Morgunblaðið - 07.10.2008, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 07.10.2008, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. OKTÓBER 2008 23 TÍSKA OG FÖRÐUN Stórglæsilegt sérblað um tísku og förðun fylgir Morgunblaðinu föstudaginn 17. október. Meðal efnis er: • Andlitshúðin. • Líkamshúðin. • Brúnkukrem. • Ilmvötn. • Varalitir. • Förðun og snyrtivörur. • Hárið í vetur, hvað er í tísku. • Kventíska. • Karlmannatíska. • Fylgihlutir. • Skór. • Brjósthaldarar. • Aðhaldsnærföt. • Góð stílráð. Allar nánari upplýsingar veitir Katrín Theódórsdóttir í síma 569 1105 eða kata@mbl.is. Ásamt fullt af öðru spennandi efni og fróðleiksmolum. Auglýsendur! Pantið fyrir klukkan 16, mánudaginn 13. október. „OFURFAGRAR“ voru fregnirnar nú í hádeginu 5. október og hafa ugglaust glatt talsmenn óhefts frelsis í áfengismálum, þá sem engar hömlur vilja, heimta áfengi við hlið mjólkurinnar í matvöruverzlunum og vilja fylla alla fjölmiðla af auglýsingum um ágæti áfengisins þar sem dökkar hliðar eru víðs fjarri. Því segi ég þetta að fregnirnar voru um gíf- urlegt annríki lögreglunnar á höf- uðborgarsvæðinu næstliðna nótt þar sem helztu einkenni voru ölvun og ofbeldi, mikill fjöldi ofurdrukkinna með hnefann á lofti, fjöldi líkams- árása, þar af einn mikið slasaður, fangageymslur yfirfullar. Og því fer víðs fjarri að þessar fregnir séu eitt- hvert einsdæmi, enn skelfilegri eru þær oft á tíðum, allt yfir í samfylgd dauðans. Það er kaldranalegt að segja að svona fregnir hafi glatt einhverja, en þó verður ekki hjá því komist að álykta á þann veg, þegar menn fimb- ulfamba endalaust um nauðsyn þess að aðgengi að áfengi sé sem allra mest, allt sé gefið frjálst jafnt flæði auglýsinga sem framboð áfengis sem allra víðast. Þetta gjöra þessir menn að því er virðist kinnroðalaust, þrátt fyrir aðvaranir virtustu manna hér á landi og ekki síður á heimsvísu sem telja, að ein virkasta aðgerðin gagnvart áfengisneyzlu og þar með ofneyzlu að sjálfsögðu, sé fólgin í skertu aðgengi að þessari um svo margt og fyrir svo marga háskalegu vöru. Það hefur lengi verið andsvar áfeng- isunnenda við aðvör- unum okkar bindind- isfólks að við séum haldin blindu ofstæki, sjáum ekkert nema skuggahliðarnar sem séu hverfandi miðað við allar þær unaðssemdir sem áfenginu fylgja. Auðvitað kveðum við fast að orði þegar við ræðum hina raunsönnu mynd og ég segi aðeins: Er unnt að lá okkur þó okkur ógni andvaraleysið og alvöruleysið sem ekki getur leitt til annars en óheilla? Lái okkur hver sem vill þegar við drögum raunsannar ályktanir af at- burðum eitthvað í líkingu við þær fregnir, sem í upphafi voru nefndar og þær þó hvergi nærri þær alvar- legustu sem gerast úti í samfélaginu. Við styðjum þó okkar aðvaranir með ótvíræðum rökum sem eiga sér stoð hjá ekki ómerkari stofnun en Al- þjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO og við bendum á hin skelfilega ljósu og í raun hræðilegu dæmi um ömurleika þess sem alltof margir glíma við af völdum áfengisins og á að vera öllum ofurljós. Ég hefi lengi haldið því fram að þeir sem dásama dýrð áfengisins sem gleðigjafa, allt yfir í hreinan hamingjugjafa séu einmitt haldnir vissu ofstæki blindunnar, lokandi augum fyrir öllu því neikvæða, hefj- andi einhverja óútskýrða kosti upp til skýjanna án þess að taka minnsta mark á þeim bitra raunveruleika óhamingju og ófara sem áfeng- isneyzlunni fylgja og bezt að taka al- veg sérstaklega fram þá staðreynd að til þess þarf enga ofneyzlu, svo sem alltof oft sést og heyrist haldið fram. Ég átti nefnilega tal við góðan kunningja minn um daginn sem reyndar hefur nú ekki alltaf gætt hófs í neyzlunni og hann taldi að ekki kæmi til neinna alvarlegra hvað þá skelfilegra afleiðinga af áfeng- isneyzlu, nema þá eins og hann sagði af ofneyzlu. Ég spurði hann þá um ölvunaraksturinn, ofbeldisbrotin, heimilisógæfuna, allt yfir í það að menn tækju líf sitt og svo framvegis, það þyrfti enga stöðuga ofneyzlu til að valda öllu þessu, jafnvel aðeins augnabliksáhrif af áfenginu leiddu því miður alltof oft af sér óheilla- atvik. Við eigum aldrei að ræða þessi mál öðruvísi en með hina raunsönnu mynd í huga, spegilmynd aðeins var sú fregn sem í upphafi var vitnað til. Að vekja athygli á þeirri skelfilegu alvöru sem alltof víða blasir við á ekkert skylt við ofstæki, þar er ein- ungis verið að benda á þá vá sem stafar af áfengisneyzlunni og í beinu samhengi þar við annarri vímu- efnaneyzlu. Þær raunsönnu myndir eigum við að skoða og taka afstöðu í þeirra ljósi. Hin raunsanna mynd Helgi Seljan skrifar um áfengismál » Að vekja athygli á þeirri skelfilegu al- vöru sem alltof víða blasir við á ekkert skylt við ofstæki, þar er ein- ungis verið að benda á þá vá sem stafar af áfengisneyzlunni … Helgi Seljan Höfundur er formaður fjölmiðlanefndar IOGT. ÉG ÁTTI leið austur á Hérað fyrir skemmstu. Mér brá við að sjá Lagarfljót, átti ekki á góðu von eftir að Jökla tók að renna í það, en þetta var verra en ég bjóst við. Hinn blágrái eða grængolandi litur Fljótsins er horfinn, en í stað hans kom- inn mjög dökkleitur, jökulgrár litur, nokkurn veginn hinn sami og sjá mátti á Jöklu, sem þá stund- ina rann á yfirfalli úr Hálslóni til sjávar. Fleiri breytingar voru sýnilegar í fljótu bragði. Vatnsborð Fljótsins hefur hækkað og sandfjaran, sem einkennt hefur strendur þess, víða horfin. Vitað var, að aurburður í Fljótinu myndi fjór- til fimmfaldast við virkjun og gegnsæi minnka, og má þegar sjá merki þess við Lag- arfljótsbrú. Kólnun vatnsins og vaxandi aur mun hafa slæm áhrif á lífríki Fljótsins, og veiði hefur verið lítil sem engin á Upp-Héraði í sumar. Hér eru vissulega að verða mjög alvarlegar breytingar á Lagarfljóti, og mun þó ekki allt fram komið enn. Og undarlega hljótt um allt þetta mál. Maður hlýtur að velta fyrir sér þeirri spurningu, hverjir hafi haft leyfi til að umbreyta Fljótinu, einu mesta og fegursta stöðuvatni lands- ins, í mórauðan forarpoll. Varla var það Guð almáttugur, sem gaf slíkt leyfi. Nú þegar neikvæð umhverfis- áhrif virkjunarinnar eru smám saman að koma í ljós, þá ber eng- inn ábyrgð, ekki ríkisstjórnin eða Landsvirkjun. Þannig er það nú á Íslandi. Það er kaldhæðn- islegt, að nú réttu ári eftir að Kárahnjúka- virkjun var gangsett og álver á Reyðarfirði tók til starfa, skuli það nán- ast allt vera að rætast, sem andstæðingar virkj- unarinnar héldu fram. Það er ótrúlega fljótt. Moldryk úr lónstæð- inu lagðist niður yfir byggðir Héraðs og Jök- uldals í suðvestanáttinni í júlí í sumar. Lands- virkjun bar ekki á móti því, þó hún reyni að sjálfsögðu að gera sem minnst úr þeirri hættu. Það gerði rigningarskúr, fólk sagði mér, að það hefði rignt leirdrullu. Tilraunir Landsvirkj- unar til að hefta uppfok frá lóninu með rykbindiefni og sandgildrum sýna hve menn þar á bæ standa í rauninni ráðalausir gagnvart þeirri vá, sem leirfok úr lónstæðinu kann að orsaka. Þeim sem ég ræddi við, bar sam- an um, að vænta mætti mun verra ástands strax næsta sumar, þegar aftur hefur lækkað í lóninu um tugi metra og eftir því sem meira drepst af gróðri í lónstæðinu. Hvernig ætl- ar Landsvirkjun þá að bregðast við? Tilfinning mín er sú, að mörgu fólki á Héraði sé ekki skemmt, nú þegar það sér afleiðingar virkj- unarframkvæmdanna vera að koma í ljós. En hefðu menn ekki átt að sjá þetta fyrir, voru ekki fróðustu menn búnir að vara við þessu? Mikið er talað um bjartsýni á Austurlandi um þessar mundir, og vonandi rætist hún. Samt standa nýjar íbúðarblokkir á Egilsstöðum enn hálftómar og íbúum heldur áfram að fækka í sjálfri Fjarða- byggð. Þar er fjölgunin mest í út- lendingum. Sagt var frá því í frétt- um, að nemendum Verkmennta- skóla Austurlands hefði fækkað um fimmtíu frá því á síðasta ári. Meðan annarra orða, átti ekki álverið á Reyðarfirði að stuðla að eflingu iðn- menntunar á Austurlandi? Í minni gömlu fæðingarsveit, Fljótsdalnum, er fátt nýtt að gerast og dauft í sveit. Þar hefur engin ný atvinnuuppbygging átt sér stað, að- eins örfá starfsgildi við Fljótsdals- stöð. Heyrði ég, að ein jörð væri til sölu en hefði ekki selst. Þar sitja menn uppi með skemmd tún af völdum vatnshækkunar og sjón- mengun af risamöstrum, sem spilla útsýni frá sjálfum kirkjustaðnum Valþjófsstað. Umhverfissóðaskapnum er líka fráleitt lokið. Nýlega var lokað fyrir framrás Jökulsár í Fljótsdal við Ufsarlón og henni veitt í að- rennsligöng virkjunarinnar. Þar með verða fagrir fossar þeirrar ár að mestu úr sögunni. Nú munu Kelduá og fleiri ár hljóta sömu ör- lög inni á Hraunum, þar sem mynda á enn eitt risalón í viðbót, Kelduárlón. Allar ár verða blóð- mjólkaðar, hvort sem þörf er á því eða ekki. Þá verða báðar vatns- mestu árnar, sem falla niður til Fljótsdals sín hvorum megin við Múlann og gefa dölunum tveimur sterkasta ásýnd, aðeins svipur hjá sjón. Enginn vafi leikur á því, að Fljótsdalssveit hefði verið betur sett án virkjunar, þótt einhverjar krónur komi vissulega í hrepps- kassann. En Fljótsdalshreppur fékk gjöf, því skal ekki gleymt. Impregilo gaf honum járnbraut- arlestina, sem notuð var til að flytja bergmulninginn út úr aðrennsl- isgöngunum. Henni var valinn stað- ur við félagsheimilið Végarð í hjarta sveitarinnar, þar sem hún mun standa sem minnismerki um mesta umhverfissóðaskap Íslands- byggðar. En menn fengu þó alltént járnbrautarlest. Járnbrautarlest í Fljótsdal Ólafur Þ. Hall- grímsson skrifar um áhrif virkjana »Enginn vafi leikur á því, að Fljótsdals- sveit hefði verið betur sett án virkjunar... Ólafur Þ. Hallgrímsson Höfundur er prestur á Mælifelli.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.