Náttúrufræðingurinn - 1947, Blaðsíða 42
184
NÁTTÚRUFRÆBINGURINN
sem liana bar við svart og dumbrautt brotsár gígveggjanna. Austur-
brún gígsins var mjög sundur tætt með gjám og sprungum.
Upp úr þessum gíg rann hraunið, ekki ósvipað því, er stór jökulá
sprettur upp undan skriðjökli. Þegar í upptökunum liuldist glóandi
bergkvikan úr iðrum Heklu meir en að hálfu af svörtu steinskrofi,
sem skreið oí’an á líkt og krap á vatni, en á milli var skær, rauð glóð.
Þetta rann fram í jöfnum og þungum straumi, án öldu og iðu, en
miklu hægar en vatn mundi renna í sama halla. Fyrir miðjum gafli
gígbássins (austurvéggnum) skagaði lítið urðarnes fram í upp-
sprettuna, og í mynni gígsins þrengdist hraunrásin. Uppsprettan
var því sem hjarta að lögun. Engar skarir voru að kvikunni, eld-
lijartað fyllti gígbotninn veggja á milli.
Upp úr sjálfum gígnum og einnig sprungunum í börmum lians
lagði mikla hvíta gufu. Sú, sem kom upp af kvikunni sjálfri, var
bláhvít líkt og tóbaksreykur, og lienni fylgdi svo megn stækja af
brunnum brennisteini (S02), að okkur sveið í vitin og þoldurn ekki
við nema stutta stund í einu, þegar vindurinn sló kafinu yfir okkur,
en hörfuðum undan hóstandi og með tárvotar kinnar. Eitthvað iiafði
gufan litað grjótið sums staðar á gígbörmunum og skörunum með-
franr hraunánni fyrir neðan, en miklu meiri brögð urðu að því
stundum síðar. Hinn Ijósi litur strýtunnar, sem fyrr var getið, á
suðurbarmi gígsins virtist mér eingöngu stafa af því, að blágrýtið í
henni var gegnbakað og þurrkað af hita.
Við höfðum þarna stutta viðdvöl að þessu sinni, en gengum áfram
upp að gjánni í Axlarbrekku. Þar gaus nú aðeins gufu, sem lagði
liátt upp í hvítum bólstrum. En á heimleiðinni, þegar rökkva tók,
sáum við úr fjarska, að upp úr gjánni lýsti af rauðri glóð.
Þessum þætli lýkur i nœsta hefti.