Heima er bezt - 01.04.1973, Blaðsíða 2

Heima er bezt - 01.04.1973, Blaðsíða 2
SPARNAÐUR Það er næstum með hálfum huga, að ég set þetta orð á pappírinn, og með enn meiri ugg, að ég tek að ræða það. Svo langt virðist Iiðið síðan þjóð vor leit á sparnað sem dyggð eða eitthvað eftirsóknarvert og eðlilegt fé- lagslegt fyrirbæri, að vér, sem látum oss það um munn fara, erum taldir vera steinrunnin tröll í þjóðfélagi framvindu og nýtízku. En ég hætti samt á það. Um undanfarna áratugi hefir þjóðlíf vort auðkennst öðru fremur af eyðslu og verðbólgu. Allir fárast yfir verðbólgunni, en engir fordæma eyðsluna, þeir gleyma því, að hún er eldsneyti verðbólgunnar, en líta miklu fremur á hana sem einskonar sjálfsvörn gegn verð- bólguskriðunni. Þegar vér tókum að rétta úr kútnum í byrjun þessarar aldar, vorum vér fátæk þjóð, sem vér reyndar erum enn. Flest var hér óunnið þeirra sjálfsögðu hluta, sem þjóðirnar umhverfis oss höfðu lcngi búið við. Hér voru engir vegir, engar hafnir, nema af náttúrunnar hendi, húsakynni léleg, atvinnutæki ófullkomin, engin hafskip, verkfæri með miðaldasniði, að ekki sé talað um rafmagn eða síma. Og það versta var, að ekkert fjármagn var til að afla þessara nauðsynja. Það var því eðlilegt, að vakn- andi þjóð legði hart að sér og leitaðist við að spara fé, til þess að skapa undirstöðu þess, að lífvænt væri í land- inu á vísu menningarþjóðar. Þá var það talin bæði dyggð og nauðsyn að spara fé og leggja í sjóði. Fátt var dæmt harðar, en ef ráðamenn þjóðarinnar fóru gá- lauslega með fjármuni landsins, sem ekki var þá orðið ríki. Hvað mundi sú kynslóð segja um ráðslag valda- manna nútímans? Heimsstyrjöldin fyrri rauf fyrsta skarðið í þennan sparnaðarmúr eða öllu heldur þann hugsunarhátt, sem hann var vaxinn af. Þá fengu menn í fyrsta sinni pen- inga milli handa, og um leið og þeir urðu auðfengnari hvarf gætnin í meðferð þeirra. En sú dýrð stóð ekki lengi, en hinn breytti hugsunarháttur varð langlífari. Kreppan milli styrjaldaráranna skall yfir, og menn fundu enn sárar til skortsins, vegna þess, að þeir höfðu sem snöggvast kynnst ofurlítilli lænu úr peningaflóðinu. Heimsstyrjöldin síðari gerði oss ríka á pappírnum að minnsta kosti. Síðan hófst verðbólgan, eyðslan og kröfugerðin, en allt, sem hét sparnaður og sjálfsafneit- un var fordæmt sem firra og úreltar kreddur. Boðorðið og lífsstefnan var og er enn, ef til vill meira en nokkru sinni fyrr: Et og drekk sála mín og ver glöð. Aldrei hefir þó dansinn um hinn ímyndaða gullkálf verið stiginn af meiri ákefð en nú, og hníga þar mörg rök að. Verðfall peninga er næstum því æfintýralegt. Menn tala nú um milljónir með minni virðingu en þús- undir áður fyrr. Upphæðirnar, sem velta meðal þjóð- arinnar, eru ótrúlega háar í krónutali. Og þeir, sem hafa þessi krónukrýli milli handanna, flýta sér að eyða þeim í eitthvað, þarft eða óþarft, áður en þau skreppa enn meira saman. Það sem kostaði þúsund krónur í gær, kostar ef til vill 1500 krónur á morgun eða hinn dag- inn. Skuldirnar lækka raunverulega á sama hátt og krónan rýrnar, en inneign þeirra, sem svo voru gamaldags að leggja peninga í sjóð, eyðist eins og dögg fyrir sólu. Slíkt kemur einkum hart niður á gamla fólkinu, sem enn man það hugarfar, að skynsamlegt væri að spara. Nú er oss raunar kennt að eyðslan sé nauðsyn, veltan verði að haldast. Þótt menn formæli verðbólgunni, er líf og hagur alltof margra undir því kominn að hún haldizt, og meðan svo er, að stór hópur manna beinlínis lifir á henni, er ekki von til að spyrnt verði við fótum af nokkru afli. Verðbólgan heldur áfram eins og skriðan, unz allt steypist fram af ein- hverju hengiflugi, og vér sitjum eftir með sárt ennið og minninguna um ævintýri eyðslunnar og óhófsins. En mitt í þessum hrunadansi fengum vér skyndilega harða áminningu, harðari en nokkur hefði vænzt. Jarð- eldur blossaði upp í Vestmannaeyjum, og enn fáum vér lítt séð fyrir endann á þeim ósköpum og afleiðingum þeirra. Eitt er víst, að efnatjónið er stórkostlegt, og sársauki þeirra, sem eldurinn hefir hrakið frá heimil- um sínum, meiri en tölur fá talið. Ekki verður þó annað sagt, en þjóðin brvgðist mannlega við um aðstoð. Auk persónulegra framlaga, hét ríkið þegar í stað tveimur milljörðum króna, sem vér öll greiðum í sérstökum skatti. Ég veit að þung skattabyrði veldur hverjum skattþegni erfiðleikum, en jafnviss er ég þess, að þessi aukaskattur til Viðlagasjóðs Vestmannaeyja verður glevmdur fyrr en varir. Og raunverulega höfum vér sparað þessa upphæð til að bjarga á hættustund. Óvíst er með öllu, hvort leggja þarf meira franí til Viðlagasjóðs á næstu árum, en ekki er það ósennilegt, en hversu sem um það fer, tekur það enda, þessum aukaskatti verður létt af þjóðinni. En hvernig væri, ef vér létum þetta áfall, og hversu við því var brugðizt, verða upphaf að framhaldssparn- 110 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.