Morgunblaðið - 07.10.2008, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 07.10.2008, Blaðsíða 6
6 ÞRIÐJUDAGUR 7. OKTÓBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ „ÍSLAND gæti orðið fyrsta ríkið, sem verður fjármálakreppunni að bráð. En Ólafur Ragnar Grímsson forseti er afslappaður. Hann bindur vonir við aflabrögð og sauðfjárrækt. Von Íslands á tímum fjármálakreppu liggur í sauðkindinni.“ Þannig hefst fjögurra dálka frétt undir fyrirsögn- inni Frá féhirði til fjárhirðis á forsíðu Financial Times Deutschland, hinni þýsku útgáfu sam- nefnds dagblaðs, í gær. Frétt blaðamannsins, Arne Delfs, hefst á lýs- ingu á Bessastöðum og er tekið fram að þangað megi komast án þess að öryggisverðir hefti för. „„Við erum enn með opið þjóðfélag, sem byggir á gagnkvæmu trausti,“ segir Ólafur Ragnar. Bænd- ur og sjómenn koma til hans úr öllum lands- hornum til að sækja sér ráð – og upp á síðkastið hefur einnig fjölgað fólki, sem hefur áhyggjur af sparifé sínu og hlutafjáreign. Ástæðan er sú að grundvallarstoðir litla eyríkisins, sem óskaddað hefur staðið af sér marga jarðskjálfta, nötra í al- þjóðlegu fjármálakreppunni.“ Í greininni segir að öldum saman hafi Íslend- ingar lifað nánast eingöngu á fiskveiðum og sauð- fjárbúskap. Fyrir nokkrum árum hafi hins vegar ungir bankamenn fengið þá flugu í höfuðið að láta að sér kveða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og rutt sér þar til rúms. Nú gæti hins vegar farið svo að fyrsta ríkið verði fórnarlamb fjármálakrepp- unnar. Síðan bætir höfundur greinarinnar við: „Á þessum órólegu tímum er forsetinn eins og klett- ur í brimgarðinum. Þetta snúist um „stóran skjálfta í fjármálakerfinu“, segir Ólafur Ragnar. En efnahagur landsins hvíli á „traustum grunni“, segir hann til að róa undirsáta sína. Ísland búi með eldfjöllum sínum og hverum yfir óþrjótandi og hreinum orkuforða og auk þess séu enn stórir fiskstofnar í hafinu. Um stöðu bankanna segir hann af hyggjuviti ekki neitt. Í lok október kemur forsetinn í opinbera heimsókn til Þýskalands. Kannski verður hann með nokkur góð ráð í far- angrinum. Þegar öllu er á botninn hvolft mætti setja nokkrar kindur á beit fyrir utan kanslara- skrifstofurnar.“ Vonin er í kindinni Rætt við forsetann í Financial Times Deutschland Grunnurinn Forsetinn segir Íslendinga hafa áhyggjur af sparifé sínu og hlutafjáreign. Ástæðan sé að grundvallarstoðirnar nötri „í al- þjóðlegu fjármálakreppunni“. Morgunblaðið/G.Rúnar Hremmingar Áföll á fjármálamark- aði hafa áhrif á lífeyrissparnað. Verulegt áfall lífeyr- issjóða „ÞAÐ er gríðarlega mikið í húfi. Næstu dagar og vikur eiga eftir að leiða í ljós hvað þetta hefur mikil áhrif á starfsemi fyrirtækja, sér- staklega fjármálafyrirtækja og svo verða örugglega ruðningsáhrif af þessu,“ segir Arnar Sigurmundsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða. „Það er útilokað fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því núna hvað þetta hefur mikil áhrif á heild- areignir lífeyrissjóðanna. Það er ljóst að þetta verður verulegt áfall en við vitum ekki á þessari stundu hvað þetta þýðir mikla rýrnun á eignum sjóðanna en það er ljóst að svo verður í umtalsverðum mæli,“ segir hann. Stjórn Landssamtak- anna fer yfir stöðuna í dag. Bar brátt að Hugmyndir um að lífeyrissjóð- irnir flytji hluta af eignum sínum til Íslands hafa nú verið settar til hliðar og hefur ekkert verið ákveðið um framhaldið en lífeyrissjóðirnir höfðu gert sérstaka aðgerðaáætlun að ósk ríkisstjórnarinnar. ,,Við vitum ekki hvort það kemur aftur upp einhvern tíma á síðari stigum. Við töldum skynsamlegt að reyna að leggja okk- ar af mörkum á meðan talið var að vandinn væri viðráðanlegur,“ sagði Arnar. Breytingarnar hafi borið brátt að í gær þegar í ljós kom að vandamálin í fjármálakerfinu voru mun meiri en stjórnvöld og fjár- málastofnanir höfðu gert sér grein fyrir. omfr@mbl.is Áformum frestað um flutning eigna heim BAUGUR hefur afhent breska við- skiptatryggingafyrirtækinu Euler Hermes upplýsingar um fyrirtæki Baugs sem tryggingafélagið óskaði eftir að fá, að sögn Gunnars Sig- urðssonar, forstjóra Baugs. Upplýs- ingarnar tengjast helst rekstri fé- laganna. Félagið tilkynnti Baugi í síðustu viku að það myndi ekki veita nokkr- um af birgjum breskra fyrirtækja Baugs viðskiptatryggingu. Gunnar segist ekki hafa verið sáttur við ákvörðun Euler og telji hana ekki hafa verið á réttum for- sendum byggða, en hún hafi byggst á fregnum af stöðu mála á Íslandi. Hann eigi fyllilega von á að samn- ingarnir við birgjana sem sagt var upp verði endurnýjaðir. Stjórn- endur fyrirtækjanna stýri þeim nú miðað við það ástand sem ríkir eftir að Euler sagði samningunum upp, en ýmsir möguleikar séu í stöðunni. Viðræður Baugs við Euler nú miði að framtíðarviðskiptum við fé- lagið. Baugur vilji eiga góð sam- skipti við Euler, sem er eitt þriggja megin-viðskiptatryggingafélaga sem veita birgjum breskra fyrir- tækja Baugs viðskiptatryggingu. Hin félögin hafi ekki talið nauðsyn að aflétta tryggingum á birgjana vegna stöðunnar á Íslandi. Baugur af- hendir gögn „ÍSLENSKA þjóðin og framtíð hennar gengur framar öllum öðrum hagsmunum,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra þegar hann flutti ávarp til þjóðarinnar í útvarpi og sjónvarpi síðdegis í gær. Geir sagði að heimsbyggðin öll gengi nú í gegnum mikla fjármála- kreppu og jafna mætti áhrifum hennar á bankakerfi heimsins við efnahagslegar hamfarir. Stórir og stöndugir bankar beggja vegna Atl- antshafsins hefðu orðið kreppunni að bráð og ríkisstjórnir í mörgum lönd- um reru nú lífróður til að bjarga því sem bjargað yrði. Í aðstæðum sem þessum hugsaði hver þjóð fyrst og síðast um eigin hag. Jafnvel stærstu hagkerfi heims ættu í tvísýnni bar- áttu við afleiðingar kreppunnar. „Íslensku bankarnir hafa ekki frekar en aðrir alþjóðlegir bankar farið varhluta af þessari miklu bankakreppu og staða þeirra nú er mjög alvarleg. Á undanförnum árum hafa vöxtur og velgengni íslensku bankanna verið ævintýri líkust. Mik- il sóknarfæri sköpuðust þegar að- gengi að lánsfé á erlendum mörkuð- um var í hámarki og bankarnir, ásamt öðrum íslenskum fyrirtækj- um, nýttu sér tækifærið til sóknar og útrásar. Á þessum tíma hafa ís- lensku bankarnir stækkað gríðar- lega og nema skuldbindingar þeirra nú margfaldri þjóðarframleiðslu Ís- lands. Undir öllum eðlilegum kring- umstæðum væru stórir bankar lík- legri til að standa af sér tímabundinn mótbyr en þær hamfarir sem nú ríða yfir heimsbyggðina eru annars eðlis og stærð bankanna í samanburði við íslenska hagkerfið er í dag þeirra helsti veikleiki,“ sagði Geir. Lausafé hefur þurrkast upp Geir sagði að undanfarið hefðu stórir alþjóðlegir bankar kippt að sér höndum við fjármögnun annarra banka og algjört vantraust hefði skapast. Af þessum völdum hefði staða íslensku bankanna versnað mjög hratt á allra síðustu dögum. Ríkisstjórn Íslands, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu síðustu daga og vikur unnið baki brotnu að lausn á þeim gríðarlegu erfiðleikum sem steðja að íslensku bönkunum í góðu samstarfi við þá sjálfa. Efna- hagur þeirra væri hins vegar marg- föld landsframleiðsla Íslendinga. Varðar stöðu þjóðarinnar „Ákvörðun um umfangsmiklar björgunaraðgerðir til handa íslensku bönkunum er því ekki spurning um að skattgreiðendur axli þyngri byrð- ar tímabundið heldur varðar hún stöðu íslensku þjóðarinnar í heild sinni til langrar framtíðar. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni gera það sem í hennar valdi stendur til að styðja við banka- kerfið. Í þeirri viðleitni hafa margir mikilvægir áfangar náðst á síðustu vikum og mánuðum. En í því ógn- arástandi sem nú ríkir á fjármála- mörkuðum heimsins felst mikil áhætta í því fyrir íslensku þjóðina alla að tryggja bönkunum örugga líf- línu. Þetta verða menn að hafa í huga þegar talað er um erlenda lántöku ríkissjóðs upp á þúsundir milljarða til að verja bankana í þeim ólgusjó sem þeir eru nú staddir í. Sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönk- unum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot. Engin ábyrg ríkisstjórn teflir framtíð þjóðar sinn- ar í slíka tvísýnu, jafnvel þótt sjálft bankakerfi þjóðarinnar sé í húfi. Til slíks höfum við, ráðamenn þjóðar- innar, ekki leyfi. Íslenska þjóðin og framtíð hennar gengur framar öllum öðrum hagsmunum,“ sagði Geir. Geir sagði að um helgina hefði ver- ið fundað nær linnulaust um stöðu fjármálakerfisins og í lok helgarinn- ar hefði verið útlit fyrir það að bank- arnir gætu fleytt sér áfram um sinn. „Af þeim sökum gat ég þess í gær- kvöldi [fyrrakvöld] að það væri mat mitt og ríkisstjórnarinnar að ekki væri ástæða til sérstakra aðgerða af okkar hálfu. Engin ábyrg stjórnvöld kynna afdrifaríkar aðgerðir varð- andi banka- og fjármálakerfi sinnar þjóðar nema allar aðrar leiðir séu lokaðar. Þessi staða hefur nú í dag ger- breyst til hins verra. Stórar lánalín- ur við bankana hafa lokast og ákveð- ið var í morgun að loka fyrir viðskipti með bankastofnanir í Kauphöll Ís- lands,“ sagði Geir. Hann tók af öll tvímæli um að inn- stæður Íslendinga og séreignar- sparnaður í íslensku bönkunum væri tryggur. Stjórnvöld myndu sjá til þess að atvinnulíf landsins hefði að- gang að fjármagni og bankaþjónustu eftir því sem frekast væri unnt. Fjölskyldur ræði saman „Mér er ljóst að þetta ástand er mörgum mikið áfall sem veldur okk- ur öllum bæði ótta og angist. Undir þeim kringumstæðum er afar brýnt að stjórnvöld, fyrirtæki, félagasam- tök, foreldrar og aðrir sem geta látið gott af sér leiða, leiti allra leiða til að daglegt líf fari ekki úr skorðum. Ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að íslenska þjóðin stæði saman og sýndi æðruleysi andspæn- is erfiðleikum er sú stund runnin upp. Ég hvet ykkur öll til að standa vörð um það sem mestu máli skiptir í lífi hvers einasta manns, standa vörð um þau lífsgildi sem standast það gjörningaveður sem nú geisar. Ég hvet fjölskyldur til að ræða saman og láta ekki örvæntingu ná yfirhöndinni þótt útlitið sé svart hjá mörgum. Við þurfum að útskýra fyrir börnunum okkar að heimurinn sé ekki á helj- arþröm og við þurfum sjálf, hvert og eitt, að finna kjark innra með okkur til að horfa fram á veginn. Þrátt fyrir þessi miklu áföll er framtíð þjóðarinnar bæði trygg og björt. Það sem mestu máli skiptir er að undirstöður samfélagsins og efna- hagslífsins eru traustar, þótt yfir- byggingin gefi eftir í þeim hamförum sem nú ríða yfir. Við eigum auðlind- ir, bæði í sjó og á landi, sem munu tryggja okkur góða lífsafkomu sama hvað á dynur. Menntun þjóðarinnar og sá mannauður sem hér er til stað- ar er ekki síður öfundsverður í aug- um annarra þjóða en náttúruauð- lindirnar. Við höfum að sama skapi tækifæri til endurreisnar í fjármála- kerfinu. Við höfum lært af þeim mis- tökum sem gerð voru á hinum miklu uppgangstímum og sú reynsla verð- ur okkur dýrmæt þegar fram í sæk- ir. Með sameiginlegu átaki og af þeirri bjartsýni sem einkennir ís- lenska þjóð munum við komast í gegnum þessa erfiðleika og hefja nýja og þróttmikla sókn,“ sagði Geir. Engin ábyrg ríkisstjórn teflir framtíð þjóðar sinnar í tvísýnu Geir H. Haarde forsætisráðherra tilkynnti þjóðinni um neyðarlög í ávarpi Morgunblaðið/Kristinn Talað Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, og Geir H. Haarde forsætisráðherra undirbúa ávarpið. Neyðarlög á Íslandi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.