Vikan


Vikan - 03.02.1966, Blaðsíða 21

Vikan - 03.02.1966, Blaðsíða 21
mikið lengur. Á endanum verðið þér að gefast mér á vald, jafnvel þött ég verði að neyða yður til þess. Vöðvar hans voru eins og stál og meiddu hana, þegar hann þrýsti henni að hörðum brjóstkassa sinum. — Þér gætuð gert mig að óvini yðar, sagði hún. — Ég er ekki svo viss um það. Ég hafði rangt fyrir mér, þegar ég áleit, að hjarta yðar myndi vakna fyrir mér, ef ég yrði þolinmóður. Tilfinningarnar ráða ekki yfir yður. Þér þurfið að kynnast þeim, sem ætlar að ná tökum á yður, áður en þér hlýðið skipunum hans. Aðeins eftir að hann hefur yfirunnið yður, verðið þér honum trú. Aðeins, þegar ég hef sigrað hold yðar, hef ég sigrað hjarta yðar. Hann bætti við í kvörtunartón: — Ó, hvílíkri kvöl leynd þessa líkama fyllir mig! Angelique var eins og dofin. — Ég get ekki haldið svona áfram heldur, sagði hún við sjálfa sig og féll í einskonar þreytumók. ■—• Þegar þér eruð orðin mín, þegar ég hef unnið yður, annaðhvort með yðar samþykki eða með valdi, veit ég að þér munuð aldrei yfir- gefa mig, þvi að við tvö vorum sköpuð hvort fyrir annað, og til að stjórna heiminum á sama hátt og Adam og EVa forðum. — Svo sagði Madame de Montespan með nokkurri vissu, sagði Ange- lique og brosti dauft. — Madame de Montespan! Hvað er hún eiginlega að hugsa? Hvaða tök hefur hún eiginlega á mér? Heldur hún, að ég sé blindur? Heldur hún, að ég viti ekki um illsku hjarta hennar, smásmugulegar njósnir og endalaust, óþolandi stoltið? Ég þekki hana eins og hún er — fögur, og stundum til nokkurrar dægradvalar. Veldur návist hennar yður óþægindum? Ég skal sópa hverri hindrun úr vegi yðar. Ef þér biðjið mig núna að losa mig við Madame de Montespan, skal hún vera komin út úr höllinni á morgun. Angelique reyndi að taka þessu eins og það væri fyndni. — Þessi valdasýning gerir mig hrædda, Sire. — Þér hafið ekkert að óttast. Ég skal gefa yöur veldissprota minn. Ég veit að þá er hann í verðugum höndum. Enn einu sinni hefur yður heppnazt að sefa ofsa minn, og enn einu sinni treysti ég yður til að velja daginn og stundina, þegar þér gefizt mér á vald. Ég vil, að tíminn lækni kviða yðar varðandi mig. Haldið þér nú ekki, að við getum kom- izt að einhverju samkomulagi. Rödd hans var biðjandi, og hann hélt ennþá um hendur hennar. — Jú, ég held það, Sire. —• Þá, einn góðan veðurdag, ástin min, vindum við upp segl og siglum til Cythera, eyjar ástarinnar.... Dag nokkurn.... Lofið mér því. Milli kossa hans muldraði hún: — Ég lofa því. Einn góðan veðurdag myndi hún krjúpa frammi fyrir honum og segja: — Hér er ég.... og hún myndi leggja enni sitt í hinar konunglegu hendur. Hún vissi, að það var óumflýjanlegur kafli á vegi framtíðar- innar. Nú, þegar hún var laus við þá hættu, sem ógnaði lífi hennar, lagaðist vitneskjan um þessa ást á hana eins og mara og olli henni á vixl ótta og sigurgleði. Yrði það á morgun? Eða síðar? Svarið var í hennar höndum, og þó lét hún kylfu ráða kasti. 28. KAFLI Angelique eyddi þremur dögum í Paris I ýmiskonar verzlunarvið- skipti með Colbert. Hún kom aftur heim til húss síns, seint um kvöld. Fyrir framan Hótel de Beautreillis var betlari á reiki í bláleitu myrkri tunglskinslausrar júnínætur. Þegar hún kom nær, sá hún að þetta var Harðabrauð. —• Farið til Saint-Cloud! Farið til Saint-Cloud! sagði hann með rámri röddu. Hún reyndi að opna húsdyrnar, en hann hindraði hana. — Farið til Saint-Cloud, eins og ég segi. Þar er nokkuð á seyði. Ég var einmitt að koma þaðan í vínkerru. Það er skemmtun þar í kvöld, svo farið.... — Mér var ekki boðið til Saint-Cloud, Harðabrauð. — Þar eru fleiri sem ekki hafa verið boðnir.... Dauðinn. Og það er honum til heiðurs, sem veizlan er haldin í kvöld. Farið sjálf og sjáið.. .. Allt í einu datt Angelique Florimond í hug. Blóðið fraus í æðum hennar. — Hvað gengur á? Hvað veiztu? En gamli flækingurinn flýtti sér tautandi í burtu. Angelique hrópaði á ekilinn að aka henni til Saint-Cloud. Hún hafði fengið nýjan ekil, sem áður haíði unnið fyrir de Chevreuse hertoga- frú, og var heimspegilegrar sinnaðri en fyrirrennari hans. Hann lét sér nægja að geta þess, að ferðalag í gegnum skóginn á þessum tíma sólarhrings væri að bjóða hættunni heim. Án þess að fara út úr vagn- inum, lét hún vekja þrjá þjóna sína og Roger þann fjórða. Þeir vopn- uðust og stigu á bak hestum sínum til að verja vagninn, sem stefndi í áttina til Saint-Honoré hliðsins. Trjápöddurnar klingdu eins og sleðabjöllur i myrkum garðinum. Taugar Angelique voru ekki i sem beztu ásigkomulagi fyrir, en þetta hljóð æsti þær til muna. Hún brá höndum fyrir eyrun til að reyna að útiloka það. Og þegar þau komu fyrir beygju á veginum, blasti við sveitasetur Monsieur de Orléans, og það sindraði fyrir innan gluggana, þegar kyndlarnir voru bornir fyrir þá. Á hlaðinu var mikið af vögn- um og hliðin voru galopin. Þarna var eitthvað á seyði, en það var engin veizla. Skjálfandi af áhyggjum, stökk hún út úr vagninum og hélt að útidyr- unum. Þar var engin hirðsveinn til að taka við skikkju hennar eða spyrja hana hvað hún vildi, svo síðla kvölds. En anddyrið var fullt af ruglingslegu fólki, sem flýtti sér úr einu horninu I annað og hvíslaðist á. Angelique kom auga á Madame Gordon-Huntly. — Hvað gengur á? kallaði hún til hennar. Skozka konan lyfti höndunum hjálparvana. — Madame er dáin. Svo hvarf hún bak við dyratjald. Angeiique þreif í handlegginn á þjóni: — Madame dáin? Það er ó- hugsandi. Hún var fullhraust í gær. Ég sá hana dansa i Versölum. —• Það var eins í dag. Klukkan fjögur hló hennar hágöfgi og var hin ánægðasta. Svo drakk hún bolla af kaffi og var þegar i stað gripin óbærilegum verkjum. Madame Desbordes, ein af hirðmeyjum prinsessunnar, lá endilöng á sófa og andaði að sér ilmsöltum. Hún hafði rétt raknað úr öngviti. — 1 sjötta sinn I kvöld, vesalingurinn, sagði Madame de Gamaches. — Hvernig stendur á þvi? Drakk hún af sama kaffibollanum? — Nei, en hún lagaði kaffið. Hún hefur verið sökuð um þetta hræði- lega slys. Madame Desbordes var smám saman að ná sér. Hún tók að æpa móðursýkislega. — Reynið að hafa stjórn á yður, bað Madame de Gamaches. — Þér eruð ekki sek um neitt. Reynið að minnast þess hvort þér suðuð vatnið. Ég náði í það og Madame Gordon rétti henni kaffið, i hennar sérstaka bolla, en vesalings hirðmærin virtist ekki skilja það sem við hana var sagt. Hún hélt áfram að væla: — Madame er dáin! Madame er dáin! — Við vitum það öll, sagði Angelique. — Kom læknir til hennar? — Þeir komu allir, hneggjaði Madame Desbordes. -— Konungurinn sendi sina eigin lækna; þeir eru allir hér. Hér eru allir. Mademoisellg er hér. Monsieur er hér. Drottningin.... — Ó, í guðanna bænum, greip Madame de Gamaches fram í fyrir henni. Hún var einnig í þann veginn að fá móðursýkiskast. Meðan þær voru að reyna að fá einhverjar upplýsingar, kom Monsieur í eigin persónu út úr ibúð Madame, í fylgd með Mademoiselle de Montpensier. —• Frændi, sagði hún ofsafengin. — Þér verðið að minnast þess, að Madame er að deyja. Talið við hana um guð.... — Skriftafaðir hennar er hjá henni, mótmælti Philippe de Orléans lágt. Með kæruleysislegu látbragði lagfærði hann föt sin. Af öllum við- stöddum virtist hann rólegastur, en hann var ekki laus við þráann í Grande Mademoiselle og komst ekki hjá að hlusta á hana. Hún hnykkti reiðilega til höfðinu. — Skriftafaðir hennar! Mér þætti illt, ef ég yrði að ganga fyrir guð minn án nokkurs undirbúnings annars en af hendi þess aumingja. Skriftafaðir hennar! Það varð að senda honum vagn, svo allt fólkið sæi hann ekki koma gangandi. Það eina, sem mælir með honum, er að hann hefur eitthvert fegursta skeggið í landinu, og það er allt. Þegar dauðinn.... hafið þér nokkurn tíma hugleitt, hvað það þýðir að deyja, frændi? Monsieur var að skoða neglurnar á fingrum sér. Hann andvarpaði þreytulega. — Það skuluð þér vita, að yðar tími kemur einnig, hrópaði Made moiselle og var farin að kjökra. — Þá hafið þér nægan tíma til að skoða á yður fingurna. Ó, vesalingurinn minn, bætti hún svo við, þegar hún kom auga á Angelique, og benti henni að koma. Hú lét fallast niður á bekk: — Bf þér hefðuð aðeins getað séð þetta! Allt fólkið hrannaðist í kring um Madame, þvaðraði og kjaftaði, eins og það væri statt við leiksýningu. Skriftafaðir hennar kann ekki annað en að strjúka á sér skeggið og tuldra einhvern barnaskap. — Reynið að hafa stjórn á yður, írænka. sagði Philippe d’Orléans fullur meðaumkunar. — Látum okkur nú sjá — hvern getum við fundið til að vera hjá Madame siðustu mínúturnar? Aha, ég hef Það: Föður Bossuet. Madame hafði oít gaman af að tala við hann, og hann er trúar- ráðgjafi krónprinsins. Ég skal senda eftir honum. Hann sneri sér að þjónum sinum og gaf fyrirskipanir. — En það má engan tima missa. Hver veit, hvort Madame verður enn á lífi, þegar Bossuet kemst hingað? Er enginn hér í Saint-Cloud? — Drottinn minn, er ómögulegt að gera yður til hæfis? Ein hirðmeyjanna mælti með föður Feuillet, kórbróður í Saint-Cloud, sem naut nokkurs álits. — Það er vondur maður, hreytti bróðir konungsins út úr sér. — Kallið á hann ef þér viljið, en ég vil ekki hafa neitt með það að gera. Ég hef Þegar kvatt Madame. Hann snérist á háum hælunum og gekk í áttina að stiganum ásamt fylgdarmönnum sínum. Florimond, sem var þeirra á meðal, sá móður sina og kom til að kyssa á hönd hennar. — Þetta er leiðindamál, mamma, sagði hann. — Madame var byrlað eitur. — Fyrir guðs skuld, Florimond, hættu að tala um eitur. — En það var eitrað fyrir hana, ég veit Það. Það segja allir, og ég var þar sjálfur. Monsieur ætlaði að fara til Parísar, og við vorum komn- ir út á hlað með honum. Rétt í sama bili kom Madame de Mecklenberg. Monsieur heilsaði henni og fór með henni að hitta Madame, sem einnig kom út. Rétt í því rétti Madame Gordon henni bolla af ísköldu kaffi, eins og hún var vön að fá á hverjum degi um þetta leyti. Um leið og hún hafði drukkið úr honum, greip hún um síðuna og stundi: — Æ, hvað ég finn til! Ó, þetta er hræðilegt! Ég þoli þetta ekki. Kinnar hennar höfðu veriö rjóðar, en nú náfölnuðu þær. —• Hjálpið mér burtu, sagði hún. — Ég get ekki staðið lengur. Svo beygðist hún í keng. Ég sá hana sjálfur. — Drengurinn hefur rétt fyrir sér, sagði ein af hinum yngri fylgdar- meyjum Madame. — Um leið og Madame var komin í rúmið, sagði hún okkur, að hún væri viss um, að henni hefði verið byrlað eitur, og bað um eiturvarnarlyf. Fyrsti herbergisþjónn Monsieurs færði henni snáka- olíu, en það virtist aðeins auka á þjáningar hennar. Þetta hlýtur að hafa verið eitthvað hræðilegt, nýtt eitur. Grande Mademoiselle greip fram í: — Talið ekki svona barnalega. Hver skyldi hafa óskað að eitra fyrir jafn dásamlega konu og Madame er? Hún átti enga óvini. Þær þögnuðu, en héldu engu að síður áfram að hugsa um það, einnig Mademoiselle de Montpensier. Eitt nafn var á allra vörum — nafn eiginmanns Madame eða þá ástvinar hans í útlegðinni. Mademoiselle gekk íram til að heilsa föður Feuillet, sem kom rétt í Þessu. — Hefði ég ekki komið til skjalanna, faðir, hefði vesalings prins- essan farið til fundar við skapara sinn eins og villutrúarmaður. Komið, ég skal fylgja yður. Madame de Gamaches sagði frá því í hvíslingum, hversvegna Mon- sieur geðjaðist ekki að föður Feuillet. Hann var harður, ósveigjanlegur prestur, sem vel mátti heimfæra upp á Þessa grein: „Ég mun flytja orð Þitt, einnig fyrir konungum og ég mun ekki fyrirverða mig.“ Einu sinni var honum boðið í mat á föstunni, hér í húsi bróður konungsins. Mon- sieur tók litla kexköku og spurði: — Þetta er ekki föstubrot, er það? — Étið heilan uxa, en verið kristinn, svaraði presturinn. Stúlkan skellti tungu í góm. Hreyfing við dyr íbúðar prinsessunnar Framhald á bls. 31. VIKAN 5. tbl. 21

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.