Heima er bezt - 01.01.1960, Síða 39
því að aldrei hleypir höfundur skáldfáknum lengra en taum-
beizli vísindanna leyfir. Bókin færir lesandanum margvíslegan
fróðleik um muni Þjóðminjasafnsins, uppruna þeirra og örlög.
Þar er rifjuð upp saga merkilegs listamanns eins og Guðmundar
smiðs í Bjarnastaðahlíð, og skýrt frá fádæma hirðuleysi um dýra
muni eins og Ögmundarbríkur. En bókin er einnig þungur á-
róður og lögeggjan um að gæta vel gamalla minja. Og þótt vér
séum ekki skyggn á sama hátt og höfundur, þá getum vér öll
haft opin augun, þar sem vér förum, og vér getum meðhöndlað
gamlar minjar með þeirri virðingu og hlýhug, sem stafar frá
hverri síðu þessarar bókar, og verið minnug þess, að allar eiga
þær sína sögu, ef til vill jafnvænlega til fróðleiks og þættir þeir,
sem hér um ræðir.
Bjöm Th. Bjömsson: Virkisvetur. Reykjavík 1959.
Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Margir biðu bókar þessarar með eftirvæntingu eftir að frétzt
liafði um verðlaun þau, sem hún var sæmd, og varla munu þeir
hafa orðið fyrir vonbrigðum við lestur hennar. Hér er stórbrotin
saga sögð á eftirminnilegan hátt, þótt frásagnargleði og orðskrúð
höfundar teygi hann stundum fulllangt. Mikil átök koma hér
fram bæði í lífi einstaklinga og þjóðarinnar, og undiraldan eru
átök nútímans, þótt sagan gerist á liðnum öldum. Hinn sögulegi
grundvöllur eru átök um auð og völd milli Guðmundar ríka á
Reykhólum og Andrésar sonar hans annars vegar en Björns hirð-
stjóra Þorleifssonar og frænda hans hins vegar. Enda þótt höf-
undur láti í það skína, að hér hafi verið annar djúpstæðari á-
greiningur en valdabrölt og auðsöfnun einstaklinga, verður sú
saga ekki trúleg. Það er erfitt að finna þjóðerniskennd hjá höfð-
ingjum þeirra alda. Inn í söguna er svo ofið ástarævintýri þeirra
Andrésar og Sólveigar Björnsdóttur. Mun nokkurs tvímælis orka
um framkomu Sólveigar á ýmsum stöðum og höfundur óþarflega
berorður í þeim efnum. Höfundur fer mjög frjálslega með sögu-
legar staðreyndir og sveigir þær til, eftir því sem skáldsögunni
hentar, en umhverfi öllu er lýst með trúverðugleik sagnfræðings-
ins. Sumir atburðirnir eru með nokkrum ólíkindum, svo sem stór-
hríðarferð Andrésar, þótt vel sé frá sagt.
Band bókarinnar er stórgallað. Eftir einn yfirlestur er það
orðið rammskakkt.
Jónas Jónsson: Aldamótainenn. Akureyri 1959. Bóka-
forlag Odds Björnssonar.
Þjóðarsögu má segja með ýmsu móti. Það má rekja hana sem
samfellda heild, er hnígur fram sem þungur straumur, er gleypir
í sig hvern smálæk, sem á vegi hans verður, og sameinar í eina
mikla móðu. En það má einnig segja hana með því að bregða
upp myndum af atburðum og þeim mönnum, sem mótað hafa
þjóðarsöguna. Hinn síðari kostinn hefur Jónas Jónsson valið í
þessari bók. Þar er brugðið upp myndum 22 manna, sem áttu
sinn þátt í að skapa sögu Islendinga á síðustu áratugum 19. aldar
og í byrjun þessarar. Vitanlega eru hlutverk þeirra á sviði þjóð-
lífsins misjafnlega stór, en öllum er það sameiginlegt að hafa
markað spor í þjóðarsögunni og hafa látið eftir sig gróinn reit.
Þeir eru allir jákvæðir, og þannig er einnig frásögnin öll. Þarna
er rætt um forystumenn í stjórnmála- og athafnalífi. Þar eru
menningarfrömuðir og skáld, konur, sem fremstar stóðu í barátt-
unni fyrir menntun og réttindum kvenna, svo að eitthvað sé
nefnt. Enginn vafi er á því, að margir þessir menn eru með öllu
ókunnir þeirri kynslóð íslendinga, sem nú er að vaxa úr grasi, og
jafnvel mörgum þeim, sem þegar eru vaxnir, en njóta góðs af verk-
um þeirra og baráttu. Ekkert lestrarefni er betur fallið til að
vekja unglinga til umhugsunar og ábyrgðar en dæmi horfinna
ágætismanna. Þau vekja löngun til að líkja eftir þeim. Frásagnar-
stíllinn er léttur og lifandi og lengd þáttanna mjög í hóf stillt,
svo að hvergi verði þar bláþráður á. Kann Jónas Jónsson þann
frásagnarstíl flestum betur. Þættir þessir eru sannkölluð Hungur-
vaka, til þess fallin að vekja löngun lesandans til að vita meira og
lesa fleira um þessi efni. Slíkt er meginstyrkur bókarinnar. Nokkr-
ar villur, sem slæðzt hafa inn, eru lýti á jafnágætri bók, sem ætti
að verða lesin af öllum, sem deili vilja vita á baráttusögu þjóðar
vorrar á merkilegu tímabili. Framhaldi er heitið, og er þess að
vænta, að þess verði ekki langt að bíða.
Vilhelm Moberg: Vesturfaramir. Jón Helgason þýddi.
Reykjavík 1959. Bókaútgáfan Norðri.
Skáldsaga þessi er upphaf mikils sagnabálks, sem fjallar urn
vesturferðir Svía og landnám þeirra í Ameríku á síðastliðinni öld.
Hér segir frá dálitlum hópi bændafólks frá Ljóðhúsum í Smá-
löndum, sem kastar sér út í óvissuna í von um eitthvað betra en
var heimafyrir. Aðdraganda ferðarinnar, árekstrum við samfé-
lagið og örðugleikum við að draga fram lífið er lýst með skýrum
dráttum, og lesandinn kynnist mætavel lífinu í sænskri sveit um
miðja síðastliðna öld. Höfundur deilir harðlega á margt, sem
miður fer i þjóðlífinu og dregur vissulega fram margt af því, sern
miður hefur farið. Þá er lýst vesturferðinni á lélegum flutninga-
dalli, og eru margar lýsingar þar stórvel gerðar. Þetta er þrótt-
mikil skáldsaga, nokkuð hrjúf víða, bæði að efni og orðfæri, en
víst er um það, að engum verður sama um fólkið, og margur mun
bíða með óþreyju eftir framhaldinu um það, hvernig því farn-
aðist í nýja landinu. Ekki getur hjá þvi farið, að oss Islendingum
renni blóðið til skyldunnar og verði hugsað til vesturfaranna ís-
lenzku og örlaga þeirra. Gegnir furðu, hversu lítt íslenzkir höf-
undar hafa valið sér söguefni þaðan, svo margar og miklar sögur,
sem þar hafa gerzt.
Magnús Björnsson á Syðra-Hóli: Hrakhólar og höfuð-
ból. Akureyri 1959. Bókaforlag Odds Bjömssonar.
Magnús á Syðra-Hóli er einn sá núlifandi Islendingur, sem bezt
segir sagnaþætti og bregður upp skýrustum myndum úr lífi lið-
innar aldar eða samtíð sinni. Oft má um það deila í öllu því flóði
sagnaþátta, sem prentað er árlega, hvort eitthvað af því hefði
ekki mátt liggja í þagnargildi, en aldrei á það við um þætti
Magnúsar. Þeir hafa ætíð eitthvað að flytja, sem fengur er 1.
Frásögn hans er skýr og á þróttmiklu og alþýðlegu máli, og hann
sameinar aðferð sagnamannsins og fræðimannsins, er leitar hinna
traustustu heimilda, sem fást kunna hverju sinni. Þessi bók er um
margt lík hinni fyrri bók Magnúsar. Hún flytur þætti af fólki,
bæði úr samtíð og liðnum tíma. Þar segir frá sveitarhöfðingjum
jafnt og umkomulausum aumingjum, fræðiþulum og fáráðling-
um, en allir hafa til síns ágætis nokkuð að skýra fyrir okkur
menningarsögu þjóðar vorrar. Beztur þáttanna er saga Þórdísar á
Vindhæli, sem er einn hinn bezti þáttur í þeim stfl, sem ég minn-
ist að hafa lesið, en þættirnir af Jónasi í Brattahlíð og Holtastaða-
Jóhanni standa honum lítt að baki, og öll er bókin góð.
Hafsteinn Sigurbjamarson: Draumurinn. Akureyri
1959. Bókaforlag Odds Bjömssonar.
Á síðastliðnu ári kom út frumsmíð þessa höfundar, Kjördóttirin
á Bjarnarlæk, og varð metsölubók. Draumurinn segir frá mörgu
sama fólkinu og þar kemur við sögu. Meginefni bókarinnar hníg-
ur að því að gera grein fyrir tvíkvæni Björns á Akri. Mun mörg-
um finnast höfundur skýra þá hluti nýstárlega, en þó ekki með
öllu sennilega. Eins og fyrri sagan, er Draumurinn fjörlega rit-
aður, af frásagnargleði og gáfu. Rás viðburðanna er hröð og
heldur lesandanum föstum. Hafsteini er vissulega óhætt að halda
áfram sagnaritun. Hann mun ekki skorta lesendur. St. Std.
Heima er bezt 35