Morgunblaðið - 20.08.2008, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 20.08.2008, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. ÁGÚST 2008 23 opna mér leið, líkt og öðru samferða- fólki. Allt var gert með prúð- mennsku og af stillingu. Ég eignað- ist traustan vin. Örn var heiðursmaður, enda trúað fyrir ýmsu á lífsleiðinni. Hann naut margs konar heiðurs bæði í starfi og með Lions-hreyfingunni, en kannski er æðsti heiður hvers Hafnfirðings að mega kallast Gaflari. Örn var sannarlega Gaflari, fæddur og uppal- inn í Hafnarfirði, gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar, síðar Lækjarskóla og starfaði þar til dánardags. Hann var í raun orðinn eitt af auð- kennum skólans. Það mátti glöggt sjá á viðbrögðum nemenda, núver- andi og fyrrverandi þegar þeir fréttu af alvarlegum veikindum hans. Framkoma þeirra og kærleikur í garð síns góða kennara er öllum til eftirbreytni. Utan fjölskyldu er ugglaust fátt mikilvægara hverju barni og æsku- fólki en að eiga og njóta góðs kenn- ara á sinni skólagöngu. Örn var sannarlega góður kennari. Kennari, sem ekki einungis var uppfræðari, heldur ekki síður umhyggjusamur um líðan og velferð hvers og eins. Hann kenndi nemendum sínum virð- ingu fyrir landi og þjóð og kom það vel fram í öllum þeim ferðum sem hann tók þátt í og farnar voru á veg- um skólans. Örn var náttúrubarn í dýpsta skilningi þess orðs, enda lögðust þau hjónin nánast út á vorin og ferðuðust mikið um sitt kæra land. Örn naut þess að Jóhanna Valde- marsdóttir, eiginkona hans, hefur einnig starfað við skólann um ára- tugaskeið. Þau hjónin voru því sam- hent, bæði í leik og starfi. Þrátt fyrir miklar raunir undanfarna mánuði hafa þau og fjölskylda þeirra sýnt okkur samferðafólkinu að hægt er að glæða alla hluti friðsemd og fegurð. Hin harða barátta var háð, líkt og öll þeirra verk, af æðruleysi og reisn. Á kveðjustund senda stjórnendur, samstarfsmenn, nemendur og vel- unnarar Lækjarskóla, Jóhönnu, öðr- um aðstandendum og vinum dýpstu samúðarkveðjur. Í fagurri dagrenningu íslensks sumardags reis „Örninn“ af beði sín- um og hóf sitt tígulega flug til nýrra verka við næsta næturstað. Genginn er einn af kærum sonum Hafnarfjarðar. Blessuð sé minning Arnar Gunn- arssonar. Haraldur Haraldsson, skólastjóri Lækjarskóla. Í dag kveðjum við Örn Gunnars- son, einstakt prúðmenni og traustan vin. Ég átti því láni að fagna að kynn- ast Erni og starfa með honum í Lionshreyfingunni. Örn var umdæmisstjóri í A-um- dæmi Lions árið 2000-2001. Ég starfaði í umdæmistjórn hans og kynntist kostum þessa farsæla for- ystumanns. Hann var hæglátur og traustur og kom vel fram við alla. Hann var góður félagi, studdi og hrósaði. Hans jákvæðu viðhorf sköp- uðu góðan liðsanda og öflugt sam- starf. Árið 2001-2002 var hann fjölum- dæmisstjóri og þá var ég aftur í lið- inu hans. Í nokkur skipti sóttum við erlend Lionsþing. Örn var glæsileg- ur fulltrúi Lions á Íslandi og hann naut virðingar af orðum sínum og verkum. Það var grunnt á gaman- seminni hjá Erni og hafði hann skemmtilega kímnigáfu, sem kom oft á óvart. Það var þó hógværð og virð- ing í samskiptum við samferðamenn, sem einkenndi hann öðru fremur. Örn var ósérhlífinn, samviskusam- ur og nákvæmur. Þessir eiginleikar hans nýttust vel í forystu Lions- hreyfingarinnar. Eftir að hafa gegnt æðstu embættum Lionshreyfingar- innar gerðist hann ritari fjölum- dæmisráðs og gegndi því embætti með miklum sóma til dauðadags. Hann var einnig ritstjóri vefsíðu Lions. Þar vann hann ákveðið braut- ryðjendastarf og verður erfitt að fara í fötin hans Arnar á því sviði. Hann var óþreytandi að leiðbeina öðrum og fékk hann mikið lof og þakkir fyrir greiðviknina. Hann ætl- aðist ekki til að sér væri þakkað og krafðist einskis af öðrum. Allt var al- veg sjálfsagt og velkomið. Hann lagði á sig mikla vinnu og taldi það aldrei eftir, vann verk sín í hljóði af vandvirkni og alúð. Hann var ein- staklega liðlegur og snöggur til, „geymdi aldrei til morguns sem hægt var að gera í dag“. Hann var gjöfull á tíma sinn og sýndi svo sann- arlega gott fordæmi. Örn hvatti mig oft til að gefa kost á mér til embættis umdæmisstjóra. Þegar ég svo ákvað að slá til minnti hann mig á að hann hefði sett mig í það embætti sem gerði mig hæfa til að bjóða mig fram; „hann ætti því þó- nokkuð í mér“. Það er svo sannar- lega rétt, Örn á töluvert í mér, hann hefur kennt mér svo margt og verið góð fyrirmynd, það er ég svo sann- arlega þakklát fyrir. Örn var alltaf bjartsýnn og skap- góður, heilbrigður og hraustur. Hann var aldrei þreyttur eða illa upplagður. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti, þegar það spurðist að Örn væri alvarlega veik- ur. Þetta gat ekki verið satt, hann átti svo margt eftir að gera og hlakk- aði til alls þess. En örlögin eru ekki alltaf sanngjörn eða réttlát. Maður í blóma lífsins er frá okkur tekinn. Örn var svo lánsamur að eignast góðan lífsförunaut, hana Jóhönnu. Þau voru samhent hjón og áttu mörg sameiginleg áhugamál. Lionsstarfið var þeim báðum mikils virði. Að leggja lið þeim sem minna mega sín var þeim báðum lífsmottó. Þau studdu hvort annað í Lionsstarfinu og hefur Jóhanna einnig verið í ábyrgðarmiklum störfum í forystu hreyfingarinnar. Við vottum Jóhönnu og fjölskyld- unni okkar dýpstu samúð. Fyrir hönd Lionsfélaga í A-um- dæmi þakka ég hans mikla og óeig- ingjarna starf. Guðrún Björt Yngvadóttir, umdæmisstjóri 109A. Í dag þegar við kveðjum Örn Gunnarsson, einn af máttarstólpum Lionshreyfingarinnar á Íslandi, þá er stórt skarð höggvið í okkar raðir. Örn gekk í Lionshreyfinguna árið 1983. Hann kom fyrst inn í fjölum- dæmisráð árið 1996 og þá sem ritari og hefur starfað í fjölumdæmisráði nær óslitið síðan og gegndi hann mörgum embættum innan þess. Hann varð fjölumdæmisstjóri árið 2001–2002, netstjóri frá árinu 2002 og fjölumdæmisritari frá árinu 2003. Að baki Arnar stóð eiginkona hans Jóhanna Valdimarsdóttir sem ávallt fylgdi eiginmanni sínum og studdi dyggilega í öllu sem hann tók sér fyr- ir hendur og var unun að horfa á samheldni þeirra hjóna. Ekki óraði mig fyrir því í febrúar síðastliðnum Þegar Örn heimsótti mig ásamt fleiri félögum og tjáði mér að hann myndi verða fjölumdæmis- ritari minn næsta starfsár, þó svo að hann væri orðin lúinn á að sinna því embætti, enda gegnt því síðastliðin 5 ár. En svona var Örn, traust og hjálpsemi voru ríkjandi eiginleikar hans. Nú er lífshlaupi Arnar lokið svo langt um aldur fram eftir stutt en erfið veikindi, og verður vandfund- inn sá aðili sem fyllir það tómarúm sem Örn skilur eftir sig. Fyrir hönd Lionshreyfingarinnar vil ég þakka Erni fyrir ánægjulegt og gott samstarf. Einnig skulu færð- ar þakkir fyrir öll þau störf sem hann gegndi fyrir hreyfinguna. Eiginkonu hans, foreldrum, börn- um, tengdabörnum, barnabörnum, vinum og vandamönnum færum við okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum almættið um styrk þeim til handa í þeirra miklu sorg. Fh. Lionshreyfingarinnar á Ís- landi. Daniel G. Björnsson, fjölumdæmisstjóri 2008–2009. En vissa kom í vonarstað. Hér var þá dauði í fyrirsát. (Stefán frá Hvítadal) Við, félagar í Starfsmannafélagi Lækjarskóla, stöndum hnípin vegna fráfalls Arnar Gunnarssonar, en jafnframt þakklát fyrir að hafa kynnst honum og fengið að eiga hann að samstarfsmanni, félaga og vini. Örn vann mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins um margra ára skeið. Hvert göfugt hjarta á sér helgidóm, þar anga skínandi eilífðarblóm. (Stefán frá Hvítadal) Um leið og við þökkum Erni sam- fylgdina og kveðjum hann með þakk- læti og virðingu sendum við Jóhönnu og fjölskyldu innilegar samúðar- kveðjur. F.h. stjórnar Starfsmannafélags Lækjarskóla Steinunn Þ. Árnadóttir. Hann Örn vinur okkar er dáinn eftir fjögurra mánaða erfið veikindi. Margs er að minnast eftir um þrjátíu ára vináttu. Við minnumst leikhúsferðanna með þér og konu þinni Jóhönnu, eða Hönnu eins og við þekkjum hana, og matarboðanna á eftir. Einnig ferðuðumst við mikið innanlands, fyrst með tjöld, síðan tjaldvagna, þá fellihýsi og síðast hjól- hýsi. Þegar þú varst að skipta um græjur þá var allt útspekúlerað, þú búinn að skoða og lesa allt um kosti og galla hvers um sig og í framhaldi af því var ákvörðun tekin. Þú áttir alltaf bestu tækin og varst með það á hreinu. Ferðalög ykkar hófust jafnan snemma á vorin og þegar skólinn var búinn, þá hurfuð þið og komuð varla heim fyrr en skólinn byrjaði á ný og höfum við gantast með það að miðað við gistinætur þá verði hjólhýsið fljótt að borga sig. Á ferðalögum okkar um landið hefur matur og und- irbúningur hans skipað stóran sess, enda við öll miklir matgæðingar. Sest var að uppdúkuðu borði eins og á fínasta veitingahúsi og rauðvín drukkið með steikinni, þótti sumum sem sáu til okkar nóg um pjattið og fíneríið. En pjattið og fíneríið tók fljótt af þegar við tókum þá skyndi- ákvörðun að fara með fellihýsin yfir Kjöl. Vegurinn var ekki upp á sitt besta og þegar við komum í náttstað þá voru vagnarnir fullir af ryki og drullu, allt brotið sem brotnað gat og við vorum fram á nótt að þrífa. Seinni árin myndaðist ferðahópur sem samanstóð af okkur og Lions- félögum þínum og hlaut hópurinn nafnið Kúlusúkk. Hópurinn fer í eina stóra útilegu á sumri og í þeim er reynt að fara í einhverja ferð inn á hálendið. Við minnumst ferða sem við fórum í Herðubreiðarlindir og Öskju, í Flateyjardal og ferðar upp að Laugafelli upp úr Skagafirði og þaðan niður í Eyjafjörð. Við ferðuðumst líka utanlands og þá er helst að minnast þess þegar við fórum til Parísar. Þið voruð að fara þangað í fimmta sinn en við í okkar fyrsta. Þið lóðsuðuð okkur um borg- ina og sýnduð okkur uppáhalds- staðina ykkar. Síðasta ferðin sem við fórum saman í var í haust, afmæl- isferðin hennar Hönnu til Rómar. Núna getum við yljað okkur við minningarnar úr þeirri ferð þar sem við löbbuðum um borgina þvera og endilanga, sátum á útiveitingahúsum og gæddum okkur á mat og drykk, nutum veðurblíðunnar og þess sem fyrir augu bar. Ekki er hægt að minnast Arnar án þess að geta starfa hans með Lions- hreyfingunni, en þar gegndi hann æðstu embættum. Þá grínuðumst við oft við hann og kölluðum hann „Lion king“ og tók hann því bara vel og hafði gaman af. Elsku Hanna, þetta hafa verið erf- iðar vikur, en þú hefur staðið þig eins og hetja ásamt börnum ykkar Núma og Helgu Björgu, tengdabörnunum Þóru og Andrési og barnabarninu Alexander Erni. Þið hafið gert allt sem í ykkar valdi stóð til að gera Erni lífið bærilegra þessar síðustu vikur og gert honum kleift að vera heima eins og hann óskaði. Við sendum ykkur öllum, sem og foreldrum Arnar, þeim Diddu og Gunnari, okkar innilegustu samúð- arkveðjur. Solveig, Svavar og Jón Axel. Við höfum þekkt Örn, sem hér er kvaddur, frá því hann kom í heiminn. Hann er sonur æskuvinkonu minnar, Guðbjargar eða Diddu, en við höfum haldið góðu sambandi frá því við vor- um 10 ára gamlar. Við giftumst báð- ar ungar og svo vel vildi til að eig- inmönnum okkar varð vel til vina. Við eignuðumst báðar fyrsta barnið okkar á sama árinu, hún dreng og ég stúlku. Þetta var árið 1950 og hefur líf okkar verið samtvinnað allar göt- ur síðan. Didda og Gunnar, eigin- maður hennar, bjuggu í sama húsi og foreldrar hans og þar ólst Örn upp við mikið ástríki. Í þessu húsi á Reykjavíkurvegi 5 í Hafnarfirði bjuggu þrjár kynslóðir saman í sátt og samlyndi auk þess sem Diddi bróðir Gunnars bjó þar einnig lengst af en hann var mikill ljúflingur. Vart verður á betri uppvaxtarskilyrði kos- ið en þarna voru. Örn var eldri sonur þeirra hjóna en þau áttu einnig Pétur Svein sem var fjórum árum yngri. Hann lést langt um aldur fram, aðeins 14 ára gamall og var öllum sem til hans þekktu mikill harmdauði. Þeir Örn voru samrýndir bræður og mjög ná- tengdir. Það gefur auga leið að það hefur verið mikið áfall fyrir Örn að missa bróður sinn á þessum tíma. Þeir bræður voru um sumt líkir en að sumu leyti ólíkir. Báðir afar vel af guði gerðir, dökkir á brún og brá og myndarlegir. Pétur Sveinn var glað- sinna og léttur í lund en Örn var öllu alvarlegri en hafði engu að síður góða kímnigáfu. Örn var góður námsmaður og hafði á sínum tíma haft hug á að leggja fyrir sig raungreinar en úr varð að hann fór í Kennaraskólann sem þá var. Þar kynntist hann verð- andi eiginkonu sinni, Jóhönnu Valde- marsdóttur. Hafa þau átt farsælt hjónaband í yfir þrjá áratugi og eign- ast tvö mannvænleg börn. Örn var mjög dagfarsprúður og geðfelldur maður. Hann var að jafnaði yfirveg- aður í framkomu en lumaði á góðu skopskyni sem kom fram í hnyttnum athugasemdum á viðeigandi stund- um. Vafalítið hafa þessir mannkostir nýst honum vel í kennslustarfinu. Hann var einnig gæddur góðum list- rænum hæfileikum, átti meðal ann- ars auðvelt með að teikna og mála. Þau hjón höfðu bæði unun af ferða- lögum og ferðuðust mikið bæði innan lands og utan. Hann var því fróður um landið sitt og næmur á náttúr- una. Við áttum margvísleg ánægjuleg samskipti við Örn og fjölskyldu hans, ekki síst þegar þeir bræður voru enn í foreldrahúsum en einnig á umliðn- um árum. Við og foreldrar Arnar reistum á sínum tíma saman sum- arhús við Þingvallavatn þar sem ætíð ríkti samhugur og eindrægni. Einnig ferðuðumst við saman vítt og breitt um landið og voru samskiptin við Örn og hans fjölskyldu ávallt eins og best verður á kosið í þessum ferðum okkar. Eftir að hann varð fullorðinn hittum við hann reglulega í fjöl- skylduboðum og voru það alltaf fagnaðarfundir. Okkur þykir afar sárt að kveðja Örn svo ungan, aðeins 58 ára gamlan. Hugur okkar, og fjöl- skyldu okkar allrar, er hjá eiginkonu hans, foreldrum, börnunum og fjöl- skyldum þeirra. Veri hann kært kvaddur og hafi hjartans þökk fyrir allt og allt. Ólöf og Guðmundur. Margir einstaklingar hafa þann hæfileika að gefa af sér á óeigin- gjarnan hátt og það er gott að vera í návist þeirra. Þannig var Örn Gunn- arsson sem við kveðjum nú löngu fyrir tímann vegna óvæntra og al- varlegra veikinda. Þó að söknuður- inn sé sár erum við jafnframt full þakklætis fyrir allar þær ánægju- legu samverustundir sem við áttum saman. Flest okkar kynntust Erni og Jóhönnu í félagsstarfi Lions- hreyfingarinnar. Örn var einn þeirra sem tóku fúslega að sér leiðtogastörf innan Lions og hefur verið í forystu- hópi hreyfingarinnar í mörg ár. Samskipti þeirra sem á hverjum tíma taka að sér leiðtogastörf innan félagshreyfingar eins og Lions leiða oft til vináttu sem nær langt út fyrir sjálft starfið innan hreyfingarinnar. Þar skipta önnur áhugamál oftast máli. Örn og Jóhanna nutu þess að ferðast um Ísland og það á við aðra í okkar hópi sem margir þekkja sem Kúlusúkk hópinn. Örn og Jóhanna ásamt Sollu og Svavari höfðu oft ferðast saman um landið okkar. Sumarið 2002 slógumst við hin í hóp- inn og tókum upp nafnið Kúlusúkk því allir áttu bíl með dráttarkúlu og eitthvað til að tengja á kúluna. Á hverju sumri síðan þá hefur þessi hópur farið víða um land og gefið sér góðan tíma á hverjum stað til að skoða náttúru og mannlíf í bæjum og sveitum landsins. Þessar ferðir styrktu vináttubönd hópsins eftir því sem árin liðu. Ógleymanleg er ferð þar sem dval- ist var í Systragili við Vaglaskóg og farin dagsferð í Fjörður. Í sömu ferð var dvalið við Mývatn og farin dags- ferð þaðan að Öskju og Herðubreiðarlindum. Komið var eft- ir miðnætti að Mývatni á ný en þá var slegið upp grillveislu áður en gengið var til náða því ekki mátti sleppa því að borða einn af hinum margrómuðu kvöldverðum hópsins þótt seint væri. Margt gott er hægt að segja um Örn vin okkar og eitt af því er að hann hafði manna mest gaman af því að borða góðan mat í góðra vina hópi. Í annarri minnisstæðri ferð dvaldist hópurinn á Bakkaflöt í Skagafirði. Þá var farin dagsferð þaðan inn að Merkigili og síðan áfram inn á há- lendið að Laugafelli og þaðan niður í Eyjafjarðardal. Það var haft á orði í Kúlusúkk hópnum að Örn þekkti öll bakarí á landinu og vissi hvaða brauð væri best á hverjum stað. Eitt er víst að Örn og Jóhanna notuðu í mörg ár hina björtu sumardaga til að ferðast um land sitt og slógu flestum öðrum við í þeim efnum. Nú hefur Örn hafið ferðalagið hin- um megin við móðuna miklu og við erum viss um að þar bíða hans bjart- ir sumardagar. Við sendum vinkonu okkar Jó- hönnu, Helgu Björgu og Andrési, Núma og Þóru og barnabarninu Al- exander svo og foreldrum Arnar þeim Gunnari og Guðbjörgu Helgu okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan guð að styrkja þau í sorg þeirra. Þór og Aníta, Hrund og Guðmundur, Halldór og Jenný, Solveig og Svavar. Mér líður hálfundarlega þegar ég sit hér og skrifa nokkur kveðjuorð til okkar ágæta vinar og félaga, Arnar Gunnarssonar, sem hefur verið kall- aður burt allt of snemma. Ég kynntist Erni á vettvangi Lionshreyfingarinnar, en hann var öflugur félagi í hreyfingunni, og fé- lagi í Lionsklúbbnum Ásbirni í Hafn- arfirði. Við Rannveig áttum eftir að kynn- ast þeim heiðurshjónum Erni og Jó- hönnu enn betur þegar Örn varð fjöl- umdæmisstjóri og ég umdæmisstjóri og við störfuðum mjög náið saman, gaman var að ferðast með þeim bæði utanlands og innan á vegum hreyf- ingarinnar. Við fórum með þeim hjónum til Indianapolis í Bandaríkj- unum á Alþjóðaþing Lionsfélaga og töluðum við oft um það þegar við hittumst hvað þessi ferð hefði verið SJÁ SÍÐU 24                         

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.