Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.07.1944, Síða 52

Sjómannablaðið Víkingur - 01.07.1944, Síða 52
komið fyrir, hestum, nautgripum, kindum og ali- fuglum í búrum. Bæði fyrir framan og aftan miö- skipið var komið fyrir smíðaáhöldum, vopnum, fatakistum, eldhússáhöldum og öðrum nauðsynleg- um hlutum, og voru húðir vandlega breiddar yfir vöruhlaðana og þeir síðan reirðir niður með köðl- um. Á næturnar sváfu konurnar og börnin undir þiljum, bæði frami undir bakka og aftur í lyftingu, en karlmennirnir og þrælarnir sváfu í húðfötum undir berum himni. Frá því að skipin yfirgáfu ísland, fyrir þremur dögum, höfðu þau haft hag- stæðan byr og aldrei þurft að nota árarnar. Leifur fór aftur eftir skipinu og upp á lyfting- una, þar sem faðir hans sat, haldandi um stýrisvöl- inn, og studdi breiðu bakinu upp að þverslá, sem ætluð var til stuðnings þeim, sem var við stýrið. Það var bjartviðri, en frekar kalt, en þrátt fyrir töluverða undiröldu, höfðu fáir á skipi Eiríks orðið sjóveikir. „Taktu við stýrinu, drengur minn,“ sagði Eiríkur brosandi, um leið og hann reis úr sæti sínu; „það getur orðið þér að gagni síðarmeir, að kunna að halda um stýrissveif, þegar þú ferð að stjórna þínu eigin skipi.“ Leifur greip um gljáfægðan enda stýrissveifar- innar, hreykinn yfir því, að honum skyldi vera trúað fyrir stjórn á svo stóru skipi. Að vísu hafði hann stýrt því einu sinni áður, nóttina minnisstæðu heima á Breiðafirði, þegar hann bjargaði því frá Þorgeiri Steinssyni, sem ætlaði sér að eyðilegja það. En hér, úti á opnu hafinu, var það allt öðru vísi. Samt sem áður lét sökkhlaðið skipið þegar í stað að stjórn, við minnstu hreyfingu handar hans. „Stýrðu meira til suðvesturs," sagði Eiríkur og horfði um leið á rauðgula kvöldsólina. „Af hverju það, ef Grænland er í vesturátt?" spurði Leifur undrandi. Eiríkur brosti. „Ef við héldum beint í vestur, eins og ég gerði í fyrri ferð minni, mundum við bráðlega koma að ísveggnum, sem Gunnbjörn Úlfsson sá, og síðan neyðast til þess að sigla suður með ísröndinni. Það er því betra að sigla strax í suðvestur, þar sem vegalengdin verður þá líka styttri. Einnig gæti svo farið, að einhverjir landnemanna yrðu óánægðir og misstu jafnvel kjarkinn, þegar þeir sæu austur- ströndina, háa og hrikalega, þakta ísi og snjó, og gætu haldið, að í staðinn fyrir að vísa þeim á grasi gróið land, eins og ég hefi lofað þeim, væri ég að gabba þá til staðar, sem ekki væri annað en ísauðn.“ Leifur kinkaði kolli til samþykkis og stýrði betur á bakborða. Hann hafði mjög skarpa sjón, jafnvel af sjómanni að vera, og hafði hann orð á því við föður sinn, „að sér virtist eins og stórar öldur væru í sífellu að rísa og falla úti í hafsauga, fram undan skipinu.“ „Öldur?“ svaraði faðir hans hlæjandi. „Það gæti verið rekís eða bök á hvölum; að undan- tekinni undiröldunni er sjórinn hægur; ég sé ekkert óvenjulegt.“ Leifur sagði ekki meira, en þegar fór að dimma, var sjórinn mjög farinn að ókyrrast. Straumsjóar riðu til og frá og létu ófriðlega. Sterkur straum- hnútur skall á skipsskrokknum og keyrði skipið áfram af slíku heljarafli, að Leifur hafði næstum mist af stýrissveifinni. Eiríkur hljóp þegar til að- stoðar Leifi og tók við stýrinu af honum. Skipið hentist til og frá, eins og það væri í straumiðu. Þar sem Leifur stóð og hélt sér í borðstokkinn, sá hann til hinna skipanna, og steyptu þau stömpum í öldu- rótinu. Þungar veltur skipsins og hávaðinn frá brotnandi sjóum á bógum þess hafði þegar sín áhrif á þá, sem um borð voru og óvanir voru sjóferðum. Konur tóku að hljóða og börn að gráta, og bættust þar við margvísleg hljóð frá hræddum húsdýrum. Þegar sjóar öðruhvoru helltust inn yfir borðstokka skipsins, hrópuðu sumir hinna kjarkminni landnema í örvæntingu, að skipið væri að farast. í gegnum hávaðann mátti heyra til Eiríks, sem rólegur og æðrulaus skipaði mönnum sínum til verka, sumum til austurs, en öðrum að taka niður seglið, því vind- urinn var farinn að koma í snörpum hviðum úr öllum áttum. Hann varð að neyta allrar sinnar leikni og orku til þess að halda skipinu upp í sjóana, svo að það ekki fyllti. Vindurinn jókst, og sjólöðrið rauk í sífellu yfir skipið. Leifur kom öðruhvoru auga á næstu skip í gegnum særokið. Hann fann ekki til hræðslu, þrátt fyrir geigvænlegt útlit, því honum var sjómennskan í blóð borin, og hann elsk- aði hafið, jafnvel í þess ömurlegustu mynd. En hann var of ungur og óreyndur til þess að skilja fullkom- lega þá hættu, sem nú steðjaði að þeim. Því það var líkast því, sem einhver ógnaröfl hefðu losnað úr læðingi í undirdjúpunum, til þess eins að sökkva þesum veikbyggðu fleytum. Sérhver fallandi alda ógnaði með því að búa skipunum og þeim sem á þeim voru, vota gröf. Á skipi Eiríks voru þeir, sem í austrinum stóðu, farnir að nöldra undan erfiðinu, því stöðugt varð að ausa, ef skipið átti að fljóta. Eftir mikla fyrirhöfn hafði loks tekizt að ná niður seglinu og gera að því utan um rána. Nokkrir menn voru að herða á köðlunum, sem reirðir voru yfir vöruhlaðana. 204 VÍKINGUR

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.