Stúdentablaðið - 01.12.1957, Blaðsíða 12
2
STÚDENTABLAÐ
KJARTAN J. JÓHANNSSON alþingism.:
V
Akadmtísfít frdsf
Við eigum að halda akademísku frelsi, þótt ljóst
sé, að frjáls skóli eins og Háskóli íslandi geri meiri
kröfur bæði til prófessora og stúdenta heldur en skóli,
sem væri eins konar framhalds barnaskóli.
Á síðasta alþingi voru endurskoðuð og færð saman
í einn lagabálk þau lög, er áður giltu um háskólann.
Var sú skoðun ríkjandi, að háskólinn ætti að vera
eins frjáls og óháður ríkisvaldinu og auðið væri.
Þá varð sú skoðun einnig ofan á, að hafa frelsi
stúdenta sem mest, varast a. m. k. að setja í lögin
frekari hömlur á frelsi þeirra en gilt höfðu. Þótt þetta
væri afráðið á alþingi eftir miklar rökræður og vand-
lega íhugun, er málið vafalaust tilfinningamál.
Flest okkar hafa fundið til skyldleikans við forfeð-
ur okkar, sem fluttust hingað til íslands til þess að
njóta meira frelsis, en þeir áttu kost á í sínum fyrri
heimkynnum.
Ég man líka eftir gleði okkar, er við kynntumst
frelsinu í háskólanum eftir prísundina, sem okkur
fannst við hafa verið í í menntaskólanum. Ég skal
ekki bera á móti því, að það tók suma okkar nokkurn
tíma að átta okkur á því, að erfitt var með frelsið að
fara, og læra þau vinnubrögð, sem okkur hentuðu
bezt til þess að ná árangri.
Ég er viss um, að þetta var dýrmæt reynsla, og er
ekki í vafa um, að hún gerði okkur færari um að ráða
fram úr þeim vanda og taka á okkur þá ábyrgð, sem
lífið hefur síðan fengið okkur að glíma við. Flestir
lærðu brátt að leggja svo mikið kapp á námið, að
árangur hefði a. m. k. ekki getað orðið betri með
neinum þvingunum.
Þegar við hófum læknanám, var okkur sagt, að við
værum allt of mörg; ef við hættum ekki af sjálfsdáð-
um, yrði að setja einhverjar takmarkanir til þess að
koma í veg fyrir offjölgun lækna.
Sem betur fór réðu bjartsýnni og framsýnni menn
því, að aðsókn að deildinni var ekki heft. Annars
hefði orðið hér læknaskortur, eða við hefðum a. m. k.
ekki getað verið án þeirra lækna, sem farið hafa til
útlanda til framhaldsnáms.
Frelsið hefur þarna orðið okkur til góðs, því að
hinir mörgu læknar, sem sótt hafa framhaldsnám út
yfir pollinn, hafa ekki aðeins gert sjálfa sig hæfari,
heldur hafa þeir bætt menntun lækna og alla læknis-
þjónustu hér á landi.
Háskóli íslands hefur lengi haft lengra samfellt
sumarleyfi en flestir aðrir háskólar. Þetta hefur auð-
veldað námið fjárhagslega fyrir marga stúdenta, og
í kaupbæti hafa þeir fengið náin kynni af atvinnulífi
þjóðarinnar til sjós og lands. Kynni, sem hafa oft
síðar komið að miklu gagni. Að öðru leyti hefur há-
skólinn ekki farið út á þá braut að auðvelda stúdent-
um að stunda vinnu með náminu, eins og sumir er-
lendir háskólar gera, t. d. í Bandaríkjunum. Sumir
stúdentar hafa samt af fjárhagsástæðum neyðzt til að
nota sér það frelsi, sem háskólinn hefur veitt þeim,
til þess að haga námi sínu öðruvísi en þeir helzt hefðu
kosið. Það má alls ekki hindra, að þeir, sem með at-
orku, dugnaði og sjálfsafneitun fara þá leið, geti
það.
Ég vil ljúka þessum orðum með þeirri ósk, að há-
skólinn megi ávallt vera frjáls skóli með frjálsum
nemendum.