Heima er bezt - 01.02.1968, Blaðsíða 33

Heima er bezt - 01.02.1968, Blaðsíða 33
þeirra frá, hvernig hann hefði rekið tærnar í eitt andskotans gaddfreðna skítahlassið hans Sveins, þegar hann hefði rétt verið að ná í einhvern af úti- leguköppunum; hann vissi ekki hvern þeirra. Aumingja konan bað guð að hjálpa honum. And- litið á honum væri bara allt tómar rispur, frá auga niður á höku, og auðsjáanlega væri annað augað að sökkva, allt orðið kolblátt í kringum það, og gott ef það væri ekki meir en lítið skaddað. Svo væri hann allur hruflaður á hnúunum; það þyrfti plástur á hvern fingur. Vala heyrði, að Jónatan sagðist ætla að fara heim. Hann hefði hvort sem er ætlað þetta í kvöld; Bjarni kæmi í sinn stað. Svo sagði hann á lægri nótunum, að hefði hún þetta óhapp hans ekki í hámælum, myndi hann sjá til, að hún tapaði engu á því. Strák- arnir gætu haft eitthvað annað til að gaspra um, en ófarir hans og óhapp. „Það er engin hætta með mig, en kæmist hún Nunna mín að því, yrði það ekki lengi að fá fæt- urna hérna um bæinn. Þvílík ósköp sem barnið getur verið líkt honum föður sínum með það sem annað,“ sagði konan. „Hérna, hvað ég ætlaði mér að segja; já, viltu skila til hennar Völu litlu frænku minnar, að ég skuli leita af mér allan grun fyrir hana. Hún týndi nefni- lega dálitlu, greyið, sem betra væri, að systir gamla kæmist ekki að. Jósefína hét því, að skilaboðin skyldu fara rétta leið. „En láttu engan heyra, þegar þú segir henni þetta,“ bætti Jónatan við. „Ég vil ekki, að það komist í hámæli, ef ég finn það ekki.“ Vala svitnaði af ótta. Henni skildist vel, hvað hann átti við. Hann vissi vel, að sá, sem hann barð- ist við í myrkrinu, var enginn af strákunum, sem héldu til á Hamri. Þeir hefðu áreiðanlega ekki slegist þegjandi. En hver Jónatan héldi, að þetta hefði verið, það vissi Vala ekki. Máske einhver strákur, sem væri að finna hana, eða guð mætti vita, hvað honum dytti í hug, bara vonandi ekki það rétta. Vala laumaðist inn í eldhús og fór orðalaust að þvo upp skilvinduna. Hún reyndi að hugsa sér ráð til að hafa Olla annars staðar en í hlöðunni. Það væri aðeins ein manneskja, sem komið gæti til greina að trúa fyrir öllu, og það væri Manga. „Ertu hætt að leika þér, rýjan mín? Þú hefðir mátt vera lengur úti með hinum. Ég ætlaði að þvo skil- vinduna fyrir þig,“ sagði Manga, sem kom inn í þessu með fullan mókassann af niðurbrotnum flögum. „Ég vildi ekki vera lengur,“ sagði Vala lágt, og reyndi að láta Möngu ekki sjá framan í sig. „Hvað kom fyrir?“ „Ekkert. — Jú, annars, Manga mín. Má ég koma inn með þér í kvöld? Ég verð að tala við þig.“ Manga sneri telpunni að ljósinu og horfði framan í grátbólgið andlit hennar. Svo ýtti hún henni á undan sér að dyrunum inn í litlu baðstofuna, dró lykilinn upp úr pilsvasa sínum, ásamt kandísörðu, og opnaði dyrnar. „Hérna, stráið mitt, japlaðu á þessu meðan þú skælir út. Við sjáum svo til, þegar ég er búin með verkin, hvort ekki sé hægt að bæta úr þessu böli, eins og öllu öðru. Svo stakk hún kandísmolanum upp í telpuna, strauk höndinni krepptri um vanga hennar og ýtti henni inn úr dyrunum. Síðan læsti hún og stakk stóra fornfálega lyklinum aftur ofan í pilsvas- ann. Manga braut heilann ekkert um, hvað að telpunni gengi. Hún fengi að vita það í kvöld, og þá væri nógur tíminn að hugsa málið. Hún þóttist alveg viss um, að það væri strákur í spilinu; einhver, sem hefði sennilega ætlað að fífla hana, en það yrðu allar kven- verur fyrir þess háttar einhvern tíma. Manga fór að rifja upp sín ungdómsár, sem nú voru langt aftur í grárri forneskju, að henni fannst. Hún brosti ofurlítið í hvert sinn og henni datt eitt- hvað í hug, sem þá var mikilvægara en allt annað á jarðríki, en var nú aðeins til að brosa að. Þannig yrði það líka fyrir Völu. III. SÖGUHLÉ Vala þagnaði og starði inn í eldinn á arninum, sem nú var að kulna út. Einar stóð á fætur, raðaði viðar- kubbum aftur á eldinn og settist svo við hlið hennar. Lengi þögðu bæði og horfðu á litlu logana, sem sleiktu þurran viðinn, unz þeir læstu sig í hann og æstu sig upp í heljarmikið bál. Vala studdi olnboganum á hnén og lét hökuna hvíla í höndum sér. Dularfullt, fjarrænt bros flögr- aði við og við um varir hennar. Hún var auðsjáan- Heima er bezt 69

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.