Morgunblaðið - 22.11.2008, Side 36

Morgunblaðið - 22.11.2008, Side 36
36 Umræðan MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. NÓVEMBER 2008 ÞESSI grein fjallar ekki um efnahagsástandið. Þessi grein fjallar ekki um atvinnuleysi. Þessi grein fjallar ekki um verðbólgu. Þessi grein fjallar ekki um stöðu krónunnar. Þessi grein fjallar hins vegar um viðbrögð okkar allra við ofangreindum atriðum. Ég tilheyri kynslóð þeirri sem stundum er lýst sem „Y- kynslóðinni“. Þessi kynslóð fæddist á árunum 1978-1995 og hefur þótt of ábyrgðarlaus, frek og sjálfsmiðuð. Við þykjum hins vegar fremst í notkun netsins, erum umburðarlynd og sveigjanleg. Við höfum semsagt ýmsa kosti og ýmsa galla í okkar fari eins og allir. Við höfum alltaf fengið allt sem hugur okkar girntist, hvort sem það eru hlutir sem okkur langaði í, lán sem við sóttum um eða störf sem við sóttumst eftir. Þessi kynslóð er núna að upplifa nokkuð sem hún hefur aldrei upplifað síðan hún komst til vits og ára. Við erum að upplifa það að lífið er ekki alltaf dans á rósum. Við sjáum allt í einu að stundum getur verið erfitt að fá vinnu, við sjáum að stundum ná endar ekki saman um mánaðamót, lánin á íbúðinni okkar eru orðin hærri en verðmat hennar. Blákaldur veruleikinn horf- ist í augu við okkur – jafnvel í fyrsta sinn. Þetta er raunveruleikinn og skorast ég alls ekki undan og ætla einfaldlega að mæta honum. Með hvaða hætti? Ég skal segja ykkur hvar ég ætla að byrja og hvað ég ætla að gera. Ég ætla að taka ábyrgð á því eina sem ég ræð fullkomlega yfir í þessu lífi. Það er viðhorf mitt til þess sem er að gerast í lífi okkar um þessar mundir. Ég sjálfur ákveð hvert viðhorf mitt er til þessara atburða sem dynja nú á okkar litlu þjóð. Ég sjálfur ákveð hver mín viðbrögð verða ef ég missi vinnuna. Ég sjálfur ákveð það hvort orka mín fari í að leita að sökudólgum eða hvort orka mín fari í að finna ný tækifæri fyrir sjálfan mig og fjölskyldu mína. Ég ákveð sjálfur hvaða lit ég set í þann pensil sem ég nota til að mála myndina mína með. Þetta eru einmitt kostir minnar kynslóðar. Við erum sveigjanleg og bjartsýn. Ef það er eitthvað sem fulltrúar okkar kynslóðar geta kennt fjölmiðlum, stjórnmálamönnum og öðrum spekingum þá er það að á bjartsýninni förum við ótrúlega langt. Þegar við erum bjartsýn þá fáum við fleiri hugmyndir, þegar við erum bjartsýn þá erum við áfram tilbúin að taka nauðsynlega áhættu og prófa okkur áfram, þegar við erum bjartsýn þá erum við frekar tilbúin að takast á við nýja hluti, þegar við erum bjartsýn þá höfum við neistann og kraftinn til að vinna okkur út úr hvaða vanda sem er. Undanfarið hef ég samt átt fullt í fangi með að viðhalda þessari bjartsýni minni. Fjölmiðlar keppast um að mála sem svartasta mynd af ástandinu. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum tala hátt um hversu ofboðslega erfitt við munum öll eiga á næstunni. Umræðuþættir snúast um að finna sökudólga og mála dökkt útlit um framtíðina. Hagspekingar koma fram gráir í framan af áhyggjum og mest virðist þeim hampað sem dekksta myndina mála. Með þessu er verið að senda mjög afgerandi skilaboð. Fátt þyk- ir fréttnæmt í dag nema það feli í sér svarta mynd. Ef nógu margir halda á svörtum penslum er alveg öruggt að myndin verður svört. Í einfaldleika mínum trúi ég því að þrátt fyrir allt séu gríðarleg tækifæri sem blasa við okkur. Upp- lausnin í atvinnulífinu er sannarlega sársaukafull en leysir engu að síður úr læðingi mikil tækifæri. Við þurfum einfaldlega að trúa á þann kraft, reynslu og hugmyndir sem eru til staðar, hvernig sem atvinnuástandið er. Gnótt mann- auðs getur ekki annað en fundið sér leið til þess að halda áfram að skapa tæki- færi – með bjartsýnina að leiðarljósi. Til þess verðum við að standa vörð um bjartsýni okkar og tapa okkur ekki í þeim „raunveruleika“ sem dreginn er upp í fjölmiðlum. Ég beini orðum mínum sérstaklega til annarra fulltrúa minnar kynslóðar og hvet ykkur til þess að hafa áhrif. Ég vil líka tala sérstaklega til fjölmiðla. Setjum fleiri liti í penslana okkar og vinnum saman að því að mála fleiri myndir. Málum bjartar myndir, stórar myndir, litlar myndir, ótrúlegar myndir í bland við þessar „raunhæfu“ myndir. Hjálpið mér að viðhalda bjart- sýni minni því ef ég tapa henni þá fyrst hef ég tapað öllu. Hvaða lit á ég að velja í pensilinn minn? Ingvar Hjálmarsson, tölvunarfræðingur. ÉG HEYRÐI af raunum íslensku þjóðarinnar í útvarpi BBC í dag. Sumir Íslendinganna sem rætt var við virtust halda að enskur almenn- ingur væri ykkur reiður vegna fjár- málakreppunnar. Ég átti fé á Ice- save-reikningunum en get fullvissað ykkur um að ég ber ekki kala til ís- lensku þjóðarinnar, einungis til bankans sem brást báðum þjóð- unum. Mér þykir leitt að heyra af öllum Íslendingunum sem hafa misst fé sitt á sama hátt og ég en án mögu- leika á aðstoð frá ríkinu. Þið virðist nú í vafa um hvað skuli gera. Ættuð þið að ganga í Evrópusambandið til að njóta kosta evrunnar en missa þá jafnvel fiskveiðistjórnunina úr hönd- unum eða berjast áfram ein ykkar liðs? Þetta er skrifað af Englendingi sem hefur samúð með ykkur og ósk- ar ykkur gæfu og velgengni í fram- tíðinni. Bretar ekki reiðir íslenskum borgurum Peter Scott, The Lilacs, North Walsham, Norfolk, Bretland. ÉG VEIT að það er mikilvægt að kaupa jólagjafirnar. Það er von á verðbólguskoti og verðhækkunum á út- lenskum vörum. Ég veit að það er mikilvægt að horfa á ensku knatt- spyrnuna. Liverpool hefur ekki byrjað svona vel lengi og allt í einu er orðið skemmtilegt að horfa á Chelsea. Ég veit að það er mikilvægt að hvíla sig. Eftir að hafa púlað í heila viku og auk þess fylgst linnulaust með vond- um fréttum og bölsýnisbloggi, þá er heilatetrið orðið ósköp lúið. Ég veit að það er mikilvægt að fara í sund. Látið mig vita það; bunan í Vesturbæjarlauginni hefur bjargað lífi mínu undanfarnar vikur. En þótt allt þetta sé mikilvægt í dag, þá er eitt þó enn mikilvægara. Að sýna þá sjálfsvirðingu að fara niður á Austurvöll klukkan þrjú og mót- mæla. Sýna að við höfum það stolt að láta ekki vaða yfir okkur endalaust. Yfirlæti og fyrirlitning Mótmælum þeirri óheftu frjálshyggju sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn steyptu yfir samfélagið, og hefur nú kallað yfir okkur hrun. Mótmælum þeim hroka sem mætt hefur okkur hjá forsætisráðherra sem gefur til kynna að mótmælendur á Austurvelli séu skríll og fréttamenn sem vilja svör við spurningum sínum séu dónar og fífl. Mótmælum þeim skorti á upplýsingum, lygum og hálfsannleik sem ein- kennt hefur samfélagið síðan hrunið átti sér stað. Mótmælum því að að ekki eigi að kalla til erlenda sómamenn til að stjórna rannsókn á orsökum hrunsins, heldur eigi það að gerast undir for- ræði íslenskra stjórnmálamanna. Við höfum ekki góða reynslu af íslenskum stjórnmálamönnum, takk fyrir! Mótmælum því samtryggingakerfi spillingar og klíkuskapar sem enn er með klærnar í flaki samfélagsins. Mótmælum þeirri forgangsröð að öllu skipti að spilltir bitlingakóngar stjórnmálaflokkanna haldi sínum vel launuðu störfum hjá ríkinu (okkur) meðan þúsundir venjulegs fólks missa vinnuna vegna afglapa þeirra. Mót- mælum því að stjórnvöldum virðist ofar í huga að bjarga andliti stjórnmála- manna, embættismanna í réttum flokkum og kaupsýslumanna í réttum klíkum, en að bjarga almenningi og heiðarlegum fyrirtækjum frá gjald- þroti. Mótmælum því að við fáum ekkert að vita um það starf sem nú fer fram í bönkunum og víðar við að „endurreisa íslenskt efnahagslíf“. Mótmælum því að kröfur um opnari stjórnsýslu og heilbrigðari stjórnsýslu séu hafðar að háði og spotti. Mótmælum því fyrst og fremst að kröfum um að almenningur fái að segja álit sitt í kosningum með vorinu sé svarað með yfirlæti og fyrirlitningu. Stolt og sjálfsvirðing Þótt við kunnum að hafa mismunandi skoðanir á orsökum hrunsins og þótt við höfum kannski mismunandi skoðanir á ESB, þá getum við þó öll sameinast um að mótmæla þessu. Á Austurvelli klukkan þrjú í dag. Það er hægt að fara snemma að kaupa jólagjafirnar, eða eftir að fund- urinn er búinn. Og Liverpool er nú bara að keppa við Fulham í dag; það verður tæpast mjög áferðarfallegur leikur. Það má líta á það sem hvíld að ganga niður á Austurvöll og fylla lungun af hreinu lofti við að hrópa skoð- anir sínar hástöfum. Og Vesturbæjarlaugin er opin til klukkan átta í kvöld. Svo við höfum tíma. Og við höfum stolt og við höfum sjálfsvirðingu. Mætum. Mætum! Illugi Jökulsson ritstjóri. ÞAÐ fylgir því ábyrgð að taka við af fjárhagslegu þrotabúi og hugmyndas- nauðu. Það fylgir því svo þung ábyrgð að ég ætla engum öðrum en bestu Ís- lendingunum þetta verk. Stjórnarseta verður erfið og aðkast mikið. Ég bið því sterkustu Íslendingana að axla þessa ábyrgð. Framapotarar mega vara sig; þetta mun að öllum líkindum ekki leiða til lýðhylli. Bein í nefi og breiðar herðar eru það sem koma skal. Ég ákalla jafnaðarmenn. Ég hef traustar heimildir fyrir því að þeir starfi innan allra flokka, utan þeirra og með skóna í gættinni. Það er ekki leiðin fyrir jafn- aðarmenn að reyna að berja hugmyndum sín- um í koll núverandi, fyrrverandi ellegar til- vonandi flokksbræðra og -systra. Nema þá tilvonandi undir stjórn nýrra merkja. Því við þurfum einhvern stórbrotinn nýjan skrið- þunga til að vega upp á móti núverandi ráða- mönnum. Núna gengur um garð skeið þar sem skilyrt lán eru tekin af handhöfum valds. Fulltrúum ykkar. Þeir eru ekkert annað en þrælar kjörseðlanna og við höfum leyft þeim að misnota það vald sem við létum þeim í té. Einu sinni var krafa um að menn stæðu við orð sín og málefni væru málefni en ekki mála- tilbúnaður. Einu sinni var krafa um að heið- virðir menn skipuðu stóla Alþingis, ekki dæmdir glæponar. Einu sinni þurftu forsætis- ráðherrar að svara fyrir gjörðir sínar. Hvert er þetta farið? Ég fór niður á Austurvöll eftir fyrsta borgarafundinn í Iðnó. Ég horfði á styttuna og ég spurði hvort þessu hefði mað- urinn sem styttan er af barist fyrir? Settirðu okkur undir hatt valdagráðugra pen- ingaplokkara sem skildu eftir sig sviðna jörð líkt og víkingar á fyrra sjálfstæðistímabili landsins á meðan „stjórnvöld“ stóðu aðgerð- arlaus hjá? Sá munur er einn að víkingar ollu ekki slíkum usla hér heima sem nú sést. Gunnar hlustaði á ráð Njáls, nema þegar hann mætti sínum dauðdaga með reisn. Nú á dögum flýja kýfingarnir með aurana sem eftir eru í stórum stíl og fá reisupassa upp á það frá ríkisstjórn. Nokkrir ætla að mæta dauð- daga sínum með reisn, reyndar undir þeim formerkjum að reisa upp öflugt samfélag á ný. Ég óska þeim góðs með það, en bið þá minnast þess að við spilum ekki leikinn þeirra aftur. Eina innkoma þeirra í íslenskt samfélag er sú að þeir beri brjóstnælu jafnaðar- mennsku í jakkabrotinu/vinnuskyrtuvasanum/ stuttermabolnum. Svarið sem laust niður frá styttunni í gegnum skelina var: Til hvers er sjálfstæði ef ekkert er lýðræðið? Og þá fattaði ég það: Jón Sigurðsson stóð ekki einvörðungu fyrir sjálfstæði þjóðar frá krúnu, heldur ein- staklings. Með sínum skýlausu kröfum fór goðinn frá Hrafnseyri fremstur í flokki fyrir því að berja þrælslundina úr hjarta okkar. Reikningskrafan, Vér mótmælum allir, Stöðu- lögin og Stjórnarskrá Íslands 1874. Maðurinn skapaði okkur sérstöðu sem smátt og smátt var kvörnuð frá almenningi inn í flokksklíkur. Kolkrabbinn, S-hópur, LÍÚ og lík apparöt hafa átt kynslóðir með húð og hári. Kveldúlfur Thors-ættar, stjórnmálaafskipti þeirra og bankaseta á áratugaskeiði um miðbik ald- arinnar kristallar þessa þróun. Ég skil ekki hvers vegna styttan snýr ennþá að Alþingi; er þess fullviss að Jón byltir sér í gröf sinni við hvern einasta þingfund sem haldinn hefur verið nú lengi vel. Stjórn- völd eru hugtak sem nær ekki að komast inn í mengi raunverulegra hluta nú um stundir. Undir hæl auðmanna; í veislum þeirra og sem tengslafulltrúar á erlendri grundu hafa þeir afsalað sér hverri örðu af trúverðugleika. Tákngervingur þess er ég nefndi; forsetinn, er ekki til þess fallinn að falla í náð kjósenda þótt hann vilji lækka laun sín. Á góðærisárum minnir mig að laun hans hafi hækkað um rúm 130%. Við erum ekki að kljást við smámál. Þetta er ekki ein stífla, eitt álver, hvalveiðar eða ókeypis í strætó! Við stöndum frammi fyrir vali um það hvort við búum í velferðarkerfi af því tagi sem við höfum stært okkur af í gegn- um tíðina. Við berum okkur saman við Norð- urlönd (óréttilega í mörgum tilfellum) en ber- umst með óskiljanlegum straumum til bandaríska kerfisins. Hvar er réttlæt- iskenndin? Hvar er lágmarkshugsun um ykk- ar framtíð? Góðærinu er lokið og taka þarf í tauma. Skipta þarf um knapa, hnakk og skeif- ur. Spurningin er með öðrum orðum: Viljum við ofurselja Ísland og halda ímynd landsins óbreyttri? Kúgandi og tækifærissinnuð port- kona sem gengur kaupum og sölum milli best borgandi kúnnans eða eigum við að stappa niður fótum: ryðjast gegnum dyr út í óveður vetrar og taka til höndunum líkt forfeðrum okkar. Eða viljum við frjósa í hel? Okkar er valið. Ég veit hvað ég vel og vona innilega að það sama gildi um þig; að byggja ímynd okkar upp út á við og það gerum við ekki með sömu stjórnvöldum og leyfðu henni að grotna niður. Hvaða flokki sem þú tilheyrir, hvort þú yf- irhöfuð tilheyrir flokki máttu ekki taka óttann með þér út í dagsbirtuna. ÉG vil berjast með orðum fyrir hugsjón sem er okkar menningar- arfur. Ég vil taka slaginn og skapa samfélag jöfnuðar og set fordæmið með einstaklings- framtaki! Ákall til þjóðar Sindri Viðarsson, nemi við HÍ. Morgunblaðinu hefur borist mikill fjöldi greina og pistla frá lesendum um ástandið í efnahagsmálum landsins. Margir höfundar lýsa áhyggjum sínum af þróun mála og margir gera tillögur um leiðir út úr efnahagsvanda þjóð- arinnar. Morgunblaðið leggur áherslu á að gera þessum umræðum góð skil í blaðinu á næstunni. Skoðanir fólksins Ég fór niður á Austurvöll eftir fyrsta borgarafund- inn í Iðnó. Ég horfði á styttuna og ég spurði hvort þessu hefði maðurinn sem styttan er af barist fyrir? Settirðu okkur undir hatt valdagráðugra peningaplokkara sem skildu eftir sig sviðna jörð...?’                     

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.