Fálkinn


Fálkinn - 08.03.1961, Blaðsíða 12

Fálkinn - 08.03.1961, Blaðsíða 12
Féll þá altur forn dugnaður og allt atferli af fólksfæð, en sumir menn urðu svo auðugir, að þeirra gætti einna í tandinu... FRÁSÖGN EFTIR ÞORSTEIN FRÁ HAMRI Á einum bæ var það, að bóndi leit út í glugga og varð þess var að eitthvað tvennt reið fyrir ofan. Heyrir hann þá að sagt er: — Skal hér heim? — Nei, hér er gras í túninu, sem við megum ekki koma nærri, var svarað. Á öðr- um bæ var það seint um kvöld að bóndi þóttist viss um að Svartidauði væri aðeins ókominn. Tendrar hann þá þrjú kertaljós og setur út í náttmyrkrið. Síðan heyrir hann að sagt er: — Skal hér heim? — Nei, hér logar Maríuljós í þúfu, var svarað. Svartidauði kom á hvorugan bæinn. Þessi saga er örlítið sýnishorn af öll- um þeim fjölda munnmælasagna sem skapazt hafa um komu hinnar miklu plágu hingað til lands; margar þeirra eru hinar sérkennilegustu. „Maríuljós í þúfu" ber vott um að a. m. k. seinni hluti sagnarinnar sé gamall og hafi jafnvel myndazt í pápiskum sið við elsku þá er menn báru til heilagrar guðsmóður. En um uppruna veikinnar segir í þjóðsögum: „Það er í annálum ritað að svarti- dauði hafi fyrst komið upp í Babýlon þannig að menn hafi verið að grafa upp fornar rústir; hafi þá sézt sem svartar agnir um loftið sveima og því væri hann kallaður svartidauði. Hann byrjaði þannig að menn fengu ákaf- legan hnerra, og í sömu svifum blóð- gusan og andinn með. — Þá voru bræð- ur tveir á ferð; fékk annar geysilegan hnerra; þá segir hinn: „Guð hjálpi þér bróðir minn." Þannig er sagt að sá fagri siður hafi upp komið að biðja guð að hjálpa sér næx menn hnerra. Bróðurn- um, þeim er hnerraði, batnaði." Pestin lýsir sér annars á þá leið að hún byrjar með óbærilegum innvortis kvölum og skjálfta; kýli, sem í hleyp- ur kolbrandur, koma á líkamann, helzt nárana; tungan verður svört og þornar upp og kolbrandur í lungunum veldur daunillum andardrætti. Þessu fylgdi oft ógurleg blóðspýja og þar með var dauð- inn vís. Veikin var afskaplega smitandi og strádrap fórnardýr sín. Meðgaungu- tími veikinnar er oftast 3—4 dagar, en stundum þó skemmri, ef pestin er skæð, jafnvel aðeins tæpur sólarhringur. Þá er oftast um þá tegund að ræða sem kölluð er lungnapest og veldur nokkurs konar lungnabólgu. • Pestis orientalis, pest eða svartidauði, sem er skæðasta sótt sem sagan kann frá að greina, hefur verið landlægur ógnvaldur í Austurlöndum um aldarað- ir. „Hönd Drottins lá þungt á Asdód- mönnum, hann skelfdi þá og sló þá með kýlum — Asdód og héraðið um- hverfis", segir í 5. kap. 1. Samúelsbók- ar, og þar og í 6. kap. segir nánar frá þessum raunhæfu aðgerðum guðs á þann hátt að bersýnilegt er talið að um pestina sé að ræða. T. d. er þar vikið að kvillanum í músum eða rottum, sem laungum hafa verið skæðustu smitber- ar veikinnar. Prókópíus, býzanskur sagnaritari við hirð Jústiníans keisara (á 6. öld e. Kr.) getur um skæða drepsótt sem gekk um öll lönd sem þá voru kunn í menningar- heiminum; einkenni pestarinnar koma þar glöggt fram; t. d. getur hann um kýlin í nárunum. — Eftir það getur pestarinnar Ækki hér í álfu fyrr en á 14. öld. Talið er að hún hafi komið í Mið-Asíu um 1352 og þaðan breiddist hún út eins og eldur í sinu. Til Evrópu barst hún fljótlega eftir verzlunarleið- um. Á árunum 1348—1353 geisaði hún um Norðurálfuna, og nafnið Svartidauði á í rauninni aðeins við þennan faraldur, þótt menn hafi á síðari tímum nefnt pestina almennt þessu nafni. Aðförum pestarinnar fá engin orð lýst; þröngbýli í borgum, sóðaleg um- gengni, vanþekking á sjúkdómum og lækningum, sultur, kúgun og hjátrú, allt þetta gerði henni ferðina greiðari; sú trú var og almenn meðal fáfróðs al- múga að pestin væri guðs refsidómur, sem ekki mætti sporna við. Það tíðkað- ist að grafa lík innan borgarveggja og inni í kirkjum og bætti það sízt úr skák, — og þegar mannfallið jókst hlóðust þau upp í hauga úti jafnt og inni. — í mörgum borgum dóu tveir þriðju hlut- ar íbúanna úr pestinni. Heil þorp lögð- ust í eyði. Frægur franskur læknir á miðöldum, Guy de Chauliac, skrifar um þennan faraldur m. a.: „Margir voru í óvissu um orsakirnar til hins mikla mannfellis. Sums staðar trúðu menn því að Gyðingarnir eitruðu ver- öldina og drápu þá. Annars staðar var skuldinni skellt á vanskapaða vesalinga og hröktu menn þá af höndum sér. Loks höfðu menn verði um borgir og þorp og leyfðu eingum aðgáng, er ekki voru að góðu kunnir . . . ." Sem dæmi um mannfellinn má nefna, að í Neapel dóu um 6000 manns í faraldrinum, í Marseille 57000, í París 50000 og í London 100000. Þótt talið sé að þessari yfirreið pest- arinnar ljúki 1353 eða þar um bil, dó hún ekki út um sinn, því hún stakk sér niður öðru hverju fram undir 1400 í Englandi, og Þýzkalandi. Og árið 1402 heilsaði hún upp á íslendinga. Síðan land byggðist höfðu þeir aldrei hlotið neitt áfall er komst í hálfkvisti við hana; en upp úr þessum aldamótum og allar götur síðan urðu margar nauðir til að vekja þeim dreyra. Að áliðnu sumri 1402 kom út í Hval- firði Einar nokkur Herjólfsson „með það skip er hann átti sjálfur". Einar þessi var að flestra hyggju íslendíngur; þó hafa menn hreyft við þeim mögu- leika að hann hafi verið norskur, en hér skal einginn dómur á þetta lagður. Á skipi sínu flutti Einar með sér drep- sóttina miklu; menn sögðu að hún hefði komið úr bláu klæði, fyrst líkust fugli en síðan liðið til lofts sem reykur. Ef menn kæra sig um, er vandalaust að útskýra þessa sögusögn og óþarfi að telja hana til lyga, því fuglinn í klæðinu minnir allmikið á smitberann, rottuna; ¦WM&ámm. 12 FALKINN