Vikan - 28.08.1986, Page 58
Bifhjólasamtök lýðveldisins
Þú ert á ferð eitt fimmtudagskvöld. Kemur af Breiðholtsbrautinni á leið
í Kópavog og rökkvað úti við. Þá sérðu eineygt farartæki aka á móti þér
ofan Smiðjuveginn. I rauninni sérðu aðeins ljósið, hvítt ljós á hraðri ferð
niður brekkuna, ljós sem beygir af leið og þýtur inn í einn botnlangann.
Þetta var bifhjól en ökumaðurinn sást naumast, rétt glampaði á hjálminn
en hann hlýtur að hafa verið svartklæddur. Það var auðvitað. Einn af
þessum leðurtöffurum. Og þú spyrð í hljóði: Ætti ég að elta? Undir niðri
dáistu að þessum farartækjum og því sem þeim fylgir, en þú ert hræddur.
„Hjá okkur er árið 3. Sniglar, bif-
hjólasamtök lýðveldisins voru
stofnuð 1. apríl 1984, félagar eru nú
um 220 og fjölga sér mjög hratt.
Markmið samtakanna er að sameina
bifhjólafólk og vinna að hagsmuna-
málum þess og fara í ferðalög
innanlands sem utan. Við höldum
auk þess árshátíð og mýmargar aðrar
samkomur og gefum svo út blað
mánaðarlega í brotinu A5 sem heitir
Sniglafréttir. Það er málgagnið okk-
ar. Samtökin eru öllum opin sem eru
orðnir 17 ára, það er ekkert skilyrði
að menn eigi hjól. Þú mátt þess
vegna eiga Trabant. Og það eru eng-
in stærðarlágmörk á hjólum. Þau
koma hins vegar af sjálfu sér. Hjólin
verða að vera það stór að menn drag-
ist ekki aftur úr á ferðum. Yfirleitt
byrja menn á minni hjólum og
stækka síðan við sig. Mikið vill
meira. Það er líka til í dæminu að
menn komi inn í samtökin á drullu-
möllurum, eins og við köllum þá, það
eru hjól til að ausa upp drullu, en
þeir eru komnir á götuhjól innan tíð-
ar; þeir sjá að það er hamingjan. Við
leggjum ekki í vana okkar að spæna
upp nýgræðinginn á örfoka landinu.
Við keyrum á malbiki."
A malbikuðu planinu fyrir framan
veitingastaðinn standa þessi stóru
gljáfægðu hjól í röðum en fyrir innan
er félagsfundur hjá Sniglum að hefj-
ast. Þið ljósmyndarinn reynið að
vera kúl þar sem þið klofið milli fé-
lagsmanna og komið ykkur fyrir við
borð úti í horni. Ykkar maður er
ekki kominn og þið bíðið, horfið út
um gluggann þar sem ný hjól bætast
stöðugt í hóp þeirra sem fyrir eru og
svo brosið þið í kampinn þegar tveir
naggar á Hondu 50 dóla nokkra
hringi, virða tryllitækin fyrir sér úr
hæfilegri fjarlægð en gefa síðan í
botn í burtu. Flestir í kringum ykkur
innandyra eru íklæddir svörtum leð-
urjökkum og margir aðsniðnum
buxum úr sama efni. Á sumum jökk-
unum eru merki samtakanna og á
örfáum blárauður borði en að klæðn-
aðinum slepptum er þetta mis-
litur hópur. Allir bíðandi og líka
þið.
„Það er engin ástæða fyrir hinn
almenna borgara að óttast þetta
svartklædda leðraða fólk því þetta
eru öðlingar upp til hópa. Meðlimir
samtakanna eru á aldrinum frá því
að vera ekki farin að spretta grön
upp í að vera sköllóttir. Sá elsti fer
að komast á sextugsaldur. Svo má
ekki gleyma því að hér eru þónokkr-
ar píur, eða það er nær að tala um
glæsikvendi, sem keyra um á stórum,
kraftmiklum hjólum. Þær eru fleiri
en ein og íleiri en tvær og þar fyrir
utan eru margar í samtökunum sem
eru ekki komnar á hjól, ennþá. Þetta
er fólk úr öllum starfsstéttum; hár-
greiðslufólk, skemmtikraftar, sjó-
menn, í raun þverskurður af
þjóðfélaginu. Til dæmis höfum við
okkar eigin hljómsveit, Sniglaband-
ið. Það æfir af krafti og hefur haldið
nokkra dansleiki, meðal annars á
Þórshöfn um áramótin og spilar á
Þjóðhátíð í Eyjum. Svo má heldur
ekki gleyma því að þetta eru lands-
samtök. I þeim er fólk hvaðanæva
af landinu. Þetta er ekki klúbbur
heldur ein samtök og engar deildir.
Og starfsemi okkar er vel skipulögð.
Fimrn manna stjórn fer með öll mál
en hún er kosin ásamt fimm vara-
mönnum á árlegum aðalfundi. Eitt
af langtímamarkmiðum Snigla er að
koma íslensku þjóðinni á mótor
hjól fyrir aldamót."
58 VIKAN 35. TBL