Heima er bezt - 01.01.1960, Page 13

Heima er bezt - 01.01.1960, Page 13
stöðum, meðan Gísli var þar. Gerði Símon þá vísu um allt fólkið á heimilinu, nema Gísla. Vinnukona nokkur þar á staðnum segir þá við hann eitthvað á þá leið, að ekki megi hann gleyma smalanum. Símon tekur vel í það og segir þegar: Um fjöll og dali fóthvatur fer sem hvirfilbylur gæða halur gagnlegur Gísli smali Jóhannsbur. Þegar Gísli fór frá Þorbergsstöðum var hann orðinn 17 ára að aldri, og byrjar hann þá búskap um vorið á fjórða parti úr jörðinni Kambsnesi í Laxárdal. Bústofn- inn var eitt kúgildi (6 ær), sem fylgdi jörðinni eða partinum, og svo áttu þau móðir hans og hann þrjár ær, einn hest og kú. Ástæðan til þess að hann byrjaði svo snemma bú- skap, mun aðallega hafa verið sú, að Guðbjörg móðir hans hafði þá eignazt annan son, Einar að nafni, með Eyjólfi Einarssyni, skósmíðanema í Stykkishólmi. Hann dó 19 ára að aldri. Fyrir henni lá þá ekkert annað, fremur en fyrr, en hrekjast út úr hreppnum, því þar var henni ekki vært fyrir.þeim, sem hreppsmálum réðu. Á þessum tímum var fátækt mikil víða í landinu, og einnig í Laxárdal. Þeir fátækustu höfðu þá lítið annað matar en grasagraut að leggja sér til munns, jafnvel svo tímum skipti. Allt varð að spara og einnig ljábrýnin, því innflutningur þeirra var mjög takmarkaður og kaupgetan líka lítil hjá almenningi. Og til þess að spara brýnin höfðu sumir þann sið, þegar þau voru orðin svo stutt að þeir gátu ekki brýnt með þeim, að þeir stungu stubbunum upp í sauðarhorn, til þess að nýta þá sem bezt út. Á þessu tímabili, eða árið 1895, var fyrsti vegarspott- inn lagður frarn í Laxárdal á milli Svarfhóls og Grafar. Og þeir sem unnu þá að þeirri vegagerð, báru ofaní- burðinn í pokum á bakinu. Á þessum árum urðu allir hinir fátækari menn að leita meira og minna eftir atvinnu utan heimilis til þess að geta lifað og þeirra á meðal var Gísli. Atvinnu var þá helzt að fá, þegar skip komu, við uppskipun á vörum í Búðardal. Þá var engin bryggja komin í Búðardal og varð því að vaða í klof og mitti fram að uppskipunar- bátnum og aftur til lands með 200 pund á bakinu, og þá upp háan stiga er lá á loft upp þar í vöruhúsinu. Eitt sinn kom það fyrir að uppskipunarbáturinn strandaði á smá skeri þar framundan. Þegar þetta skeði var Bogi Sigurðsson kaupmaður í Búðardal. Hann bið- ur þá Gísla að vaða fram að bátnum og losa hann, ef kostur væri. Gísli fór þegar og veður svo langt út að hann nær til bátsins og náði þá sjór honum allt að hönd- um. Hann ýtti þá snöggt á bátinn frá sér, en hann var lausari á skerinu en Gísli hugði. Gísli skall því í sjó- inn, en missir þó ekki handfestu af borðstokk bátsins og getur hann þá sveiflað sér upp í bátinn á síðustu stundu. En eftir þetta bað var hann allur holdvotur og Pálssel. þannig vann hann samt til kvölds, eins og ekkert hefði komið fyrir. Aldamótaárið flutti Gísli frá Kambsnesi fram að Hömrum í Laxárdal. Þar bjó þá Jón Jónasson, síðar hreppstjóri. Hann var einnig á tímabili starfsmaður hjá R. P. Riis verzlun, Borðeyri, markaðshaldari o. fl. Gísli tekur þar hálfa jörðina á leigu, og eru þar þá peningshús uppistandandi yfir einar 20 kindur. Og svo voru bæjarhús af sér gengin að ánamaðkar og annar álíka fénaður hrundi niður í rúmin, þar sem fólkið svaf. Þegar hér er komið frásögn, er Gísli giftur Ólínu Guðjónsdóttur frá Staðarhóli í Saurbæ, Ólafssonar. Hún var systir Þóru Guðjónsdóttur veitingakonu á Borðeyri. Ólína var mjög heilsulítil og lá hún í rúm- inu meiri hlutann af þessu eina ári er þau voru á Hömrum. Og hafa áðurnefnd húsakynni að líkindum ekki bætt þar um. Nú þegar þetta er ritað (1959) er Gísli orðinn 84 ára og kominn aftur að Lambastöðum, eftir 78 ár. Hann hefur nú verið þar í húsmennsku í nokkur ár, sem kalla má þó búskap, þótt í smærri stíl sé en áður var, og hefur hann þá verið við búskap í 67 ár, eða allt að því sjö tugi ára. Gísli var glæsilegur maður á yngri árum, eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Hann var einn af þeim mönnum, sem grunurinn leyndist í um mikil fyr- irheit, fyrirheit, sem urðu þó aldrei ráðin nema að nokkru. Og ætti þar við það sem Stefán G. segir:----- Það gull, sem að óþeltkt í aurunum lá og atvikið gróf ekki til.--- Þjóðfélagið var ekki að grafa eftir slíkum hlutum á þeim árum, eins og framangreind frásögn ber með sér. En það sem að mestu máli máske skiptir er það, að hafa aldrei glatað manninum í sjálfum sér, þrátt fyrir fá- tækt og ýmsa erfiðleika í lífinu, og finnst mér því, að vel eigi hér við, að endingu þessara lína, orð Stefáns G.: ----að lepja upp mola um lífsins stig, en láta ekki baslið smækka sig. Heima er bezt 9

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.