Heima er bezt - 01.01.1960, Page 36
Svo kyssti hún drenginn á kinnina að skilnaði. Það
var svo dásamlegt að finna falslausa vináttu aumingja
drengsins. Hann var lánsamur að komast að Þúfum,
þó að Stefán væri kaldur og stríðinn í svörum var það
hans góða hlið að halda uppi vörn fyrir þá, sem aðrir
létu afskiptalausa og hnjóðuðu í. Það þekkti hún frá
því hann var á Hofi. Hún hafði nú ekki alltaf verið
hrifin af honum blessuð maddaman þó hann væri orð-
inn bezti kunninginn hennar núna. Ojá, hann hafði
orðið það þegar hennar stóra krosstré hafði brostið.
Þegar lokið var við að stinga út fór Leifi. Kristján
sagði, að nú þyrfti að fara að skerpa sig við slóðadrátt-
inn svo túnávinnslan yrði búin þegar sauðburðurinn
byrjaði. Það var tekið vel undir það af Ásdísi. Bogga
var nú eins og hver annar aukvisi, sem aldrei var tekin
með í reikninginn. En þegar búið var að vinna tvo
daga var það húsbóndinn, sem dró sig í hlé. Bogga kom
suður að fjárhúsum til Geirlaugar, þar sem hún var að
enda við að kljúfa tað, sem henni var skilið eftir, því
hinar stúlkurnar máttu ekki missast frá túninu.
„Já, nú er ekki gott í efni,“ sagði hún. „Kristján
hætti allt í einu að slóðadraga. Sagðist vera orðinn stað-
uppgefinn að rölta þetta aftur og fram með klárinn
allan daginn. Hann fór út í kaupstað, ætlaði að reyna
að fá Gerðu eða Sveinka. Hann væri þó betri en ekki
neitt.“
„Hann álítur að hann lýist ekki þó að hann rölti
með klárinn, þó hann sé sjálfur að kveina undan því,“
sagði Geirlaug stuttlega. „Það hefur orðið ykkur til
láns. Þið hafið fengið að hætta óvanalega snemma.“
„Nei, hann sagði að við gætum malað hlössin, sem
væru þarna suður í þúfnastykkinu. Svo fór hann heim
og rakaði sig og fór í skárri fötin. En Ásdís fór heim á
eftir honum, sagðist vera jafnþreytt og hann. Ég fór
heim líka. Ekki gat ég farið að puða ein út í þúfum.
Ásdís fór að hita kaffi og bauð Kristjáni það.“
„Ekki nema það að fara að hita kaffi,“ greip Geir-
laug fram í. „Þáði Kristján það?“
„Nei, hann sagði að það væri enginn kaffitími. Hann
hefði verið búinn að segja henni hvað hún ætti að gera
meðan hann væri í burtu.“
„Hvað sagði hún þá?“
„Hún sagðist líklega ráða því sjálf hvað hún gerði.
Það væri ekki ætlun sín, að láta hann drepa sig á þræl-
dómi. Þá rauk hann út en hún drakk kaffið og ég líka.
Svo fór hún inn í rúm og fór að háskæla eins og krakki
og þar hefur hún legið síðan.“
„Skárri eru það fréttirnar, sem þú færir mér,“ sagði
Geirlaug. „Það vantaði nú bara, að hún færi að veikj-
ast. Þá yrði eitthvað til að skrafa um hérna í nágrenn-
inu og víðar. En þetta nær nú líka ekki nokkurri átt,
að hlífa ekki manneskjuvesalingnum svolítið þegar hún
er svona á sig komin.“ Hún flýtti sér heim og inn að
rúmstokknum til Ásdísar.
„Ertu lasin, Ásdís?“ spurði hún skjálfrödduð.
„Ekki get ég nú kallað það því nafni,“ sagði Ásdís.
„En það má náttúrlega ofbjóða mér eins og öðrum
manneskjum. Ef hann sjálfur er orðinn uppgefinn að
teyma klárinn, get ég verið þreytt, að raka af kappi
allan daginn eftir slóðaskrattanum.“
„Auðvitað er það engin meining að þræla svona eins
og allir verða að gera hér. Blessuð farðu heim til henn-
ar mömmu þinnar. Það er mikið lán fyrir stúlkur, sem
svona lagað kemur fyrir, að eiga foreldrahús til að
flýja til,“ sagði Geirlaug hlýlega.
„Það skrafast nú sjálfsagt eitthvað um það, áður en
ég fer héðan, gæti ég hugsað mér,“ sagði Ásdís kjökr-
andi.
„Þá skaltu bara reyna að sofna og hvíla þig vel, þá
verðurðu orðin góð á morgun,“ sagði Geirlaug. „Þetta
var vanalega ráðið, sem maddama Karen gaf fólki sínu
ef það varð lasið og það dugði oftastnær ágætlega.“
Geirlaug var blóðhrædd um að Ásdís færi að leggj-
ast á sæng, en þegar hún gætti betur að sá hún að það
gat ekki staðizt. Én það gátu fæðzt börn fyrir tímann.
Kristján kom heim rétt fyrir háttatímann. Sveinki
litli var með honum. Gerða var farin að hamast í fiski.
Það vantaði nú kannske ekki dugnaðinn og áhugann
hjá henni, konunni þeirri.
„En mér finnast heldur léleg vinnubrögðin hér heima.
Hvers vegna möluðu stelpurnar ekki hlössin, eins og
þeim var ætlað?“ sagði Kristján.
„Ég gat ómögulega látið Boggu vera eina úti. Ásdís
er sárlasin,“ sagði Geirlaug, og bætti svo við með hálf-
um huga: „Þetta dugar ekki að láta manneskjuna þræla
svona, eins og hún er á sig komin. Það getur orðið. til
þess, að hún fæði fyrir tímann. Náttúrlega kemur mér
það ekki við, en það yrði sjálfsagt til lítils sóma fyrir
heimilið."
„Hún hefur sjálfsagt vit á því að ganga ekki fram
af sér,“ anzaði hann stuttlega. Én með sjálfum sér hugs-
að hann að ekkert væri æskilegra en tilgáta Geirlaugar
gömlu reyndist rétt. Varla væri Ásdís búin að kunngera
það hver faðirinn væri. Þá myndi allt falla um sjálft
sig eins og ekkert hefði komið fyrir á óheillastundum.
Heimilisráðið dugði ágætlega. Ásdís vaknaði vel
hress næsta morgun og gekk hraustlega að ávinnslunni.
Henni var lokið þegar sauðburðurinn byrjaði. Tíðin var
köld með úrfellishryðjum. Það varð að hafa gætur
með lambfénu. Ásdís var á sífelldu rölti allan daginn
og fram á nætur. Hún var ánægð og hreykin yfir því
hvað margar ærnar voru tvílembdar úr því húsi, sem
hún hafði hirt í um veturinn. Kristján tók líka þátt í
gleði hennar og sambúðin var í bezta lagi. En Geir-
laug var dauðhrædd um að Ásdís myndi ekki komast
úr rúminu næsta morgun þegar hún hafði sörlazt renn-
vot í fætur allan daginn, en ekkert skeði. En þegar tíð-
in fór að batna sagði þessi duglega stúlka þó að þetta
hefði verið erfiður tími en ekki hefði nema einn lamb-
anginn sálazt í kastinu. En þegar sauðburðurinn væri
búinn ætlaði hún að hvíla sig rækilega. En þó þurfti að
fara að taka saman taðið, þar næst að stinga upp mó-
inn.
„Þú getur þó varla búizt við að Ásdís kasti upp úr
gröfinni,“ vogaði Geirlaug sér að segja við húsbónd-
ann þegar ráðgert var að fara í móupptekt næsta dag.
32 Heima er bezt