll látin. Fjölskylda mín bjó á Víðimelnum en þau Ransý og Tómas á Grenimelnum og í raun bjó stór hluti af vinahóp þeirra allra á Melunum eða nágrenni. Þessir fjórir vinir, ásamt Mogens Mogensen og Petru eiginkonu hans, höfðu Ásgarðslandið í Soginu á leigu tvo daga í hverri viku áratugum sam- an. Þannig veiddu konurnar á þriðju- dögum en karlarnir á miðvikudögum. Ég fór oft í þessa veiðitúra með þeim sem barn og ég minnist þess að þær voru duglegri við veiðarnar en karl- arnir, sem sátu löngum á bakkanum og reyndu að leysa lífsgátuna. Ásamt veiðum í Soginu fóru þau Ransý og Tómas ásamt foreldrum mínum víða annað til veiða og má þar nefna Þverá, Miðfjarðará og Norðurá. Sólarlanda- ferðir voru ekki í huga þeirra. Þegar laxveiðitímabilinu lauk tók bridge- tímabilið við og spiluðu veiðikonurnar þrjár ásamt móðursystrum mínum, þeim Nönnu og Ágústu, vikulega á þriðjudögum en karlarnir á miðviku- dögum. Svo náin var vinátta móður minnar og Ransýar að það var ekki fyrr en á unglingsárum að ég áttaði mig á því að hún var ekki ein úr stórum systrahópi móður minnar. Það eru forréttindi að hafa kynnst þeim Ransý og Tómasi. Blessuð sé minning þeirra hjóna. Ágúst Einarsson. Mig langar að minnast nokkrum orðum um vinkonu mína, Ragnheiði Einarsdóttur. Sonur minn Guðni Bergþór Pálsson kynntist konu sinni Guðríði Tómasdóttur 1969. Móðir hennar var Ragnheiður Einarsdóttir. Urðum við strax góðar vinkonur. Við bjuggum á Hagamel og Ransý, eins og hún var venjulega kölluð, bjó á Grenimel. Síðar flutti hún einnig á Hagamelinn. Svo það var stutt á milli og oft rölt í heimsókn. Við ferðuðumst mikið saman í gegnum árin bæði utanlands og inn- an. Oft fórum við saman til Kaup- mannahafnar meðan börnin okkar bjuggu þar, meðan Guðni var í námi. Svo fórum við stundum til sólarlanda þaðan. Við fórum saman í veiðiferðir bæði í Kaldbaksvík þar sem Ransý hafði veiðihús, og einnig annað á land- inu meðan maðurinn minn var enn á lífi. Við Ransý höfðum yndi af að elda góðan mat, þá var setið og borðað og talað saman um allt milli himins og jarðar. Þetta var skemmtilegur tími sem ég geymi í minningunni, og sakna. Ransý starfaði mikið fyrir Kvenfélagið Hringinn og um tíu ára skeið var hún formaður. Ekki leið á löngu þar til að ég var farin að taka þátt í því starfi og geri enn. Ransý var mjög kraftmikil og dugleg kona, það var mjög gaman að umgangast hana. Hún vissi margt, var skarpgreind og það var hægt að tala við hana um allt milli himins og jarðar. Ég sendi börnum hennar, tengda- börnum, og fjölskyldum þeirra sam- úðarkveðjur. Paula Andrea Jónsdóttir. Þetta glóandi hár, þetta mikla skap, samt svo gott, þessi tignlega framkoma og höfðinglegt fas, þetta var Ransí. Ekki gleymi ég okkar fyrstu kynnum sem í rauninni varð þegar bróðir minn Guðni B. Pálsson kvæntist Guðríði Tómasdóttur, það var svo skemmtilegt brúðkaup og Ransí átti mikinn þátt í því að gera það eftirminnilegt. Þá hófst nýtt tíma- bil hjá fjölskyldunni á Hagamelnum. Ragnheiður Einarsdóttir varð fjöl- skylduvinur, það fór svo vel á með henni mömmu og þau tengsl sem mynduðust urðu aldrei rofin. En Ransí var ekki bara vinkona móður minnar heldur vinur okkar allra og fylgdist vel með okkur unglingunum vaxa úr grasi. Umræðurnar, þetta ákveðna skap með fastar skoðanir, voru svo skemmtilegrar, Ransí stælti mig í þeirri list, hún gaf sig aldrei, en aldrei var það tekið persónulega hvorki af minni hendi, né hennar. Þetta met ég mikils nú í dag. Á þeim tíma vorum við ekki sammála um póli- tík og samfélagsmál, en það var skemmtilega tekist á, og rökfestan var svo sterk og skír að venjulega hopaði unglingurinn sem þóttist vita betur. Síðar meir gátum við rætt mál- in af skilningi þegar sá ungi þrosk- aðist. Mikil gjöf var það að eiga í þeim samræðum við konu eins og Ransí. Glæsileikinn, fasið og skapið hafði ávallt þau áhrif að hún uppskar virð- ingu, hér var á ferð kona sem vissi sínu viti. Málefni samfélagsins skiptu hana máli og ef hún hefði farið út í pólitík þá hefði það orðið okkur Ís- lendingum eftirminnilegt, en hún kaus líknarmálin og þar varð hún mikill skörungur. Kvenfélagið Hring- urinn varð hennar vettvangur, for- maður í mörg ár. Við þau nýju kynni við móður mína leið ekki á löngu áður en hún bauð henni, sinni góðu vin- konu, að fylkjast í liðið; það hefur ver- ið móður minni lífselexír síðan. Að eiga þau forréttindi að fá að kynnast og umgangast persónu eins og Ragn- heiði Einarsdóttur mun ég ávallt þakka, og svo lánsamur var ég að eignast konu sem er einmitt fædd á sama degi og hún, 11. febrúar, og merkilegt nokk þá eiga þær ýmislegt sameiginlegt. Það er mikill söknuður í mínu hjarta og hefur verið lengi, að missa samskipti við konu sem gaf svo mikið og ekki síst sýndi svo mikla hjartahlýju með sínu einstaka fasi og virðuleika. Útlitið og klæðnaðurinn var ávallt fyrsta klassa, heimilið ein- stakt og listrænt, maturinn til fyrir- myndar og veislurnar frábærar. Það er eftirsjá af slíkri manneskju. Hún lifir nú í friði hjá sínum heitt elskaða Tómasi, sem manni fannst að hafi ávallt verið með henni. Megi Guð geyma þig, elsku Ransí. Ég, Jóhanna og börn vottum aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur, Guð blessi ykkur. Þór Elís Pálsson. Ragnheiður Einarsdóttir (Ransý) er farin á vit feðranna. Þó að ég og við fyrrverandi sam- starfskonur mínar og menn höfum vitað hvert stefndi gegnum samband okkar við Gurrý dóttur hennar og fyrrverandi starfskonu SAS á Íslandi þá var það samt eins og lífsklukkan stöðvast eitt andartak þegar Gurrý hringdi og tilkynnti lát móður sinnar, stólpakonunnar Ransý og minning- arnar helltust yfir og um leið þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þess- ari frábæru konu á lífsleiðinni. Það er alveg ljóst að þessi kona snart okkur öll djúpt með ástúð sinni og umhyggju fyrir okkur samstarfs- fólki Gurrýar. Að kynnast Ransý var eins og að vera tekin í hirð drottningar. Fyrir það fyrsta var þetta einhver sú glæsi- legasta kona sem ég hef séð og sópaði af henni hvar sem hún fór. Ég veit varla hvernig sá siður hófst en hann varð árleg tilhlökkun okkar starfsfólksins og eini dagurinn á árinu sem SAS skrifstofan hreinlega lokaði lengi í hádegi og frameftir degi vegna Þorláksmessuskötu á heimili Ransý- ar fyrir okkur starfsfélaga Gurrýar. Þessi boð voru ólýsanlega flott á allan hátt. Þó að snædd væri hin víð- fræga „skata“ og annar fiskur með þá var borið á borð eins og um konung- lega veislu væri að ræða og húsráð- andi lék á alls oddi og skemmti okkur hinum og sá auðvitað um alla mat- seldina og undirbúninginn líka. Ég „norðanstelpan“ kunni ekkert á skötusiði en þessi boð eru þau allra flottustu, fróðlegustu og hátíðlegustu boð sem mér hefur verið boðið í á lífs- leiðinni. Húsfreyja beið okkar bros- andi og sá um að innsigla jólaskap okkar allra um leið og hún sagði okk- ur frá og kenndi okkur margt og mik- ið. Ég borða enn þá skötu á Þorláks- messu ef svo ber undir en eiginlega er það tregablandin athöfn eftir skötus- iði frú Ragnheiðar, sem nú bara lifa í minningunni um aldur og ævi. Elsku Gurrý og Guðni og allir aðstandendur Ransýjar. Kveðjustund er alltaf erfið þegar kallið kemur, en þið yljið ykkur við dásamlegar minningar elsku Ransýar um ókomin ár. Með þessum fátæklegu kveðjuorð- um vil ég skila innilegri kveðju og þökk frá okkur öllum fyrrverandi samstarfsfélögum Gurrýjar sem minnast mikilfenglegrar konu sem snart okkur öll djúpt með tilvist sinni. Bryndís Torfadóttir. Elskulegur afi minn, það er komið að kveðjustund. Ég veit hvað þú varst búinn að sakna ömmu mikið og ég skynjaði uppá síðkastið að þér fannst tíma- bært að fara að fá að hitta hana á ný. Samband ykkar ömmu var til fyrir- myndar, fallegt og innilegt sem aldr- ei bar nokkurn skugga á. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að eiga heimili hjá ykkur í Víðigrundinni, á mínum unglingsárum og fyrir það vil ég þakka. Ótal minningar um góðan afa streyma nú fram, allar sundferð- irnar í Sundhöllina á laugardögum voru fastur liður hjá okkur. Einnig fjölmargar minningar tengdar mikl- Jósef Halldórsson ✝ Jósef Hall-dórsson fæddist í Garðakoti í Hjalta- dal 12. október 1917. Hann lést 28. apríl sl. á hjúkrunarheim- ilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. Jósef var jarð- sunginn frá Kópa- vogskirkju 6. maí sl. um harmónikkuáhuga þínum, þar sem þú ert að spila heima á „nikk- una“ eins og þú kall- aðir hljóðfærið, sem og öllum harmónikku- fundunum sem voru haldnir reglulega og við sóttum. Þú varst maður at- hafna og orku, það varð þér mikið áfall er þú skyndilega veiktist alvarlega, en með þinni þrautseigju og styrk barstu þig ótrú- lega vel allt fram til hins síðasta, þér þótti þó alltaf sárt að geta ekki leng- ur spilað á hljóðfærið þitt. Þrátt fyrir líkamlega fötlun var minni þitt alltaf óhemju gott og ávallt gaman að heimsækja þig í Sunnuhlíð og heyra frásagnir þínar frá liðnum árum eins og gerst hefði í gær. Mér er það minnisstætt að lokum, er við skruppum saman einn fallegan dag nú í mars sl. og áttum góða stund við leiðið hennar ömmu. Elsku afi, takk fyrir samfylgdina. Lars. Mig langar að minn- ast Ásu með nokkrum orðum. Þegar ég var 16 ára og komið að því að fara í framhaldsskóla vildi ég yf- irgefa sveitina og fara til Reykjavík- ur. Þá vandaðist nú málið þar sem vantaði dvalarstað meðan á skólavist- inni stæði. Pabbi hringdi í Ásu til að athuga hvort hún hefði eitthvert pláss. Já það var nú minnsta málið, hún bauð mér að búa hjá sér, bauð mig velkomna á sitt heimili og var mín stoð og stytta fyrstu árin sem ég bjó í burtu frá foreldrum mínum. Ása Ester Skaftadóttir ✝ Ása EsterSkaftadóttir fæddist í Dægru í Innri-Akranes- hreppi hinn 6. októ- ber 1934. Hún lést á Landspítalanum 28. maí síðastliðinn. Ása var jarð- sungin frá Há- teigskirju 4. júní sl. Ása var stolt af fjöl- skyldunni sinni og ég var svo heppin að kynn- ast börnum hennar, tengdabörnum og barnabörnum sem veittu henni gleði með uppátækjum sínum. Við pabbi heimsótt- um Ásu síðast fyrir tveimur árum og við fengum höfðinglegar móttökur hjá henni. Það var alltaf gott að koma til hennar, þó hún gerði sem minnst úr því sjálf. Hún var eins og venjulega með húmorinn í lagi og við áttum saman notalega og skemmtilega stund. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Ásu svona vel og tel mig ríkari fyrir vikið. Elsku Sigrún, Valli, Siggi, Bjarni, Júlli og fjölskyldur, ég og foreldrar mínir sendum ykkur innilegar sam- úðarkveðjur, minningin um góða og hlýja konu lifir í hjörtum okkar. Kristín Lilja Lárusdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.