Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.1971, Síða 29
an er í apríl og nær hrygningin
þá hámarki.
Þó að hrognasekkirnir nemi
meir en þriðjungi heildarþung-
ans, er grásleppan ekki frjósam-
ur fiskur. Eggjafjöldinn er frá
70.000 til 200.000 egg og fer það
eftir stærð hrygnunnar. Þegar
seiðin koma úr egginu eru þau
um 5 millimetrar á lengd og vaxa
hratt næstu mánuðina. Fyrst
halda þau sig í þarabeltinu, en
þegar líða tekur á haustið fara
þau dýpra. Stundum soga þau
sig föst á ýmsa fljótandi hluti og
berast þannig langt á haf út.
Næsta sumar halda þau sig
mikið uppsjávar, oft á 30—80
metra dýpi, innan um aðra ung-
fiska, að því að rannsóknir okk-
ar gefa til kynna. Það sumarið
ná þau 10—12 sentimetra lengd.
Eftir það verður lítið vart við
hrognkelsin fyrr en þau eru orð-
in kynþroska, þriggja til fjögurra
ára gömul. Hrygnurnar eru þá
orðnar að minnsta kosti 35 senti-
metra langar, en hængarnir, sem
vaxa hægar, eru um 27 sentimetr-
ar að lengd. Elztu hrognkelsi,
sem hér hafa verið aldursgreind,
eru aðeins sjö ára gömul og virð-
ast þau ekki verða miklu eldri.
Fyrsta sumarið nærast hrogn-
kelsin aðallega á smákrabbaflóm,
en úr því fer að gæta meiri fjöl-
breytni í fæðunni, burstaormar,
sandsíli og smáhvelja, ásamt
krabbaflóategundum fylla nú
matseðilinn. Um fæðu kynþroska
hrognkelsa er ekki mikið vitað.
Oftast er magi þeirra tómur um
hrygningartímann, þann tíma
sem þau veiðast helzt. Hinn hluta
ársins kemur það fyrir, að áður-
nefnd fæða finnist í þeim, jafn-
vel ljósáta og rækja, en hitt er þó
VlKINGUR
oftar að í maganum er nær ein-
göngu maukkenndar, ennþá
óþekktar leifar, sem minna einna
helzt á skyrhræring.
Athuganir á hrognkelsastofn-
inum hér við land eru enn skammt
á veg komnar, en ráðgert er að
auka þær til muna á næstunni. Til
dæmis hafa hrognkelsi aldrei ver-
ið merkt hér og göngur þeirra
því óþekktar. Eina þjóðin, sem
fengist hefur við merkingar á
hrognkelsum eru Danir. Þeir
merktu í apríl 1966 hátt á annað
þúsund hrognkelsi í dönsku sund-
unum. Mest endurheimtist næsta
mánuð á svipuðum slóðum og
merkt hafði verið. 1 júní, júlí og
ágúst veiddust örfáir merktir
fiskar og enn í dönsku sundun-
um. 1 september veiddist svo að-
eins ein merkt grásleppa og náð-
ist hún í Skagerak, líklega á leið
út í Norðursjó. Eftir það veidd-
ust engin merkt hrognkelsi fyrr
en í marzmánuði, vorið eftir.
Endurheimtur það árið voru fáar
eða tæpur 1 af hundraði. Merk-
ingatilraun þessi sýnir að hluti af
hrognkelsastofninum kemur öðru
sinni til hrygningar og þá aftur
á sama svæðið.
Fyrir nokkrum árum sendi
Fiskifélag Islands grásleppukörl-
um, aðallega á Norðurlandi afla-
skýrslueyðublöð til útfyllingar.
Þessi tilraun bar allgóðan árang-
ur og er það von mín, að þegar
farið verður aftur af stað með
aflaskýrslugerð, að allir þeir sem
grásleppuveiði stunda, láti ekki
sitt eftir liggja frekar en fyrri
daginn og sendi skýrslur og eins
fiskmerki. Þær upplýsingar, sem
aflaskýrslur og merkingar gefa,
eru ómetanleg hjálp við útreikn-
inga á stofnstærð, veiðiþoli og
dánartölu. Síðast en ekki sízt gefa
merkingar upplýsingar um göng-
ur og vöxt fiskanna.
ooooooooooooooooc>ooc>o<c>ooooooo<>ooooooo
Séð yfir Sundin í átt til Esju.
81