Skinfaxi - 01.04.1938, Blaðsíða 1
Skinfaxi I. 1938.
Margrét Jónsdóttir:
Vorið kallar.
Vorið kallar! Enginn unir
inni, þegar sólin skín.
Skógarilmur, angan blóma
ákaft heillar mig til sín.
Yfir vötn og velli græna
vorsins álfur stígur dans;
þokubelti bláfjöll girða,
blælétt eins og sporin hans.
Landið góða, landið hvíta
ljómar, fegrað morgunsól,
daggarperlur skærar skrýða
skarti glæstu dal og hól.
Eg verð frjáls og ung sem áður,
æskan við mér blasir fríð,
lifi aftur liðnar stundir,
löngu horfna sumartið.
Upp á fjöllin, yfir fjöllin
ör og heit mig þráin ber;
hátt til lofts og vítt til veggja
verður, hvert sem litið er.
Endalausa óravegi
augað fær ei mælt né greint;
allt er sveipað sól og degi,
sumarloftið blátt og hreint.
Og hann brennur enn og logar
í mér, þessi gamli hyr,
hindurvitnin beint á bálið,
burt með allar læstar dyr.
Ljós og yl í skúmaskotin,
skímu inn í hverja gætt.
Allt, sem lifir, út í daginn,
einkum, sem í skugga’ er fætt.