Heima er bezt - 01.02.1968, Blaðsíða 13

Heima er bezt - 01.02.1968, Blaðsíða 13
kemur í síkið nokkru sunnar. Mun það af þeim sökum, að ána leggur seinna fyrst eftir að síkið kemur í hana. Áin er þarna dýpri en á vöðunum. En þarna komust við Rögnvaldur samt yfir, selfluttum það, sem yfir þurfti að komast, og fórum að öllu eins og kvöldið áð- ur, og varð okkur ekki hið minnsta meint af að vökna, þó að kuldi muni þá þegar hafa verið nokkru meiri en daginn áður. Eins og áður er sagt, voru alltaf að bætast við fleiri og fleiri hafísjakar á Elaganesvík, meðan við Rögnvald- ur vorum að ljúka erindum okkar í Víkinni. Þessir jak- ar voru, eins og einnig er áður sagt, eins konar forustu- lið fyrir miklu stærri her, þó að þeir létu lítið yfir sér og væru ailmeinleysislegir á að líta á ládauðri víkinni. Dumbur jötunn hafði fylgt liði sínu fyrir endilöngu Norðurlandi og svo vítt, að hvergi var yfir að sjá, en síðan hamalt inn í hvern vog og fjörð og vík. Þessi hvíti her hrakti undan sér upp að landi, allt, sem lífsanda dró, og varð að grandi hverju kvikindi ófleygu, auk fjölda hinna, sem vængi höfðu. Ekki hafði þessi válegi liðsafnaður fyrr náð fótum niðri við ströndina en hann hóf þar spellvirki sín. Hann skóf og urgaði og nísti af steinum og skerjum hvern minnsta vott lifandi sævargróðrar. Þar sem verið höfðu búsældarlegar breiður brúnna þörunga, urðu eftir, er ísinn leysti frá, berar klappir og naktar í botni og dauður sjór yfir, gagnsær eins og tært bergvatn. Stæði maður nokkuð hátt yfir sjó, sá hann til botns gegnum glæran sjóinn langar leiðir frá landi. í fjöruborði, þar sem áður moraði allt af lífi, varð ekki annað eftir en lífvana sandur og skröpuð sker og hlein- ar, svo að hvergi beið svo mikið sem eina litla tætlu af lifandi þangi eða þarakló. Hinar hvítbrynjuðu liðsveitir sóttu að landinu með þvílíku offorsi, að þær læstu í það kuldakrumlum sín- um með endilangri ströndinni og svo heiftúðugt, að þær urðu sem holdgrónar við landið. Þær linuðu ekld á takinu fyrr en að liðnum nokkrum vikum. Svo mikinn nákulda lagði af helfreðnu hafinu, að menn og málleysingjar voru þess fúsastir að byrgja sig í húsum inni og koma sem minnst undir bert loft. Víst voru þessar hersveitir Norðurvega máttugar, og ekki voru þær síður glæstar á að líta en herir hinna stórveldanna, meðan þeir eru ekki enn komnir á víg- völluna, heldur glansa á hersýningum, þar sem almenn- ingi gefst kostur á að undrast mátt þeirra og hrífast af gervöllu herskrúðinu og vopnaljómanum. Það var ómaksins vert að ganga á há fjöll og horfa í heiðskíru veðri yfir þessa mjallhvítu breiðu, óslitna og endalausa, eins langt og augað eygði. Ég gekk nokkrum sinnum spölkorn upp í fjallið fyrir ofan Krakavelli til þess eins að horfa á þessa furðusjón. Stundum urpu geislar lággöngullar miðsvetrarsólar rauðleitum bjarma á náfölva og helstirðnaða auðnina. Þvílík kynngi fylgdi þessari sýn, að hún hefur mér aldrei úr minni liðið. — Víðáttan endalaus, eins og ei- lífðin, hvergi auður sjór, hvergi vök, ekkert haf fram- ar, hvergi neitt heldur til að skyggja á eða fela sýn. Oft hafði þessi her Norðursins verið sendur á hend- ur landi okkar og þjóð á liðnum öldum. Hlutskipti hans varð biturt hatur kynslóðanna. Og frægustu skáld þjóð- arinnar og aðrir orðsins snillingar hafa með verkum sínum rist honum níð, sem standa mun og segja sína sögu, jafnlengi og íslenzkar bókmenntir verða lesnar. Það skal til marks um allar þær þjáningar og hörmung- ar, sem hann leiddi svo margsinnis yfir menn og mál- leysingja. Þetta skipti, er um var rætt hér að ofan, vann hann naumast teljandi tjón, þar sem mér var kunnugt, fram yfir það, er hér hefur sagt verið. Með því sannaðist hið forna norðlenzka orðtæki: Sjaldan er mein að miðsvetrarísi. Síðan þenna vetur (1917—1918) leið, höfum við ekki haft hafþök við Norðurland, og enginn veit, hvenær næst kemur miðsvetrarís með 30—40 stiga frosti í för með sér. (Á mæli, sem við höfðum á Krakavöllum, mældist frostið 38 stig á C., þegar kaldast var. Kraka- vellir standa nokkuð hátt yfir sjó. En þar að auki má vera, að mælir okkar hafi ekki verið áreiðanlegur.) í álíka bitru og varð á Norðurlandi veturinn 1917— 1918 minnkar smám saman, ef kuldinn varir lengi, í öllum fallvötnum, og vatn í uppstífluðum tjörnum og vötnum gengur til þurrðar. Það gæti orðið bagalegt fyrir nokkur orkuver þjóð- arinnar. Og svalt kynni að verða í glæsilegum og rúmgóðum húsakynnum okkar daga, sem mörg eru til þess meira löguð að hleypa inn ljósi en verjast kulda. Nú eru liðin það mörg ár, síðan hafísar surfu strend- ur landsins seinast,* að ísaár og harðindi af völdum ísa eru orðin miklum þorra þjóðarinnar fjarlæg minning um það, sem einu sinni var, eiginlega naumast annað en þjóðsaga eða ævintýr, sem skiptir okkur litlu héðan af. Þeir munu varla fáir, sem telja víst, að nú hafi svo skipt um árferð, að erfiðleika af völdum ísa og kulda þurfi þjóðin ekki að óttast framar. En bezt er að vera á verði, bjartsýna þjóð! Land okkar hefur ekld fleytt sér suður á bóginn til mildari breiddarstiga. Þess er vert að minnast, er rætt er um gagngerar veðurfarsbreytingar. Það þrumir enn á sínum gamla stað, þar sem rætur þess stóðu í önd- verðu. Það er gott að hyggja til þess, ef vonir hinna bjart- sýnustu manna um veðurfar eiga eftir að rætast. En meðan þetta eru aðeins vonir, sem einnig gætu brugðist, væri það ekki lastandi fyrirhyggja að hafa jafnan ríflegan forða af eldsneyti liggjandi á Norður- landshöfnum yfir vetrarmánuðina og einnig forða af öðrum vörum, sem óhægast er án að vera, þegar í harð- bakkana slær. * Þátturinn skrifaður i maí 1962. Heima er bezt 49

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.