Vikan


Vikan - 09.07.1981, Page 46

Vikan - 09.07.1981, Page 46
Jónas Kristjánsson skrifar um veitingahúsin Arnarhóll hefur náö forustunni Eg óttaðist, að Arnarhóll væri á undan sinni samtið í landi, þar sem fólk á villigötum skrifar lesendabréf um, að ekki séu 111 réttir matseðils allir á boðstólum í einu, og aðrir kvarta um, að þeir hafi ekki náð að kýla vömbina. En Arnarhóll var búinn að vera sneisafullur dag eftir dag í tvær vikur, þegar þetta var skrifað. Það vekur vonir um, að nógu margir íslendingar kunni að meta nýjungar og framfarir, sem Arnarhóll sýnir betur en aðrir veitinga- staðir. Aðskilnaðarstefna Á Arnarhóli er í fyrsta sinn hér á landi skilið milli máltíðar, formála hennar OG eftirmála. Á jarðhæðinni sötrar fólk fordrykki, ræðir matseðilinn og kemur niðurstöðunni á framfæri. Síðan er þvi vísað niður i matsal i kjallara. Að máltíð lokinni gengur fólk til sérstakrar kaffistofu inn af matsalnum, þar sem koniak og vindlar eru vel við hæfi. Þvi miður kveikja þó sumir í tóbaki sínu inni í matsalnum og spilla þannig bragðskyni hinna, sem kunna að meta mat. Dökkur panill og ítalskur bar gefa for- drykkjastofunni rólegan og sam- ræmdan svip. Við búumst við að sjá þennan panil aftur niðri i matsalnum, en þá koma þar baðflísar okkur á óvart, ekki mjög áberandi, en þó umdeilan- legar. Að öðru leyti er matsalurinn fallega einfaldur. Skemmtilegar eru nýtískulegar ljósakrónurnar, sem stinga engan veginn i stúf við persnesk smáteppi, klassisk húsgögn itölsk, bláa dúka og borðbúnað af vönduðustu gerð. Kaffistofan kemur svo enn frekar á óvart. Við gætum búist við breskri bókastofu með dökkum panil eins og uppi á götuhæð og glerjuðum bóka- skápum. En hún lítur þá út eins og bar inn af hótelanddyri og skartar þrenns konar veggfóðri. Form og röðun sófa í kaffistofunni er með þægilegasta móti. Hins vegar heyrist of mikið á milli hópa. Og litlu sófaborðin rúma engan veginn sex kaffi- bolla með tilheyrandi, sex koniaksglös og öskubakka, hvernig sem reynt er. Óvenjulegur matseðill Vínlistinn er ekki langur, en býður þó upp á allt, sem best er fáanlegt í Rikinu. Þar á ofan eru öll vondu vínin látin eiga sig, svo að enginn ætti að fara illa út úr vali sínu, þótt hann hafi ekki hugmynd um, hvað hann er að gera. Matseðillinn með 111 réttunum er ákaflega fróðleg og spennandi lesning, Hann felur í sér eins konar efnisyfirlit alls hins óvenjulega, sem Skúli Hansen matreiðslumeistari treystir sér til að gera eftir aðstæðum hverju sinni. Skúli býður ótrauður upp á rjóma- soðinn hlýra í anis, kampavínssoðna skötu með spínatkremi, súrsætan stein- bit með hrisgrjónum, grillsteiktan spærling með estragonsósu, glóðar steikta og vínlegna blálöngu, pönnusteiktar kinnar og reyksoðna grálúðu. Hann býður líka upp á ölgratineraða hnýsu með rósakáli, hvalbuff með grænum pipar, hrefnusteik í madeira með blaðlauk, svartfuglsbringu með portvínssósu, rjúpu með lyngsósu og pönnusteiktar dúfur í romnú með trönu- berjasósu. Nú má ekki skilja þetta svo, að menn geti valið um allt þetta og hundrað aðra rétti á einu bretti. Á hverjum degi er aðeins boðið upp á tvo forrétti, tvær súpur, fjóra sjávarrétti, fjóra kjötrétti og tvo eftirrétti af stóra seðlinum. Ég geri ekki ráð fyrir, að sjaldséðustu og forvitnilegustu réttir 111 nafna skrár- innar komi oft fyrir á stuttum matseðli dagsins. En af fyrri reynslu af Skúla hef ég trú á, að hann reyni að láta fasta seðilinn standa undir lengd. Nýja, franska línan Með litlum, tólf rétta seðli dagsins á í hvert skipti aðeins að bjóða upp á þau hráefni, sem best eru í það sinnið. Ennfremur á smæðin að gera kleift að vanda betur til matreiðslunnar en hægt væri, ef hiðdaglega framboð væri meira. í gamla daga montuðust veitingahús með langa matseðla, sem byggðust á óhóflegri notkun frystrar og niður- soðinnar vöru. Arnarhóll er hins vegar á hinni nýju, frönsku „Nouvelle Cuisine" línu ferskra hráefna og stuttra matseðla. Franska línan kemur líka fram i matreiðsluaðferðum á borð við gufu- suðu, sem varðveita bragð, og í stuttum eldunartímum, sem einnig varðveita bragð. Hún kemur fram í áherslu á fisk og grænmeti og í takmörkun hveitimalls og djúpsteikingar. Þessi stefna hefur á einum áratug farið sigurför um stjörnustaði Evrópu, allt suður undir Róm og norður undir Kaupmannahöfn, auk fótfestu i Banda ríkjunum. Það var því orðið timabært að fá fyrsta ákveðna fulltrúa frönsku línunnar i Reykjavik. Auðvitað líkar sumum ekki stefnan. Sumir telja marklaust að fara út að borða, nema þeir geti tæpast staðið frá borðum fyrir offylli sakir. Slíkir gestir hafa komið fram með óréttmæta gagnrýni á aðeins hæfilega stóra skammta á Arnarhóli. Meðan menn eru að átta sig á, að miklu betra er að standa sæmilega hressir upp frá borðum, er þó hægt að fara milliveg og biðja um ábót, sem yfir- leitt er greiðlega veitt og kostar ekkert nema auðvitað aukakílóin. Sjávarréttir og lambakjöt Humarsúpa og laxasúpa voru báðar mjög góðar, en i þykkasta lagi, ekki vegna hveitis, heldur rjóma. Gratiner- aðar gellur voru góðar. Sömuleiðis hörpufiskur með hráum sveppum, papriku og hrisgrjónum, fiskurinn i meyrara lagi, Bestir prófaðra forrétta reyndust vera grásleppuhrogn með piparrót i bakaðri kartöflu og sérlega bragðfinar rækjur í avokado-ávexti. Hrásalat var gott i tveimur prófunum, en þó skorið niður of löngu fyrir máltíð í annaðskiptið. Gufusoðin rauðspretta með rækju- sósu og rjómasoðin rauðspretta með estragonfroðu voru báðar mjög góðar, einkum hin síðarnefnda, sem var borin fram með spinati. Gufusoðinn karfi með plómusósu og hrisgrjónum var heldur bragðdaufari. Léttsteikt kálfafilet með estragon- froðu og steiktu brokkáli og sterkum pipar, svo og pönnusteikt kálfafilet i kampavíni með engifer voru ekki í frásögur færandi, né heldur súrsætur unghaninn. Nautalundir „a la creme" voru hins vegar með þeim bestu. sem ég hef smakkað hér á landi. Og léttsteikt lambabuffið var i algeru hástigi, þótt sumir aðrir kokkar hafi lika náð tökum á lambakjöti. Þetta var óvenjulega meyrt og bragðgott. Marineraðir, ferskir ávextir voru góðir. Sömuleiðis ferskar melónu- sneiðar. Bandarísk bláber með rjóma voru bragðdauf eins og við mátti búast. En kirsuberja-kraumisinn var alveg frábærlega góður. í heild er rétt að benda á sjávarrétti og lambakjötsrétti Skúla umfram aðra rétti hans. Nema auðvitað eitthvað annað sé einstaklega nýstárlegt á matseðli dagsins, eins og dæmi voru tekin um af fastaseðlinum framar i þessari grein. Hæsti verðflokkur Þjónustan á Arnarhóli hæfir mat og umhverfi. Uppi tekur sérstakur móttökustjóri á móti gestum. Siðan taka þjónarnir við, mjög svo virðulega til fara. Fagleg framkoma þeirra var óaðfinnanleg, en ekki sérlega persónuleg. Arnarhóll er i efsta verðflokki islenskra veitingahúsa með Sögu. Nausti, Holti og Versölum. Meðalverð forrétta var 43 krónur, súpa 31 króna, sjávarrétta 65 krónur, kjötrétta 120 krónur og eftirrétta 45 krónur. 46 Vikan 28. tbl,

x

Vikan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.